Jólahornið 2006/2007

Jólahornið 2006/2007 ®
Stofnað árið 2000


Sæl öll og gleðilega hátíð. Þá er enn eitt árið að verða liðið með tilheyrandi viðburðum hjá okkur öllum. Hjá okkur hefur ýmislegt á dagana drifið sem við munum nú fara yfir í “örfáum” orðum. Þrátt fyrir stækkandi “áskrifendahóp” (þessu lesefni er reyndar meira eða minna troðið upp á fólk) hefur útgáfan heldur vaxið en minnkað með tilheyrandi vandamálum fyrir þá sem ekki kunna við annað en að lesa í gegnum allt Hornið. Sorrý abát ðat! Þeir sem ekki vilja lesa of mikið, lesa bara þennan fyrsta inngangskafla og ekki meira um það. Hinir verða sér úti um góðan bunka af tissjúi til þess að þerra saknaðartárin sem hljóta að koma fram við áframhaldandi lestur. Við rennum yfir helstu málefni fjölskyldunnar með okkar þekkta frásagnarhætti sem Guðbjörn Finnsson, Jólahornsgagnrýnandi orðaði svo vel:


“Höfundar rita samfelldan texta, með hjartnæmum og viðkvæmum hætti, fjalla af alúð og varfærni um málefni sem oft er erfitt að tjá sig um og komast frá öllu saman með sóma. Efnið hlýtur að verða tilnefnt til bókmenntaverðlauna á næstu listahátíð sultugerðarmanna í Súgandafirði og alveg örugglega til frásagnarverðlauna á næstu árshátíð vitavarða og veðurathugunarmanna á Dalatanga”. nbl.is/367

Jæja nóg um það, hér kemur svo staðlaða kveðjan:

KÆRI/KÆRA/KÆRU _____________  (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.

KÆR KVEÐJA

FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.

 

Hvað varð um Jólahornið 2006?
Eftir annasama tíma á síðasta ári, á fyrsta rekstrarári pöbbsins okkar, endaði árið með því að Jólahornið 2006 varð andvana fætt eintak. Þá stefndum við á Nýárshorn í staðinn, en það varð enn minna úr því en Jólahorninu 2006. Nú höfum við hinsvegar tekið okkur á og því ertu með í höndunum glænýtt eintak af Jólahorninu 2006/2007. Í þessu Horni verður farið víða við, tekið á helstu þjóðmálum, farið yfir þekktar aðferðir til að létta sig, pistill um vaxtastýringu Seðlabankans, dömuhornið er á sínum stað sem og ferðahornið margfræga auk umfjöllunar um gjaldeyrismál. Vegna plássleysis verður hinsvegar samlífshorninu sleppt í þessu horni, en við bendum áhugasömum um það málefni að fá sér sálfræðiaðstoð...
Ritstjórar

Sendu þakkarkveðju til Hollands!
Elsku dúllur, frændfólk, vinir og vandamenn (já og þú sem líka ert að lesa þetta en við þekkjum ekki neitt, hvað ertu að kíkja í prívatpóst og lesa um eitthvað sem þér kemur ekkert við?): ástarþakkir fyrir öll jólakortin á síðustu árum og takk fyrir allt gamalt og gott. Undanfarin ár hafa verið frekar annasöm hjá molbúunum að Ásvegi 3 (efri hæð), þó er auðvitað engin afsökun fyrir því að hafa ekki sent út hugguleg jólakort sem á stendur: “Kv. Fjölsk. Ásv. 3.” Svona kort fást út um allt, en metnaðurinn bar okkur ofurliði og fyrst við komum ekki út stórri útgáfu af Jólahorni um síðustu jól, vildum við frekar sleppa því. En yfir í tenginguna úr síðasta Horni en þá var ferðinni heitið til Kanarí í jólafrí (2005) og sendum við Áramótahornið 2005 til allra þaðan – þar sem það þótti okkur voða góður húmör. Við prentuðum allt út hér heima og drösluðumst svo með bréfin alla leið suður eftir og póstlögðum þar. Ekki vildi þó betur til en svo að um helmingur bréfanna fór í ruslið en hún Óla vinkona okkar tók pokann með bréfunum í (verðum að viðurkenna að þau voru í ruslapoka, en...) og skutlaði honum í gáminn eins og hverju öðru drasli frá okkur. Verst var að við vissum aldrei hverjir fengu bréf og hverjir ekki, því við vorum búin að póstleggja slatta! Úr þessu hefur hinsvegar verið bætt en Jólahorn fyrri ára hafa verið sett á netið, á bloggsvæði okkar. Þarna má lesa í ró og næði alla vitleysuna sem við höfum párað niður síðustu árin, en slóðin er: www.hvanneyringarnir.blog.is (lykilorð: gutti).
Annars var hún Óla besta skinn að öðru leiti. Hún var ræstitæknirinn okkar og kynnti sig alltaf svona kumpánlega þegar hún kom daglega að ræsta út hjá okkur, bankaði létt á hurðina og kallaði “Óla”. “Ósköp er þetta viðkunnanlegt hjá konunni að kynna sig svona formlega” sagði Snorri í svefnrofanum á hverjum morgni – eða þar um bil.

Ferð eldriborgaranna um eyðimörkina
Annars var Kanaríferðin um jólin 2005 alveg hreint frábær og óhætt er að mæla með því að vera á erlendri grundu um jól og áramót, maður er ekkert að missa af einhverju því maður fær alltaf eitthvað annað í staðinn gott fólk.
Eitt eftirminnilegasta atriðið var þegar við röltum um eyðimörkina. Dag einn gengum við frá íbúðinni okkar og yfir á hina sk. Ensku strönd. Þetta er nokkur spölur og yfir svona smá “eyðimörk” að fara. Við tókum allar klassísku myndirnar í nefið og skrifuðum í sandinn eins og alvöru múvístjörnur. “S+K” í hjarta að sjálfsögðu, nöfnin okkar rituð í sandöldurnar osfrv. Förinni var haldið áfram eftir sandinum og fram hjá nokkrum pálmatrjáarjóðrum. Í miðri eyðimörkinni tókum við eftir því að ekki var allt með felldu. Aðrir sem voru á sömu gönguleið og við voru mun léttklæddari en við, eiginlega bara alls ekkert klæddir! Höfðum við hjónakornin frá Hvanneyri þá gengið með saklaus börnin okkar inn í mitt svæði núdista, þar sem ofan í kaupið virtist vera afskaplega afslöppuð (kannski ekki alveg rétta orðið í þessu tilfelli) afstaða til frjálsra ásta! Grínlaust þá tókum við ekki eftir nokkrum hlut fyrr en eiginlega allt of seint. Um leið og þetta uppgötvaðist var reynt að finna stystu leið út úr svæðinu en á hraðri för burtu með börnin tókst pabbanum að leiða hópinn fram hjá heilli tylft íturvaxinna kvenna á Evuklæðunum! Sumar hverjar með einhverskonar brasillíska áferð á neðri hluta líkamans, sem líklega var við hæfi enda var það viðeigandi tenging við þessa eyðimörk sem við vorum stödd í. Kolla hefur ekki enn getað sannað málið, en er þess þó fullviss að stysta leiðin var vart valin út úr eyðimörkinni þennan dag. Snorri þvertekur þó fyrir annað en að hafa ætlað stystu leið – trúi því hver sem vill! Þessi lokasýning í eyðimörkinni hafði amk. svo djúpstæð áhrif á hann að nú hefur hann skipulagt ferð til Brasilíu í febrúar nk. – það segir þó nokkuð um málið.
 
Hvað er þetta með þrettándann og brennu?
Hafa ekki fleiri en við velt þessari súrrealísku upplifum fyrir sér? Í Borgarfirðinum er rík hefð fyrir þrettándabrennu, sem við fórum á í janúar sl. eins og vera ber. Þarna stóðum við saman við bálið og horfðum á gamlar pallettur, landróðrabátinn Skeljung BA-724, nokkur jólatré og 2-3 sagpoka fuðra upp fyrir framan okkur samhliða því að sjá gamla brennuvarga skvetta hráolíu á bálið með reglubundnum hætti. Á meðan söng einhver í lélegt hljóðkerfið ættjarðarlög og undarlegar brennuvísur, einhver með merkilega lítið tóneyra. Nístingskuldi var og hörð norðanátt, að sjálfsögðu, eins og alltaf er á þrettándanum og þarna lét maður baka sig af Skeljungi BA-724 að framan, svo snéri maður sér hægt og rólega til hliðar og hitaði þannig aðra hliðina og svo á hina hliðina til þess að hita þar upp og svo gerði maður sér upp áhuga á að skoða eitthvað aftan við okkur svo að bakið myndi nú hitna líka. Þetta er svona einskonar heilgrillun á teini, nema hvað teinninn er ekki til staðar. Þér verður kalt, svo heitt, svo ofsalega heitt, svo kalt aftur osfrv. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega, hugsaði maður með sér en svo gerðist það! Allt í einu var sem frostkuldinn hætti að bíta í kinnarnar, vindurinn hætti að blása og sem algert algleymi næði yfirhöndinni hjá Snorra. Nei hann var ekki orðinn meðvitundarlaus vegna þess að það hefði kviknað í honum eða eitthvað svoleiðis, Björgunarsveitin Brák hóf upp raust sína með skothríð sem var engu lík. Tívolítertur, stórar bombur og allt hvað eina. Merkilegt hvað þetta fær alla (les: karlmenn) til þess að segja svona innra með sér “JESS”, hleypa brúnum og dæla upp auka leveli af testósteroni. Því hærri hvellir, því meira testósteron. Ja hérna hér, má ég þá frekar biðja um annað lag af lakki á táneglurnar!

Hraðhlustunin hans Snorra
Skemmtilegur þessi munur sem er á börnunum okkar. Hvert með sínu sniði. Þannig er Arnar Hrafn langur og mjór og sver sig í ætt föður síns hvað snertir byggingalag og lund (montrass), Hafþór Freyr einnig stór en verður vart kallaður mjór eins og Arnar, svona meira í ætt við móður sína þar sem karlmenn eru breiðvaxnir og miklir. T.d. er 13 ára kappinn þegar orðinn töluvert herðabreiðari en pabbi sinn! Lundin þeim megin reyndar ekki ósvipuð (montrassar). Tinna Rós einhverskonar blanda okkar sómahjóna (montrass), en er klárlega með talhæfni móður sinnar. Líklega best líst þannig: Þegar Snorri og Hafþór Freyr fara eitthvað saman á bílnum “tala” þeir mikið saman með því að þegja, ná góðum tengslum og skilja allt sem um er rætt. Þegar Snorri og Arnar Hrafn fara eitthvað saman á bílnum þá talar Arnar Hrafn nokkuð reglulega og pabbi nikkar í réttum hlutföllum við fyrirspurnir og/eða frásagnir. Ljómandi gott kerfi. Þegar Snorri fer með Tinnu Rós eitthvað á flakk kveður við algerlega nýjan tón í samskiptum. Hún talar stanslaust allan tímann og svo tekur Snorri svona fimmta til sjötta hvert orð, raðar orðunum upp í setningar og nær nokkurn veginn samhengingu þannig. Þetta er í raun það sama og hraðlestur, kallast hrað-hlutstun. Þetta er auðvitað gríðarlega dýrmætur eiginleiki að hafa þegar maður á konu eða dóttur, eiginlega gjörsamlega nauðsynlegur eiginleiki – eitthvað sem allir karlmenn hljóta að þekkja, ja ef þeir hafa yfirhöfuð rætt nokkurn tímann við hitt kynið. Trixið samhliða þessari tækni er svo að með æfingunni nær maður að eyða burtu óþarfa orðunum og þá verður þetta ótrúlega fínt. Strákarnir hafa eðlilega ekki náð þessari stöðu í þroska og því gerðist það einn daginn að Tinna Rós sat í miðjunni afturí og lét dæluna ganga. Hafþór Freyr sat frammí og allt í einu tók Snorri eftir því að Hafþór Freyr var orðinn frekar óþreyjufullur, farinn að svona dingla fætinum fram og til baka og virkaði hálf taugaveiklaður. Svo leit hann reglulega aftur á systur sína, sem vel að merkja blaðraði stanslaust. Hafþór Freyr sagði ekki neitt. Hann greip um höfuð sér og ruggaði sér fram og aftur í sætinu. Snorra leist ekki orðið á ástandið og hélt jafnvel að strákurinn væri að verða veikur. Allt í einu snéri Hafþór Freyr sér við, skellti lófanum á mót Tinnu Rós (líkt og lögreglumaður við umferðarstjórn) og sagði “Tinna, togg tú ðí hend bíkos nóbodí els is lissening to jú”. Áhrifin létu ekki á sér standa. Snorri rétt náði að halda bílnum inn á veginum í hlátursrokunum hans (hláturrokur hjá Snorra eru þannig: það er svona töluvert bros með nefblæstri samhliða, eiginlega eins og Ritsjard Gér gerir), Hafþóri Frey leið eins og sigurvegara og Tinnu Rós líka, þar sem hún skildi ekki enskuna hans og hélt bara áfram að blaðra með sama hætti á áður!

Kolla og einelti fatanna
Síðustu ár voru merkileg ár í sjálfu sér, þó ekki væri nema eingöngu fyrir það hve eineltisárátta frú Kolbrúnar náði nýjum hæðum. Framan af fór nefnilega að bera á því að hún legði fatnað húsbóndans í einelti og þvott eftir þvott og þurrkun eftir þurrkun styttust bolir, buxur og hvaðeina sem í þvottahúsið fór. Tók steininn úr þegar rándýri Kimi Räkkonen bolurinn passaði orðið eingöngu á álfa og huldufólk, aðilar sem fylgjast ekki einu sinni almennilega með formúlu 1, enda er heimsmeistaramótið í steinatökum aðal íþróttagreinin hjá þeim! Tók þá húsbóndinn (les: Snorri) til sinna ráða og hóf formleg afskipti sín af þvotti og þurrkun hans. Árið 2007 hefur því fengið viðhafnarheitið “Ár þvottsins” hér á Ásvegi 3, en við höfum ákveðið að taka upp þann góða kínverska sið að skýra árin okkar með formlegum hætti og hætta því að nota hégómleg ártöl eins og aðrir gera. Árið 2008 mun þannig heita “Ár öldungsins” (Snorri verður fertugur, með tilheyrandi komplexum).

Arnar Hrafn og Þingvallaferðin gangandi
Enn eitt ruglaða eintakið á þessu heimili lét á sér kræla þegar frumburðurinn tók upp með sjálfum sér að vilja ganga frá Lundarreykjadal og yfir til Þingvalla! Það þýddi ekkert að reyna að tala hann af þessu og því var ekkert annað að gera en að styðja við bakið á honum, keyra hann uppeftir og henda honum þar úr bílnum. Allan daginn áttum við svo von á uppgjafarhringingunni: “nenniði að sækja mig?”, en viti menn – hann hringdi frá Þingvöllum, þokkalega borubrattur svo ekki sé nú dýpra tekið í drullunni.

Fornleifafundur Kolbrúnar
Um mitt sumarið 2006 tóku þau mæðgin, Kolla og Arnar Hrafn upp mikla gönguáráttu. Upp úr stendur þó gönguferð þeirra yfir Skarðsheiðina en lagt var upp frá Hreppslaug og komið niður í Ölver við suð-vestanverða heiðina. Mikil ganga og afrek út af fyrir sig. Á leiðinni vannst ekki minna afrek en það var fornleifafundur frú Kolbrúnar. Það var undir lok ferðarinnar er hún fann all merkilegan hlut, hlut sem hún vissi af í nokkurn tíma á eftir en týndi svo aftur. Þetta voru sem sagt hundgamlir vöðvar á víð og dreif í líkamanum sem gerðu þarna vart við sig, sem og dagana á eftir en hurfu svo á ný! Leit stendur enn yfir, en leitarmenn eru orðnir vonlitlir um að vöðvarnir finnist á ný...

Að setjast í rólegra djobb
Við árskiptin 2005-2006 skipti Snorri um starf og hóf að nýju að vinna hjá Landbúnaðarháskólanum. Þetta var að eigin sögn til þess að minnka vinnuálagið og breyta til. Vissulega varð breyting á starfinu en vinnuálagið er nú lítið minna!

Að vera borgaralubbi
Hafþór Freyr hefur tekið upp iðju móður sinnar, að búa til nýjar skilgreiningar og orðasambönd. Það nýjasta er orðið borgaralubbi, orðið borgaralubbi – kannast einhver við það? Orðið lýsir einstaklingi sem alinn er upp á höfuðborgarsvæðinu og þykir púkalegt að búa í sveit! Já stráksi er á réttri leið.

Ferming og ferming
Já Arnar Hrafn er orðinn fermdur en hann fermdist vorið 2006. Aðalgjöfin frá okkur til hans var ferð á Formúlu 1, að sjá Kimi Räkkonen keppa á móti Shjúmma á sjálfum heimavelli Ferrari, í síðasta móti þess síðarnefnda á heimavelli og í síðasta skipti Kimi í treyju McLaren. Þeir feðgar fóru s.s. til Ítalíu og gerðu hreint frábæra ferð. Verður henni ekki lýst nánar hér, en þeir eru ekki enn komnir á jörðina, einu og hálfu ári síðar!
 Svo er ferming framundan hjá Hafþóri Frey. Hann mun fermast 8. júní 2008, svo að við erum jafnt og þétt að fullorðna liðið okkar sem er í raun stórskrítið því okkur líður eins og tuttugu ára enn, furðulegt að eiga svona gömul börn. Arnar Hrafn er t.d. orðinn jafngamall og mamma hans var þegar hún byrjaði með þeim tæplega fertuga og Hafþór Freyr jafngamall og pabbi hans var þegar hann hitti Kollu fyrst! Þetta er auðvitað sjúkt.
 Þessari fullorðnun á heimilinu fylgir ýmiskonar probblem. Þar má nefna fyrirlestra um kynlíf, ábyrgð og skyldur osfrv. Einnig um rakstur og annað sem fylgir fullorðnun drengjanna. Þessum vandasömu verkefnum var jafnt skipt á milli hjónanna, mamma fékk kynlífsspjallið og pabbi raksturskennsluna! Sanngjörn skipti ekki satt?

Hestaheilsa!
Já hann Hafþór Freyr er enn við hestaheilsu (hverskonar heilsufar er það annars? Fær hvorki heimæði né spatt?) eftir lækningarnar að handan. Við vitum vel að þetta er alveg ótrúlegt og þar sem Snorri er alveg ferlega jarðbundinn hvað þetta snertir þá rígheldur hann í þá staðreynd að tölfræðilega þá getur 1 af hverjum 10.000 læknast af sjálfu sér með þennan sjúkdóm sem hann var með. 10-15 eru með sjúkdóminn hér á landi og reiknið svo líkurnar á því að þetta hendi... Já, já Snorri minn okkur er alveg sama hvað þú heldur eða hverju þú vilt trúa, mestu skiptir að drengurinn er hraustur og laus við reglubundnar heimsóknir á Barnadeild Hringsins.

Heiti potturinn rétt að verða klár
Sumarið 2006 var ráðist í stórframkvæmdir á heimilinu og fjárfest í forláta heitum potti. Það átti “bara” eftir að smíða í kringum hann, tengja við vatn og frárennsli og málið dautt eins og húsbóndinn orðaði það (les: Snorri). Nú sumarið leið og hafðist að grafa vatnslagnir frá bílskúrnum að áfangastað í hjarta lóðarinnar. Meira var svo ekki gert sökum anna. Sumarið 2007 rann skjótar upp en hönd á festi og varð lítið af framkvæmdum aftur, en þó grafið fyrir pottinum og frárennslið gert klárt. Nú er s.s. komið að jólum 2007 og enn bólar ekkert á heita pottinum, sem vel að merkja hefur fokið í millitíðinni og farið í viðgerð eftir það! Allar líkur eru taldar á því að árið 2008 líði án þess að potturinn verði settur niður en Snorri hefur þó ákveðið að það herrans ár, 2009, verði ár pottsins svo að vonandi drattast málið á lokapunkt þá – enda verður maðurinn þá kominn á fimmtugsaldurinn og þarf líklega frekar en áður á því að halda að hita upp hrörnaðan kroppinn...

Alveg eins og kýrnar!
Nýverið fékk Arnar Hrafn smá vinnu við að þjóna til borðs í fertugsafmæli vinkonu okkar hér á Hvanneyri. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi ef ekki hefði komið upp all skemmtilegt atvik undir lok veislunnar, vel að ganga þrjú að nóttu. Þá stóðu þeir feðgar saman hlið við hlið og var sá eldri að bíða eftir þeim yngri. Vatt sér þá að þeim miðaldra frú og lofaði unga piltinn í hástert, myndarpiltur sagði hún. Nú Snorri stökk á bráð sína og bar skjótt við faðerni sínu á sveininum unga, en þá sagði þessi ágæta frú: “Þetta er eins og með kýrnar”. “Með kýrnar?”, spurði Snorri um leið. “Já, það er alveg sama hve nautið er ljótt, kálfarnir eru alltaf svo fallegir...”. Nautið fór heldur sneypt heim en kálfurinn var full kátur.

Mótorhjólakappinn og húðabaninn
Já þeir eru kappar miklir, strákarnir okkar. Annar ber húðir og syngur hin ýmsu þungarokkslög við, við “miklar” og “góðar” undirtektir foreldranna. Hinn spennir taugarnar með því að aka um á skellinöðru með tilheyrandi brambolti og einu fótbroti til þessa. Ohh, okkur hlakkar svo til þess þegar bílprófsaldrinum verður náð – eða þannig.

Keppnisferðin til Írlands í tvígang
Fótalipurð er ekki eitthvað sem fólki dettur í hug þegar það ber okkur hjónin augum. Einhver stökkbreyting hefur greinilega átt sér stað þar sem börnin okkar öll eru á fullu að æfa samkvæmisdansa og gengur bara vel. Arnar var fyrstur til að byrja að æfa og fór Frúin með hann ásamt nokkrum öðrum, um 25 manns, héðan úr Borgarfirðinum til Írlands á alþjóðlegt mót í samkvæmisdönsum  (árið 2006). Ferðin var alveg frábær í alla staði og var spurning um hverjir skemmtu sér betur, þeir fullorðnu eða krakkarnir.  Ferðalagið var strembið en það tók 15 tíma að komast á áfangastað, en vel þess virði. Því var ákveðið að fara aftur þetta árið. Af þeim tæplega 100 manns sem fóru frá Íslandi vorum við 65 héðan úr sveitinni. Svo það er óhætt að segja að áhuginn hér sé mikill. Í ár varð Hafþór gjaldgengur svo Frúin skutlaði sér með 2 dansara og ömmuna og afann úr Hafnarfirðinum sem voru höfð með sem lukkudýr og hjálparhellur. Tinna Rós er svo til nýbyrjuð og dansar af krafti við vinkonu sína og gengur þeim bara vel. Sporin æfir hún að fullu hvort sem er í verslunum, veitingahúsum, bílaþvottastöðum.... nei bíðið við, þangað höfum við aldrei komið. Allavega lítur það stundum út fyrir að hún viti ekki hvert hún er að fara, því jú sporin eru ýmist til hliðar, afturábak eða áfram.

Pólsk áhrif á Hvanneyrarlífið
Fóstursonur okkar, hann Bartos kom að vanda til okkar síðustu sumur. Það fyrra vann hann hjá okkur á ný en sl. sumar fékk hann vinnu við byggingarframkvæmdir hjá kunningja Snorra. Hann gisti hinsvegar hjá okkur, enda hefði annað verið alveg fáránlegt. Hann vann svo stund og stund með okkur við ýmis viðvik og var þannig okkar kóstgangari. Prýðispiltur og heldur skárri eftir að hafa búið með okkur allan þennan tíma!!!

Borðuðu úti í þrjár vikur
Enn ganga framkvæmdir við kofann hálf hægt en þó tosast þetta nú allt í rétta átt. Markmiðið núna er að klára fyrstu umferð í framkvæmdum, áður en kemur að viðhaldi elsta hluta hússins!!! Þannig er nú komin ný eldhúsinnrétting og á meðan þeim framkvæmdum stóð borðaði bara fjölskyldan úti. Þetta var í heilar þrjár vikur og ekki má skilja orð okkar á þann veg að við hefðum verið á veitingahúsum, nei við borðuðum í orðsins fyllstu merkingu ÚTI. “Sólpallurinn” og grillið urðu okkar heimilisvinir með tilheyrandi kjötbruna. Einkar huggulegt og gott. Næst verður hugað að framkvæmdum í maí, svona fyrir næstu fermingu.

Kolla og ferðirnar á landsmótin
Eins og venjulega er farið á unglingalandsmót á þessum bæ. Árið 2006 var farið að Laugum norður í Þingeyjarsveit. Þar voru saman komin 9.000 manns á 3 hekturum. En þröngt mega sáttir sitja, liggja, borða, keppa og þar fram eftir götunum. Alveg frábær staður og skemmtilegt mót að vanda. Strákarnir stóðu sig með prýði. Arnar lenti í 3. sæti í hástökki og Hafþór náði því 4. í glímu. Glímuna hefur hann reyndar aldrei æft en hann skellti sér á smá námskeið fyrri hluta árs. Eitthvað minntist nú kynnirinn á að það vantaði eitthvað upp á kunnáttu í reglum hjá piltinum og móðirin hló sig máttlausa í stúkunni þegar hann, risinn, tók hvern pattann upp og hristi þá duglega eins og gólftuskur. Þarna hefði verið gaman að hafa upptökuvél. Árið 2007 fór svo Frúin með liðið sitt austur á Höfn í Hornafirði. Það er ansi langt þangað ef þið vitið það ekki. Frúin var á fullu að fylgjast með sínum mönnum og átti fullt í fangi með að hlaupa á milli staða. Á svona tímapunktum væri gott að hafa þá kunnáttu að getað klónað fólk. Arnar náði sínum besta árangri í hástökki, bætti sig um 10 cm og stökk sig inn í svokallaðan úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands. Þessi árangur hefur svo “kostað” okkur amk. tvær ferðir á viku til Reykjavíkur í vetur þar sem hann æfir frjálsar hjá sérstökum þjálfara ÍR. Vonandi skilar það sér í enn betri árangri og landsliðssæti í hástökki næsta sumar (nú eiga allir að krossleggja fingurna takk fyrir). Nú ef þið eruð ekki þegar búin að átta ykkur á því, þá er “ólmóst fortí” ekki með í þessum ferðum. Hann ber við heiftarlegu frjóofnæmi og segist því þurfa að vera heima og vinna í firmanu í staðinn. “Nóta bene” að þá eru þessar ferðir farnar um verslunarmannahelgi svo dæmi hver um sig...

Mr. and  Mrs. Fittness
Jamm...........

Fóru í sumarfrí!
Ótrúlegt en satt, en það náðist að draga Snorra í sumarfrí þetta árið (2007). Eftir margra mánaða skipulagsvinnu, var lagt af stað til Danmerkur í sumarlok ásamt foreldrum Kollu og bróður honum Stefáni. Þar hittum við svo Dagný systir hennar sem býr þar úti og fórum við saman á eyjuna Fanö og vorum þar í viku tíma. Staðurinn var alveg frábær. Nánast engar verslanir, veitingastaðir og barir lokuðu kl. 20.00 og eini farkosturinn voru hjólin sem við tókum á leigu þennan viku tíma. Hver einasti hjólastígur, göngustígur og gata var hjóluð á þessum stutta tíma,  enda var ferðin skipulögð með það í huga að vera ekki á bílaleigubíl. Tennis, borðtennis, veggtennis, strandblak, badminton og “frisbí” var stundað af kappi allan tímann. Þó gekk mönnum misvel að fá að blómstra í þessum greinum en allir skemmtu sér konunglega. Ekki er rétt að vera að tíunda einhver úrslit í öllum þessum keppnum enda hallar verulega á Frúna í þeim efnum (þau svindluðu öll). Þegar vikan var liðin var haldið til Aarhus á Jótlandi en þar er hún Dagný búsett ásamt Fannari kærasta sínum. Við leigðum okkur bíl til að komast á milli en svo átti að skipta yfir í hjólin. Þar var naflastrengurinn við fjölskylduna klipptur og við litla fjölskyldan fórum í sumarhús sem var ca. 60 km. frá Aarhus. Húsið völdum við (frúin) á netinu, lítið, sætt og á ótrúlega góðu verði. En ekki er allt sem sýnist á netinu. Leigan var ekki mikil þar sem aðrir “leigjendur” voru þegar á staðnum. Þeir voru að sjálfssögðu allir drepnir hver á fætur öðrum, enda um skordýr að ræða! En þar sem húsið stóð lengst út í skógi, langt frá allri siðmenningu héldu þessi kvikindi að þau hefðu meiri rétt á að vera þarna en við. Á netinu stóð: 1.5 km. í næstu búð! Ja kannski í beinni loftlínu, enda var afleggjarinn frá bústað og niður á veg 1.6 km. Þá voru eftir um 3 km. í næsta bæ og þar með í búðina. Næsta hjólaleiga stutt frá, stóð á netinu! Við erum enn að leita!!! Við sem sagt enduðum á því að vera á bílaleigubíl seinni vikuna og var því daglega rúntað til Aarhus og tímanum eytt með familíunni í búðum, matarboðum, skemmtigörðum og fl.  

Danmerkurferð með Arnari
Viku eftir sumarfríið góða fór Frúin með erfðaprinsinn í viku ferð til Danmerkur. Allir krakkarnir í bekknum hans fóru ásamt 6 harðskeyttum foreldrum. Dvaldist hópurinn á norður Sjálandi og eins og fyrra fríi var ferðin skipulögð sem hjólaferð (hverslags sjálfspíningar-hvöt er þetta??). Eitthvað misskildu blessuð börnin ferðaplanið (eða hlustuðu ekki) því þau héldu að þau myndu eingöngu hjóla á kamarinn eða í mesta lagi í næstu verslunarmiðstöð sem að sjálfssögðu átti að vera á næsta götuhorni. En fangaverðirnir létu kvartið og kveinið ekkert á sig fá og hjóluðu tugi kílómetra með bros á vör á hverjum degi. Þess ber þó að geta að allmargir naglar voru í hópnum, sem reyndu að þagga niður í mestu stynjurunum. Eftir langar hjólaferðir, sjósund, verslunarferð og kajakferð var haldið til Köben þar sem gist var í 2 nætur. Þar var heilum degi eytt í Tívolí og síðasti dagurinn fór svo í að versla (AFTUR) á Strikinu. Frábær ferð og ótrúlega skemmtilegir krakkar.

Smá heilun í lokin að vanda
Jæja, nú er mál að linni enda frásögnin orðin lengri en orð fá lýst. Takið því nú létt um jól og áramót og njótið lífsins með fjölskyldu og vinum. Jólin eru til þess að hafa það gott og skemmtilegt, ekki vera með stress og vesen, bara slappa af.


Eftir lestur Jólahornsins 2006/2007©er gráupplagt að leggja frá sér Hornið og fara út í göngutúr með familíunni og/eða góðum vin/vinum. Bara í smá stund, anda að sér jólaloftinu og hlusta á umhverfið og náttúruna. Það er ómetanlegt og þið vitið jafn vel og við, að það er ekkert sem liggur svo á í lífinu að ekki sé tími fyrir smá göngutúr og samveru. Það er því enn á ný okkar jólagjöf til ykkar. Eitt er víst að við munum gera þetta að vanda um jólin.

Knús og kossar til ykkar allra og munið að hláturinn lengir lífið (eða nefblástur með brosviprum eins og sumir gera...).


Kolla, Snorri, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti, Brúsi II og Rauður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf gaman að fá Jólahornið

En forvitnin er að gera út af við mig, Brúsi ll og Rauður hverjir eru þeir. Geri ráð fyrir því að Rauður sé hoho en hvað er Brúsi?

Knús til ykkar sérstaklega til Gutta.

Kidda og co 

Kidda (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 11:39

2 identicon

Hætt að gera ráð fyrir svari svo að ég geri ráð fyrir að Brúsi ll og rauður séu eðalvagnar sem segja burr.

Knús til Gutta

Kidda (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband