Jólahornið 2003

Jólahornið 2003
2. árg., 1. tbl.

Sæl öll, takk fyrir síðast og gleðileg jól
Úff, ja hérna hvað tíminn líður hratt! Nú eru komin jól aftur og við varla búin að ná af okkur spikinu frá síðustu jólum! Þrátt fyrir þennan tímafaktor hefur gríðarlega margt gerst á árinu og rétt að grípa á nokkrum stöðum niður í dagbók fjölskyldunnar að Ásvegi 3...

Jólakveðjurnar skemmtilegu
Jólin gengu sinn vanagang og eins og alltaf voru jólakortin lesin upp eftir kvöldkaffið og skiptumst við á að lesa þau. Alltaf jafn gaman að lesa fréttir af fólki. Nokkrir “klassíkerar” voru í hópnum, eins og t.d. “kær kveðja, xxxx og börn”, eða þessi: “Þökkum liðið”. Frumlegheitin í fyrirrúmi, en ekki viljum við kvarta – það er hugurinn sem skiptir máli og við erum alltaf svakalega ánægð með kortin sem við fáum (og það er dagsatt) og það mikilvægasta: OPNUM ÞAU EKKI FYRR EN Á AÐFANGADAGSKVÖLD (annað en sumir sem hafa vafalítið nú þegar þakkað okkur fyrir bréfið!!!).

Sprengiregnið
Fyrir áramótin stóð Snorri, ásamt nokkrum öðrum körlum (sem einnig eru með bömmer yfir því að vera ekki lengur strákar), að söfnun á meðal helstu fyrirtækja og stofnana á Hvanneyri. Safnað var fyrir flugeldasýningu á áramótabrennunni og tókst það mjög vel. Snorri og félagar skutu upp heilum haug af flugeldatertum. Áramótin hér eru allsérstök og í mjög föstum skorðum, eins og fram kom í síðasta jólabréfi okkar. Brennan er t.d. alltaf auglýst kl. 21, en byrjar þó alltaf korteri fyrr eða svo! Þetta er vegna þess að brennustjórinn er alltaf svo viss um að timbrið sé blautt og að það verði að “hita það upp”. Þetta er í raun frábær áramótahefð og við hin spilum með, með því að mæta alltaf á auglýstum tíma (allir voða hissa þegar brennan er löngu byrjuð). Á brennunni skiptast svo krakkarnir á að skjóta flugeldum hvert í annað (svo mikill munur eftir að þessi öryggisgleraugu komu til). Á sama tíma hellir fullorðna fólkið í sig og stígur á brennandi timbur og drasl þar sem það sér ekki neitt vegna móðu innan á öryggisgleraugunum. Allt voða heimilislegt. Um miðnættið, um áramótin síðustu, buðum við svo fólki í heimsókn til okkar og héðan var skotið upp þvílíku magni af flugeldum að undir tók í fjöllunum. Venju samkvæmt var Tinna Rós ekkert hrædd (döh), en þurfti bara að skreppa á klósettið rétt fyrir miðnættið og var þar langt fram á þetta ár. Skemmtileg tilviljun að sitja svona af sér mestu skoteldana á gluggalausu klósetti, inn í miðju húsi! Annars var sýningin svo góð að sumarbústaðagestur í uppsveitum Borgarfjarðar sá sig tilneyddan til að hringja inn í Rás 2 og láta vita af þessu fólki á Hvanneyri! Þið hefðuð átt að sjá andlitin á körlunum, þeir urðu eins og smástrákar með kínverja (ath. lítið “k” í kínverji). Hreint ljómuðu og stoltið skein úr hverju andliti. Toppnum náð: flugeldasýningunni var hrósað í beinni útsendingu...

Líkamsræktarátakið 2003
Snorri byrjaði árið með krafti á líkamsræktarátaki. Reyndar hófst átakið fyrir áramót, svona til að hann þyrfti ekki að viðurkenna að hann tæki þátt “í þeirri vitleysu sem þorri þjóðarinnar gerir”, þ.e. að tálga af sér kílóin í móral eftir hátíðarnar. Hann mætti tvisvar og gat ekki meira. Segist þó stunda líkamsrækt reglulega og ætli næst að mæta fyrir áramót og svo aftur einu sinni eftir áramót og svo koll af kolli næstu árin!

Og enn á spítalanum...
Janúar leið hratt og vel og áður en við vissum, var komin hin klassíska þriðja helgi í janúar, helgin þegar Snorri fer alltaf til Danmerkur með stóran hóp bænda með sér. Að þessu sinni voru 63 með í för og tókst ferðin vel. Stuttu eftir heimkomu var komið að árlegri sjúkrahúsvist Hafþórs Freys. Akkúrat ári eftir gjörgæsludvölina, vorum þeir feðgar aftur komnir um borð í sjúkrabíl á leið suður til Reykjavíkur. Að þessu sinni komin upp alvarleg lungnabólga sem þurfti meðhöndlunar við á barnaspítalanum. Skrítin stemming þarna á spítalanum, hjúkkurnar þekktu Hafþór aftur og buðu hann velkominn! Eins og maður hafi saknað þess að vera þarna? Þarna dvöldum við hjónin með hann í viku eða svo. Eftir þetta var lyfjagjöfinni breytt og hefur hann síðan þá farið þriðja hvern föstudag á Barnaspítala Hringsins í lyfjagjöf. Smá tíma tók að stilla lyfjagjöfina rétt, en nú hefur hann ekki veikst lengi og vonandi allt komið í rétt horf. Lyfjagjöfin er hinsvegar komin til að vera um ókomna tíð. Erfðagalli segja þeir, já þetta hlýtur að valda ykkur sjokki. Ekki vafi að þið hugsið nú: ”Erfðagalli?, nei það getur bara ekki verið – Kolla og Snorri eru svo fullkomin!”, er það ekki? Auðvitað eigum við ekki að vera að grínast með þetta, enda býr ávalt hjá okkur óttinn um að hann veikist alvarlega aftur. Hinsvegar er okkar viðhorf einfaldlega þannig að okkar glös eru hálffull, ekki hálftóm – og þannig er það nú!

Nýja orðatiltækið
Fljótt var kominn miður mars og komið var að hinni hefðbundu jólaseríuniðurtöku. Venju samkvæmt hafði húsbóndinn trassað að taka niður seríuna, en einhverra hluta vegna harkaði hann þetta af sér eitt kyrlátt kvöld (við hafið... eins og Bubbi orðaði það). Stórvirkið tók um 5 mínútur! Ekki væri ofsagt hér að Kolla hafi notfært sér atburðinn alloft í þeim eina tilgangi að hæða og spotta. Nú er meira að segja svo komið að Kolla hefur fengið Orðabók Háskólans til að samþykkja: “Noh, og hvað tók þetta nú langan tíma?”, sem löggilt orðatilæki. Það þýðir, samkv. Orðabók Háskólans: “Á við um ákveðið verk og/eða vinnu, sem einhver (les: eiginmaður) hefur trassað óhóflega en tekur svo örskamma stund þegar viðkomandi loks drattast til að byrja á viðkomandi verki”. Eins og gefur að skilja tók Snorri þetta nokkuð nærri sér og hefur ákveðið að bæta sig. Hann hefur sett sér nýtt markmið varðandi jólaseríuniðurtöku: næst er stefnt að því að taka hana niður í mars (á sama tíma og síðast) en á styttri tíma!

...og áfram skröltir hann þó...
Komið var fram í apríl, þegar Bensi fór að hiksta. Drifið var að klikka og millikassi. Viðgerðin stefndi í óhuggulega tölu og var tekin sú óþægilega pólitíska ákvörðun að leggja bílnum á meðan beðið yrði eftir notuðum varahlutum utan úr heimi. Við tóku hræðilegar stundir hjá Snorra, við það að aka Pæju til Reykjavíkur og til baka nokkrum sinnum í viku, langt fram á sumar. Snorri var reyndar orðinn lunkinn við að komast suður, án þess að nokkur tæki eftir honum. Lagði iðulega fjarri landbúnaðarráðuneytinu eða öðrum fundarstöðum og var bara nokkuð sáttur við sig og sína. Svo kom auðvitað að því að upp um kauða komst. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins gerðist það fyrst: Pæju var lagt fjarri Laugardagshöllinni, upp á grasi, mitt á milli stórra bíla. Snorri valdi af kostgæfni stóra og fyrirferðamikla bíla, þannig að Pæjan myndi draga að sér sem minnsta athygli (sem er reyndar erfitt með bleik-fjólubláa Lödu). Það dugði þó hvergi til, því frændi hans kom auga á útgerðina og þar með var spilaborgin byrjuð að falla. Stuttu síðar, á samninganefndarfundi bænda og ríkisvaldsins, var Pæjunni lagt á bak við Rúgbrauðsgerðina. Innan um bíla þjónustufólks og ræstitækna. Þarna taldi Snorri sig öruggan, en hvað gerðist? Jú sjálfur ráðuneytisstjórinn var bíllaus og bað um far! Formaður samninganefndar ríkisins bað um far! Auðvitað skutlaði Snorri sjálfum ráðuneytisstjóranum upp í ráðuneyti, annað var ekki hægt. Hinsvegar hefur sá hinn sami ekki beðið aftur um far...

Þingmaðurinn
Enn hélt vandræðagangurinn áfram, kosningar voru í framundan og þar sem Snorri var í baráttusæti í Norð-Vestur kjördæmi (15. sæti!) þurfti að sækja nokkra fundi og halda framsögur. Þetta gekk allt í raun vel, Pæjan skilaði sínu, en vakti etv. óþægilega mikla athygli á svartklædda slánanum sem ók henni. Hvort sem það var bílnum að kenna eða einhverju öðru, rann varaþingmannssætið Snorra úr greipum þegar fyrstu tölur voru lesnar (að vísu hefði flokkurinn þurft að fá alla þingmennina, og svo helmingur þeirra að missa heilsuna til að möguleikinn hefði komið upp, en samt...).

Litla hafmeyjan
Hreppslaug rak á fjörur okkar í byrjun maí. Undanfarin 73 ár hafði hún verið rekin af Ungmennafélaginu Íslendingi hér á svæðinu, en eftir ágætt samstarf undanfarin ár við fyrirtæki okkar Kertaljósið, var okkur falið að reka laugina sl. sumar. Við tókum verulega til hendinni og rákum laugina af myndarskap (að okkar mati) fram á haust. Snorri sat flestar vaktir í lauginni, en hún var einungis opin eftir hefðbundna skrifstofuvinnu Snorra. Margt skemmtilegt gerðist í sumar, en þó standa uppúr nokkur skipti. Hér verður þó einungis greint frá því þegar unga parið varð full ástfangið, svo ástfangið að grípa þurfti inn í atburðarásina – já, nei það er ekki hægt að setja svona í huggulegt jólabréf. Spyrjið bara um söguna næst þegar við hittumst! Tinna Rós fór mjög oft með pabba sínum í sund og varð raunar alsynd á nokkrum vikum. Þegar hausta tók var hún orðin kaffibrún eftir allt sundið og klárlega komin með sundfit eins og lítil hafmeyja.

Einn, tveir og rembast
Að vanda héldum við í víking norður yfir heiðar um miðjan maí og venju samkvæmt var stefnan sett á Hriflu í Þingeyjarsveit. Aumingja fólkið. Við höfum komið okkur upp þessum ágæta vorsið og þau sitja uppi með hann! Við mætum þarna yfirleitt nokkru fyrir helgi og höngum þarna eins og vistmenn á Kleppi fram á sunnudag og/eða jafnvel lengur! Að þessu sinni dvöldum við í 3 nætur og vorum auðvitað svo skrambi “heppin” að Hafþór tók pest og þurfti á barnaspítalann á Akureyri. Mikið fjör og mikið gaman og að vanda var þetta Júróvísjón-helgi. Allir fyldust með af áhuga, sér í lagi Snorri og Vaggi þegar rússnesku söngkonurnar komu fram. Þeim, og flestum öðrum til sárra vonbrigða, gerðu þær ekkert á sviðinu annað en að syngja. Annars gekk sauðburðurinn vel fyrir sig og allir voru sáttir við ferðina og reyndar höldum við að Hriflungar hafi nú lúmskt gaman af þessu brjálaða liði frá Hvanneyri!

Kárahnjúkasamningar hvað?
Svo kom sumarið loksins, loksins af því að þá átti að byrja að vinna í garðinum. Undirritaður var stærsti verktakasamningur, sem gerður hefur verið á milli okkar og Jörva hf. á þessari öld, og svo var hafist handa með gröfur og vörubíla í garðinum okkar. Nokkra daga í röð möluðu tækin hér utan við húsið og formuðu til mold og grús í heppilegar fellingar og hæðir. Kolla stýrði verkinu af stakri snilld, stóð og benti í allar áttir og vörubílar, jarðýtur og gröfur hentust til og frá eftir hennar vilja. Eftir rúmlega 100 vörubílshlöss af mold, var garðurinn grófmótaður!!! Það væri hreinlega ósatt að halda því fram að þessi vinna hafi ekki vakið töluverða athygli og umtal. Ekki var umtalið minna í fjölskyldunni, en af öðrum toga. Þar hafði fólk mestar áhyggjur af því að verða boðið í mat til okkar, en eins og allir vita (eða eiga að vita) eiga vinnuföt alltaf að vera með í för... Slíkt boð myndi að sjálfsögðu kalla á aðstoð við að leggja þökur og vissulega lentu ýmsir í þeirri vinnu (er frekar auðvelt verk, bara muna að setja grænu hliðina upp). Allt gekk þetta nú ljómandi vel, kostnaðurinn alls ekki yfirþyrmandi og fjölskyldan þrælnýtt við þökulögnina, plöntun trjáa og plantna. Svo mikið gekk raunar á að einn staðarbúinn kallar garðinn okkar, skrúðgarðurinn sem kom um nóttina! Garðurinn er reyndar ekki fullbúinn (hvenær er garður fullbúinn?) en verður vonandi langt kominn næsta sumar. Þetta lítur í það minnsta vel út og veit á gott í framtíðinni.

Hinir alræmdu fundir
Eins og flestir vita heldur fjölskyldan á Ásvegi 3 reglulega fjölskyldufundi, þar sem tekin eru fyrir helstu málefni lands og þjóðar – þau krufin og í kjölfarið lagt á ráðin um framtíðina. Þetta ár var hreint ekki frábrugðið fyrri árum hvað þetta snertir. Til dæmis var haldinn fundur sl. sumar þar sem Kolla lagði fyrir fundinn svohljóðandi tillögu: “Hver vill fara til Reykjavíkur að kaupa DVD-spilara og fara í bíó?”. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum. Einn aðili sat hjá af ótta við hefndaraðgerðir. Önnur tillaga var lögð fram síðar, aftur af Kollu: “Hver vill fara til Flórída í Disney-world?”. Tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum. Einn fundarmanna greiddi ekki atkvæði þar sem hann sá ekki atkvæðahnappinn fyrir tárfullum augum. Eftir þessa tvo tiltölulega dramatísku fundi hefur fjölskyldufaðirinn einhvernvegin ætíð náð að koma í veg fyrir frekari fjölskyldufundi af ótta við skelfilegar afleiðingar!

Af hundum
Á árinu tókst okkur að losna við annan hundinn. Depill var sendur norður á Akureyri til vistunar þar. Húsbóndanum (les: Snorra) þótti nefninlega nóg um þegar búið var að éta klæðninguna í forstofunni og utandyra, spariskóna, lopasokka og sitthvað fleira. Gutti var bara sáttur við þetta allt og er besta skinn. Hann lenti þó í alvarlegu atviki í haust utan við húsið. Gutti, sem alltaf er í keðju hér fyrir utan, átti sér einskins ills von þegar að kom tík á lóðaríi og hreinlega bakkaði undir kappann! Þetta flokkast á okkar bæ undir nauðgun og var því meðlagsgreiðslum þegar mótmælt. Til þess kom þó aldrei, þar sem tíkin þoldi ekki meðgönguna og gaf upp öndina (sem flaug yfir netið og small í vellinum og stigið vannst (?)).

The candlelight - Kollubúð
Á þessum bæ tosast hlutirnir enn áfram. Viðskiptin hafa breyst og mikið nú að gera í hádeginu, enda á annað hundrað nemendur í skólanum núna. Kertabransinn jafnast ekki á við hugbúnaðarbransann í dag, en er líklega í næstu tröppu fyrir ofan (?).

Helsta afrek Snorra á árinu: líkamsræktarátakið 2003.

Og allir saman nú: velkominn í fjölskylduna Brúsi
Á árinu var fjárfest í stórglæsilegum Súbarú, hér eftir nefndur Brúsi, árgerð 1991. Kostaði innan við 80% af verði eins drifskafts í Bensa og hefur ekki bilað enn... Nú á aðventunni lítur allt út fyrir að Bensi komist aftur á götuna fyrir áramót og samkeppni því fyrirsjáanleg á milli Bensa og Brúsa. Líkur benda þó til þess að báðir fái að fjúka og að fjárfest verði í nýjum vagni. Nafn, tegund og árgerð í næsta jólabréfi.

Nýjir vöðvar fundnir
Í águst sl. urðum við hjónin svo ljónheppin... að uppgötva hjá okkur alveg glænýja og hingað til ónotaða vöðva. En þannig vildi til að á fjölskyldumóti í móðurætt Snorra var boðið upp á siglingu á Skorradalsvatni á hraðbáti, sem og að vera dreginn í þurrbúningi á slöngu aftan í sama hraðbáti. Þeir sem mestir karlar eru í ættinni fóru allir í slöngureiðina. Ekki vildi þá Kolbrún láta sitt eftir liggja og ákvað að verða fyrsta og eina konan í ættinni sem þyrði þessu. Fyrsta verk var að koma sér í þurrbúninginn, en það gerist þannig að þegar í gallann er komið er gengið út í vatnið og þrýstir þá vatnsþrýstingurinn utan á gallanum öllu lofti úr honum. Uppúr kemur maður svo vakúmpakkaður, svo vel að allar fellingar og/eða misstórir líkamspartar blasa við áhorfendum... Við hjónin létum nú enga feimni slá okkur út af laginu (enda vel byggð í meira lagi) og eftir að Snorri var búinn að blotna í ísköldu Skorradalsvatni var komið að fyrsta fulltrúa kvenþjóðarinnar í þessari slöngureið. Andri frændi Snorra stýrði bátnum af mikilli kostgæfni og sendi Kolbrúnu, liggjandi á slögnu aftan í bátnum, í ýmiskonar sendiferðir á stjórn- og bakborða. Allt kom fyrir ekki, ekki flaug hún af slöngunni eins og til var ætlast. Ekki var þá annað hægt en að henda henni í vatnið með handafli, sem gekk alveg prýðilega!!! Eftir þessa skemmtisiglingu sagði Andri frændi: ”Þið munið nú finna fyrir þessu á morgun...” og við vorum eins og eitt spurningarmerki. Hvað átti hann við? Næsta dag fengum við svarið, þvílíkar harðsperrur í vöðum sem hingað til hafa ekki þurft að hreyfa sig að gagni (frekar en aðrir vöðvar hjá okkur). Við vorum svo viss um að hér væri á ferðinni ný uppgötvun líffærafræðinnar að við nefndum þessa vöðva þegar einu samheiti upp á latínu: “Slöngus Múskulus Skorradalus”.

...og þá stóð svínið upp og labbaði heim á leið
Á árinu hefur húsbóndinn (les: Snorri) farið nokkrum sinnum í skreppitúra út fyrir landsins steina í tengslum við vinnuna, venju samkvæmt til Danmerkur svona nokkrum sinnum og líka til Noregs. Svo var það auðvitað stóra ferðin til Bandaríkjanna. Eins og áður hefur verið sagt var kosið um fjölskylduferð til Bandaríkjanna til að heimsækja Stebba frænda (bróðir Kollu) og Carole konuna hans. Formaður Skólanefndar Borgarfjarðarsveitar misnotaði ekki vald sitt en fékk engu að síður frí fyrir börnin úr skóla í október og hélt familían í víking vestur um haf í lok september. Gist var hjá Stebba í nágrenni við Bush í nokkra daga og svo ekið sem leið lá niður til Flórída. Sú ferð sóttist vel þrátt fyrir mikinn og langan akstur. Við gistum svo í eina nótt hjá foreldrum Carole í Flórída og svo var dormað við sundlaugarbakka í eina kvöldstund eða svo í Orlandó. Eftir það tók við stíf dagskrá, þar sem hver dagur hófst og endaði á spurningum barnanna sem voru í þessum anda: “Hvað eigum við að gera á morgun?”, “Bara slappa af?”, “Eigum við ekki að gera eitthvað?” osfrv. Þetta varð sem sagt fullkominn stresstími, þar sem foreldrarnir voru á fullu allan tímann við að finna verkefni fyrir hvern dag. Boðið var m.a. upp á Disneyferð í fjörtíu stiga hita á laugardegi (ábending til lesenda: tvenn mistök strax í þessari setningu s.s. maður fer ekki á laugardögum að vetri til í Disney í bullandi hita – allir, já endurtökum ALLIR bandaríkjamenn fara með börnin sín á laugardögum í Disney og útbúa sig með nesti og mikið af kælivökvum!). Reyndar var mjög gaman en ef einhver vill læra af okkar reynslu þá leggjum við til að nesti og svaladrykkir séu keyptir ÁÐUR en komið er inn á staðinn. Dæmi: hádegisverðarbrauð og gos fyrir fimm í Disney: kr. 8.000,-!!! Svo var auðvitað farið á ströndina og rifjuð upp gömul kynni við Alden mótelið í St. Petersburg. Þegar vika var eftir af þessu þriggja vikna ferðalagi okkar keyrðum við til baka og tókum þá snilldar ákvörðun að aka ekki hraðbrautir heldur sveitavegi norður austurströnd Bandaríkjanna. Fyrir vikið kynntumst við algerlega nýrri hlið landsins. M.a. ókum við í suðurríkjunum um hvern þéttbýliskjarnann af öðrum þar sem hvergi var að sjá hvítt fólk, heldur mikið af þeldökkum konum í ruggustólum úti á verönd við prjónaskap! Þá sáum við fjöldann allan af íbúðahverfum, þar sem fátækt og sóðaskapur var með eindæmum. Við getum staðfest sögur um gríðarlega misskiptingu auðs í þessu fyrirheitna landi. Annars lentum við í nokkrum uppákomum á leiðinni uppeftir sem rétt er að greina aðeins nánar frá:

The aligator man
Í norðurhluta Flórída sá Kolla allt í einu uppstoppuð dýr við einn sveitaveg og fyrirskipað strax að bifreiðin yrði stöðvuð. Eins og alltaf, var henni gegnt og eftir nokkrar Y-beygjur (ath. ekki innsláttarvilla, við erum að tala um ufselon beygjur – ekki spyrja hvernig þær eru framkvæmdar enda hljóta slíkar beygjur að vera kolólöglegar) vorum við komin að hrörlegu húsi þar sem greinilega var verið að selja uppstoppuð dýr. Á meðan Snorri gekk tryggilega frá bílnum, hvarf fjölskyldan inn í húsið og þegar hann gekk að húsinu voru dyrnar læstar. Á hurðinni stóð þó: “Please use next door” og gekk kappinn þá rakleitt að næstu hurð, slengdi henni upp og gekk inn. Áður en hann náði að stilla fókusinn á myndbandsupptökuvélinni, áttaði hann sig á því að hann hafði gengið rakleitt inn í íbúðarhús og inn á mitt gólf. Við blasti stór riffill á vegg í mjög sóðalegri íbúð og heldur óálitlegur maður strunsaði út úr eldhúsinu á móti þessum óboðna gesti. Í einni svipan breyttist Snorri úr ferðavönum jaxli í svitakófslegna kótilettu og bakkaði all snarlega út úr húsinu og í humát á eftir fylgdi þessi drungalegi karlmaður. Eftir undarlegustu útskýringar hins ferðavana á þessu fáránlega athæfi, kom í ljós að íbúinn var hinn elskulegasti. Þetta var vissulega maður dökkur yfirlitum, skarpbrýndur og mjósleginn en undir niðri útúrreyktur hippi sem var enn að leita að sjálfum sér frá Viðarstokkshátíðinni hérna um árið. Hann vann fyrir sér við það að veiða og stoppa upp krókódíla og tók þessum Íslendingum vel. Eftir að hafa verið leidd um alla verslunina og m.a. bakgarðinn, þar sem risastór uppstoppaður albínóa-krókódíll var til staðar, hélt familían af stað frá Krókódílamanninum, með uppstoppaða krókódílahausa, pennastatíf úr krókódílafótum og hálsmen úr krókódílaklóm. Ekki það að hópurinn hafi verið leystur út með gjöfum, en ekki laust við að húsbóndinn hafi haldið laust um budduna að þessu sinni, eftir innrás hans inn í helli Krókódílamannsins.

Biblíubeltið
Í suður Georgíu renndum við í gegnum þorp nokkuð utan við þjóðveginn. Buickinn var að verða bensínlítill og svipast var um eftir áfyllingarstað. All merkilegt þótti okkur að við fundum ótrúlegan fjölda af kirkjum, en fáar bensínstöðvar. Fyrir rest fundum við eina og fylltum á sleðann. Þegar inn var komið var tekið til við að versla smáræði fyrir fjölskylduna og skiptumst við á skoðunum á okkar ástkæra móðurmáli. Ekki er ofsögum sagt að ferðalangarnir hafi dregið að sér athygli fyrir vikið. Þegar við höfðum greitt fyrir vörurnar spurði gamall maður sem sat í afgreiðslustólnum: “Afsakið, en hvaðan eruð þið?”. Við svöruðum honum og þá sagði hann þessa frábæru setningu: “From Iceland? We had German turists here once!”. Eðlilega lyftust augabrúnir við þessa fullyrðingu og eftir nokkrar samræður kom í ljós að þarna fara einfaldlega engir um nema heimamenn. Þýsku ferðalangarnir sem tóku þarna bensín voru þarna víst rétt fyrir aldamótin – og svo komum við!

Stóra leyndarmál Bandaríkjamanna
Þegar við vorum komin upp undir fylkismörk suður og norður Georgíu var komið undir kvöld og farið að huga að gististöðum. Við renndum út á hraðbraut, því þar var víða auglýst gisting við hraðbrautina. Þar sem veskið léttist hjá Krókódílamanninum var ákveðið að vera ekki að spreða miklu í gistingu. Fundum ódýrt hótel, reyndar furðulega ódýrt miðað við önnur (AHA! Munið þessa vísbendingu um stóra leyndarmálið). Eftir að hafa séð að herbergið var í fínu lagi og hentaði fyrir okkur þessa einu nótt, var gengið frá gistimálunum og eftir drjúgan málsverð og lærdóm drengjanna (sem var stundaður allan tímann) var lagst til hvílu. Sennilega 5-7 mínútum seinna kom í ljós afhverju þetta var svona ódýrt hótel. Rétt eins og hendi væri veifað fylltist herbergið af þungu en þó skerandi hljóði. Jú einmitt, hótelið var við hlið lestarteinanna og við lentum mitt í flutningavertíðinni þessa vikuna! Meira eða minna alla nóttina brunuðu lestir framhjá og héldu vöku fyrir foreldrunum, en börnin sváfu vært. Rauðeygð og þreytt eftir erfiða nótt á vegahóteli (já einmitt, maður hefði viljað að ástæðan væri önnur en framangreind...) skrikuðum við út úr herberginu að morgni og héldum áfram af stað til Washington. Þangað var svo komið að kvöldi og eftir góða daga hjá Stebba og Carole, var haldið heim á leið á ný. Frábær ferð á enda og kostaði svipað og loftaklæðningin á stofuna. Við sjáum ekki eftir því, enda eru börnin svo fljót að stækka að maður þarf að vera duglegur að njóta tímans með börnunum. Loftaklæðningin kemur síðar og við höfum þegar ákveðið að ef valið stendur á milli þess að skapa góðar minningar eða byggingarefni, þá veljum við góðar minningar.

Engan tannálf takk!
Tinna missir nú tennur sem aldrei fyrr (þó það nú væri) en lætur þær alls ekki undir koddann sinn af ótta við þenna helv. tannálf sem ku víst koma á nóttunni og treður sér undir koddann í leit að þessum brottfallna líkamsparti. Já nei, ekki á þessum bæ. Tennurnar fara bara beint í ruslið, og hún segir að hann geti bara sótt þær þangað og látið hana í friði!

Helstu afrek Kollu á árinu: að verða bensínlaus oftar en nokkur annar á Hvanneyri á árinu (Pæjan er m.a. bensínlaus akkúrat núna þegar þetta er skrifað!!!).

Af byggingaframkvæmdum
Á árinu hefur eitthvað potast með húsið. Mesta þrekvirkið var auðvitað garðurinn, en jafnframt erum við nú klár með gesta-/sjónvarpsherbergið á þriðju hæð. Nú fyrir jólin settum við svo “klæðningu” upp í loftið í stofunni (heftuðum léreft upp í loftið – sjá skýringu framar í bréfinu), teppi á gólfið, gluggakistur og rafmagn. Þetta fer því hægt og bítandi að líkjast íbúðarhúsi, en er auðvitað enn óttalegur kofi. Ýmis smáverk hafa jafnframt verið unnin á árinu, en framundan er að klára strákaherbergin og klósettið uppi í risi.

Kolla og anorexían
Annars kom fyrir okkur nokkuð alvarlegur hlutur í Ameríku, þegar Kolla áttaði sig á því að hún væri með anorexíu! Við munum það eins og gerst hefði í október! Við gengum inn í Wall Mart í Flórída og við okkur blasti gríðarlegur fjöldi af verulega stórum amerískum konum og körlum (og þá meinum við ekki háum). Eftir því sem innar í búðina dró, sáum við fleiri og fleiri í yfirstærð, svo marga að allt í einu datt upp úr Kollu þessi fleygu orð: “Snorri, ég held að ég sé með anorexíu!”. Ástæðan var sú að slíkir sjúklingar sjá sjálfa sig víst alltaf í röngu ljósi og telja sig vera of feita. Kolla hafði vissulega gengið í gegnum slíkt tímabil, en sá nú sína sæng út breidda: Hún var hreint ekki bústin, hún var í raun grönn!

Pæjudagar
Í september var Pæjan tekin í gegn, húddið endurformað og uppbyggt með plastefnum (uppskrift: u.þ.b. 3 kg spartl á hvern fermeter í Lödu), það málað og felgur fegraðar. Snorri fór svo á Pæju til Reykjavíkur þar sem hún rann í gegnum skoðun. Skoðunarmaðurinn starði fyrst svolitla stund á hana, prófaði svo bremsurnar og hristi hana til (og allir með: “do the hokey pokey”...) og sagði svo: “Þú verður ekkert að keyra bílinn hér í Reykjavík, er það nokkuð ha?”. Snorri hvað Pæju varla fara út fyrir ristahlið á Hvanneyri (sem var ekki alveg satt!) og þá fékk hún að launum fulla skoðun, þrátt fyrir að vera bremsulaus á einu hjóli ofl. “Þetta eru sjaldséðir gripir”, sagði skoðunarmaðurinn með tár á kvarmi, um leið og Snorri renndi sér á Pæju frá skoðunarstöðinni.

Hitt orðatiltækið...
Fyrsta alvöru vetrardag hér á Hvanneyri, 1. nóvember sl., fæddist Kollu svo nýtt orðatiltæki sem hún er nú að vinna í að fá Orðabók Háskólans til að viðurkenna sem samnefni við fyrra samþykkta orðatiltækið. Þetta orðatiltæki er þannig: “Ertu ekki eftir þig eftir þetta erfiði?” og fæddist um þann atburð er Snorri ákvað að drífa upp húsnúmerið utan á húsið, húsnúmerið sem hafði legið uppi á hillu vel á annað ár. Áætlaður tími við verklega framkvæmd þessarar vinnu eru 3 mínútur. “Kannast einhver við þetta orðatiltæki eða sambærilegt um svipaðan atburð?”. Í ljósi reynslunnar ákvað Snorri því nú fyrir jólin að setja upp alveg helling af seríum og öðru jóladóti. Með því móti telur hann nefninlega að auðveldara verði að réttlæta svefn og leti í janúar og febrúar þar sem magnið af seríum verður svo svakalega mikið (og haldið þið að hann hafi rétt fyrir sér? Má ég sjá? Nei, engin hönd á lofti).

Borgarfjarðar”ædol”
Um miðjan nóvember var hér í sveit hvatt til viðburðar í félagsheimilinu Brún. Um var að ræða innansveitarkeppni í sönglist og keppt um titilinn “Borgarfjarðarædolið 2003”. Frekar fáir sýndu keppninni áhuga og var þá brugðið á það ráð að hringja út. Okkar númer varð fyrir valinu og var Snorri fyrri til að svara. Svo fór að hann samþykkti að taka þátt í keppninni en sökum anna var hans þátttaka samþykkt með þeim fyrirvörum að hann myndi ekki taka þátt í undirbúningi keppninnar. Jafnframt var honum lofað að hann yrði felldur út strax í fyrstu lotu, enda átti hann jafnframt að sjá um sjoppuna í hléi. Þegar líða fór að keppnisdegi, þurfti að velja lag og varð lagið “Kúkur í lauginni” eftir dúóið Súkkat fyrir valinu. Það þótti við hæfi eftir að hafa rekið Hreppslaug í sumar. Lagið taldi Snorri sérstaklega til þess fallið að fella hann með “bravör” úr keppninni. Dómarar voru hinsvegar á öðru máli og lenti því kappinn í því að þurfa að syngja með hljómsveit, alveg óundirbúinn, einn Prestley-slagara!!! Það skilaði honum svo í úrslit, honum og öllum öðrum að óvörum. Fer ekki frekari sögum af þessu kvöldi, en nafnbótina fékk hann ekki...

Jeg har min hest, jeg har min lasso
Í haust gerðum við þriggja ára leigusamning við hana Sicci sem býr í íbúðinni okkar á fyrstu hæð, sem er sænsk stúlka og nemandi í Lanbúnaðarháskólanum. Þetta er ljómandi fín og þolinmóð stelpa sem við erum mjög ánægð með.

...og Austfjarðar”ædol”
Annars lenti Kolla í því ástandi, þegar hún ásamt stallsystrum sínum voru að keppa í blaki á Öldunargarmótinu á Neskaupsstað (já hver hefði trúað því að Kolla væri komin í öldunardeild?), að hjá henni kom upp löngun til að syngja í karókí !!! Rétt er að geta þess að þessi löngun kom upp stuttu eftir að Kolla og fleiri höfðu skellt niður nokkrum “slammerum” og sungið í beinni á Bylgjunni, Hvanneyringum og öðrum Íslendingum til mikils ama. Fer svo sem ekki frekari sögum af frægð og frama Kollu við míkrafóninn, en eitt er víst að Austfirðingar þekkja hana ekki eins og þið öll, sem hógværa og dannaða sveitastelpu – ónei...

Í Vesturbænum er allt morand’ af dúfum og hænum
Annars er allt ljómandi gott að frétta af börnunum. Arnar Hrafn stundar íþróttir af krafti og er bæði í frjálsum og körfu. Þá er hann orðinn liðtækur dansari og eru æfingar vikulega. Svo er það auðvitað píanóið og þykir etv. mörgum nóg um ! Hann er nú í Kleppjárnsreykjaskóla og gengur vel. Hafþór Freyr er kappi mikill og er í Andakílsskóla. Hann hefur ekki komist upp á lagið með að stunda íþróttirnar enn. Píanóið spilar hann á reglulega en á annars nóg með að sinna sínum áhugamálum sem er m.a. óhuggulegur áhugi á fuglum! Hann hefur þegar komið sér upp fuglabókum, kíki, plakötum, uppstoppuðum fuglum og þekkir svo blessaða fuglana að sjálfsögðu, oftar en ekki betur en pabbinn (sem verður oft ekkert kátur með það!). Latnesku nöfnin steinliggja líka um marga fugla, en þar eiga fyrst og fremst sök afi og amma á Markarflöt. Tinna Rós er enn í leikskólanum Andabæ og er sama fiðrildið eins og alltaf. Er barasta nokkuð stillt, en stýrir bræðrum sínum með harðri hendi að vanda. Sl. vetur tóku strákarnir þátt í uppfærslu á Kardimommubænum og lék Arnar Hrafn Bastían bæjarfógeta og Hafþór Freyr var ljónið. Báðir sýndu gríðarleg tilþrif við leik og söng og hefur þegar verið gefið út myndband með þessum söngleik þeirra bræðra og fleiri skólafélaga.

Og svo er það klósjurinn á bréfinu
Jæja, ætli við látum nú ekki þessum pistli lokið. Við höfum rennt yfir ýmis atvik og atburði liðins árs, en af nógu er að taka og margar sögur eftir enn. Nú er bara að drattast í heimsókn alla leið hingað og heyra rest! Eins og þið sjáið fylgir ekki með hefðbundin mynd, en þetta verður bara að duga ykkur þar til þið komið í heimsókn.

Hafið það nú ofsalega gott um jólin og áramótin og vonandi sjáumst við fljótlega.

Bestu jólakveðjur frá Hvanneyri,

Kolla, Snorri, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti, Pæja, Bensi og Brúsi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband