Jólahornið 2002

Á aðventunni í desember 2002

Sælt veri fólkið og gleðileg jól

Þar sem húsbyggingin tekur nokkuð á, var ákveðið á sameiginlegum fjölskyldufundi, þar sem Kolbrún var reyndar eini aðilinn með atkvæðarétt, að senda ekki út jólamynd í ár – en þess í stað að senda línu með kortunum. Með þessu móti teljum við að við náum að hvetja söknuð hjá einhverjum sem ekki hefur litið við lengi og viðkomandi komi þá í heimsókn… Hér er nóg húsrými til að vista heilar kúahjarðir, svo að lítið mál ætti að vera að taka við nokkrum vinum eða ættingjum.

Síðastliðið ár var venju samkvæmt viðburðarríkt hjá fjölskyldunni að Ásvegi 3. Síðustu jól og áramót fóru vel fram og var fjölskyldan í góðu yfirlæti á Hvanneyri og upplifðum við í fyrsta skipti áramót hér í Borgarfirði. Það var mjög skemmtilegt, ja svona heimilislegt, og munum við áræðanlega verða hér áfram næstu áramót. Hér hjálpast allir að við að safna í brennu og svo er sameiginleg veisla staðarbúa í íþróttahöllinni (látið ekki blekkjast, húsið er svona 5m x 10m).

Af ferðalögum og húsbyggingum
Í janúar fór Snorri, eins og venjulega, út til Danmerkur með sinn 60 manna hóp fimmta árið í röð. Þar í landi er ávalt heimsótt landbúnaðarsýning og hefur hann verið fararstjóri í þessari ferð frá upphafi. Í byrjun febrúar fór svo Kolla út til Danmerkur einnig, fyrst og fremst til að hitta kollega í kertagerðarbransanum. Þá fór Snorri út til Írlands í apríl, með ráðherra og fleirum í opinbera heimsókn. Síðan fór enginn út fyrir landsins steina fyrir en í nóvember, er Snorri (hver annar) fór enn til Danmerkur. Að þessu sinni til að halda námskeið fyrir ráðunauta í nautgripafræðum. Fleiri ferðir út fyrir landsins steina voru ekki farnar, sem gerir þetta ár það ferðaminnsta í 5 ár!!!
 Innanlandsferðalögin hafa verið nokkur, en lítill tími þó til að heimsækja fólk enda mestur frítími okkar farið í að gera húsið klárt. Eina fjölskylduferðin okkar var norður í land til vina okkar að Hriflu. Þar vorum við í nokkra daga yfir sauðburðinn með tilheyrandi upplifelsi. Við höfum ákveðið að svekkja þau með því að boða komu okkar hér eftir sem oftast á þessum tíma! Allt sumarfrí fór annars í húsbygginguna, enda bjuggum við í neðra fram á haust. Efri hæðin þokaðist áfram og í október fluttum við upp á efri hæðina. Neðri hæðin er nú leigð út til nemenda í landbúnaðarskólanum. Ekki er nú hægt að segja að húsið sé fullfrágengið, en þó er íbúðin vel íbúðarhæf. Efsta hæðin er þó ófrágengin enn. Við stefnum að því að taka efstu hæðina í notkun á fyrra helmingi næsta árs og vonandi gengur það eftir, en fer algerlega eftir því hve vel gengur að smala fé í fjárhirslur (rétt eins og sauðfjárbændur).

Fjölskyldan
Árið byrjaði hálf illa hjá okkur, er Hafþór Freyr (átta ára) veiktist alvarlega í febrúar. Hann fékk alvarlega sýkingu í hálsinn sem leiddi til þess að öndunarvegurinn lokaðist nánast alvel. Snorri brunaði með kappann hálf meðvitundarlausan í Borgarnes og þaðan fóru þeir feðgar með sjúkrabíl til Reykjavíkur á forgangsljósum og allt í botni. Hvalfjarðargöngin voru lokuð á meðan sjúkrabíllinn brunaði í gegn og fór mælirinn yfir 160 km þegar mest gekk á! Er á spítalann var komið var kappinn settur á gjörgæslu og beint í öndunarvél og var haldið sofandi næstu daga. Erfiður tími fyrir þessa litlu fjölskyldu með tilheyrandi óvissu um framtíðina, en við fengum mikinn stuðning þeirra sem vissu af málinu sem ber að þakka sérstaklega hér og nú. Allt gekk þó vel fyrir rest og eftir 6 daga dvöl á spítalanum vorum við komin aftur heim. Í kjölfarið fór kappinn í fjölmargar rannsóknir sem á endanum leiddu til þeirrar niðurstöðu að mótefni af ákveðinni gerð (IgG) myndast ekki hjá honum í sama magni og hjá heilbrigðu fólki. Eftir þetta höfum við farið með hann einu sinni í mánuði í mótefna-lyfjagjöf niður á barnadeild Hringsins og verður svo áfram um hríð. Kosturinn við þetta allt er hinsvegar sá að stráksi hefur svo til ekkert veikst eftir að lyfjagjöfin byrjaði, sem er nýlunda hér á bæ þar sem hann hefur svotil alla sína tíð verið veikur með reglulegu millibili.


Aðrir í fjölskyldunni hafa haft það að mestu gott, við gleymdum reyndar að minnast á það að Hafþór handleggsbrotnaði líka á árinu, en það er soddan smáræði að vart tekur að nefna… Arnar Hrafn er langur sem staur og liðugur sem pabbi sinn (s.s. stirður). Nú er hann 10 ára gamall (verður 11 ára í febrúar) og hátt í 160 cm hár. Þetta er auðvitað mikið óeðli, enda foreldrarnir smávaxnir og nettir með eindæmum! Hann æfir frjálsar og náði um daginn að stökkva hærra í hástökki en Borgfirðingar á hans aldri hafa gert síðan mælingar hófust. Helstu samanburðarfræðingar eru þegar farnir að bera saman góðan íþróttaárangur hans við afrek þekktra Borgfirðinga á borð við Egil Skallagrímsson og Snorra Sturluson…

Tinna Rós er nú orðin fjögurra og hálfs árs og unir sér vel í sveitinni. Leikskólinn er frá hálf tíu til hálf þrjú á daginn og svo er hún í pössun eftir það þá daga sem mamma vinnur lengur í búðinni. Tinna Rós ætlar að verða búðakona þegar hún verður stór, eins og mamma (þ.e. ekki stór eins og mamma – heldur búðakona eins og mamma!). Af henni er annars lítið að segja, hún er kurteis úti fyrir en heima stjórnar hún nokkurn vegin öllu heimilinu. Hún hefur sérstakt lag á því að stjórna bræðrum sínum og notar sk. öskurtækni við það. Þeir vilja yfirleitt fá næði til að leika sér eða læra og sinna henni því hratt og vel!

Kolbrún Anna er sem fyrr að reka stórfyrirtækið Kertaljósið. Nú fæst heitur matur þar í hádeginu líka (auk matvöru, sérvöru, kerta, kaffi og myndbanda) og á árinu réð hún starfskonu til viðbótar. Þetta er því orðinn mikill máttarstólpi í héraðinu! Sl. vetur stóð Ketrtaljósið fyrir sveitaballi, bara svona upp á grín. Það tókst mjög vel og á annan dag jóla verður aftur sveitaball í félagsheimilinu Brún! Kertaljósið stendur fyrir herlegheitunum og við munum svo vinna sveitt og kauplaus við að skemmta samsveitungum okkar…

Snorri vinnur hjá Landssambandi kúabænda og líkar það vel. Það á vel við hann að standa í rifrildum við menn um ýmis málefni kúabænda og verja þeirra skans eftir mætti.

Svo eru það nýjustu fjölskyldumeðlimirnir, þeir Gutti og sonurinn Depill. Já við eigum enn á ný hunda og þeir eru svo elskulegir að éta allt ruslið okkar, naga skóna og gera okkur yfirleitt lífið leitt. Þá gleymdum við alveg að minnast á hundahárin sem allstaðar eru, þrátt fyrir að þeir eigi bara heima inn í forstofu og fái svo til aldrei að koma inn í hús! Nei, þeir eru ágætir greyjin.

Að síðustu ber að nefna bílana, þá Bensa og Pæju. Annar er virðulegur 10 ára gamall bens af steisjongerð, ágætis bíll þótt gamall sé sem vinnur vel fyrir sínu. Pæjan er hinsvegar séreign Kollu og þann bíl keyrir Snorri helst ekki. Um er að ræða forláta lödu sömöru, sem Kolla handmálaði bleik-fjólubláa einn daginn. Svo hefur hún stundum skilti með upplýsingum um Kertaljósið á toppnum og þá fær hún alla þá athygli sem hún vill – hvar sem er. Bíllinn býður af sér mikinn þokka, að sögn Kollu, en það er einmitt vegna þessa umrædds þokka sem Snorri notar frekar hjólið en Pæjuna! Eitt sinn kom það fyrir að Kolla fór á Bensa í Borgarnes og Snorri þurfti að bruna á fund. Þar voru saman komnir ýmis fyrirmenni og Pæjan stóð honum til boða (eins og alltaf). Hann ákvað hinsvegar að fá bíl hjá vini sínum, frekar en að mæta á Pæjunni. Þetta flokkaði Kolla auðvitað sem rakinn hégóma, en Snorri taldi hinsvegar að trúverðugleiki hans sem talsmaður kúabændu landsins yrði dreginn í efa ef hann myndi mæta til funda á hinum umrædda þokkafulla bíl.

Jæja elskurnar, ætli við látum þetta ekki gott heita í bili. Framundan er jólahátíð og við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Vonandi sjáum við sem flest ykkar á komandi ári og vonandi höfum við þá sjálf tíma (þegar húsið verður allt komið í notkun) til að heimsækja fleiri vini og ættingja, en við gerðum á árinu sem er að líða. Við minnum á að ferðalag úr höfuðborginni hingað upp í Borgarfjörð tekur rétt um klukkustund, svo að upplagt er að skreppa í kaffi!


Bestu kveðjur frá Hvanneyringunum


Kolla          Snorri          Arnar Hrafn          Hafþór Freyr          Tinna Rós

Gutti          Depill          Bensi          Pæja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband