Jólahornið 2004, 3. árg. 1 tbl.

Jólahornið
3. árg., 1. tbl.

Komið nú blessuð og sæl, nær og fjær. Við heilsum ykkur héðan af Hvanneyri í frosti og norðangarra. Enn eitt árið er að verða liðið og þetta var reyndar einstaklega fljótt að líða. Eins og við höfum vanið ykkur á undanfarin ár, ætlum við að renna í “nokkrum” orðum yfir liðið ár sem hefur verið nokkuð viðburðarríkt hjá Familien Åsvej tre, Angelikarodlandtange, Stejlklippefjord (Fjölskyldunni Ásvegi þrjú, Hvanneyri, Borgarfirði). Þar sem einn (1) kvartaði í fyrra yfir síðasta bréfi, það hafi verið bæði langt, egósyntrískt (nei) og með smáu letri, höfum við ákveðið að koma til móts við slíkt þenkjandi einstaklinga:

KÆRI/KÆRA/KÆRU _____________  (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR. KÆR KVEÐJA FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.

Jólin í fyrra
Frásögn Jólahornsins í ár hefst þegar jólin komu á hefðbundnum tíma hér á Hvanneyri eins og annarsstaðar. Við fórum í okkar árlegu ferð upp í Skorradal til að höggva tré með góðum vinum og kunningjum. Þetta er orðin ósköp hugguleg hefð og að þessu sinni voru margar fjölskyldur í hnapp við að leita að hinu fullkomna jólatré. Eftir langa leit í kulda og trekki (...kúri ég volandi, hey!) fundum við Jólatréð 2003. Þetta var fallegt og lögulegt rauðgreni. Kollu fannast það reyndar heldur stórt, en Snorri benti á að það stæði nú í brekku og að brekkan blekkti verulega. Tréð væri nú eiginlega bara hálfgert krækiberjalyng! Tréð var sagað og svo ætlaði Snorri að draga það af stað. Eitthvað var það nú í þyngra lagi! “Sennilega bara laufblöð og dótarí á milli greinanna”,  sagði hann. Fyrir rest komst húsbóndinn með tréð niður að bílunum og eftir að hafa drukkið heitt kakó og sporðrennt ljúffengum smákökum var farið að raða trjánum í kerrurnar og þá kom staðreyndin endanlega í ljós. Tréð stóð langt aftur úr kerrunni og þegar upp var staðið, kom í ljós að bæði þurfti að stækka jólatrésfótinn og kaupa viðbót af seríum og öðru jólaskrauti vegna stærðar trésins. Þriggja metra og sjötíu sentímetra rauðgreni hafði verið fellt í sjálfsblekkingarleik húsbóndans og þarna stóð það á miðju stofugólfinu: Tré, sem hafði sigrað sólrík þurrkasumur og votviðrasöm haustveður í Skorradal. Tré, sem hafði haft betur í baráttu við veður og vinda í  áratugi. Tré, sem hafði í stuttu máli sigrað íslenska veðráttu gegn öllum líkum, en þrátt fyrir mikla baráttu varð nú að lúta í lægra haldi fyrir þorpsbúum frá Hvanneyri. Tré, sem nú var að þorna upp í allt of litlum jólatrésfót! Húsbóndinn var reyndar afar stoltur af afrekum fjölskyldunnar, en ekki var laust við að húsfreyjan væri bara töluvert mædd yfir því að þurfa að skreyta allar þessar greinar. Ekki bætti úr skák að hún vissi sem var, og kom síðar í ljós, að svona tré myndi fella nálar á við jólatré margra fjölskyldna til samans og nálarnar myndu þar að auki festast í stofuteppinu. Rétt að skjóta hér inn í að nálarnar eru enn að koma upp úr teppinu, tæpu ári síðar!

Aðfangadagur jóla rann upp og Kolla byrjaði daginn á því að fara og hitta tvær aðrar mektarkonur hér á stað. Stuttu síðar sást til þriggja jólasveina á staðnum, sem fóru hús úr húsi með gjafir handa spenntum börnunum. Jólasveinarnir komu auðvitað við hér en því miður var Kolla ekki heima þegar þá bar að garði. Eftir fjöruga heimsókn bræðranna úr Skessuhorni, minntist einhver á að jólasveinarnir hefðu nú verið hálf kvennlegir – en því tali var nú bara eytt. Kvennlegir jólasveinar úr Skessuhorni? Snorri hafði nú ekki heyrt aðra eins vitleysu...

Í kjölfar áts og pakkaopnunar var farið í árlegan göngutúr um staðinn og svo var því bara tekið rólega. Jólakortin voru tekin upp eitt af öðru og skiptust forstöðumenn hælisins að Ásvegi 3 á að lesa upp kortin. Ákaflega yndisleg stund og gaman að lesa jólakveðjurnar eins og alltaf. Engin jólaboð voru á jóladag og við héldum í hefðina og fórum upp í Skorradal og gengum þar um í Stálpastaðaskógi. Aldeilis frábær dagur og allir með jólaskapið uppivið, sem er nú heldur til bóta!

Áramótin
Að venju var glatt á hjalla hjá okkur um áramótin. Lítið áramótaboð breyttist í “mörghundruð” manna veislu á augabragði. 4 fjölskyldur (18 manns) sátu hér til borðs og gæddu sér á frábærum veislumat sem allir lögðu til og að sjálfsögðu sáum við um að útvega frábært nautakjöt í alla! Eftir matinn var farið á hina árlegu brennu þar sem nánast allir Hvanneyringar og nærsveitungar stóðu stolltir og horfðu á þetta líka svakalega eldhaf (borgarbúar kalla þetta sjálfsagt varðeld).
Eins og undanfarin ár tóku nokkur fyrirtæki og stofnanir sig til við að safna aurum í flugeldasýningu á áramótabrennunni hér á Hvanneyri. Snorri og Kristján granni sáu um að skjóta öllu saman upp og þótti þetta hið mesta augnayndi. Ein tertan tók reyndar upp á því að byrja að skjóta sér upp í miklum ljóma um leið og Snorri bar eld að og ekki laust við að heyrnin hafi beðið smá skaða af, en hvað er það á við frábæra flugeldasýningu? Svo talar hann hvort sem er svo hátt að smá heyrnarskaði skiptir afar litlu máli! Ekki þótti nú öllum mikið til koma og ákvað Tinna Rós ásamt tveimur vinum sínum að halda til í bílnum og hlusta á útvarpið (undir sætunum í bílnum).
Þegar brennan var brunnin upp (eftir ca. korter) hélt hópurinn heim á leið í Skaupið. Rétt fyrir miðnætti mættu allir Ásverjar (íbúar á Ásvegi) að hólnum við hliðina á húsinu okkar og skutum við upp í sameiningu og var þetta að vanda frábær skemmtun.

Danmerkurferð I
Í lok janúar fór Snorri í sína árlegu Danmerkurferð og að þessu sinni voru 72 (les: túoghalvfjes) undir hælnum á honum. Ferðin tókst vel í alla staði og hafa nú rúmlega 450 manns farið utan með Snorra á landbúnaðarsýninguna sem alltaf er sótt heim. Ferðin er vikuferð og endar alltaf á því að hópurinn kemur til Kaupmannahafnar. Við hjónin vorum búin að ákveða það að hittast í lok vikunnar og ekki er laust við að ákveðin tilhlökkun hafi verið meðal Snorra í rútunni á leiðinni til Kaupmannahafnar, vitandi að Kolla væri komin upp á hótelherbergi og biði þar... Þegar til Köben var lykillinn að herberginu ekki í lobbýinu og æddi kappinn því upp á herbergi og það var að sjálfsögðu læst. “Aha, búin að læsa og allt!”. Bankaði létt – en ekkert svar! Bankaði hækkra – en ekkert svar! Barði látlaust á hurðina í lengri tíma – en ekkert svar! Bíddu, hvað var í gangi? Meira að segja megahitturinn með Herbert Guðmundssyni, “Svaraðu, kallinu, frá mérheheherrr” virkaði ekki, þótt hann væri sunginn af hjartans list á gangi hótelsins. Kappinn geystist niður og fékk ungan vikapilt til að koma með sér upp til að opna herbergið. Þegar inn var komið, var Kolla vissulega í herberginu og rétt til getið: uppi í rúmi – en steinsofandi! Og það sem meira var, fárveik!!! Ekki byrjaði nú rómantíska helgarferðin beint vel. Heilsan kom reyndar hægt og bítandi og var nokkurnvegin komin þegar við fórum heim um borð í Icelandair vél á sunnudeginum!

Helstu afrek ársins:
Snorri: Tók að sér óvenju lítið af nýjum verkefnum!
Kolla: Þagði einu sinni í um eina klst. en var vakandi!
Arnar: Íslandsmeistari innan húss í hástökki!
Hafþór: Ekkert orðið veikur í ár!
Tinna: Lærði að lesa!
Gutti: Lifað skýrlífi í heilt ár!

The Mansion
Kofinn okkar er hægt og rólega að skríða saman og hefur stefnan ekkert breyst varðandi notkun hússins, það á enn að vera tilbúið þegar frumburðurinn fermist (eftir rúmt ár). Á árinu hefur það helst gerst í okkar málum að þeir bræður eru fluttir upp á efri hæðina, þar sem þeir eru í góðu yfirlæti. Klósettið uppi er reyndar ekki tilbúið og heldur ekki herbergið hennar Tinnu Rósar. Við ætlum að klára klósettið sem allra fyrst og svo herbergið hennar Tinnu Rósar. Strákunum þykir nú ekkert sérlega slæmt að geta haft sitt eigið herbergi og það sem mikilvægast er, að geta lokað að sér. Áður voru nefninlega bara hengi fyrir hurðargötunum og þegar skapið er mikið, er afskaplega slæmt að geta ekki skellt hurðum – svona til auka áhrifin og leggja áherslu á hina “léttu” lund. Það eyðileggur einhvernvegin áhrifin að taka sér stöðu við hengið, horfa grimmilega fram á foreldra sína og renna svo henginu til hliðar með tilheyrandi gardínuklið (smá leiðbeiningar: áhrifamest að loka augunum, sjá þetta fyrir sér og fara svo yfir  síðustu setningu aftur í huganum)!

Við þessa búferlaflutninga drengjanna, gat Tinna flutt úr okkar herbergi í “hobbýherbergið” og fyrir vikið höfum við klárað fataherbergið sem er inn af hjónaherberginu (þar sem Tinna var áður líka). Þetta er s.s. allt á réttu róli.

Af orðsnilld
Margir kannast eflaust við frásögnina af því þegar Hafþór Freyr talaði um geimverur hérna um árið. Rifjum hana aðeins upp. Við vorum að aka upp í Borgarfjörð og vorum rétt komin upp úr Kollafirði, þegar Hafþór Freyr (þá 5 ára) sagði upp úr þurru hljóði: “Pabbi eru til geimverur?” Snorri svaraði að bragði: “Nei auðvitað ekki!”. Hafþór Freyr var nú ekki par sáttur við svörin og sagði: “Jú það eru víst til geimverur og það er geimvera í þessum bíl...”. Allir voru nú orðnir nokkuð forvitnir og þá kom skýringin hjá kappanum... “ég er geimvera”. Við börðumst við hláturinn og höfum átt þessa sögu upp í erminni og notað þegar okkur hefur fundist að þessi sjálfslýsing Hafþórs Freys eiga vel við (s.s. nokkuð reglulega). Hann náði þó algerlega að toppa þetta í ár. Dag einn hafði hann verið frekar óþekkur og Snorri var að fara yfir málin með honum í eldhúsinu. Eitthvað varð þeim sundurorða og þótti pabbanum stráksi verða full óhlýðinn. Til að leggja áherslu á orð sín, bankaði Snorri hnúunum í borðið í takt við orðaflauminn og sagði af ákveðni: “Hafþór Freyr, ég vil að mér sé hlýtt”. Hafþór Freyr brást við þessu með eftirfarandi hætti: Horfði ákveðinn framan í pabba sinn, bankaði hnúunum niður í borðið í takt við orðanna hljóðan og sagði svo hægt (svona eins og íslenska fyrir útlendinga): “Af – hverju – ferðu - þá – ekki - í - peysu?”. Samtalið varð ekki lengra.

Einkarekin líkamsræktarstöð á Ásvegi 3
Á miðju ári tók sig upp gamall og reyndar síendurtekinn áhugi á því að brenna mör og voru helstu kostir í stöðunni metnir. Valið stóð um það að bruna í Borgarnes og mæta þar reglulega í ræktina, sprikla hér í íþróttahöllinni með öðrum, eða (og það taldi frú Kolbrún afar snjalla hugmynd, sem hún átti reyndar sjálf) að fá alhliða líkamsræktarstöð og setja hana upp hér í húsinu. Stebbi, bróðir Kollu, átti mikla græju sem hann skildi eftir þegar hann flutti utan og þetta mikla tæki keypti stóra systirin (sem er reyndar yngri en Stebbi) af bróður sínum. Nú í stuttu máli sagt, þá er húsið rúmir 300 fermetrar en hvar endaði svo líkamsræktarstöðin??? Jú í hjónaherberginu! Apparatið hefur þegar risið í hjónaherberginu og vekur mikla lukku meðal heimilisfólks og gesta. Krakkarnir leika sér á stigvélinni, strákarnir lyfta lóðum og æfa sig sem mest þeir mega og krakkarnir í nágrenninu koma hingað reglulega í lóðalyftingar. Hvað varðar upphaflegu hugmyndina, þ.e. að brenna mör, þá höfum við hjónin ekki enn notað tækið að ráði. Stöðin góða hefur hinsvegar eflt og aukið verulega hróður Snorra sem eiginmanns, enda talar frú Kolbrún oft um líkamsræktarstöðina sína í hjónaherberginu við vinkonurnar og er leitun að öðrum eins ummælum konu...
 
Þrír bílar kvaddir á árinu!
Í byrjun árs var Bensi gamli loks klár í slaginn á ný og Brúsi I var kvaddur með viðhöfn og gegnir hann nú störfum í Reykjavík. Í vor bilaði Bensi hinsvegar enn einu sinni og keyptum við þá Súbarú steisjón frá því herrans ári 1998 (hér eftir Brúsi II). Pæja entist svo aðeins fram eftir sumri en fór svo í sína hinstu ferð í Borgarnes og endaði sína annars ágætu lífdaga hjá Sorpu. Kolla fékk sem nemur fjórum rósavínsflöskum fyrir hana Pæju. Bensi var í lagi og ólagi til skiptis fram eftir sumri og því fæddist sú hugmynd að skipta um bíl. Bensi var settur á söluskrá og var farinn innan tveggja vikna. Ákveðin eftirsjá er nú á eftir honum Bensa gamla, en um leið fögnuður í herbúðunum á Ásvegi nr. 3. Það verður nú að viðurkennast að Brúsi II er nú ekki alveg okkar tebolli og finnst okkur hann full lítill fyrir okkar stóru fjölskyldu (les: löngu og/eða hávöxnu fjölskyldu). Þar sem við mundum vel eftir því hve vel okkur leið í amerískum fólksbíl (frá því í USA í fyrra), ákváðum við að leita að góðum amerískum sjö manna fólksbíl með díselvél. Amerískan vegna þess að þeir eru stórir, sjömanna af því að við erum fimm í fjölskyldunni og dísel af því að við keyrum mjög mikið. Öll fjölskyldan kættist yfir málinu og voru allir mjög “innvolveraðir” í ákvarðanatökuna. Í gang fór mikil leit um hina frjálsu Ameríku og fyrir rest kom niðurstaðan. Ef við ætluðum að halda í þennan draum þ.e. um að eiga amerískan sjömanna díselbíl – þá væri eina lausnin í stöðunni að kaupa jeppa! Eitthvað vafðist þetta nú fyrir húsbóndanum. “Jeppa?” Nei, Snorri ætlaði sér nú ekki að taka þátt í hégómaleiknum. Já nei takk fyrir, eða eins og hann orðaði það: “Hvað næst? Einkanúmer?”. Snorri ákvað því að koma í veg fyrir þessi áform með skotheldu trikki og kallaði til hins árlega haustfundar fjölskyldunnar, en rétt eins og hjá öllum stjórnmálaflokkum með þokkalega sjálfsvirðingu, er alltaf haldinn haustfundur fjölskyldunnar að Ásvegi 3 í lok september. Á dagskrá voru hefðbundin haustfundastörf og svo hinn óútreiknanlegi liður “önnur mál”, en eins og lesendur Jólahornsins kannast við, þá eru í gildi mjög sérstakar reglur sem lúta að kosningum hér í familíunni og eru þær reglur yfirleitt kallaðar til verka undir umræddum lið. Þetta er ekki ólíkt því kerfi sem valdhafar í Úkraínu hafa haft til þessa með nokkuð góðum árangri, ja eða allt þar til einhverjir eftirlitsmenn fóru að skipta sér af nú nýverið og fundu út að kosningakerfið var í raun algert plat. Jæja, hvað um það. Eftirfarandi tilboð var lagt á borðið: “Hvað segið þið um að eiga bara áfram hann Brúsa II og í stað þess að kaupa jeppann þá getum við keypt bílskúrshurð, loftaklæðingarefni í stofuna, þær innihurðir sem vantar og jafnvel nýja eldhúsinnréttingu?”. Rétt eins og Snorra grunaði var málið afar einfalt, fundurinn varð stuttur og fjölskyldan ákveðin og samheldin að vanda (ja nema einn). Jeppinn kemur sem sagt til landsins 28. desember og um er að ræða splúnkunýjan (árg. 2000) og glæsilegan (ekinn 100 þús km.) Ford-jeppa af Excursion gerð og hefur hann þegar fengið nafnið Rauður.

Danmerkurferð II
Í september náðum við að draga heimsborgarana og vini okkar, þau Önnu Siggu og Kristján, með til Danmerkur. Föst dagskrá var skipulög með nokkurra daga fyrirvara svo að hægt yrði að gera allt það sem okkur langaði að gera: í fyrsta lagi ekki fara í búðir, í öðru lagi athuga með helstu bari, í þriðja lagi ekki fara í búðir osfrv. En að sjálfsögðu var skipulaginu breytt við fyrsta tækifæri og var “drengjunum” dröslað í allar helstu verslanir sem hægt var að finna. Eitt gátu þeir þó huggað sig við að barirnir voru ýfið fleiri en búðirnar. Eftir að hafa náð ótrúlegum árangri í verslunarferð á fimmtudeginum (sem átti að vera heilagur hvíldar- og drykkjudagur) var ákveðið að skreppa í gamla bæinn okkar Birkeröð á föstudeginum. Þeir héldu að strákarnir væru hólpnir, en sá góði bær hefur líka fínar búðir! Eftir mikla “þolinmæði” gagnvart dömunum voru mennirnir verðlaunaðir með bjór og frönskum vöfflum. Sátum við svo eins og rónar á garðbekk og drukkum bjór rétt um hádegisbil – mjög huggulegt móment.

Í ferðinni gerðist í sjálfu sér mjög margt eftirminnilegt, en nokkur atriði standa þó uppúr. Eitt af þeim var ferð í klúbb á Strikinu. Sveitafólkið ákvað að kíkja aðeins á lífið og skellti sér því á pöbbarölt. Á Strikinu fannst góður staður þar sem hljómsveit ein mikil tróð uppi með “mikinn söng og hljóðfæraleik” (hljómar einhvernvegin betur en þungarokk!). Þar ákvað Kolla að rifja upp gamla tíma (mjög gamla tíma, já eiginlega mjög, mjög gamla tíma) og keypti því tekíla með salti og sítrónu. Það fór svo að fleiri helltu sér í þá deild og úr var mikil skemmtun. Anna Sigga ákvað hinsvegar að halda sig bara við léttari veigarnar til að geta dröslað okkur hinum rétta leið heim að hótelinu (blindur leiðir haltan...) en það þurfti nú reyndar alls ekki. Eftir að hafa náð athygli hljómsveitarmeðlima nokkrum sinnum fyrir frammíköll og dólgslæti var ákveðið að hverfa á braut – en til að gera smá bravör úr þessu tókum við hljómsveitarstjórann tali og buðum þeim að troða upp á Hvanneyri næst þegar þeir ættu leið hjá. Þeir hafa nú reyndar ekki hringt enn...

Á laugardeginum var svo farið í hið margrómaða Tívolí. Þar var tvennt á dagskránni, að fara í nýja rússíbanann og smakka bjórinn. Kristján og Kolla ætluðu að taka það að sér að smakka ölið og vildu eftirláta hinum að fara í banann. Það var að sjálfsögðu ekki tekið til greina. Náhvít skjögruðum við (les: Kolla) upp í stóra rússíbanann og enn hvítari og skjálfandi á beinunum röltum við (les: Kolla) niður eftir að hafa verið sett í einhvern þann lífsins mesta háska sem hægt er að leggja nokkurn í (innskot frá Snorra: tek ekki beint undir svona sterkt orðalag, enda lífsreyndur maður og hef t.d. verið farþegi frú Kolbrúnar í Pæjunni á leið í Borgarnes!).

Á sunnudeginum voru búðir LOKAÐAR og því ákveðið að fara að skoða borgina. “Menningarlegheitin” voru alveg að fara með okkur. Skoðaðar voru kirkjur, hallir, stræti og torg og ekki má nú gleyma blessuðum görðunum. Einn garðurinn er annálaður fyrir náttúrufegurð og líka það að vera samkomustaður samkynhneigðra karla á kvöldin. Þessi staðreynd vakti að sjálfsögðu forvitni drengjanna og þegar í ljós kom á einum stað einskonar troðningur á bak við runna, skelltu þeir sér þangað til að skoða ummerkin. Þau voru all svakaleg og verður ekki lýst hér nánar, en hinsvegar var þessi för þeirra pilta frekar vanhugsuð. Þegar þeir komu til baka úr skoðunarferðinni, vöktu þeir að sjálfsögðu athygli nærstaddra og af hverju? Setjum þetta aðeins í samhengi: Við vorum stödd í þekktum garði þar sem samkynhneigðir karlar hittast og fara saman á bak við runna. Væntanlega koma þeir þá líka saman út úr runnunum, rétt eins og þessi tveir ágætu herramenn frá Íslandi! Ekki þarf að spyrja að því, en að sjálfsögðu sneiddu þeir hjá öllum slóðum og troðningum eftir þetta – amk. svona saman og hönd í hönd...

Í lok dags fórum við svo heim aftur eftir mjög vel heppnaða för til kóngsins Köbenhávn og hafi frú Margrét Þórhildur bestu þakkir fyrir fínar móttökur.

Af niðjum frú Kolbrúnar og Snorra
Blessuð börnin eldast og stækka. Tinna Rós, 6 ára, er mikið til tannlaus núna og það fer henni bara ágætlega. Hún byrjaði í skólanum í haust og var í nokkra daga og svo í verkfalli eins og allir kannast við. Eftir að verkfalli lauk hefur gengið vel í skólanum og er hún ágætasti námshestur. Hún kann ljómandi vel við sig í skólanum en besta vinkona hennar, Svava Sjöfn, er þó enn í leikskóla og getur Tinna Rós vart beðið eftir að Svava Sjöfn byrji líka í skóla. Tinna Rós hefur, ótrúlegt en satt, erft risavöxt fjölskyldunnar og er orðin hátt í 130 cm há. Hafþór Freyr er orðin risi líka og rétt um 160 cm. hár og er 10 ára. Segja má að allt sé við það sama hjá honum. Við förum alltaf á Barnaspítala Hringsins í lyfjagjöf á þriggja vikna fresti og gengur það bara alveg ágætlega. Líkamleg heilsa verið með ágætum sl. ár, en hinsvegar hefur andlegt jafnvægi verið betra. Þetta gengur svona dálítið í hríðarbyljum, en svona er þetta nú bara og er víst algengara en maður heldur, sérstaklega meðal langveikra barna. Í haust byrjaði Hafþór Freyr að æfa frjálsar með bróður sínum og hafa þeir farið saman á æfingar það sem af er vetri. Þeir ákváðu hinsvegar báðir að hvíla píanóleik að sinni. Frjálsu æfingarnar hafa haft mjög góð áhrif á Hafþór Frey og hefur kúluvarpið hentað honum best. Kappinn hefur sett markið hátt fyrir næsta meistaramót í frjálsum, en kúlan flýgur orðið um 10 metra sem er mjög góður árangur. Arnar Hrafn orðinn 12 ára og byrjaði árið með því að verða Íslandsmeistari innanhúss í hástökki drengja og setti um leið Borgarfjarðarmet. Á árinu hefur hann svo tvíbætt metið og í dag er það 150 cm! Hann hefur æft frjálsar af krafti í ár og varð hann annar utanhúss á Íslandsmótinu. Þar sem frjálsar æfingar eru nú “bara” 2-3svar í viku hefur hann æft samkvæmisdansa til viðbótar. Eins og í hástökkinu er hann mikill keppnismaður og hefur hann þegar náð að vinna til verðlauna í greininni og stefnir hann og hans dansfélagi til metorða í faginu. Þessir hæfileikar leynast nú í foreldrunum, eins og flestir taktöruggir vita og hafa séð. Sveiflurnar og trikkin sem við kunnum á dansgólfinu eru auðvitað með ólíkindum, svo mögnuð eru nú tilþrifin að Arnar Hrafn hefur þráfaldlega beðið okkur um að hætta að dansa þegar hann og/eða aðrir sjá til. Þetta er kórrétt mat hjá honum, svona leynivopn eins og okkur, ber að varðveita og beita svo á ögurstundu.

Lind
Félagið Lind, sem er stuðningsfélag einstaklinga með ónæmisgalla (eins og Hafþór Freyr hefur), hefur komið upp heimasíðu með upplýsingum um þennan sjúkdóm og er slóðin www.onaemisgallar.is. Að sjálfsögðu tróð Kolla sér í stjórn félagsins og í október fór stjórnin til Parísar á alþjóðlega ráðstefnu um ónæmisgalla. Eftir að hafa náð að skoða París í mýflugumynd var setið undir mjög svo fróðlegum  fyrirlestrum alla dagana. Ráðstefnunni lauk svo með galadinner á laugardagskvöldinu. Þar sátu allir Íslendingarnir saman ásamt einni Írlandi.  Þegar líða tók á kvöldverðin ákvað Kolla að spjalla við dömuna frá Írlandi. Til að opna fyrir tilvonandi samræður var að sjálfsögðu mjög áríðandi að hafa fyrstu spurninguna mjög fagmannlega. Eftir vel úthugsað mál dró frúin upp engilsaxneskuna og slengdi fram þeirri mjög svo eftirminnilegu spurningu: “How many are in your orgasm?”. Konu greyjið, sem varð fyrir þessari frökku framkvæmdastýru frá Hvanneyri, átti hreinlega ekki til orð (“orgasm” þýðir s.s. ekki félagasamtök (organitation) heldur lýsir orðið ákveðnu líkamlegu og andlegu ástandi!). Eftir nokkrar vandræðalegar sekúndur átti hún hinsvegar til ýmislegt annað, dæmi: gríðarlega mikinn hlátur, hláturtár, hláturmagaverki ofl. Frú Kolbrún áttaði sig um síðir á þessari snilld sinni  og hvarf jafn hratt niður í eigin hugsanir og það tók roðann að birtist á kinnunum...

Svíþjóðarferð Snorra
Heja. Jevla bra. Intet mere at sige fordi han var jo i Sverge ikke i Norge eller i andet fantastiskt land!

Fjölskyldumót afa og ömmu á Skeggjó
Árlegt fjölskyldumót afa og ömmu á Skeggjó (móður afi og amma Snorra) var haldið að þessu sinni á vegum Togga frænda. Allir hittust í góðum gír í húsi Landsvirkjunar við Þingvallavatn (já eða afrennsli þess). Þar ákváðu börnin að halda til veiða og fengu þau góðu ráð frænda síns að best væri að veiða við skiltið sem á stóð “Veiði Stranglega Bönnuð”! Eðlilega vakti skiltið furðu nærstaddra en skýringin kom jafnharðan, “jú sjáiði til þetta er skilti sem Landsvirkjun setur upp við bestu veiðistaðina þannig að aðrir veiði ekki þar!” Það var rétt hjá Togga, þvílíkur veiðistaður. Að öðrum ólöstuðum stóð Hafþór Freyr sig best í lönduninni og gengu stærðar silungar (á stærð við löngutöng hægri handar) á land sem aldrei fyrr. Þar sem lítið var um matfisk í aflanum, var ekki hugað nánar að honum, en gaman var þetta og það var nú fyrir öllu. Ekki síður að hitta alla familíuna, en til stóð í ár að bjóða frændsystkinum í heimsókn hingað á Hvanneyri en það hafðist ekki fyrir húsbyggingarmálum – en stendur til bóta.

Gutti hinn hárfagri
Hann Gutti okkar er samur við sig. Farinn að eldast en er sprækur sem lækur. Hann elskar Guð og menn en hatar póstmanninn. Í byrjun árs var hann bundinn framan við útidyrnar og það var ekki fyrr en á vordögum að við áttuðum okkur á því að suma daga fengum við engan póst en aðra svakalega mikinn póst. Í ljós kom að skýringun var að finna í samskiptum þeirra Gutta og póstmannsins. Gutti hreinlega verður snar vitlaus þegar hann nálgast húsið og ef hann er fyrir framan útidyrnar, þar sem póstlúgan er, þá kemur bara enginn póstur þann daginn! Núna þarf Gutti að dúsa á bak við hús en unir sér svo sem vel þar og svo hefur hann forstofuna út af fyrir sig og stundum meira að segja stofuna líka. Hundahár fara reyndar nokkuð fyrir brjóstið á hr. Snorra, “en svona er það Snorri minn þegar maður á hund” er stundum sagt. Snorri hefur jafnoft minnt á að hann vildi gúbbífisk en frú Kolbrún hund en það er nú ekki tekið með svona mörgum árum síðar!

Nýja orðatiltækið
Eins og þið munið þá fékk Kolla Orðabók Háskólans til að samþykkja tvö ný orðatiltæki á árinu 2003: “Noh, og hvað tók þetta nú langan tíma?” og hið sígilda: “Ertu ekki eftir þig eftir þetta erfiði?”. Bæði orðatiltækin lúta að sama verkþætti og lýsa í raun áþekku hugarástandi spyrjanda (vanþóknun og skilningsleysi). Í ár fæddist henni enn eitt orðatiltækið: “Viltu ekki fara inn og leggja þig ástin mín?”. Sami ferill er farinn af stað á milli Kollu og Orðabókarinnar. Þetta nýja máltæki hefur verið notað í nokkur æfingaskipti hér á heimilinu í kjölfar fæðingu þess, en það kom til þegar Snorri hafði skipt um peru í einu útljósinu, sem hafði verið sprungin vel á þriðja mánuð. Að vanda þarnaðist verkið, eins og önnur, skipulags og undirbúnings. Réttra verkfæra og viðhafnarklæðnaðs. Og síðast en ekki síst tíma. Það þurfti nú að finna réttan tíma til að gera þetta og eiga nóg af honum, enda liðu hátt í tvær mínútur frá því brottför úr andyrinu var tilkynnt og þar til hann kom inn aftur.

Kollubúð
Verslun frú Kolbrúnar heitir nú Kollubúð og höfum við breytt nokkuð um áherslur í búðinni. Kertaljósið ehf. er ennþá til og rekur það Kollubúð, eins og Hreppslaug. Reksturinn gengur bara ágætlega og var t.d. mikið fjör í Hreppslaug í vor. Gerður hefur verið leigusamningur á milli Ungmennafélagsins Íslendings og Kertaljóssins um rekstur laugarinnar allt fram að næsta áratug. Í tilefni af 75 ára afmæli laugarinnar var “Gamla góða Hreppslaug”, eins og segir í auglýsingunni tekin til verulegra viðgerða og endurbóta. Breytingarnar tókust mjög vel og sundlaugargestir hæstánægðir með þetta allt saman. Nú er komin aðstaða til að sitja og borða í húsnæðinu við laugina og jafnframt er sjoppan mun stærri en verið hefur. Kertagerðinni var lokað hjá okkur í haust, eftir að ákveðið var að fjölga borðum og stólum fyrir gesti og gangandi. Til stendur að klára á næstu vikum, en þá verður hægt að fá sér svona alvöru kaffi eins og á kaffihúsi, heita súpu, nýbakað brauð og margt fleira. Við höfum jafnframt sótt um stærra húsnæði fyrir reksturinn og vonandi fáum við það á næstunni enda ýmis áform í gangi varðandi framtíðina.

Baktjaldamakkið
Eins og flestir vita kann og skilur Snorri ekki orðið nei. Í haust reyndi t.d. á það þegar sett var upp hið frábæra leikrit Blái hnötturinn, eftir Andra Snæ Magnússon. Þar sem Kollubúð rekur sjoppuna í félagsheimilinu þar sem sýna átti leiritið, datt Snorra í hug hvort ekki væri ástæða til að bjóða smá aðstoð baksviðs. Hann eða Kolla væru þarna hvort eð er í hléi! Nema hvað, þetta varð til þess að hann varð að fullgildum sviðsmanni m.m. á mettíma og í hönd fóru æfingar og æfingar við leikritið. Þessi smá aðstoð breyttist bara í töluvert mikla aðstoð, en var mjög skemmtilegur tími fyrir því. Leikritið tókst svo mjög vel og fékk meðal annars þau eftirmæli Andra Snæs að tæknin í sýningunni tæki Þjóðleikhúsinu fram og þá voru nú sviðsmennirnir ánægðir (það eru fimm sviðsmenn svotil á fullu allan tímann) enda rignir á sviðinu, geimflaug birtist sí svona og leikararnir fljúga um loftin blá í vírum og þessu verða sviðsmenn að stjórna.

Njólar og Hvannir
Eins og allir vita er Kolla mjög feimin og gætir hófs í öllu sem hún gerir. Á liðnum vetri kom þetta sterka eðli hennar skýrt fram er blaklið kvennanna á Hvanneyri þurfti á nýjum búningum að halda. Frú Kolbrún stakk upp á að bolirnir yrðu bleikir og bláir á litin, aðskornir með meiru, flegnir og ermalausir, svona í Britney Spears stíl. Hvannir, en það heitir liðið, fékk í lið með sér stórfyrirtækið Henson og tókst það á við verkefnið. Ekki fer reyndar fleiri sögum af blakliðinu Hvönnum á liðnu ári né árangri þeirra í mótum. Hver er svo sem að spá í slíkt? Hinsvegar er þeim sem hafa áhuga á að sjá nýja búninginn hjá Hvönnum bent á að koma og hvetja liðið á öldungarmótinu á Akureyri í apríl nk.

Njólarnir (old boys blak) hafa lagt stund á miklar æfingar það sem af er vetri. Markmið blakæfinganna er að fá eitt kvöld í viku án kvenna, en það hefur þó ekki alveg gengið upp þar sem ekki næst alltaf í fullt lið (ath. ekki drukkið lið) til æfinga og því hafa dömurnar dregið mennina að landi. Einhver áherslumunur er nú á æfingum Njólanna og Hvannanna og aðalmál Njólanna hefur verið að hittast og slá boltann yfir netið. En ásetningur kvennanna er einhver annar. Þær vilja alltaf keppa og fara á mót og tapa þar. Njólarnir gera sér hinsvegar mun betur grein fyrir eigin getu og æfa því bara í einrúmi og hafa gaman af!

Maðurinn með prjónana
Kolbrún hefur á liðnu ári verið á andlegu nótunum og dag einn í haust hringdi hún í ofboði í Snorra. Erindið var að senda hann heim í Mansjonið til að hitta að máli mann einn sem hefur ferðast um landið þvert og endilangt í leit að rafbylgjum. Hugmyndafræðin felst í því að einhverjar ógurlegar rafsegulbylgjur geysast úr iðrum jarðar og upp í gegnum húsin okkar og eina leiðin til að komst hjá því að lenda í klóm þessara bylgja er að kaupa sérstakan búnað á fimmtíuþúsundkall til að halda bylgjunum annarsstaðar. Nema hvað, Snorri er nú frekar skeptískur á alla svona þætti en leyfði þessum góðlega rangeyga manni að þramma um húsið. Hann hélt á prjónum í sitt hvorri hendi og snéri hann þeim beint fram. Öðru hverju snarsnérust þeir og fóru í kross þá sagði karlinn: “Hér er bylgja” og svona gekk hann um húsið og fann einar átta bylgjur í húsinu. Snorri var nú farinn að brosa að þessu öllu en þá gall upp úr karlinum: “Hvar er hjónarúmið ykkar?”. Snorri varð nú hálf undrandi en benti á herbergið. Karlinn góði gekk rakleiðis inn og hélt prjónunum ógnandi út í loftið. Hann fetaði sig áfram og allt í einu “svíng” (látið hljóðið hljóma fyrir eyrum ykkar) prjónarnir snarsnérust í kross og beint yfir koddanum hennar Kollu. “Hér er bylgja!”, hrópaði karlinn. Svo gekk hann hægt áfram og aftur “svíng” og sagan endurtók sig, að þessu sinni beint yfir kodda Snorra. Karlinn varð íbygginn á svip og sagði svo: “Hér getur nú varla verið mikið fjör, bylgjurnar fara beint í gengum hausana á ykkur hjónum”. Snorri ákvað að segja ekkert (það sem er ekki sagt, getur ekki verið notað gegn manni). Annars var þetta afar merkilegt! Við höfðum heyrt um þetta hjá fleirum, þ.e. að svona væri þetta nánast alltaf þegar þessi kappi kæmi í heimsókn. Alltaf fara bylgjurnar beint í gengum koddana hjá fólki! Það sem var enn merkilegra var að við færðum rúmið til hliðar um ca. 40 sm. stuttu áður til að koma fyrir líkamsræktarstöðinni góðu sem áður hefur verið rætt um. Snorri þurfti ekki frekari sannanir fyrir þessu bulli og bað manninn góðfúslega að hverfa á braut. Snorri eyddi svo því sem eftir lifði dags að gera mikið grín að Kollu vegna þessarar ótrúlegu trúgirni hennar á svona “bull” eins og hann kallaði það. Kolla var eiginlega farin að hálf skammaðist sín fyrir þetta allt saman, en svo var komið að háttatíma. Snorri fór uppí á undan og þegar Kolla kom inn í herbergið var hann í óða önn við að færa hjónarúmið aðeins til baka. Hálf skömmustulegur tuldraði hann fyrir munni sér “ja maður getur varla tapað á því”... Ekki verður farið nánar í sögur úr hjónaherberginu, en við verðum þó að viðurkenna að hvar sem rúmið er þá... nei við segjum ekki meira og hananú!

Gangan mikla...
Þegar þessar línur eru ritaðar, stendur jólaundirbúningur sem hæst. Farið var í sérstakan bæjarleiðangur rétt fyrir jól til stórborgarinnar. Eftir að hafa eitt nokkrum tíma með börnunum í Smáralind voru þau sett í fóstur þar sem foreldrarnir þurftu að versla gjafir fyrir þau. Brunað var á Hótel Ísland þar sem gista átti um nóttina (BARNLAUS) og frá hótelinu var svo stefnan sett niður á Laugarveg. Snorri gekk út af hótelinu af röggsemi og rak höndina upp í loft til að veifa næsta leigubíl, en þá gerðist það. Kolla mælti eitthvað en undirmeðvitundin ruglaði sendinguna strax. Þrátt fyrir afar þróað kerfi við að leiða ákveðið eiginkonutal hjá sér, tókst Snorra ekki að flýja þetta. Orðin voru sem brennimerkt á heilann og hann sá Kollu fyrir sér segja þessi orð aftur og aftur. Hárin risu á höfðinu á honum og ískaldur hrollurinn skrölti niður eftir bakinu. Hans mesti ótti var orðinn að raunveruleika. Nokkuð sem hann hafði grunað um nokkurn tíma, en ekki þorað að minnast á af ótta við aðgerðir. Eitthvað sem átti eftir á ásækja hann lengi og gerir enn. Hún var orðin brjáluð! Kolla hafði, eftir allt sem þau voru búin að ganga í gegnum á rúmum 18 árum, lagt til að þau myndu ganga. GANGA??? Snorri náði ekki upp í nef sér (og er þá mikið sagt enda ekkert smotterí) þegar hann loks náði að skilja frúna. GANGA??? Snorri, sem eins og allir vita að er annálað hraustmenni, gat ekki orða bundist vegna þessarar tillögu. “Fyrirgefðu frú Kolbrún, en ef þú vissir það ekki þá hefur þegar verið fundið upp magnað tæki sem kallast hjól!” og svo bætti hann við “... og líka enn magnaðari græjur sem kallast leigubílar og strætóar og þegar árið er 2004 og úti er frost, þá gengur maður ekki um í Reykjavík!”. Í stuttu máli sagt þá tuðaði maðurinn látlaust yfir þessu líkamlega ofbeldi sem hann var beittur, ALLA leið frá Ármúla og niður á Hlemm. Það var ekki fyrr en rétt um ellefu að það sljákkaði í kauða, enda innkaupum þá lokið. Síðar tók sig upp gamalt tuð – sem var látið sem vindur um eyru þjóta – þegar heimferðin hófst á ný, fótgangandi. Við lifðum þetta nú af, þrátt fyrir bölsýn húsbóndans.

Mr. Griswald
Snorri er búinn að vera eins og lítið barn í sælgætislandi. Hann skreytti húsið með gömlu ljósunum okkar (stakk þeim í samband aftur) og hefur eytt allmörgum kvöldum sitjandi inn í eldhúsi umkringdur útiseríum sem enginn vildi eiga og af hverju ætli það sé? Jú, nokkrar eru frekar tannlausar, aðrar eru í verkfalli og svo eru nokkrar sem grátbiðja um eilífðarhvíld. En mottóið hans Snorra er, “Ég get allt”. Og upp fara seríurnar að lokum (ætli að hann sé á góðu tímakaupi?). Kolla heldur því reyndar fram að þetta sé sk. uppgerðargleði og -hobbý til að komast hjá því að taka þátt í jólahreingerningunni. Kolla sér hins vegar algjörlega um skreytingar innandyra og tapar sér alveg í þeim efnum, en sjón er sögu ríkari.

Köttur úti í mýri
Er þetta nú ekki að verða bara ágætt. Slær amk. Þráinn Bertelsson út. Komið nú endilega við þegar og ef þið eigið leið hjá, hver veit nema það taki sig upp gestrisni hjá okkur – þið vitið það ekki að óreyndu! Annars getum við svona í lokin miðlað dýrmætri reynslu systur Snorra ef þið stefnið á að koma í heimsókn. Nr.1 hringja fyrst og athuga með veður og færð. Nr. 2 pakka niður helstu nauðsynjum (hitapokar, matur, aukaföt, talstöðvar, vasaljós, batterí ofl.). Nr. 3. láta vita af ferðum ykkar, bæði brottfarartíma og áætlaðan komutíma á áfangastað... þetta eru nú einu sinni heilir 76 kílómetrar frá Ártúnsbrekku eða eins og að skreppa tvisvar sinnum frá Seltjarnarnesi og inn í miðbæ Hafnarfjarðar (já og til baka líka)! Jæja, nóg komið í bili enda væntanlega enginn að lesa lengur.

Hafið það nú ofsalega gott um jólin og áramótin og vonandi sjáumst við fljótlega.

Bestu kveðjur frá Hvanneyri,

Snorri, Kolla, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti og Brúsi II


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband