22.12.2008 | 13:57
Jólahornið 2008
Stofnað árið 2000
Sæl öll og gleðilega hátíð. Þá er enn eitt árið að verða liðið og enn eitt skiptið hefur margt gengið á í familíunni eins og vera ber. Að venju höldum við í hefðirnar og rennum í stuttu máli yfir liðið ár, þessi dagskrárliður Jólahornsins hefur ekkert breyst sl. átta ár:
KÆRI/KÆRA/KÆRU _____________ (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.
KÆR KVEÐJA
FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.
Nú er 2008, ekki 1008, ekki slátur mamma!
Margt áhugavert gerðist á árinu og þegar efnahagslægðin skreið alla leið upp á Hvanneyri, var ákveðið að taka slátur sem er svo sem ekki í frásögur færandi þar sem það er nú oftast gert hér á haustin. Þetta haustið s.s. í engu frábrugðið öðrum haustum, ef frá er talin lítil athugasemd frumburðarins. Hann telur nefninlega slátur ekki upp með sínum uppáhaldsmat, eða eins og hann orðaði það: að hræra saman blóði við mjöl gerir blóðið ekkert að meiri mat, svo ég tali nú ekki um að bæta út í blóðið fitu!. Nei hann telur sig ekki kominn frá Transilvaníu og því blóðneysla ekki sérlega áhugaverð iðja, eða eins og hann orðaði það: nú er árið 2008, ekki 1008 og við þurfum ekki að leggja okkur til munns sama fæðið og víkingar forðum... ekki hafa slátur mamma svo mörg voru þau orð frumburðarins. Sumir myndu nú kalla þetta snobb, en aðrir t.d. frændfólkið okkar í Hafnarfirðinum líklega flokka orð hans með því skynsmalegra sem hægt væri að mæla. Erum við þá ekki einusinni farin að ræða um kjötfarsát, sem á reyndar sérlega vel upp á pallborðið hérna megin Skarðsheiðarinnar síður sunnan hennar skilst okkur...
Karfa alla daga
Nú hafa strákarnir fundið nýja aðferð við að halda okkur uppteknum við akstur alla daga. Já karfa skal það vera heillin. Báðir eru farnir að æfa körfubolta, þó svo Arnar æfi af meira kappi enda æfir hann með hinu stórgóða liði Skallagríms (sem hefur reyndar ekki unnið leik í deildinni þegar þetta er skrifað en...). Já frjálsar hafa verið settar á reynsluhilluna og karfan tekið við. Hafþór æfir einnig og er að standa sig vel. Amk. rennur barnasmjörið ljúft af honum þessa dagana!
Flutti á miðhæðina!
Hugmyndir okkar húsbændanna á Ásvegi 3 var að við myndum eiga miðhæðina út af fyrir okkur og börnin myndu vera á efstu hæðinni. Loksins þegar okkur tókst að bola Tinnu Rós upp á efstu hæð, hrósuðum við áfangasigri sigri sem við bjuggum við í stuttan tíma. Hafþór taldi sig nefninlega vera yfir það hafinn að búa í hæstu hæðum og flutti niður í tölvuherbergi. Tinna Rós flutti þá yfir í gamla herbergið hans Hafþórs, sem vel að merkja er nákvæmlega eins og hennar herbergi var. Nei í það herbergi skildi flutt og ekkert múður. Pabbi, sem rétt hafði farið niður með verkfærin eftir að hafa hengt upp allskonar dúkkur, hillur og spegla mátti takk fyrir snúa aftur með græjurnar og skrúfa allt niður og setja upp í nýja herberginu. Og afhverju var flutt? Jú hún vildi nefnlega geta horft á flugeldana úr sínu eigin herbergi (glugginn vís að Borgarnesi). Þetta eru, eins og allir lesendur sjá greinilega, svo góð rök að pabbi gaf þetta að sjálfsögðu eftir enda vanur því að hlýða kvennkostinum á heimilinu.
Arnar kominn með bíl og æfingaleyfi
Mikið svakalega líður þetta líf hratt áfram. Örstutt er síðan frumburðurinn fæddist, með tilheyrandi meðgöngueitrun og hvað það nú var allt saman. Örstutt er síðan við vorum í námi í Danmörku. Örstutt er síðan við byggðum húsið okkar. Örstutt er síðan við gáfum út fyrsta Jólahornið en verum nú smá raunsæ. Ef við horfum jafn langt fram í tímann og t.d. síðan Jólahornið var stofnað, þá á væntanlega margt eftir að vera allt öðruvísi en það er í dag. Förum fram til ársins 2016. Arnar Hrafn er orðinn 24urra ára (Snorri varð pabbi 23ja), Hafþór Freyr orðinn 22ja ára (jafn gamall og Kolla var þegar hún varð mamma fyrsta sinni) og Tinna Rós komin með bílpróf fyrir rúmu ári. Óhh mææ god! Jæja, svona er þetta bara. Núna eru s.s. 2 mánuðir í að Arnar Hrafn fái bílpróf og er pabbi (já vel að merkja PABBI) búinn að kaupa bílskrjóð fyrir guttann. Fólksvagen Golf af bestu gerð, svolítið við aldur en voða græja með kraftpústi, bassaboksi og ég veit ekki hvað. Æ hvað það er nú gaman að eiga stráka, er það ekki pabbar?
Snorri já og svo hann Gutti, gamlir orðnir
Já þeir félagar eru orðnir hálf lúnir. Annar nú nýkominn á fimmtugsaldurinn og hinn á sextugsaldurinn svona ef við reiknum nú hundaárin yfir í mannár. Reyndar er Gutti í mun betra formi en hinn gamlinginn, enda mesta hreyfing Snorra þegar hann röltir fram á klósett á morgnana til þess að tæma bekkenið. Afmælisveislu Snorra var frestað fram á næsta ár þar sem Sálin var upptekin þann 28. nóv. sl. og því var veislunni slegið á frest fram á næsta ár, veislan verður haldin við lofum.
Hvað erfði ég frá þér mamma?
Fyrir skömmu átti Arnar Hrafn að gera verkefni í menntaskólanum þar sem hann átti að gera grein fyrir uppruna sínum, benda á helstu mannkosti sína og hvaðan hann hefði hitt og þetta í fari og háttarlagi. Hann dró til stafs ýmsa þætti sem hann tengdi við pabba sinn, íþróttir, snerpu, bólusækni í andliti og baki, hæð, hárlit, vaxtarlag osfrv. Svo kom að því að tengja við mömmu eitthvað. Eftir vandlega skoðun, ákvað hann að hringja í mömmu sína og spurði: Mamma, hvað erfði ég eiginlega frá þér? frú Kolbrún var frekar móðguð og ákvað að skrifa niður allt það sem barnið hefði frá blóðmóður sinni og afhenda honum um kvöldið. Kvöldið kom og morguninn á eftir og hann fór í skólann með upplýsingar um áðurnefndar tengingar við pabba og þær mikilvægu upplýsingar að hann hefði nasavængina hennar mömmu sinnar...
Hafþór fermdur
Í júníbyrjun var litli drengurinn okkar fermdur. Hann ákvað strax að þennan undirbúning skyldi taka alvarlega og tilkynnti foreldrum sínum að þeim bæri skylda til að mæta með honum í kirkju og taka fullann þátt í öllu því sem Sr. Flóki myndi setja okkur fyrir, með bros á vör. Heiðingjar er kannski ekki rétta orðið yfir hr. og frú Sigurðsson en svona nálægt því er lílkega ekki fjarri lagi. Dæmi hver fyrir sig. Snorri tilkynnti strax að hann tryði á engan nema sjálfan sig (sörpræsinglí) svo þetta væri mál mömmunar, nema ef Hafþór Freyr ætlaði að láta ferma sig inna trúar-reglunnar Snorrisma. Mamman tók hins vegar á þessu með léttu spjalli um það að fólk stundaði trúna á mismunandi vegu og að hún hefði sína trú fyrir sjálfa sig. Ræðan endaði svo með fallegu brosi og þessum orðum: Hafþór minn, trúin mælist ekki í kirkjusókninni. Sterkar líkur eru á því að Hafþór hafi faið til prestsins með það sama og tilkynnt honum það sem móðir hans hafi sagt. Því í fermingunni sjálfri hélt sr. Flóki þrumandi ræðu um trúmál og tilkynnti söfnuðinum það að trúin væri ekki eitthvað sem hægt væri að hafa fyrir sjálfan sig, maður eigi að deila henni í Guðs húsi. Frúin átti í smá erfiðleikum með hláturinn en allt fór vel að lokum. Hafþór Freyr fermdist með pompi og prakt og ættingjar og vinir drukku með okkur kaffi í tilefni dagsins. Trúin hefur alltaf verið mikil hjá honum Hafþóri og trúarbókin sem hann byrjaði á fyrir um 2 árum er ekki enn komin út, en það er aldrei að vita hvað verður í framtíðinni. Mamma hans tilkynnti honum þó að það væri svona eiginlega búið að rita um þetta málefni og ber bókin titilinn BIBLÍAN.
Aldrei fórum við Norður
Nei ekki fórum við Norður að Hriflu þetta vorið og var litla....yngsta fólkið frekar ósátt við það. Ástæðan var örlítill undirbúningur að fermingu Hafþórs. Loforð var tekið af eldri-borgurunum að þetta myndi ekki henda aftur. Þegar er byrjað að plana ferðina vorið 2009 því þá ætla þeir bræður að fara saman á bíl og við eldri ásamt dekurdúkkunni okkar verðum á lummulega bílnum, honum Grána gamla.
Snorri og áhugamálin
Já það er ekki ofsögum sagt að þegar Snorri tekur sér eitthvað fyrir hendur að þá gerir hann það með stæl. Drengurinn ákvað það fyrir margt löngu að stunda engin áhugamál fyrr en börnin væru orðin stálpuð og/eða gengin út. Hann taldi sig nefnilega vinna svo mikið að þessum litla frítíma sem hann hafði, ætlaði hann að splæsa í börn og frú. Svo líða árin og allt í einu er bakið farið að gefa sig, gráu hárin mætt og bumban farin að stinga sér út á milli bols og strengs. Svo hann ákvað að bæta sér upp öll glötuðu áhugamálsárin og skellti sér í söngnám. Ekki nennir drengurinn að æfa sig heima svo hann þenur raddböndin með Kammerkór Vesturlands einu sinni í viku. Bumban er á miklu undanhaldi þar sem hann og nokkrir aðrir drengir hér á svæðinu hittast og spila blak af miklum móð. Nú og svo ofan á allt þetta er hann í björgunarsveitinni Ok, sinnir barnum sem aldrei fyrr og sinni venjulegu dagvinnu sem hefur ekkert minnkað með árunum. Já það er eins gott að börnin flytji ekki að heiman í bráð, því þá mun hann hverfa inn í áhugamálin fyrir fullt og allt.
Svo lærir sem lifir
Já maður er nú alltaf að læra eitthvað nýtt eins og gengur. Margt hef ég (Snorri) numið af mér eldra og reyndara fólki, þó svo að upp úr standi lærdómur sem ég hef dregið af annars vegar pabba og hinsvegar tengdapabba. Vísir menn og margfróðir. Ég held að allir sem þetta lesa ættu að fara í smiðjur reynsluboltanna í lífinu og læra af þeim, það marg borgar sig og hér er eitt lítið dæmi. Um daginn var ég að hengja út jólakrans við hliðna á útihurðinni. Ægifagur krans með ljósleiðara og öllum pakkanum. Tengdapabbi var skammt undan við að lappa upp á gamla seríu sem við eigum og fór þetta allt fram af yfirvegun og rósemi. Þegar ég var við það að hengja upp kransinn spurði ég Ölla (tengdapabba): Í hvaða hæð á ég að hafa kransinn Ölli? Hann svaraði hægt og ákveðið, og algerlega án þess að hika: Ja heima hjá mér myndi ég ekki taka þessa ákvörðun! Fyrir augum mér runnu fyrirsagnir stórblaða: Hvílíkt frumhlaup, hvílík hroðvirkni og hvílík fljótfærni hjá Snorra. Þarna munaði ekki nema eins og einu naglagati að ég hefði mögulega náð að upplifa svartnætti, nokkrum hamarshöggum frá því að lenda í mennsku kviksyndi. Ég svifti umsvifalaust upp hurðinni og kallaði á Kollu til þess að taka þessa ákvörðun. Enn á ný bjargaði reynsla mér eldri manna mér frá tjóni. Já ég er alltaf að læra og læra og ég veit ekki hvar ég væri í dag ef ég hefði ekki visku, mér eldri og reyndari manna, að sækja í. Líklega væri ég amk. hamarslaus maður, það er víst, og ofan í kaupið með jólakrans í rangri hæð.
Dansinn dunar
Já dönsum á gleðispori, gæfan er gleðirík.
Fjölskyldan skekur skanka, sælan er æðisleg.
Dansinn hann dunar og dunar og dunar og dunar
Já þetta litla póm var gjört í tilefni af því (hluta stolið frá frægu skagfirsku skáldi) að hér eru sem fyrr allir að dansa. Arnar Hrafn hefur að vísu fengið nýja dömu upp á arminn, hana Kötu okkar en þau eru jafnaldrar og í sama skóla. Áður dansaði hann við Björgu, en þar sem hún var flutt í bæinn þá gekk þetta ekki nógu vel. Hafþór Freyr er enn með sína dömu, Vigdísi og Tinna Rós dansar við hana Svövu Sjöfn. Svo til að toppa þetta allt, þá er Kolla auðvitað í stjórn Dansfélags Borgarfjarðar en ekki hvað? Snorri er hinsvegar enn að reyna að átta sig á því út á hvað þessi Foxtgrott gengur ekki er útlit fyrir að árið 2009 dugi til þess að hann leysi þá gátuna.
Búkett orð dagsins
Snorri á alveg frábæra frænku sem á það til að sletta svolítið upp á aðra tunguna. Vegna þessa er hér lítið orðahorn Jólahornsins kynnt til leiks. Orðið að þessu sinni er bukett eða búkei eins og það útleggst með réttum framburði. Þetta skal notað yfir fallega blómvendi, dæmi: nei mikið er þetta glæsilegur búkei.
Barnaþrælkunin 2009
Já sem fyrr er sami húsaginn á heimilinu, hér eiga allir að vinna sem geta unnið. Það er ekkert elsku mamma á þessum bæ. Sl. sumar var í engu frábrugðið öðrum hvað þetta áhrærir. Arnar Hrafn fékk vinnu hjá Landbúnaðarháskólanum og vann hann á búi skólans (afar sniðugt fyrir svona ofnæmispésa haldinn sömu sjálfspíningarhvöt og pabbi sinn). Hafþór Freyr vann bæði við unglingavinnuna og hjá mömmu í búðinni og Tinna Rós stóð galvösk margar vaktir í búðinni. Já við þvingum hér alla til að vinna, það gerir krökkunum gott að fá ábyrgðartilfinningu það er amk. okkar skoðun og líkur þar með pólitískum uppeldishluta Jólahornsins 2008.
Ví-Æ-PÍ
Já þeir voru heldur ánægðir með sig, strákarnir í Danmerkurferðinni. Þeir fóru í alla helstu rússíbana landsins og fengu einnig að fara á leik með Gulla Viktori frænda sínum, sem er atvinnumaður í fótbolta í landi Bauna. Sáu þeir þar leik heimamanna í Árósum á móti Bröndby og það fór allt upp í háaloft á milli stuðningsmanna, slagsmál og læti. Þetta var mikil upplifun og umtöluð þegar heim var komið. Þá var nú ekki verra að komast í VIP salinn í hléi, þar sem allur pakkinn var tekinn. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þeir brugðust við er þeir fréttu af áhuga Lifrarpollsmanna á honum Gulla. Þeir eru þegar farnir að Gúggla borgina og spotta út áhugaverða staði að heimsækja, ef Gulli fær þar góðan díl sem allir í stórfamilíunni vona enda á hann það svo sannarlega skilið. Snorri er sér í lagi áhugasamur um málið enda Púlari frá fyrstu tíð, en ekki Arsenal-maður eins og guttarnir á heimilinu. Svo segir hugur vor að ef af félagaskiptum Gulla verður, þá muni Púlurum í familíunni fjölga svo um munar. Æ hvað það er nú gaman að eiga stráka, er það ekki pabbar?
Extra lartsj
Í vetur sem leið fór Snorri sem fararstjóri í ferð bænda til Suður-Ameríku. Ferðin var um margt óvenjuleg og má lesa ferðalýsingu pabba Snorra (sem fór með) á www.naut.is. Eitt af því sem kom upp á í ferðinni var að allir ferðalangarnir urðu tepptir í New York í nokkra daga og það farangurslausir. Snorri nennti ekki að kaupa sér mikið af klæðum þessa daga, en varð auðvitað að græja nokkra hluti svo sem nærföt, sokka og þ.h. Af gömlum vana keypti hann allt í XL, þ.e. extra large eins og gefur að skilja. Nema hvað, hann smellti sér í sturtu eftir nærfatakaupin og klæddi sig í þessar fínu boxer nærbuxur og rölti beint fram í hótelherbergið. Þessi saga myndi enda hér og nú, ef brækurnar hefðu ekki hlunkast niður um hann á miðri leiðinni, svona líka allt of, allt of, allt of stórar. XL þarna vesturfrá er s.s. einhver hjúmongus stærð, stærð sem hentar amerískum hamborgararössum. Sem betur fór var hann einn á herbergi og það var jafngott að hann stakk sér ekki til sunds í nýju sundskýlunni sem hann keypti líka...
Ný íþróttagrein hjá ÍSÍ: að grípa frammí fyrir
Á árinu héldum við áfram að þjálfa krakkana okkar í því að ná góðum tökum á hinni geysivinsælu og spennandi íþróttagrein: Gríptu frammí fyrir öðrum. Þessi grein hefur um langa hríð verið stunduð af fjölskyldu Snorra og það með afar góðum árangri. Nokkrir í fjölskyldunni hans hafa náð undraverðum árangri í greininni og stefnir nú allt í að strákarnir á Ásveginum séu að verða miklir meistarar, en Tinna Rós á enn nokkuð í land en þetta kemur. Á þetta reyndi verulega í sumar þegar fjölskyldumót niðja afa og ömmu á Skeggjó (móðurafi og amma Snorra) var haldið í Skorradal. Þar komu saman helstu sérfræðingarnir á þessu sviði á landinu öllu, og þótt víðar væri leitað. Frábær keppni var haldin um leið og matast var, en keppnin fer þannig fram að þegar einn er að segja frá einhverju afar skemmtilegu eða spennandi, þá byrjar næsti (má t.d. vera sessunautur, mótsetuaðili og/eða jafnvel sá sem viðkomandi er að tala við) að tala algerlega þvert ofan í það sem verið er að tala um. Snýst keppnin um það að ná að klára frásögnina án þess að truflast af þessu og/eða láta það hafa áhrif á sig að hlustandinn hefur þegar hafið upp raust sína sjálfur við aðra frásögn. Þarna urðu margir frábærir keppnismenn að láta í minni pokann sinn og stinga sínum áhugaverðu sögum í sama pokann. Það verður nú að viðurkennast að þeir sem ekki eru blóðskildir á Skeggjagötuna eiga yfirleitt lítið erindi í keppnina yfir höfuð. Eins og margir vita er Snorri ríkjandi meistari í greininni í okkar litlu fjölskyldu hér á Hvanneyri og núna erum við að ala upp gríðarlega efnilega einstaklinga á þessu sviði. Verður spennandi að fylgjast með þeim á næstu árum. Við hlökkum til þess að mæta með þá galvaska í næsta ættarmót!
Villtu ekki anda núna vinur?
Húsbóndinn (les: Snorri) hefur átt við einhver eymsl að stríða í baki á liðnu ári og fékk svona líka fínt reseft frá lækni til þess að láta sjúkraþjálfara kíkja á sig. Hann pantaði tíma og fékk inni 6 vikum síðar. Þá var auðvitað enginn bakverkur lengur til staðar en hann fór engu að síður. Þarna berháttaði hann sig fyrir framan unga og huggulega konu, sem var á að giska svona helmingi minni og léttari en hann. Nema hvað, hún lét kappann leggjast á nuddbekk og byrjaði að ýta á einhverja skakka hryggjarliði. Skipti engum togum að hún fann líka þessa fínu misfellur í bakinu á honum og fór að hnoðast á honum af öllum sínum þunga. Snorri, sem á þessum tímapunkti var með andlitið ofan í undarlegu gati á bekknum, gantaðis með þetta og hvað sig vera að upplifa hluti eins og maður sér í bíómyndum. Allt í einu fann litla daman auman blett og fór að djöflast á honum, ýtti fastar og fastar og meira og meira. Snorri, sem þekktur er fyrir hreysti, tók þessu vel og lést ekki finna fyrir neinu. Jafn hratt og hún hafði byrjað hnoðið, hætti hún og sagði þessa líka fínu setninguSnorri, viltu ekki anda núna?. Já kappinn mikli var nefnilega svo kvalinn eftir þessa litlu dömu, að hann hafði algerlega spennt upp hvern vöðva sem hann náði til og hafði fullkomlega gleymt því að maður þarf að anda stundum, svona til þess að líða ekki út af. Skömmustulegur dró hann andann og ákvað bara eftir þetta að leyfa henni að upplifa með sér hve andsk. vont þetta var. Nokkrum háðsglósum síðar, frá vörum litlu dömunnar, lauk þessum kvalatíma og haltraði Snorri burt. Hann átti að koma aftur og aftur og aftur, en er enn ófarinn!
Barnið orðið stærst!
Já nú er það slæmt. Arnar Hrafn er orðinn stærri en pabbinn og dagljóst að Hafþór Freyr mun sigla yfir hann einnig. Þessi staðreynd er Snorra erfið, enda óx hann pabba sínum aldrei yfir höfuð, og á fjölskyldumynd, sem tekin var í sumar, gaf Snorri honum Arnari Hrafni gott olnbogaskot rétt fyrir myndatökuna. Glæsileg mynd í alla staði nema hvað Arnar Hrafn er í keng á henni og því Snorri enn lang stærstur í fjölskyldunni...
Vestfjarðaferðin mikla
Nágrannarnir okkar þau Inga og Keli buðu okkur í heimsókn til sín í sumarhús í Dýrafjörðin í sumar. Allt var skipulagt fram í fingurgóma. Enn eitt gleymdist. Snorri er tekur sér ekki sumarfrí og Arnar Hrafn peningapúki týmdi ekki að taka sér sumarfrí (Kolla býr orðið með tveimur Snorrum). En að bíða er það sama og tapa. Svo frúin pakkaði niður og skellti sér vestur ásamt Tinnu Rós og Hafþóri Frey á honum Grána gamla. Stoppað var í Fremri-Gufudal, rifjaðir upp gamlir tímar og kaffið drukkið af bestu list. Svo var ferðinni haldið áfram og næsta stopp var í Dýrafirðinum hjá þeim hjónum þar sem dýrindis kjötsúpa beið, ferðalöngunum til mikillar gleði. Ísafjörður, Bolungarvík, Súgandafjörður og Flateyri voru heimsótt og svo auðvitað Þingeyri og hesthúsahverfið þar sem Keli var látinn sína gæðinga sína. Farið var í veiðitúr og var aflinn 4 vænir silungar/urriðar. Eftir alltof stutt stopp var haldið heimá leið og heimtaði fröken Tinna Rós að taka ferjuna Baldur yfir fjörðin. Hún hafði nefninlega metið það svo að af tvennu illu, þá var skárra að farþegaskipið myndi rekast á ísjaka (sem er víst frekar regla en undantekning að hennar sögn, samanber Títanic) en að keyra fram af þessum stórhættulegu fjöllum sem eru þarna fyrir vestan.
Allir fóru til Danmerkur... nema pabbi
Í sumar fór Tinna Rós í heimsókn til Dagnýjar frænku í Árósum. Þar dvaldi hún með frænkunni í nokkrar vikur, eða allt þar til Arnar, Hafþór og Kolla komu út í sk. rússíbanaferð. Ferð þessi var breytt fermingarferð Hafþórs Freys og gekk hún út á að heimsækja skemmtigarða á hverjum degi í heila viku. Þetta gekk eftir og var gríðarlegt fjör. Arnar fór með, á eigin kostnað, en mamma og pabbi muldu þó aðeins undir hann eins og vera ber. Því miður markaði þessi ferð upphaf falls íslenska samfélagsins eins og við þekkjum það. Gengið féll við endurkomu þeirra til landsins... Já tókuð þið eftir því Snorri fór náttúrulega ekki, maður getur ekki farið í frí á miðju sumri sjáðu.
Rauður seldur í miðri kreppunni!
Þrátt fyrir ótíðina tókst okkur að selja hann Rauð okkar og það fyrir metfé. Að sögn bílasalans var þetta eini bíllinn sem seldist þá vikuna og það enginn smá sparnaðarbíll! Níðþungur amerískur olíuhákur! Verði kaupandanum að góðu!
Nýr leigjandi í kjallaranum
Enn á ný urðu leigjenda skipti hjá okkur í kjallaranum. Fyrirtækið Sólfell sem hafði verið með íbúðina sl. 2 ár var pent sagt upp leigunni þegar ekki hafði tekist að kreysta út aura frá því góða fyrirtæki í nokkra mánuði. Núna er Arnar Þór mágur að nota alla sína menntun í það að ná í þessa aura aftur og fer dómstólaleiðina við þá innheimtu (lítið gefinn fyrir handrukkun). Í stað hinna austur-evrópsku borgara sem hafa verið í kjallaranum undanfarin ár er nú flutt yngismærin Beta, en hún vinnur m.a. hjá okkur á Pöbbnum.
Kollubúð í langþráð leyfi...
Já, loksins gerðist það. Þann 21. október ákvað forstjórinn að nú væri nóg komið og búðinni skildi lokað...í bili. Þann daginn reddaði stjórinn sér nýrri vinnu og þremur dögum síðar var svo alsherjar útsala og versluninni skellt í lás á þeim herrans degi 24. október eða á afmælisdeginum hans Hafþórs. Nú má ekki skilja þetta sem svo að fyrirtækið sé komið undir, nei við rekum áfram Pöbbinn og ætlum að stækka hann inn í svæðið þar sem búðin var. Hinsvegar var verslunarreksturinn ekki að skila nógu að okkar mati, miðað við það sem Pöbbinn er að skila (miðað við vinnu og kostnað) svo að þetta var lausnin. Ótrúlega ánægð kona mætti svo í nýju vinnuna sína 2 dögum síðar en hún er að vinna við félagsþjónustuna í Borgarbyggð og svo til þess að ná kaupinu upp, að ræsta hjá Landbúnaðarháskólanum!!!
Vakti leigjandann!
Já það getur stundum verið erfitt að búa í fjölbýlishúsi, eins og leigjandinn okkar upplifði nú fyrir jólin. Svefnherbergið hennar er beint fyrir neðan stofuna okkar og á hverjum morgni nú í aðdraganda jólanna vaknaði hún upp við, svona rétt upp úr kl. 7, Snæfinn snjókarl! Ekki það að hún væri með hjásvæfu með kaldar hendur eða eitthvað svoleiðis, nei Tinna Rós æfði sig að spila lagið um hann Snæfinn á hverjum morgni áður en hún fór í skólann enda var lagið hluti af helgileiksundirbúningi í grunnskólanum hér á Hvanneyri. Við erum reyndar ekki frá því að leigjandi hefði jafnvel heldur viljað kaldar hendurnar, en það er nú önnur saga allt önnur og fyrir annarskonar tímaritsbirtingu.
Pöbbinn
Fjórði veturinn er nú farinn af stað og þrátt fyrir niðursveiflu í þjóðfélaginu gengur barasta vel að selja bjór og annað áfengi. Á árinu hafa nokkur bönd komið og spilað á Pöbbnum og stærsti viðburðurinn var núna í nóvember þegar Ný Dönsk kom og spilaði á Pöbbnum. Frábærir tónleikar og troðfullt hús. Þetta tókst svo vel að nú eru skemmtanastjórar Pöbbsins að leita verðugra arftaka til þess að troða upp á vorönninni. Við erum ekki úrkula vonar um að ABBA komi saman af þessu tilefni sjáum hvað setur!
Þú vilt senda Tinnu til Danmerkur
Tinna Rós fékk í gegn að fara í heimsókn til Dagnýjar eins og annarsstaðar kemur fram. Hún notaði mögnuð kvennaráð við undirbúning ferðarinnar sem við viljum greina hér frá. Trixið var að tala yfir mömmu sinni sofandi í tíma og ótíma, þar sem hún mælti/hvíslaði: Þig langar að senda Tinnu Rós til Danmerkur endurtekið eftir þörfum. Ofan í kaupið lofaði hún svo að borga helminginn í flugmiðanum (það er svo glatað að eiga börn sem eiga fullt af peningum inn á bankabók það snarskerðir völd foreldranna) og svona gekk þetta koll af kolli. Svo fór hún að tala um hvað hún ætlaði að gera í Danmörku, hvað þær frænkurnar væru búnar að skipuleggja saman (MSN er líka vont tæki) osfrv. Fyrir rest var ferðin hennar orðin okkur foreldrunum svo eðlileg að þegar kom að því að panta miða, þá gerðist það svona eiginlega sjálfkrafa. Það var eiginlega ekki fyrr en rétt í kringum brottför að við áttuðum okkur á því að við vorum bara foreldra-prúðuleikarar, algerlega stýrt af dömunni.
Pabbi, ég elska þig!
Ja það verður nú seint sagt um karlpeninginn á heimilinu að hann sé mikið fyrir að tjá tilfinningar sínar opinberlega, en það gerðist þó amk. einu sinni á árinu og vert að geta þess hér. Þannig var að húsbóndinn (les: Kolbrún) hélt utan til Danmerkur (sjá víðar). Pabbinn sá um að panta bílaleigubíl fyrir fólkið sitt og þegar út var komið beið þeirra á bílaplani bílaleigunnar glænýr Ádí A3, sem ku vera sportbíll af bestu gerð. Síminn hringdi hjá pabba heima á Íslandi og það eina sem var sagt í símann var pabbi ég elska þig, líklega fyrsta skipti sem þessi orð hafa komið af vörum Arnars Hrafns. Já drengjunum þótti mikið til pabba koma og fréttu þeir ekki fyrr en löngu síðar að steisjon skódinn sem pabbi pantaði var víst bilaður og þetta var barasta eini bílinn sem var laus á leigunni en hver er svo sem að velta sér upp úr smáatriðunum. Það sem var reyndar bráðfyndið við þetta allt er að þessi bíll er smábíll í raun, þótt sportbíll sé og því nánast kúldruðust þau öll í bílnum og vart var pláss fyrir fætur þessara nærri tveggja metra manna. En þeir voru hrikalega flottir og töff, það var fyrir öllu. Æ hvað það er nú gaman að eiga stráka, er það ekki pabbar?
Snjósleðinn mikli
Til þess að vera eins og alvöru þotu-fjölskylda var fjárfest í snjósleða sl. haust. Gríðarlegt tæki sem er svolítið laskað en hvaða máli skiptir það? Kraftmikill sleði sem strárkarnir geta leikið sér á segir Snorri. Æ hvað það er nú gaman að eiga stráka, er það ekki pabbar?
Sundlaugin köld
Já þessi elska er orðin gömul.....sundlaugin. Ekki vildi hún í gang þetta árið sem var heldur súrt því þetta var jú síðasta sumarið okkar með Hreppslaug. Lindin sem rennur í laugina var bæði köld og vatnslítil og heitavatnsrörið sem var tengt við laugina fór í sundur á einum góðum vatnadegi í Andakílsá. Þessum kafla hjá okkur er sem sagt lokið og sjáum við jafnvel fram á að geta tekið okkur sumarfrí á næsta ári... án Snorra að sjálfssögðu þar sem hann finnur sér áræðanlega eitthvað ótrúlega mikilvægt að dunda við næsta sumar, sem tekur allan hans tíma utan hefðbundinnar vinnunnar.
Útihátíðin Aldrei fór ég á Landsmót 2008
Þeir sem misstu af henni, geta mætt á næstu útihátíð hjá okkur, en við höfum ákveðið að halda alltaf útihátíð á sama tíma og Landsmót hestamanna fer fram. Þessi hátíð í ár var með glæsilegra móti, mikið um skemmtiatriði og það sem mestu skipti mikið af skemmtilegu fólki. Sjáumst á næstu útihátíð hér á Ásnum.
Hvað er ekkert gaman að eiga stelpu?
Tinna Rós vill að gefnu tilefni koma athugasemd á framfæri við lesendur Jólahornsins 2008, vegna endurtekinna athugasemda um hve gaman það er að eiga stráka. Það er ekki minna gaman að eiga stelpur.
Virðingarfyllst
Tinna Rós
Æ verum nú extra góð hvert við annað!
Jæja, nú er mál að linni enda langt liðið á síðustu síðu. Elskurnar okkar, hafið það nú náðugt um jólin og takið utan um hvert annað. Við þurfum öll á því að halda, rétt eins og grænmeti með matnum (eyðilagði þetta hugljúfu stemminguna?)!
Hvetjum alla til þess að slaka á og njóta þess að vera til. Lífið heldur áfram og engu skiptir hvernig þetta þróast allt saman, svo fremi sem heilsan heldur og börnin stækka og dafna.
Knús og kossar til ykkar allra og munið að Hvanneyri er alltaf í leiðinni, hvert sem maður fer!
Kolla, Snorri, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti og Brúsi II
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.