Jólahornið 2005

Áramótahornið 2005 ®
 
Grítíngs tú jú oll from ðe Kanaríælands! Sæl öll sömul og gleðilega hátíð. Þá er enn eitt árið að verða liðið með tilheyrandi viðburðum hjá okkur öllum. Hjá familien Hvanneyri hefur ýmislegt á dagana drifið sem við munum nú fara yfir í “örfáum” orðum. Þrátt fyrir stækkandi “áskrifendahóp” (þessu lesefni er reyndar meira eða minna troðið upp á fólk) þorði enginn að kvarta vegna síðasta Jólahorns enda birtum við þar, fyrst á Íslandi, lausn í jólakveðjum sem henta fyrir alla. Þeir sem ekki vilja lesa of mikið, lesa bara þennan fyrsta inngangskafla og málið er dautt. Hinir, lesa og tárfella, eins og þeir vilja enda oftar en ekki um hjartnæmar og viðkvæmar frásagnir að ræða. Einhver mestu trúnaðarmál sem um ræðir og fallegar lýsingar á helstu afrekum (?). Jæja nóg um það, hér kemur svo staðlaða kveðjan:

KÆRI/KÆRA/KÆRU _____________  (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR. KÆR KVEÐJA FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.

Að þessu sinni sendum við út Áramótahorn í stað hins hefbundna Jólahorns, enda þótti okkur svo sniðugt að senda þetta frá Kanarí!

Jól í skugga ístru
Þar sem síðasta Jólahorni sleppir var undirbúningur í fullum gangi fyrir jólin og þau komu svo og gengu yfir hratt það árið. Helst bar þó til tíðinda að framvöxtur fullorðna fólksins var orðinn full mikill og skyggði það nokkuð á gleðina. Það var því sett mikið takmark við áramótin, að vinna á þessum ístrubelgjum með öllum tiltækum ráðum (sjá síðar undir kaflanum Átakið 2005).


Ðí hönsjbakks
Það er kunnara en frá þarf að segja að Familían að Ásvegi 3 er einkar glæsileg ásýndum, annáluð fyrir þokka og fallegt fólk í alla staði (líka Snorri!). Það var því sem rýtingsstunga í bakið á okkur öllum þegar danskennari Arnars Hrafns fór að finna að annars glæsilegri réttstöðu hans á dansgólfinu. Henni fannst hann s.s. heldur of boginn í baki. Hún pikkaði reglulega í bakið á honum og minnti hann á að rétta úr sér. Talaði jafnframt fjálglega um það að setja herðartré inn í dansklæðnaðinn til að rétta úr herðunum og við vitum ekki hvað! Nema hvað, þetta áreiti hélt áfram þegar Hafþór Freyr byrjaði í dansi. Enn hélt þetta áfram þegar við hjónin hófum dansnám og nú var þetta farið að minna illilega á einelti. Við höfnuðum þessu að sjálfsögðu, enda eins og áður segir einkar glæsilegt fólk. Eitt sinn var það þó svo að Hafþór gekk heldur búralegur út úr húsi og í átt að frú Fittness 2005© og sá hún þá að það mætti nú aðeins rétta úr bakinu á drengnum. Þegar hann settist inn í bílinn, notaði hún sína þekktu leikhæfileika og líkamlegu tjáningu og sagði: “Hafþór minn, ekki vera svona boginn í bakinu” og lét svo um leið herðarnar síga af glæstum þokka fram á við til þess að undirstrika enn betur hvað hún átti við (á þessum tímapunkti í sögunni er við hæfi að loka augunum og visjúalísera þetta fyrir sér). OK. Búin(n) að visjúalísera? Höldum þá áfram. Nema hvað, herðarnar sigu ekkert niður! Axlirnar ekki heldur. Ekkert gerðist! Það var sem líkaminn væri ekki tilbúinn að taka þátt í þessum Sjeikspírsþætti en svo kom hið sanna í ljós. Forstjórinn hafði þá setið sjálf svona gjörsamlega í keng að hringjarinn frá Nottredam hefði þótt teinréttur við hlið hennar. Eðlilega hreyfði þetta við okkur öllum, enda í fyrsta skipti sem við viðurkennum opinberlega einhvern ágalla á okkur!!! Í kjölfarið var send inn netpöntun til hjálpartækjabankans (ekki þess sem við erum með reikning hjá...) og pantaðar fimm axlarspennur sem virka svipað og að vera með herðartré inn í fötunum en er heldur minna óþægilegt.

Enn einn ofnæmissjúklingurinn mættur
Þá er það staðfest, ofnæmi er bráðsmitandi. Í sumar var ofnæmi “húsbóndans” (les: Snorra) með því mesta sem hefur verið frá upphafi og þrátt fyrir ýmiskonar lyf var lítið hægt að gera annað en að reyna að minnka vinnuálagið (þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það gekk). Svo gerðist það merkilega, Gutti hinn hárfagri byrjaði að missa hárin í mun meira mæli en áður. Þetta gekk svo langt að hann var að klóra sér nánast stanslaust og þá bað Kolla dýrlækninn og nágrannann, Gunnar Örn, til þess að kíkja í heimsókn. Hann var fljótur að greina Gutta, hann var með ofnæmi fyrir kjöti! “HUNDUR MEÐ OFNÆMI FYRIR KJÖTI? Hvurslags hundur er það eiginlega? Hverskonar furðufólk elur hund með þeim hætti að hann fær ofnæmi fyrir kjöti?”, Snorri gat varla hætt að hlægja yfir þessari sögu sem Kolla sagði honum um Gutta ofnæmissjúkling þegar hann kom heim úr vinnunni með bólgin augu, stíflað nef og kokkláða – ja eða þar til það rann upp fyrir honum að hún var að tala um heimilishundinn! Eftir þetta hefur Snorri þurft að éta ofan í sig allt sem hann hefur látið flakka um “liðið” sem kaupir sérstakt og sérvalið gæludýrafóður fyrir heimilisvinina. Nú fær Gutti bara besta fóður sem völ er á og kostar á við meðal mánaðarlaun stjarneðlisfræðings í Póllandi. Pabbi borgar, enda með einna mesta innsýn inn í heim ofnæmis á þessu heimili í það minnsta.
Annars er hann Gutti okkar er samur við sig og unir sér vel í sveitinni. Lífið snýst um að fara með húsbóndanum á flakk og stundum líka með Snorra. Svo er hann að vanda vinalegur við alla nema póstmanninn og leggur hreinlega fæð á hann. Annars átti hann viðburðalítið ár ef frá er talið ofnæmið, komst ekkert í snertingu við tíkur né póstmannsfætur.


Húðir barðar hér sem aldrei fyrr
Það er ljóst að þegar maður á tvo stráka í röð, þá fylgja því ýmisskonar vandamál sem og kostir. Eitt af því sem sem gerðist á árinu var það að þeir félagar, Arnar Hrafn og Hafþór Freyr, ákváðu að fjárfesta í tunnum með strengdum húðum yfir. Þeir náðu að gabba pabba til þess að “lána” sér fyrir trommunum og þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir til þess að fá þetta endurgreitt, hefur hann ekki haft árangur sem erfiði. Hvað um það, trommurnar voru settar upp í stofunni, þá fluttar upp á aðra hæð í meira hljóðdempandi umhverfi, en eftir að myndir fór að hrynja niður í stofunni vegna hristings veggja og lofta, þá voru strákarnir sendir með trommusettið inn í bílskúr. Þar sitja þeir  daglangt við þá undarlegu iðju að berja prikum á húðir til þess að framkalla bank og dynki í réttum hrynjanda. Vegna hávaðans sem þetta skapar, má eingöngu æfa slagverkið fyrir kl. 20 á kvöldin. Sú snjalla regla sem Snorri setti upp (sjá: stendur montinn í dyragættinni og segir frá þessu) var eiginlega hreint ekki góð, þar sem á matmálstíma – þegar fréttir eru og allir eru að jafna sig eftir matinn, þá nötrar allt og skelfur í eldhúsinu vegna lokaæfinga áður en klukkan slær tuttugu núll núll. Æ, þetta eldist af þeim eða okkur, þar sem við vitum fyrir víst að heyrnin slappast með árunum og þetta mun því hafa minni og minni áhrif á okkur þegar frá líður. Hvað um það, Hafþór Freyr er öllu liðtækari í þessari íþrótt og fær núna einkakennslu í slagverki hjá ungum poppara hér á staðnum.

Enn eitt orðatiltækið
Á árinu gekk Snorri vaskelga fram í vinnu á heimilinu og límdi hann m.a. botninn á tröllaskeinistatífið, sem hefur verið laus í vel á annað ár. Að sjálfsögðu gat frú Kolbrún ekki setið á sér, svo stolt var hún yfir þessu framtaki, að enn eitt máltækið fæddist af annars þrýstnum vörum hennar: “Æ ástin, þú ert svo magnaður”. Þegar þetta er sagt venjulega, er það í ákveðnum tón, oftar en ekki með slíkri passjón að ekki er um að villast hvað átt er við. Hinsvegar, þegar Kolla segir þetta, þá er ekki um að villast – á bak við þessa magnþrungnu, í raun ástríðufullu og tvíræðu setningu með seksúel undirtón - býr ekkert nema hæðni, hæðni sem á sér fáa ef nokkra jafnoka... Þeir hjá Orðabók Háskólans hafa því núna breytt ýmsum skráningum hjá sér á orðum og orðatiltækjum og hafa glöggir daglegir lesendur orðabókarinnar áttað sig á því að áherslumerki og framburðartákn eru nú skráð með nokkrum orðum og setningum, allt þökk sér Kollu.

Snorri “slær í gegn”
Seinnipart vetrar var Snorri beðinn um að taka þátt í söngsýningu í Logalandi, þar sem nokkrir valdir einstaklingar voru fengnir til þess að taka lagið. Snorri sló algerlega í gegn enda ekki annað hægt með Stuðmannalagið “slá í gegn” og hinn þekkta slagara “svona er á síld” sem auðvitað allir þekkja? Nei svona grínlaust, þá gekk þetta nú þolanlega, en við þetta tækifæri ákvað Snorri að leggja einsönginn á hilluna sína. Ef þið hafið ekki séð hilluna, þá er þetta hillan sem geymir ýmis sóknarfæri fyrir einstaklinginn Snorra sem hann hefur reynt að sönnu, að eru ekki alveg að gera sig eins og  karate, körfubolta, leikur í stjörnumerkjamyndunum, flugstjórn, smíði kjarnorkuflauga ofl.

Hreppslaug
Gamla góða Hreppslaug. Ja hvað getum við sagt um hana? Hún vinnur vel fyrir sér greyið og er farin að skila einhverju til baka og kominn tími til. Hinsvegar lentum við í því að þegar við auglýstum eftir starfsfólki sem átti að fá vel borgað fyrir vinnu sem féll ávalt utan hefbundinns vinnutíma (kvöld og helgar) þá sótti enginn um!!! Já enginn! Það hringdi ekki einu sinni nokkur kjaftur! Þar sem “enginn” er ekki með kennitölu og bankareikning, var ekki hægt að ráða hann í vinnu og því stóðum við hjónin oftast vaktir þarna uppfrá í sumar, þrátt fyrir að það hafi hreint ekki staðið til. Við vorum eiginlega mjög hissa á því að enginn myndi sækja um, en svona er bara Ísland í dag. Það hafa það greinilega allir mjög gott og fáa virðist vanta aura fyrst fólk fúlsar við vinnu á kvöldin og um helgar. Við vorum því mjög óttaslegin þegar ráða þurfti fólk á sveitakrána, en viti menn: 12 sóttu um starf þar!!! Það er líklega einhver rómantík í því að vinna á krá en ekki í sundlaug!

Anoðervon bæts ðe döst
Rauður kom á heimilið í janúar og hefur reynst mjög vel. Annars var árið merkilegt fyrir þær sakir að þessi annars ágæti ameríkanski jeppi laðaði fram áður óþekktan hégóma hjá húsbóndanum (les: Snorra) er hann ók um stoltur jeppaeigandinn. Hinsvegar áttaði hann sig á því síðar að þetta er bara alger sleði enda 3,5 tonn að þyngd og hreint enginn ferðabíll í snjó, drullu eða öðru sem maður ætlar jeppum að komast! Þessu kynntumst við hjónin þegar við renndum okkur niður að Hvítá til þess að ná í sand í terrasinn. Þar setti Snorri Rauð á kaf í sand og mátti minnstu muna að ná þyrfti í ýtu til þess að losa flekann. Hann hefur eftir það verið mest notaður á malbiki. Annars á hégómi engin takmörk eins og glöggir lesendur Fréttablaðsins gátu lesið um í lok nóvember. Hver óskar annars opinberlega einhverjum til hamingju með 37 ára afmælið??? Nema hvað, eftir Fréttablaðs”athyglina” sem Snorri fékk brenglaðist aðeins hégómastaðallinn og dag einn vorum við hjónin að gangi í Kringlunni. Ótrúlega margir veittu Snorra athygli og hann var barasta nokkuð upp með sér (not) og Kolla var hissa á þessari athygli/augngotum sem hann fékk. Snorri var reyndar hálf undrandi á þessu því þrátt fyrir það að vera stundum í fréttum, þá var þetta nú meira en góðu hófi gegndi. Til þess að gera langa sögu stutta komst Snorri að því síðar um kvöldið, þegar hann rölti sér á salernið, að buxnaklaufin hafði verið mjög hressilega opin á gallabuxunum og fermingarbróðirinn blasti nánast við þjóðinni við gönguna í Kringlunni. Eftir þetta “skemmtilega” atvik, hefur Snorri haft þann undarlega kæk að þegar á hann er litið þá þreifar hann alltaf ofurvarlega eftir rennilásnum á buxunum svona til öryggis.

Leikhúsferðin
Já maður er nú orðinn snobbaður í meira lagi þegar leikhúsin eru lögð undir, er það ekki? KB-banki bauð sem kunnugt er öllum helstu viðskiptamönnum sínum á tónleika með forsetanum og fleirum. Okkur var nú ekki boðið í það partíiið, en var hinsvegar boðið (ásamt öðrum stórskuldugum forsvarsmönnum fyrirtækja) á leiksýninguna Woyzeck í Borgarleikhúsinu. Í stuttu máli sagt, ekki okkar tebolli og við ætlum að snobba fyrir einhverju öðru næst og ætlum á fystu uppfærslu ársins 2006 hjá Brúðuleikhúsinu. Hverjum dettur annars í hug að byggja leiksýningu á gervigrasi, vatni og blikkrörum frá Blikk og stál ehf.? Ja hérna hér. Við leggjum til að þið lesið frekar bókina, báðar síður.

The mansion
Úff, lítið gerst sökum anna við fyrirtækjauppbyggingu. Þó fæddust svalir á árinu og eitthvað þokaðist með nokkur önnur atriði, en í heildina litið gerðist lítið. Það stendur þó til bóta þar sem ferming verður hér næsta sumar og þá stendur nú til að vera búin með kofann að mestu.

Pöbbinn na zdrowie
Já árið 2005 var ár stórátaka. Við renndum okkur í það stórverk að opna bar á Hvanneyri og fór allt sumarið, sumarfríið og “allir” peningarnir í það. Með frábærri aðstoð dyggra manna og kvenna tókst þetta verk, en það fólst í því að gera handónýtt hús að pöbb. Við lýsum þessu ekkert nánar, sjón er sögu ríkari en við erum mjög ánægð með árangurinn og viðtökur fólks framar öllum rekstraráætlunum. Eitthvað fer nafnið þó fyrir brjóstið á fólki sem styrkir frúna í þeirri trú að nafnið sé pottþétt.

Kaffiterían á Hvanneyri
Í sumar bauð Landbúnaðarháskólinn út veitingarekstur/mötuneyti skólans. Kolla gat auðvitað ekki setið á sér og bauð í verkið og viti menn – fékk! Nú voru góð ráð dýr (ekki fyrirtækið) og hún réð vinkonu sína, hana Önnu Siggu (Danmerkurfara úr síðasta jólahorni) sem deildarstjóra hinnar nýju deildar: Framreiðsludeild Kertaljóssins ehf. Reksturinn gengur bara þokkalega vel og eru fín tækifæri fólgin í samþættingu á þessum rekstir, búðarinnar og pöbbsins. Ekki meira um það.

Átakið 2005©
Já, já enn eitt átakið fór í gang á árinu og að þessu sinni voru báðir hælisstjórnendurnir í því. Frú Fitness gekk að þessu sinni hart fram í því að draga karlinn með svo að jólin 2005 myndu ekki lenda í skugga ístrunnar eins og síðast. Nema hvað, fyrsta æfingin fór í það að draga hann í göngutúr. Göngutúr? Eins og gangan í fyrra hafi ekki verið næg? Jæja, hann lét til leiðast og gekk í fyrsta skipti síðan við fluttum á Hvanneyri suður í land sem kallað er og alveg út að Andakílsá. Mikið afrek fyrir Snorra, minna fyrir frú Fitness. Næsta æfing var tekin heima, á hinu þekkta líkamsræktartæki í hjónaherberginu (gott að rifja hér upp úr bréfinu í fyrra). Kolla byrjaði á því að djöflast eitthvað þarna inni og gamli sat inn í stofu og horfði á CSI. Allt í einu eru hurðinni á svefnherberginu hrundið upp og út kemur æðandi frú Fitness, bullsveitt og minnti ótrúlega mikið á Soffíu frænku í þekktu leikriti (hún er alltaf svo reið, eins og einn ræninginn sagði). Jæja, farðu nú inn á stigvélina og vertu þar í 15 mínútur. Það hlakkaði í Snorra yfir þessari litlu áskorun og hófst handa við stigvélina. Fyrst var þetta frekar auðvelt, svo frekar þungt á fótinn og þvínæst tók erfiðið við og baráttan við kálfavöðvana. Hann var hreint að bugast en herti sig upp í þetta og beitti miklum sjálfsaga. “Svona Snorri, þú getur þetta”, öskraði hans innri maður. “Áfram nú, kláraðu þessa mínútu og svo sjáum við til”, frábær sálfræðihernaður hans innri manns og dulinn blekkingarleikur snarvirkaði og fyrsta mínútan hafðist af. Í stuttu máli sagt, þá varð árangurinn af Átakinu 2005 svipaður og af Átakinu 2004: Við verðum að gera eitthvað í okkar málum árið 2006!

“Stóra” fjölskylduferðin
Snemma árs var í fjölskyldu Snorra rætt um að fara saman í fjölskylduferð. Fjölskyldan er nú orðin nokkuð stór og því þurfti að skipuleggja þetta með góðum fyrirvara. Ljóst var að finna þyrfti stað sem allir gætu sætt sig við og verið tilbúnir til að fara á. Litla systirin kom með hugmynd um jólaferð og við stukkum strax á þá hugmynd, aðrir tóku dræmt í það og enn aðrir hreint ekki vel. Við gátum og getum enganvegin verið laus að sumarlagi vegna fyrirtækisins og því var þetta hið besta mál. Allir skólakrakkar í fríi, flestir geta tekið frí úr vinnu og allt hið besta. Rétt? Rangt! Fylgi við hugmyndina féll hratt. Ein fjölskyldan stakk af til Danmerkur, önnur í fjallgöngutúra til Ítalíu og sú þriðja, ja sú þriðja ákvað að kaupa sér tugmilljónkróna hús á Arnarnesinu til þess að sleppa við það að fara með okkur út um jólin! Nei, sennilega var það ekki ástæðan en þó ekki hægt að útiloka það! Þar sem við ákváðum það fyrir löngu að fara með fjölskylduna út á tveggja ára fresti, var ekki aftur snúið og við keyptum okkur ferð til Kanarí um jólin og komum ekki til baka fyrr en á nýju ári! Við látum bara eitthvað annað bíða eins og bílskúrshurð og annað veraldlegt dót. Skiptir engu máli þegar til lendar er litið, en það gera börnin okkar hinsvegar.

1/12 ársins í útlöndum!
Ársins 2005 verður minnst í þessari familíu fyrir ár utanlandsferða húsbóndans (les: Snorra). Fyrst fór hann í árlega ferð sína til Danmerkur með hóp bænda, þá fór hann með hóp bænda og fleiri aðila (m.a. afa Sigga) til Nýja-Sjálands (sjá síðar), svo aftur til Danmerkur og svo núna til Kanarí-eyja. Samtals verða gistinætur á erlendri grundu því meira en 31 dagur, eða rúmur mánuður takk fyrir!

 

Þvoði bílinn tvisvar á árinu 2005!
Lesið nánar um atburðinn í sjálfsæfisögu Kollu, sem gefin verður út árið 2050.

Nýja-Sjálandsferðin
Það er auðvitað enganvegin hægt að gera stutta grein fyrir ferð til þess lands sem er akkúrat lengst í burtu frá Íslandi á hnettinum. Snorri var fararstjóri í ferð bænda og fleiri aðila (m.a. pabba Snorra) til London áfram til Hong Kong og áfram til Nýja-Sjálands þar sem íslenskur Nýjasjálendingur tók við farartjórn að stærstum hluta. Í stuttu máli sagt sá Snorri mesta mannhaf sem hann hafði augum litið í Hong Kong þar sem voru frábærir útimarkaðir og virkilega óvenjulegt mannlíf og menning. Nýja Sjáland er ótrúlega skemmtilegt land að heimsækja, gríðarlega vel gróið og afslappað fólk. Eina sem er undarlegt þarna, en venst, er að sólin fer í kolöfuga átt (rangsælis). Óhætt að mæla með ferð þarna niðureftir/undir. Kostar mun minna en maður heldur, dæmi: London-Hong kong kr. 60 þús. vikutúr.

Nýtt djobb
Snorri ákvað í haust að sækja um starf hjá Landbúnaðarháskólanum og var ráðinn í djobbið. Starfið er að sjá um rekstur á búrekstri skólans með tilheyrandi mannahaldi. Spennandi og krefjandi verkefni sem hefst um leið og við komum til baka frá Kanaríeyjum.

Á för með framliðnum
Munið eftir manninum með pinnana? Nema hvað, við fengum hingað annan merkilegan gest sem vildi meina að við værum öll hlaðin af púkum sem ættu ekkert erindi hjá okkur og þyrftu hjálp til þess að komast inn í ljósið. Nema hvað, okkur þótti þetta mjög skemmtilegt og Snorri sérstaklega ánægður að þessir púkar hefðu lítil eða engin áhrif í hjónaherberginu... og hvað svo? Jú púkakarlinn sagði Hafþór Frey ofhlaðinn óþekkum púkum sem réttast væri að fjarlægja. Eftir tveggja vikna “særingar” var drengurinn laus við fylgisveinanna og var ekki laust við að hann væri mun þægilegri í umgengni. Hins vegar tilkynnti púkakarlinn góði okkur að hann hefði pantað tíma hjá hinum eina sanna Einari miðli þar sem hann hafði fundið út að Hafþór væri eitthvað lasinn. Mjög “spúkí”. Frúin var alveg í skýjunum (enda mjög svo trúuð á svona mál) en trúleysinginn hann Snorri glotti bara að venju og sagði: “Einmitt, pantaði tíma hjá miðli sem dó sjálfur fyrir mörgum árum?”. Síðla jánúar mánaðar þegar tíminn hjá Einari heitnum var liðinn var okkur tilkynnt að Hafþór myndi nú líklegast læknast með komandi sumri. Glottið hjá Snorra breikkaði til muna og eitthvað dofnaði nú trúin hjá frúnni við þessar upplýsingar. Ef við höfum Stórbónda á hægri hönd og læknasérfræðing á vinstri hönd, hverjum trúir maður? Ja, þrátt fyrir að vera komin yfir móðuna miklu að þá tókst honum Einari ásamt vini okkar Stórbóndanum að losa Hafþór undan frekari  heimsóknum á spítalann og það er engin lýgi! Hefur ekki mætt þangað síðan um miðjan apríl og einhvernveginn virðist sjúkdómurinn nánast horfinn með mjög mystiskum hætti svo ekki sé nú meira sagt. Þó þarf gaurinn að mæta eftir áramót í rannsókn (enda hefur læknirinn lýst furðu sinni yfir þessu öllu saman) sem vonandi gefur okkur eins góða niðurstöðu og síðast, ef ekki betri.

Tinna Rós með athyglissýki móðurinnar!
Rósin okkar siglir sinn sjó hér á Hvanneyri. Orðin alveg ferleg dama með snert af athyglisþörf sem birtist m.a. í því að vilja syngja hátt og snjallt út um gluggann á bílnum svo að allir heyri. Þetta er farið að vera pínu pínlegt, en venst. Svo er hún í námi hjá Arnari við dans og mun byrja eftir áramóin í þeirri íþrótt eins og við hin. Hún er s.s. orðin sjö ára skvísan sú og er því í öðrum bekk. Strákarnir eru reyndar ekki byrjaðir að mjálma hér fyrir utan húsið en þar sem stutt er í gelgjuna er Snorri þegar byrjaður að mæla út fyrir því hvar hurðargatið á að vera innan úr hjónaherberginu og inn í hennar herbergi, þannig að ekki verði hægt að læðast þangað inn nema með því að nánast skríða fyrst yfir hans hluta hjónarúmsins og svo yfir riffilstatífið! Þetta gamla og góða trix mun vafalítið halda eitthvað aftur af gauragangi í kringum Tinnu Rós.

Arnar “Gelgja” Hrafn Snorrason
Gelgja? Neiiiijjjjjjjj. Undirbýr nú fermingarveislu mikla og hefur þegar lagt á ráðin með hvað hann vill fá í gjöf: Ferrarí, litla einkaþotu, verslunarmiðstöð, einkatónleika frá Metalikku ofl. Alltaf jafn hógvær pilturinn (hvaðan hefur hann hógværðina?). Honum gengur ljómandi vel í skólanum og æfir samhliða bæði frjálsar og dans. Í febrúar stendur svo til að fara í keppnisferð í samkvæmisdönsum til Írlands. Mamma fer með honum til halds og trausts, enda taldi pabbinn sig illa í stakk búinn að bera brúnkukrem á hann fyrir sýningu – ekki beint matsjó atriði það!

Missti skó í kartöflupottinn!
Lesið allt um málið á nýju heimasíðu Kertaljóssin ehf.: www.kerti.is

Dansljónin taka á því!
Við reiknum ekki með því að margir tengi okkur hjónin við samkvæmisdansa, amk. ekki sem fyrsta val. Á árinu hélt hinsvegar samkvæmisdansinn áfram að þröngva sér inn á fjölskylduna, ekki nóg með að Arnar Hrafn væri að keppa í þessum fingraæfingum og dillingum, þá fór frú Snerpa fram á það að hún og hr. Flækjufótur hefðu æfingar af kappi þar sem bæði Hafþór Freyr og Tinna Rós höfðu einnig byrjað á þessu! Vissulega verður því ekki neytað að Snorri er vel þekktur fyrir þokkaða framkomu, faglegan limaburð og einstaka lipurð og lét hann því til leiðast. Nú, eftir þriggja mánaða stífar æfingar (vikulega), hefur hann náð þeim áfanga að geta dillað sér í takt við þær frænkur Rúmbu og Sömbu en ekki er laust við að það sé það eina sem hann getur, þ.e. að dilla sér. Ráðgert er að halda þessum dillanda áfram eftir áramótin og hver veit nema þau hjón stígi á stokk þegar frá líður og dilli sér saman með þeim frænkum.


Stakk seríunni í samband!
Undirbúningur jólanna er eðlilega með minna móti í ár, en Forstjórinn setti upp nokkrar seríur í glugga með dyggri aðstoð og stjórnun Litla forstjórans. Snorri tók sinn þátt í þessu og stakk í samband útiljósaseríunni sem hann nennti aldrei að taka niður frá því í fyrra!

Linnir framkvæmdagleðinni?
Ja hér eru enn töluvert af vannýttum sóknarfærum að okkar mati og hver veit nema kvíarnar verði færðar út næsta ár, enda fer grasið alltaf svo illa ef kvíarnar eru ekki færðar (spyrjið bara þá sem þekkja til kvíaeldis)! Við skulum ekki hræða neinn um of með því að uppljóstra neinu hér og nú, en líkurnar verða þó að teljast töluverðar á því að eitthvað verði gert – því ef ekki... þá er það í fyrsta skipti síðan við fluttum til landsins!

Kertaljósið ehf. sekkur dýpra – og þó
Eins og önnur stórfyrirtæki (Alcoa, Impregilo ofl.) var ráðist í það að fá til starfa erlenda verkamenn þar sem það var í tísku á árinu. Við byrjuðum á því að fá hingað til okkar pólskan verkamann að nafni Bartosz. Harðduglegan strák sem vílaði ekkert fyrir sér og það kunni Snorri sértaklega vel við, enda vanur því að ganga í þau störf sem þarf að vinna. Það var hinsvegar ekki fyrr en í lok ágúst að við áttuðum okkur á því að við höfðum staðið kolvitlaust að þessu með hann Bartosz. Hann fékk nefninlega fínan aðbúnað hér hjá okkur, sér herbergi á okkar heimili, nóg að borða, aðgengi að tölvu og netinu, gott kaup og við vitum ekki hvað! Það var því ekki annað hægt að gera en að senda hann beint heim til Póllands, við ætluðum hreint ekki til þess að það spyrðist út um Kertaljósið ehf. að þar liði erlendum verkamönnum betur en hjá öðrum stórfyrirtækjum (buðum honum reyndar vinnu aftur ef hann vill, þegar háskólanum líkur næsta sumar en það er nú allt önnur saga og má engum segja, amk. ekki neinum frá hinum stóru fyrirtækjunum hér á landi...).
Svo réðum við að sjálfsögðu þýska dömu í vinnu, enda jafnrétti eitthvað sem er verulega innprentað í forstjórann. Sú heitir Sandra Rock og er hörku dugleg.

Kanarí með eldri borgurum
Já eins og fram hefur komið erum við á Kanaríeyjum yfir jól og áramót og ekki væntanleg heim fyrr en 3. janúar. Hér föllum við inn í hópinn enda eru hér á sjötta þúsund íslenskir ellilífeyrisþegar. Kolla er þegar búin að kaupa sér sundhettu með upphleyptu blómamynstri og tekur virkan þátt í morgun-sundleikfiminni. Snorri tekur daglega þátt í Mullers-æfingaklúbbnum og svo eru allir fjölskyldumeðlimirnir orðnir slúngnir í bæði félagsvist og bingói. Um áramótin verður boðið upp á gömlu dansana, handprjón og svo verður boðið upp á hinn þekkta fyrirlesara Anton Guðjónsson, sem mun fræða okkur um það hvar hægt er að gera bestu kaupin á lesgleraugum, gervitönnum og snyrtilegum ísgöddum sem passa við betri skóna. Mikil tilhlökkun komin í familíuna vegna þessa!

Smá heilun í lokin
Jæja, nú er mál að linni enda flestir búnir að leggja bréfið frá sér amk. þrisvar sinnum og spyrja sig: “tekur þetta aldrei enda?”. Takið því nú létt um jól og áramót og njótið lífsins með fjölskyldu og vinum. Eftir lestur Áramótahornsins 2005© er gráupplagt að leggja frá sér hornið, rölta fram í anddyri og klæða sig í og fara út í göngutúr með familíunni og/eða góðum vin/vinum. Bara í smá stund og hlusta á umhverfið. Það er ómetanlegt og þið vitið jafn vel og við, að það er ekkert sem liggur svo á í lífinu að ekki sé tími fyrir smá göngutúr. Það er okkar jólagjöf til ykkar. Eitt er víst að við munum gera nóg af þessu á Kanarí. Knús og kossar til ykkar allra og munið að hláturinn lengir lífið.

Bestu kveðjur til ykkar allra,

Kolla, Snorri, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti, Brúsi II og Rauður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband