24.12.2010 | 18:42
Jólahornið 2010
Jólahornið 2010 ®
Stofnað árið 2000
Sæl öll og gleðilega hátíð
Þetta Jólahorn fær ekki að byrja eins og öll hin níu, enda tíunda útgáfa þess. Það minnti orðið full mikið á bíómyndina Groundhog day með Bill Murray. Við höfum reyndar séð hana mörgum sinnum og mælum með henni við hvern sem er, krúttleg mynd og rómantísk... nei Kolla nú tek ég við skrifunum, svona væmið kjaftæði í byrjun eyðileggur alveg stemminguna. Fólk vill ekkert sentimental bull, bara beint í klassíkerinn:
KÆRI/KÆRA/KÆRU
_____________________________
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.
KÆR KVEÐJA FJÖLSK.
STAVNSVEJ 94, TILST
Aftur til Danmerkur
Já eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á og etv. einhverjir frétt af þá er nú rétt að taka fram að við búum s.s. núna í úthverfinu Tilst við Árósa í Danmörku. Þangað ákváðum við að skella okkur í eitt ár frá september sl. að telja. Tilgangurinn er nú ekki að flýja sökkvandi skipið heldur að gera Snorra m.a. mögulegt að ná sér í smá endurmenntun í beljurassafræðunum eins og amma hans Margrét kallaði hans annars fínu sérþekkingu!
Tilst, bíddu er þetta grín?
Já það er von að maður spyrji sig, hvar í ósköpunum er Tilst? Þetta er s.s. bara hluti af Árósum (Aarhus frá nk. áramótum) og er fyrrum sjálfstætt sveitarfélag en hefur verið sameinað borginni. Við búum í snotru parhúsi sem við leigjum og er með tveimur svefnherbergjum... Tinna Rós er með hjónaherbergið með tvíbreiðu gestarúmi og pabbi og mamma í barnaherberginu ásamt tölvunni! Hafþór Freyr hefur svo stofuna og svefnsófa þar. Hann stjórnar því hvenær farið er í háttinn hér á bæ, en það er oftast upp úr kl. 10 á kvöldin. Svo þegar Arnar Hrafn kemur í heimsókn, þá er rúttað til og breytt um skipulag og sameinað í herbergjum. Við kúldrumst hér sem sagt í 84 fermetrum og það er satt best að segja þónokkuð stökk, svo ekki sé nú meira sagt. Kolla segir reyndar alltaf svo hughreystandi við hann Snorra sinn stærðin skiptir ekki máli Snorri minn en það er bara ekki rétt, það er afar lítið pláss hér.
Arnar Hrafn skilinn eftir!
Þrátt fyrir að í upphafi staðið til að við færum öll út... þá breyttist það skipulag. Við ákváðum að stefna að utanförinni um jólin 2007 en svo kom kreppan og við vitum ekki hvað... Svo þegar við tókum skrefið hafði nú ýmislegt annað breyst en efnahagsástandið! Arnar Hrafn kominn með kærustu og í ofanálag alveg að klára stúdentinn. Niðurstaðan varð því sú að við leigðum fyrir hann litla íbúð í Borgarnesi þar sem þau búa núna kærustuparið en svo höfum við flutt hann hingað út til Tilst í tvígang fyrir áramótin og aftur verður það í tvígang eftir áramót, auk þess sem pabbi kemur heim í tvígang eftir áramót. Þetta verður því ekki svo slæmt. Svo er auðvitað öll hans fjölskylda á Íslandi sem keppist við að bjóða í mat og passa. Svo er auðvitað öll familían hennar Ernu Daggar í kallfæri svo að þegar allt kemur til alls er þetta ágætt.
Gammel dansk er gott við öllu...
Það byrjaði nú ekki vel, haustið í Danmörku. Rakinn læddist inn um allt og inn í okkur, enda urðu allir kvefaðir nema auðvitað Arnar Hrafn enda búsettur í ágætlega upphituðum bílskúr í Borgarnesi! Þegar allir voru búnir að vera hóstandi og ræskjandi sig daga og nætur brá frú Kolbrún á það ráð að trúa loksins því sem Snorri hefur vissulega haldið fram í rúman áratug (nei ekki því að hann geti allt): Gammel dansk er gott við öllu. Kolbrún rölti sér snýtandi út í búð og með sultardropann hangandi keypti hún eina flösku af Gammel dansk og hökti heim á leið á ný. Svo skellti hún í sig einum, öðrum upp úr hádeginu, þriðja fyrir kaffi, fjórða eftir kaffi, fimmta fyrir matinn, sjötta með matnum, sjöunda eftir matinn, áttunda fyrir fréttir, níunda fyrir veðurfréttir, tíunda fyrir háttinn og ellefta náði hún ekki. Ekki þarf að spyrja að því að hún varð stálhraust eftir þennan kúr: Méééð líðuð baða míííklu betuð núna, hikkk, sagði hún rétt í þann mund er hún lognaðist út af. Daginn eftir var hún svo orðin kvefuð á ný og þá rölti hún aftur út í búð...
Sjattering og tapet orð Jólahornsins 2010
Eins og áður hefur komið fram á hann Snorri alveg frábæra töntu sem á það til að sletta svolítið upp á aðra tunguna. Í orðahorni Jólahornsins höfum við nú valið úr innsendum hugmyndum og orðið að þessu sinni valið tvö orð: sjatter og tapet. Sjatter eða sjattering eins og það útleggst með réttum framburði er notað yfir hluti og/eða aðgerðir sem passa mjög vel saman og tapet yfir veggfóður (svona upp á gamla mátann). Þessu má svo raða saman með orðum sem áður hafa verið kynnt í Jólahorninu með eftirfarandi hætti: nei mikið er þetta glæsilegur búkei og hann sjatterar svona vel við tapettið.
Heiti potturinn á sinn stað
Hann er svo ótrúlega duglegur, hann Snorri. Haldið þið ekki að hann hafi bara klárað að setja niður heita pottinn nú í sumar, áður en við fórum út? Bara búinn að eiga pottinn í nokkur ár og svo loks þegar við ákváðum að fara út, þá setti hann pottinn á sinn stað við leigjum ekki út húsið án potts Kolla. Við gátum sem sagt svo til ekkert notað hann sjálf ohh hann er svo yndislegur, þ.e. potturinn!
Nískan á sér fá takmörk
Kolla, átti ekki að standa hérna Aðhaldssemin? Þegar við höfðum tekið þessa undarlegu ákvörðun, að flytja burt í eitt ár, prófa eitthvað allt annað og bara lifa lífinu lifandi eins og sagt er, byrjaði Snorri strax að reikna út. Hann reiknaði og reiknaði og reiknaði og fékk alltaf sömu niðurstöðu: Þetta gengur aldrei upp kostnaðarlega! Ákvörðuninni var ekki kvikað, svo að þá var næst að reikna út hvernig þetta væri hægt. Niðurstaðan var lítið húsnæði, nota hjól og almenningssamgöngur sem mest og taka með eins mikið af búslóð og hægt væri svo ekki þyrfti að verja dýrmætum krónum í innkaup á mubblum. Snorri keypti forláta sendibíl sem hann fékk skráðan sem rútu (eða næstum því) og var ákveðið að troðfylla bílinn af dóti. Svo sá hann dag einn tilboð um ferð í Norrænu. Maður og bíll á 50 þúsund! Kosta boð og var sjálfgefið að hann færi enginn annar væri það ruglaður í þessari fjölskyldu. Snorri pantaði miðann á netinu og innan við mínútu síðar hringdi síminn. Í símanum var söludama frá Norrænu og sagði hún honum í örfáum orðum frá því að tilboðið væri nú mest hugsað fyrir erlenda námsmenn sem sættu sig við svona heldur slakari aðstöðu um borð. Reyndi daman ítrekað að telja Snorra hughvarf með miðakaupin. Það hlakkaði nú bara í Snorra, hann ætlaði sko ekki að láta plata sig til þess að uppfæra miðann! Fimm þúsund kall í viðbót og þú færð klefa með eigin salerni, já nei góða mín ekkert svona munaðar rugl, þeir plata mig ekki svo auðveldlega.
Tveimur mánuðum síðar lagði Snorri upp í langferðina miklu frá Hvanneyri. Bíllinn var drekkhlaðinn að hætti Torfa mágs/svila og svigrúm fyrir t.d. fjöðrun og dempun var - ja engin. Snorri komst þó hægt og bítandi á áfangastað og sem betur fór í tíma þar sem brottförinni var flýtt um sex klukkustundir vegna yfirvofandi óveðurs. En gaman, að vera um borð í alvöru skemmtiferðaskipi í vondu veðri. Þessi skip hreyfast víst ekkert hugsaði Snorri með sér, greyið hann er svo einfaldur stundum... Þetta er auðvitað ekkert skemmtiferðaskip, heldur bara ósköp venjuleg ferja! Ekki nóg með að brottför væri flýtt, þá tók hún ekstra lykkju á leið sína til Færeyja, til þess að krækja utan um veðrið. Þannig kom skipið til Færeyja mun seinna en til stóð í upphafi. Fór þaðan enn seinna vegna veðurs og kom til Danmerkur svona korteri fyrir jól eða svo. Eins og það væri ekki nóg, þ.e. að kúldrast um borð í þessum árabát í helmingi lengri tíma en til stóð í upphafi, þá hafði söludaman hjá Norrænu svo sannarlega rétt fyrir sér þegar hún reyndi af veikum mætti að selja Snorra betri farmiða. Káetan, þ.e. ef maður kallar svona ílangan skáp niður undir kili árabátsins káetu, var með 9 kojum í, þrjár á hvora hönd og þrjár við skápendann. Snorri hafði verið svo skynsamur að kaupa ódýrasta fargjaldið og fékk því efstu koju sem var í um 40 cm fjarlægð frá loftinu!!! Þarna kúldraðist hann þessa daga, í svo þröngri aðstöðu að þegar hann snéri sér á hliðina, mátti hann ekki lyfta fæti því þá myndi hann rekast í loftið. Nú Snorri snjalli dó sko ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn og skellti bara í sig nokkrum sjóveikitöflum og fyllti á kroppinn reglulega á meðan ferðinni stóð. Hann vissi því hvorki í þennan heim né annan fyrr en skipsfreyja lét vita að stutt væri til Esjberg...
Endalausir hjólatúrar
Við erum auðvitað stórundarlegt fólk, vitum það alveg. Það dettur auðvitað engum í hug að flytja burt í eitt ár, nema hálf-klikkuðu fólki. Þvílíkt sem það er mikið vesen og svo að skilja eftir frumburðinn var auðvitað verst! En hvað um það, þetta skref var tekið og því fylgdu ýmsar nýjar áherslur í okkar lífi. Þar sem danska krónan er heldur sterkur gjaldmiðill miðað við íslenska pesósa (og launin hans Snorra í íslenskum krónum) þá þarf að forgangsraða hraustlega. Bíllinn stendur t.d. svotil alltaf og í staðinn eru notuð reiðhjól og strætóar. Hér er reyndar mun meira um hóla og hæðir en á Hvanneyri og í nágrenni (þ.e. vegakerfinu) en allt malbikað og því auðvelt að hjóla. Snorri skutlast dag hvurn eina fimm km (aðra leiðina) út í Skejby þar sem hann er með starfsaðstöðu og hinir renna með tuttuguogfimmunni niður í bæ. Svo þegar allir hittast seinnipartinn eru hjólin notuð óspart ef veður leyfir. Veðrið stoppar ekki Gamla svo glatt, en hinir eru greindari og láta segjast. Þetta hefur nú tekið svolítinn toll af fjölskyldunni, en þar sem við erum vessasár ætlum við að bæta okkur upp tapið núna um jólin og taka á okkur þessi kíló á ný!
Gráni og Gutti eftir heima
Já við urðum að skilja eitthvað eftir, auk Arnars Hrafns. Hvorki Grána gamla né Gutta gamla var treyst til utanlandsfarar og voru skildir eftir heima á Fróni.
Kolla fer-leg nei ég meina fer-tug
Það er alveg hreint með ólíkindum hvað þessi tími fer hratt hjá! Um daginn vorum við rétt rúmlega tvítug að rúnta um á rauðri Mözdu 323 með númerið R-493, sem föðurafi Snorra átti á sínum tíma, en núna orðin rúmlega ferleg og það með pompi og prakt! Kolbrún Anna fyllti ferlega tuginn 2. apríl sl. og ákvað að hafa opið hús eins og aðrir eldri borgarar. Þetta opna hús var reyndar seinna en önnur opin hús og var opið til morguns! Þó var sett skilyrði um lopapeysu eða flíspeysumætingu, sem stóðst í 99% tilfella. Frábært kvöld og skemmtilegir félagar allir. Hafið öll bestu þakkir fyrir!
Ég er komin. Hvenær á ég að byrja?
Þegar frú Kolbrún var komin til Danmerkur hófst leit að vinnu, enda var okkur ljóst að það yrði erfitt að draga fram lífið á lúsarlaunum Snorra. Auk þess var öllum Dönum ljóst að málið með Múhameðsteikningarnar væru smámunir einir í samanburði við það ef frú Kolbrún væri heima við í margar vikur án vinnu. Frúnni var bent á að sækja um störfin á netinu og samdi hún fallega ferilskrá (CV) og sendi með þegar hún sótti um störf hingað og þangað. Þjónn, ræstitæknir, hótelstarfsmaður, svínahirðir, afgreiðsla á bar osfrv. Á hverjum degi var sótt um fjöldann allan af lausum störfum og svona liðu dagarnir áfram, en fátt varð um svör. Vildi virkilega enginn ráða drottninguna af Ásvegi 3 í vinnu? Snorri, sem hefur alltaf svo óbilandi mikla trú á sinni frú, átti afar erfitt með að trúa því að enginn vildi ráða þennan kostagrip í vinnu. Hún er svo dugleg og falleg og fyndin og falleg og skemmtileg og falleg og hraust og falleg og vel gift kona segir hann alltaf. Hann ráðlagði henni að prenta út ferilskrána og fara bara niður í bæ og kynna sig. Það gæti ekki annað verið en að fólk myndi ráða hana í kippum, það myndi hann gera á staðnum! Ekki var nú Kroppurinn á þessu sjálf en lét undan, prentaði út glæsilega ferilskrána og tók strætó nr. 25 niður í bæ. Niður í miðbæ fór hún og steig þar út beint framan við hótel Scandic byrja hér sagði hún við sjálfa sig og tölti inn. Já góðan daginn, ég er komin og get byrjað strax var nokkurnveginn það sem hún sagði við afgreiðslukonuna. Afgreiðslukonan varð auðvitað mjög undrandi á þessari grófu framkomu frú Kolbrúnar en tók þó við ferilskránni hikandi og sagðist ætla að láta starfsmannastjórann vita... Frú Kolbrún taldi þetta plott bónda síns algerlega út í hött og skreið heim fýld á svip. Daginn eftir var hún hinsvegar boðuð í starfsmannaviðtal á hótelinu og var ráðin á staðnum.
Enn sem komið er líkar frúnni vel við nýja jobbið, hefur lært á alla helstu neyðarhnappana og er ein af fáum starfsmönnum sem ekki hefur lent í því að vera rænd né ráðist á. Þó er eitt sem skyggir á gleðina við nýju vinnuna og það er að flíspeysur, náttbuxur og málningarbuxur eru ekki á lista yfir starfsmannaklæðnað. Svo er frekar æskilegt að konur á miðjum aldri máli sig og greiði sér endrum og eins.
Allt draslið í útleigu
Já þegar maður flytur til annarra landa þá koma upp ýmis vandamál. Eitt er að pakka búslóðinni og koma rest í geymslu, hitt er að leigja út húsið sitt og þriðja að leigja út reksturinn á barnum! Þetta gerðum við bara allt í einu og sami aðili bæði leigir barinn og húsið! Praktískt og gott!!!
HFS kláraði 10. bekk
Hafþór Freyr kláraði 10. bekkinn með bros á vör og taldi að nú væri rétti tíminn til að setjast í helgan stein og hvíla sig svolítið eftir 10 ára streð í skólanum. Ekki voru foreldrarnir á sama máli og hvöttu hann til að sækja um í matvælafræðinni þar sem hann hafði nú óbilandi áhuga á mat. Samningurinn sem pilturinn bauð var að klára grunnnámið (1 vetur) hér í Danmörku og fara svo til Íslands og tjilla með vinunum næstu árin. Nú 2 mánuðum síðar gengur pilturinn um með bros á vör, hæstánægður með skólann, með frábærar einkunnir í töskunni og búinn að eignast góða vini. Í upphafi hafði hann mestann áhuga á kokkinum en nú á slátrarinn hug hans allan enda fjölbreytnin meiri, þar þarf maður að kunna að slátra, gera að og matreiða kjötið. Ánægjan er svo mikil að hann hefur ekki hugsað sér að koma heim á næsta ári heldur klára námið hér ytra. Hann er búinn að grenslast fyrir um húsnæðismál og nú er hann bara að velta því fyrir sér hver gæti verið forráðamaðurinn hans hér ytra. Hann lítur greinilega á það sem stærsta vandamálið, peningamál og samþykki foreldranna hefur hann engar áhyggjur af.
Tölvan segir nei
Það kannast líklega flestir við þættina Little Britain þar sem m.a. má konu sem ekki getur aðstoðað viðskiptavin með sára einfalda hluti þar sem tölvan segir alltaf nei. Nú hefur okkur tekist að finna, eftir all langa leit, fyrirmynd grínistanna. Viðkomandi starfar á sveitarstjórnarskrifstofunni í Århus! Þegar við komum hingað út átti að skrá alla inn í landið með formlegum hætti. Frú Kolbrún Anna rölti niður í bæ með vegabréf allra fjölskyldumeðlima og hélt að þetta væri nú lítið mál. Uss við bjuggum hérna úti áður... Erum þegar til í kerfinu... ...og svo fæddist Tinna Rós í Danmörku... þetta er ekkert mál voru setningar sem hafðar voru á lofti hér á heimilinu fyrir þessa örlagaríku för á sveitarstjórnarskrifstofuna. Þegar þangað var komið, var ýtt á þjónustuhnapp og númerið 117 kom upp. En sniðugt kerfi, hugsaði frú Kolbrún Anna með sér, og leit svo á afgreiðsluljósið í loftinu sem sýndi nr. 43... all mörgum, mörgum, mörgum mínútum síðar var komið að nr. 117. Vegabréfin voru lögð inn, ljósrituð og skrifað undir marga pappíra. Ekkert mál, sendum ykkur sjúkraskírteini í pósti hljóðaði það frá starfskonunni þar til hún uppgötvaði að Tinna Rós væri fædd í Danmörku! Þá upphófst vandamál! Hún var nefninlega til í kerfinu sem uden navn Snorradottir (án nafns Snorradóttir)! Þetta gekk auðvitað ekki og frú Kolbrún Anna bað að sjálfsögðu um að Tinna Rós yrði rétt skráð. Nei það er ekki hægt, tölvan heimilar það ekki, sagði afgreiðslukonan! tölvan segir að við verðum að fá opinberar upplýsingar um nafnið hennar, bætti hún við. Já en þú ert með nafnið hennar hér í vegabréfinu reyndi frú Kolbrún að koma á framfæri íslensk vegabréf eru viðurkennd um allan heim.Nei því miður, tölvan segir að það sé ekki tekið gilt hér sagði afgreiðslukonana og bætti við tölvan segir að við verðum að fá skírnarvottorð... Næstu dagar fóru í það að reyna að hafa upp á skírnarvottorði dömunnar, hringja í sóknarprestinn á Íslandi og láta leita... Allt í einu dúkkaði vottorðið upp í ferðapappírum okkar hér ytra og með það í farteskinu, hélt frú Kolbrún enn á ný niður í bæ... Jæja, nr. 98 ekki slæmt... Já en það er á íslensku hljóðaði það núna hjá konunni... þið verðið að fá opinberan þýðanda til þess að þýða það og votta að rétt sé eftir haft nú var frú Kolbrúnu allri lokið og sagði nej, nu må jeg altså tale med din chef (lausleg þýðing: hættu nú alveg kerling, leyfðu mér að tala við einhvern hér með viti). Eftir örfáar mínútur kom karlmannleg dama fram og leit á frú Kolbrúnu sem var enn rjóð í kinnum eftir allt misréttið og sagði svo við hana tölvan segir að þetta sé í lagi og þar með var það afgreitt. Tinna Rós fékk kennitölu.
Snorri - Snorri Sigurðsson
Þegar maður býr erlendis er afar mikilvægt að ná að viðhalda móðurmálinu eins vel og hægt er. Því notum við bara íslensku á heimilinu... sem gerði okkur erfitt að spila hið landsfræga spil Ólsen, Ólsen. Hver var þessi sonur Óla? Útlendingur vafalítið? Danir spila amk. Olsen, Olsen svo líklegt er að þetta spil sem er svona fjandsamlegt okkar ástkæra máli sé komið frá nýlenduherrum vorum! Við breyttum því nafni spilsins og hér er í dag eingöngu spilað Snorri, Snorri Sigurðsson. Mælum með því að þið prófið að spila spilið og segja Snorri þegar eitt spil er eftir á hendi og Snorri Sigurðsson þegar lokaspilið fellur. Við getum s.s. skrifað upp á einhver önnur nöfn, en þau verða að vera rammíslensk og helst tormælt fyrir útlendinga. Snorra sjálfum er heimilt að nota annað þegar hann spilar. Hann má segja ég og svo ég og pabbi en það reynir reyndar aldrei á það enda getur hann nákvæmlega minna en ekkert í svona alvöru íslenskum spilum.
Eignarýrnunin
Þegar líða tók á árið var Frúnni nú ekki farið að standa á sama um kostnaðinn sem fór í að skella sér í þetta danska ævintýri fjölskyldunnar. Þegar fyrstu snjókorn vetrarins féllu (og þau féllu og féllu og féllu...) var ástandið orðið svo slæmt að Frúin tók til sinna ráða. Hjólinu var parkerað inní skúr og skipt var yfir í strætóinn og dýrindis 3ja rétta máltíðir eldaðar hvern dag. Allt kom fyrir ekki, Snorri skrapp saman eins og þurrkuð rúsina og gengur um eins og Stykkisberja Finnur í alltof stórum fötum. Hann lagði nefninlega ekki hjólinu og notar það óspart okkur hinum til mikillar mæðu!
Kollan mín!
- saga af þvottahúskerlingusem breyttist í glæsilegagestamótökudömu. Kemur í kilju næsta vor...
Yndislegir göngutúrar
Það verður ekki logið upp á Dani, þeir eru voðalega mikið huggefólk. Þeir fara oft út að borða og vegna hinnar örstuttu vinnuviku hafa þeir mikið frí og nýta það til þess að njóta lífsins. Nú við getum ekkert verið minni, búandi hér í veldi Dana. Snorri hefur því gert kröfu um að fjölskyldan taki upp hérlenda siði og m.a. dregið familíuna út í göngutúra seint og snemma. Það væri ekki í frásögur færandi ef ekki væri núna kaldasti vetur í Danmörku frá upphafi mælinga, sem kom í kjölfar kaldasta hausts sem Danir minnast í áratugi. Hér höfum við því gengið upp hálf frosin, gæsahúð á hverjum kroppi, rauðnefjuð og kuldaleg í alla staði. Snorri, hinn mikli hugsuður, datt þá niður á þá snjöllu hugmynd að leggja til breytingar á klæðaburði. Fólust breytingarnar aðallega í því að flá nýsjálenska rollu og skella skinni hennar á höfuð sér já eða svotil amk. Hann gengur nú um með eitthvert undarlegasta höfuðfat sem um getur, svo hann geti réttlætt þessa köldu göngutúra fjölskyldunnar. Þess má geta að okkur hinum er enn alveg skítkalt.
Áttuð þið enga barnæsku?
Snorri, rak upp stór augu (þau opnuðust s.s. um 2-3 millímetra) þegar Hafþór Freyr spurði foreldrana að þessu einn daginn á árinu. Enga barnæsku, hvað áttu við? Jú þið voruð send í sveit þegar þið voruð börn, unnuð svo í sveit þegar þið voruð unglingar, unnuð svo á ýmsum stöðum þegar þið voruð ung og hafið alla tíð síðan unnið! Hvenær voruð þið börn og lékuð ykkur? Ja, okkur foreldrunum varð fátt um svör en rétt er það að okkar barnæska fór meira eða minna í vinnu! Er þetta ekki bannað í dag?, spurði Tinna Rós óróleg eftir að þetta kom í ljós...
Albínóinn á hjólinu hennar Kollu
Það kemur náttúrulega engum lesendum Jólahornsins á óvart að hún Kolla sé alveg hreint ótrúleg (má skiljast á marga vegu, endilega). Í haust, þegar tók að skyggja á kvöldin, keyptum við ljós á öll hjólin okkar hérna úti nema á Kollu hjól. Hún var nefninlega á ekta hjóli með rafali á sem var tengdur við dekkið. Þetta apparat kallast nú oftast dínamór, en Kolla mundi það náttúrulega ekki og einu sinni læddist náttmyrkrið að henni. Hún var á leið heim og lá hjólastígurinn um dimman skóg í dimmu hverfi. Allt í einu var hún stödd í niða myrkri, ekkert ljós nálægt nema á skjánum á gamla Nokia símanum hennar. Hún stöðvaði för sem snöggvast og hringdi í Snorra sinn og mælti þessi mögnðuð orð sem einhvernveginn festast í huga manns: hvernig kveiki ég á albínóanum á hjólinu mínu?. Skemmst er frá að segja að vegna samskiptaörðugleika tókst Snorra ekki að leiðbeina Kollu í gegnum símann og þurfti hún að reiða hjólið restina af leiðinni (prófið sjálf að útskýra hlæjandi: ýttu á dínamóinn og þá smellur hann á sinn stað auðvelt? já, en þá sér líka hver maður hve mikið Snorri hló).
Im Hafþórs brother
Æ maður á náttúrulega ekki að gera grín að börnunum sínum... en eitt smá dæmi samt. Um daginn, þegar Arnar Hrafn var kominn hingað út fór hann til móts við bróður sinn í skólanum. Þar mætti hann honum Kasper, vini Hafþórs Freys og þar sem Kasper var að kveðja Hafþór Frey fyrir jólin sagði hann God jul við hann í þann mund sem Arnar Hrafn kom gangandi. Hann brást eðlilega vel við þessu vinahóti Kaspers og sagði Im Hafþórs brother. Kasper, horfi undarlega á Arnar Hrafn og gekk í burtu. Daginn eftir hringdi hann í Hafþór Frey og spurði hvað í ósköpunum Arnar Hrafn hafi átt við, en þá kom á daginn að Arnar Hrafn heyrðist hann Kasper segja: who are you á lélegri ensku! Honum til afsökunar má geta þess að Danir segja nokkurnveginn: gó-júl og húr-jú er ekki fáránlega langt frá hvort öðru... nei hættu nú alveg, þetta er ekkert líkt Arnar!
Um Guð, almættið og hvers hann er megnugur
Umræða um fermingar á heimilinu en Tinna Rós hefur verið svolítið á báðum áttum með það hvort hún vilji fermast. Gott mál, enda upplýst og skynsöm stúlka! Hvað um það, eitt sinn vorum við að ræða um Guð og trúna þegar það barst í tal að við foreldrarnir værum sátt við hvaða val hennar sem er svo fremi sem hún myndi nú ekki gerast trúboði hjá Vottum Jehóva! Hún spurði þá eðlilega hvað það væri og það var útskýrt með hraðyfirferð að hætti Snorra: Það er bara svona fólk sem vill ekki fá blóð úr öðrum ef það slasast eða veikist, sagði hann og þóttist afar snjall... Hafþóri Frey leist nú ekkert á og sagði: hvaða rugl er nú það?. Snorri útskýrði þá aðeins betur mál sitt og sagði: þetta fólk segir að Guð vilji ekki láta aðra grípa inn í sínar ákvarðanir. Já vill s.s. ekki að það sé gripið frammí fyrir honum?, sagði Hafþór Freyr og bætti við að bragði: Eins gott að Hann fari ekki í fjölskylduboð á Markarflötina, þá yrði hann laglega fúll!.
Húsmóðirin á bænum
Já það er aldrei of seint að kenna gömmlum hundi að sitja... eða? Frú Kolbrún ákvað að gerst hin besta húsmóðir á nýja staðnum, húsið lítið og bauð ekki upp á mikla draslsöfnun og engir kaffi-, drykkju- og púslfélagar sem stytt gátu henni stundir. 2 mánuðir liðu og alltaf var Frúin jafn hissa á því hvað hún var í raun mikil húsmóðir í sér. Heimilið algjörlega tipp topp dag hvern, kattþrifið og skipulag á öllum hlutum. Svo kom að því að veröldin hrundi. Þvotturinn flaut úr þvottakörfunni, uppvaskið hertók eldhúsið og moppan safnaði ryki útí horni. Hvað gerðist eiginlega? Jú, hann Snorri fór í sína árlegu pílagrímaferð með bændur á landbúnaðarsýninguna í Herning. Frúin var s.s. skilin eftir heima með allt skipulagið en engan til að stýra því. Viku síðar mætti svo hershöfðinginn heim á ný og eftir nett taugaáfall, kom hann heimilishaldinu í réttan farveg á tíunúlltveimur. Nú gengur Frúin aftur um með bros á vör og hugsar: ég er nú bara alveg djö... góð húsmóðir.
Hin hagkvæmu kaup
Snorri hefur tekið sig enn betur á en áður í aðhaldsseminni enda erfitt að lifa á íslenskum lírum hérna úti segir hann sí og æ! Vegna þessa eru allskonar tilboð í verslunum elt uppi, séu verslanirnar í hjólafæri enda vogar sér enginn að setja eðalbílinn í gang. Hann á víst bara að nota um jól og páska skilst okkur hinum. Krakkarnir eru farnir að kunna hraustlega á pabba sinn, vita það ef það stendur ekki á innkaupamiðanum er það ekki keypt. Þó var eitt sinn gerð ein undantekning. Krakkarnir fóru sem oftar með pabba sínum í verslunarleiðangur á meðan Frúin var í vinnunni. Ráku þau augun í svakalegt tilboð, 4 snakkpokar á kr. 400 íslenskar. Eini gallinn við þetta var að snakkið var algerlega óætt, merkilega vont í alla staði og eins og frauðplast undir tönn! Snorri Snjalli brá á það ráð, í stað þess að henda þessu rusli, að taka snakkið með í bæinn og gefa öndunum. Þar komu þau einn daginn að öndum sem nærri voru dauðar úr hungri, en þær fúlsuðu við þessu. Einnig kindurnar sem urðu á vegi okkar dag einn, hreindýrin, geiturnar, fátæki götuspilarinn og fleiri. Á endanum datt okkur það snjallræði í hug að gefa snakkið góða sem bónus-jólagjöf til útvalinna meðlima í fjölskyldunni. Verði ykkur, sem nú eigið um sárt að binda vegna þessa, að góðu!
Skólinn hennar Tinnu Rósar
Það er af sem áður var. Síðasta vetur Þurfti fröken Tinna Rós að taka skólarútuna á Kleppjárnsreyki og tók það hana ca 25.mín að komast í skólann á góðum degi. Sumum foreldrum þótti það frekar langur túr fyrir krakka á þessum aldri en við vorum frekar róleg yfir þessu sem betur fer því ekki skánaði það við að flytjast í stórborgina. Vakna kl. 06,30 og svo er strætóinn tekinn kl. korter yfir 7. Skólinn hennar byrjar svo rétt upp úr 8. Frökenin er mjög ánægð með skólann sinn vill ekkert vera að flytja í hverfisskólann hérna en það myndi ekki taka hana nema 5. Mín að ganga þangað. Ástæðan fyrir því að hún er í skóla svona langt í burtu er sú að hún var sett í móttökubekk eins og allir aðrir innflytjendur sem koma hingað til lands. Frú Kolbrún skilur ekkert í þessu og tuðar reglulega um það að við erum ekki útlendingar heldur erum við Íslendingar og ættum því að sjálfssögðu að vera meðhöndluð á sama hátt eins hver annar dani. En svona er Danmörk í dag, ekkert barn fer í venjulegan skóla fyrr en dönskugetan er orðin viðunandi. Við höfum svona takmarkaða trú á þessu, 14 barna bekkur þar sem enginn talar dönsku en allir geta gert sig skiljanlegan á ensku. Að sjálfssögðu nota krakkarnir ensku sín á milli og eru öll orðin vel fær í því tungumálinu, danskan kemur hægar. Eftir áramót er þó ráðgert að frökenin fari í próf og ef hún nær því verður hún flutt í skólann hérna hjá okkur og þá er nú kannski einhver von á því að hún eignist einhverja vini sem búa hérna nálægt okkur.
GPS hvað?
Þegar við fluttum hingað út í haust hafði Hafþór ekki mikið fyrir stafni. Skólinn hans byrjaði ekki fyrr en um miðjan október, vinirnir voru heima á Íslandi og að hanga með mömmu daginn út og inn var kannski ekki aðal áhugamálið. Því tók pilturinn þá ákvörðun að fara að kanna nánasta umhverfi. Eftir 1 mánuð var hann búinn að ganga eða hjóla nánast hverja einustu götu í borginni og var orðinn svo kunnugur helstu stöðum að kaup á GPS tæki var tekið út af listanum. Enda hefur það sýnt sig að peyinn er mun fullkomnari en það skrapatól, okkur nægir að nefna búðarheiti eða húsheiti og hann leiðbeinir okkur á staðinn.
Så er det slut for nu
Enn á ný höfum við skrifað frá okkur vit og rænu, auk þess sem við höfum nú einnig gert jólamyndband! Vonandi verður okkur fyrirgefið að prenta ekki út bréfið í ár og senda hverjum og einum. Þegar það kostar orðið nærri 200 kr að senda bréf frá Danmörku... þá minnkar einhvernveginn áhuginn á slíku!Elskurnar okkar allra, hafið það nú gott að vanda um hátíðirnar og munið að vera þið sjálf. Ekkert stress og rugl, bara njóta og vera til. Farið og röltið um nágrennið, heimsækið vini sem þið hafið ekki heimsótt lengi eða takið upp símtólið og sláið á til þeirra sem þið hafið ekki heyrt í lengi. Það eru okkar óskir til ykkar allra. Við erum sjálf með 499-2791 svo hafið bara samband!
Knús og kossar !
Snorri, Kolla, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr og Tinna Rós
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 25.12.2010 kl. 12:31 | Facebook
Athugasemdir
Gleðileg jól öllsömul. Þetta vantaði í gærkvöldi við jólakostalesturinn. Takk fyrir okkur
Kidda (IP-tala skráð) 25.12.2010 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.