24.12.2010 | 10:18
Jólahornið 2009
Sæl öll og gleðilega hátíð - já þetta er 2009 Hornið... sáum bara að það var ekki á síðunni og hentum því inn líka!!!
Þá er enn eitt árið að verða liðið og enn eitt skiptið hefur margt gengið á í familíunni eins og vera ber. Að venju höldum við í hefðirnar og rennum í stuttu máli yfir liðið ár í óreglulegri röð. Þessi dagskrárliður Jólahornsins hefur hinsvegar ekkert breyst sl. níu ár:
KÆRI/KÆRA/KÆRU
_____________ (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.
KÆR KVEÐJA
FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.
Karlmenn eiga ekki að ryksuga!
Í lok nóvember, þegar húsbóndinn (les: Snorri) átti afmæli var búið að vera mikið um að vera hjá öllum og þessa afmælishelgi var Dansfélag Borgarfjarðar með uppákomu og því bæði Kolla (formaður félagsins) og börnin upptekin. Karlinn var því skilinn eftir heima við þrif og annað slíkt í aðdraganda afmælisveislu fyrir fjölskylduna. Ekki það að það sé í frásögur færandi að ryksuga, en þá gerðist það þennan dag að eftir að hafa ryksugað húsið og þurrkað af öllu þá fékk Snorri svona svakalega í bakið, og á í því raunar enn. Hann þurfti á læknisaðstoð að halda og fékk þá svona skemmtilega uppáskrift frá lækni: Snorri, karlmenn eiga ekki að ryksuga. Málið er víst að þetta er algengt mein karlmanna seinnipart laugardags, þegar röng vinnustelling við staftstuttar ryksugur (hannaðar af útlendum stubbum) hefur hleypt Þursanum að með sitt bit. Sárkvalinn staulaðist hann út í bíl og nánast sigri hrósandi yfir niðurstöðu læknisins (sem vel að merkja var kona) fór hann heim með þessi stórtíðindi. Frú Kolbrún hlustaði vel og vandlega á sinn mann og sagði svo af yfirvegun (og það mátti jafnvel greina ákveðna meðaumkun í raddblænum): Og ertu búinn að panta lengri háls á ryksuguna fyrir þig, eða á ég að gera það?...
Fékk bílpróf og ekki enn keyrt á!
Já það var sett í gang áskorun hér á heimilinu þess efnis að stefna að slysalausu ári á bílum. Ekki það að hér hafi til þessa verið algengt að tjón yrðu, heldur frekar að svotil allir félagar Arnars Hrafns höfðu keyrt á fljótlega eftir að þeir fengu bílprófið. Þetta hefur gengið eftir og er kappinn nokkuð hróðugur með sig, enda eftir að hann fékk prófið á afmælisdaginn sinn (25. febrúar sl.) hafa fleiri skólasystkin fengið próf og keyrt á núna síðast skólasystir hér á Hvanneyri sem komst einungis nokkra metra frá heimahöfn er ljósastaur stökk í veg fyrir hana!
Fjölgun á Ásvegi 3!
Já það er ekki slegið slöku við hér á bænum. Við höfum reyndar ekki sett í ofninn, enda er hann orðinn hálf lúinn og þreyttur og bakarinn ekki upp á fleiri fiska gerður en sjálfur ofninn en það er nú önnur saga. Börnin hafa heldur ekkert gert í málinu, sem betur fer enda frumburðurinn ekki nema rétt tæplega 18 ára. Hann er hinsvegar kominn með kærustu sem er hér öðru hverju, líkt og hann hjá henni... Líklega má ekki skrifa meira um þetta í bili amk... Á það má hinsvegar benda að Snorra finnst þetta FRÁBÆRT. Nú hefur bæst við einn aðili í viðbót sem teppir klósettið og í ofanálag þarf örugglega að minna hana á, eins og ALLA aðra á heimilinu, að náttföt eru til þess að sofa í en ekki dröslast í langt fram eftir degi!
Björgunarsveitin...
Já Snorra hefur nú tekist að véla fleiri í sveitina af heimilinu en Arnar Hrafn er genginn til liðs við Björgunarsveitina Ok og Hafþór Freyr bíður á hliðarlínunni eftir að verða 16 ára svo hann megi ganga í sveitina. Annars er gaman að fylgjast með Snorra í þessu starfi. Hann er nú búinn að vera með í nokkur ár og núna kominn í Svæðisstjórn, sem er einskonar stjórnstöð björgunaraðgerða hér á Vesturlandi. Frú Kolbrún sá strax í gegnum þennan skjóta frama en dagljóst er að Snorri er í svo lélegu formi að þeir treystu honum ekki til annars en að sitja í stjórnstöð við stjórnun aðgerða, svo hann færi sér og öðrum ekki að voða við leit... eina rökrétta skýringin!
Karfa enn vinsæl...
Þrátt fyrir að hafa fengið framfararverðlaunin sl. vor hjá Skallagrími hefur Arnar Hrafn dregið úr æfingatíðninni en aukið á móti dansæfingar. Reyndar er það afar afstætt að fá verðlaun fyrir framför. Tökum t.d. Kollu. Alla jafna hittir hún ekki niður körfu, svo að ef hún myndi nú allt í einu fara að gera það þá hefur hún tekið miklum framförum ekki satt? Segir ekkert um getuna... Jæja nóg grín gert að frumburðinum, sem er reyndar skratti góður í körfu..., dansinn á hugann svo við því er ekkert að gera. Hann æfir reyndar körfu þrisvar í viku svona með, til þess að halda sér við. Hafþór Freyr æfir af krafti en er með annarskonar stíl en stóri bróðir (sem er reyndar ekkert mikið stærri). Sá eldri fer þetta á ferðinni, en hinn á skriðþunganum. Sitt hvor nálgunin sem leiðir þó mikið til að svipaðri niðurstöðu!!!
Jólasveinaþjónusta Hafþórs Freys
Eins og aðrir á Ásvegi 3, er Hafþór Freyr haldinn sama dugnaði (les: ofvirkni). Nýjasta uppátækið er Jólasveinaþjónusta HFS sem er þjónustufyrirtæki með afar upplýsandi nafni. Metnaðurinn er í góðu lagi, ekta gærur notaðar í skegg, búningurinn sérhannaður af Saumaþjónustu KAÖ ehf. (sem hefur á árinu framleitt fjölmarga dansbúninga svo dæmi sé tekið) og skórnir keyptir hjá KB-Borgarnesi. Allt til þess að skapa hinn fullkomna jólasvein. Honum hefur verið vel tekið, enda lagt mikið upp úr raddsetningu, tekstakunnáttu á jólalögum osfrv. Þjónustan hefur verið keypt í grunnskólana og í tengslum við jólatréssölu Björgunarsveitarinnar. Þá er framundan mikið átak við útdeilingu á pökkum á Hvanneyri. Flott framtak hjá stráksa, sver sig í ættina svo um munar.
Flýttu þér hægt Snorri!
Það er svo sem margt sem gengur á, á Ásveginum, og á liðnu ári hefur hávaði þó verið meiri en góðu hófi gegnir. Það stafaði af merkilegum smellum og skellum í strekkigormum á bílskúrshurðinni. Forsagan er sú að við keyptum hurð af fyrirtækinu Mest og Snorri skellti henni upp fyrir rúmu ári. Þetta gerði hann sjálfur af krafti og var ekki lengi að... Fyrirtækið fór svo á hausinn, sem skipti okkur engu máli nema fyrir þær sakir að þegar hurðin var opnuð bárust hávaðasamir smellir og skellir frá gormunum. Þetta reyndi Snorri að laga en tókst ekki, ljóst var að þetta yrði bara að vera svona. Svo hávaðasamir voru gormarnir að þegar frú Kolbrún fór til ræstistarfa upp úr klukkan sex á morgnana þá rumskaði alltaf háttvirtur heimilisfaðirinn af sínum væra silkidúnmjúka blundi. Þar sem hann þarf alltaf sinn bjútíslíp var þetta auðvitað ótækt, en þar sem enga hérlenda ráðgjöf var að hafa hélt þetta svona áfram í heilt ár. Hvern morgun vakti frú Kolbrún sinn elskaða með smellum og skellum. Smellirnir voru svo kraftmiklir að milliloftið titraði og skalf. Aðrir sváfu þetta af sér, enda með svefngen móður sinnar. Fyrir rest, eftir að hafa vaknað upp með andfælum í hundruði morgna, sendi Snorri svohljóðandi tölvupóst á umboðsaðilann í Danmörku sem hann fann á gúgglinu: Der kommer altið høje lyd og kliks fra spændingsgormene, kan I hjælpe? (þýð: Það koma alltaf há hljóð og smellir frá gormunum, getið þið hjálpað?). Svarið kom daginn eftir: Har du glemt smøringen på dem? (þýð: Gleymdir þú að smyrja þá?). Eftir 5 sekúndna úðun með WD40 sefur nú kappinn hvern morgun það borgar sig oftast að lesa leiðbeiningar (já þetta með smurninguna stendur þar nefninlega skýrum stöfum í þeim á mörgum tungumálum!!!).
Borgaralegur orð dagsins
Nýyrðasmíði fjölskyldumeðlima er ekki hætt, síður en svo og hér heldur því áfram orðahorn Jólahornsins, sem kynnt var til leiks fyrir nokkrum Jólahornum. Orðið að þessu sinni er Borgaralegur eða Borgó eins og það útleggst einnig. Þetta orð skal notað yfir þá athöfn að borða pitsu með hníf og gaffli. Orðið er tilkomið þegar við fórum á Eldsmiðjuna í Þingholtinu í haust sem leið. Þegar við tókum upp hnífapörin, þegar eta átti flatbökuna, sagði Tinna Rós (með pitsusneiðina í hendinni og tómtsósu út á kinn): Voðalega eru þið eitthvað Borgararleg, að borða pitsu með hníf og gaffli.
Reykjavíkurferðin mikla
Undanfarin ár höfum við reynt að fara saman í fjölskyldu-helgarferðir í bústaði nokkrum sinnum á ári. Þetta er skemmtileg leið til þess að njóta lífsins og í ár fórum við í bústað í Fnjóskadal, bústað á Barðaströndinni og í síðasta skiptið ákváðum við að fara til Reykjavíkur í íbúð Stéttarfélags Vesturlands. Við fórum því í kúltúrferð til höfuðborgarinnar og gistum í miðbænum! Uppleggið var reyndar að allir færu, en svo þurfti Hafþór Freyr að fara á körfuboltamót á Bolungarvík og Arnar Hrafn að vinna svo við litla fjölskyldan fórum því saman í bæjarferð. Við erum svona hægt og rólega að verða þrjú hér (strákarnir orðnir svo stórir) og skiljum orðið mun betur þá sem leggja í svona í kringum fertugt... Ræðum það ekki frekar, að sinni amk. Þessi Reykjavíkurferð tókst reyndar afar vel og fórum við í Þjóðminjasafnið, gengum um Þingholtin þver og endilöng og fórum í afar góða ferð í Kringluna. Gengum svo þaðan í Fossvoginn og þá alla leið meðfram Öskjuhlíðinni og inn að Ráðhúsi. Við lögðum nefninlega bílnum og hreyfðum hann ekki, rétt eins og við værum erlendis. Frábær helgi, sem við endurtökum örugglega síðar.
Heja Norge
Einhvernveginn hefur Arnar Hrafn getað komið sér undan flestöllum fjölskylduferðum þetta árið. Eins og vanalega fór Kolla með ungahópinn sinn á unglingalandsmót um verslunarmannahelgina en Arnar Hrafn ákvað að skella sér til Noregs á ungmennaviku þar. Hver kannast ekki við klífa skriður, skríða kletta jamm það var akkúrat það sem hann gerði þessa vikuna. Heil vika í útivist í Noregi var málið en tók það eitthvað af orkunni og ofvirkninni?? Neibb, hann er enn með sama njálginn.
Vatnsguðinn frá Hvanneyri
Stundum getur verið svo ótrúlega einfalt að gleðja fólk og dæmi um það fer hér á eftir. Í sumar sem leið voru miklir þurrkar í Borgarfirði og fór Skorradalur ekki varhluta af því. Frændi og skáfrænka Snorra lentu í því í dalnum að verða vatnslaus og því leituðu þau eðlilega til frænda á Hvanneyri. Hann, þaulvanur björgunarsveitarmaðurinn, geystist upp í dal og hélt til fjalla í vatnsbólsleit í hlíðinni ofan við bústaðinn. Hann gekk leyndardómsfullur um hlíðina, leitandi að líklegum stöðum þar sem bera mætti sig eftir vatni. Hann var mjög spekingslegur við þetta verk og hefði því auðveldlega mátt ætla að hann hefði hugmynd um það sem hann var að gera (?). Þarna rambaði hann um í drykklanga stund eða þar til hann datt allt í einu ofan í gamlan lækjarfarveg, sem var hulinn gróðri, en með smá bleytu í! Þarna var settur niður brunnur, slanga tengd við og hókus-pókus vatn fór að renna í bústaðinn á ný. Auðvitað töldu bústaðareigendur þetta afrek algerlega einstakt og stendur nú til að setja upp skurðgoð á staðnum til heiðurs hinum mikla Vatnsguði. Snorra hefur enn láðst að geta þess við hlutaðeigandi að þetta var nú bara einskær heppni hjá honum.
Veislan óvænta...
Belive it or not, hann Snorri kallinn er orðinn fertugur (já nei fertugur, ekki fimmtugur)! En það gerðist að vísu í fyrra svo þetta er nú orðin gömul frétt (eins og hann sjálfur). En sá gamli hafði af okkur heljarinnar veislu, svo að mikil fýla hvíldi yfir vinum og vandamönnum. Svo þegar líða tók á sumarið ákvað frúin að gera eitthvað í málunum og með stutttum fyrirvara hóaði hún í nokkra vini og ættingja og bauð í ekta sveitamanna partý. Miðað við lítinn fyrirvara náðist í allgóðann hóp. Aumingja saklausi drengurinn hann Snorri vissi ekkert hvað var verið að bralla á bak við tjöldin (bara eins og ekta pólitík). Veislan átti nefnilega að koma á óvart, og það tókst. Honum var nefnilega tilkynnt að búið væri að leigja barinn til veisluhalda og starfsmaðurinn okkar ætlaði að sjá um hana. Mesta álagið var að halda Snorra heima þegar gestirnir voru að týnast á svæðið því hann er jú alltaf með fingurna í öllu. Frúin ákvað að bjóða honum upp á hvítvín sem dugði á hann í ca. 2 mínútur. Þá var hann farinn að ókyrrast. Þá var dregið fram plan B og það var að kalla í vin hans sem beið eftir SOS merki frá frúnni. Þegar hann mætti á svæðið róaðist Snorri nokkuð og var hinn ljúfasti þar til hringt var í hann frá barnum og honum tjáð að græjurnar væru dottnar úr sambandi. Hann rauk af stað til að bjarga málunum eins og ekta ofurhetja og var algjörlega grunlaus þegar hann gekk inn á barinn, beint í flasið á gestunum sem óskuðu honum til hamingju með afmælið með tilheyrandi látum.
Bjúgnagerðakonan...
Já hann kann að velja þær, hann sonur okkar. Erna Dögg, kærasta Arnars Hrafns, kemur frá stórbýlinu Signýjarstöðum í Hálsasveit og þar á bæ er matargerðin allsráðandi. Húsfreyjan á bænum (sem reyndar vinnur með frú Kolbrúnu) skellti sér í bjúgnagerð þar á bæ, sem er árviss viðburður og vantaði hana aðstoð. Að sjálfssögðu kom engin önnur til greina en frú Kolbrún, enda þekkt fyrir sína eldamennsku og matarást (og þolinmæði). Uppskeran voru tæplega 200 bjúgu og dass af hakki. Eftir góða reykingu á bjúgunum kom sending í frystinn okkar, sterkt ilmandi af heimareykingunni. Óhætt er að segja að nú smakkast allt hjá okkur úr frystinum eins og reykt bjúgu. Það er ekki verra að geta opnað frystinn og fengið jólafýlinginn beint í nös.
Skautaferðin mikla...
Síðast liðinn vetur tóku 4 meðlimir fjölskyldunnar þátt í uppfærslu á leikritinu um Línu Langsokk sem ungmennafélagið setti upp. Hafþór Freyr, Tinna Rós og Snorri voru meðal leikenda. Snorri sá einnig um ljósin í sýningunni og Kolla sá um sminkið. Þetta var alveg frábært tímabil, nema kannski hjá Arnar Hrafni. Það var eitthvað lítið eldað fannst honum á þessu tímabili. Þegar síðustu sýningu var lokið var ákveðið að fara með allan sýningarhópinn til Reykjavíkur í skautahöllina og svo út að borða. Listdans var þemað í þessari ferð og fólk klætt samkvæmt því. Misgóðir voru hæfileikarnir á skautasvellinu en Snorri sýndi stórglæsilega takta þegar hann skakklappaðist um á svellinu með gamalmennagöngugrind og hana Jósý vinkonu sína sér til stuðnings. Líklega er best að líkja þeim Boris og Svettlönu úr Spaugstofunni, en Snorri og Jósý eru ekki alveg á sama máli um það. Stórmyndarlegt fólk, þó svo að Snorri hafi nú staðið upp úr sökum glæsileika (að eigin sögn).
Strætóferðin
Árið 2009 er það merkisár sem strætóferðir frá Borgarnesi til Reykjavíkur voru lagðar af (eftir reyndar kjánalega stuttan reynslutíma en það er önnur saga). Snorri lagði sitt af mörkum til þess að tilraunin gengi og fór eitt sinn með strætó til Reykjavíkur á námskeið í stjórnum leikhúsljósa (já einmitt, enn eitt áhugamálið maðurinn er auðvitað ekki í lagi). Þarnæstu helgi var leikurinn endurtekinn. Ræs eldsnemma á laugardegi og Kolla ók honum í Borgarnes. Þar beið hann drykklanga stund eftir strætó og skrölti svo á leið í bæinn. Í Mosfellsbæ var skipt um vagn og aftur á Hlemmi og leiðin tekin niður Hverfisgötu. Við Þjóðleikhúsið var stokkið út og rokið niður að Listaháskólanum... til þess eins og grípa í læsta hurð! Eftir tveggja tíma ferðalag hafði hann s.s. rokið af stað einni helgi fyrr en ætlað var. Aumingja ofvirki náunginn sat nú aumur á tröppum skólans og þurfti að eyða tímanum í bara eitthvað þar til fjölskyldan kæmi í bæinn kl. 16. Heill dagur án þess að vera með skipulagða dagskrá! Margir klukkutímar til þess eins að nota í bið! Ótrúlega mörgum verðmætum mínútum hent á altari frumhlaups og gleymsku! Einhvernveginn leið nú dagurinn en erfitt var það fyrir hann. Fljótlega eftir þessa uppákomu voru strætóferðir lagðar af á ný, líklega hafa fleiri lent í sambærilegri reynslu og lagt inn kvörtun til sveitastjórnar.
Vinnualki nr. 2
Það er ekki laust við að húsbóndinn (les: Snorri aldrei þessu vant) hafi orðið frekar kátur þegar upp kom skemmtilegt atvik sl. sumar, þegar Kolla var allt í einu komin í þrjár stöður í einu. Henni var boðin vinna á hótelinu í Reykholti og á sama tíma sá hún um ræstingar fyrir Landbúnaðarháskólann og auk þess að vinna í félagsþjónustunni hjá Borgarbyggð. Áður en frúin hafði blikkað auga, hafði hún tekið að sér öll þessi störf og gat hvergi losað sig úr vinnu. Fjölskyldan sá hana sama og ekkert í tvo mánuði þar sem hún byrjaði daginn upp úr kl. 6 við ræstingar, fór svo í Reykholt og eftir vinnu og á kvöldin að sinna eldri borgurunum sem áttu rétt á félagsþjónstu. Þetta var svona einskonar súrsæt stund fyrir Snorra, sem oftar en ekki hefur verið legið á hálsi fyrir það að kunna ekki að segja nei við nokkrum hlut eins og frú Kolbrún kallar það. Úr þessu ástandi losnaði frúin ekki fyrr en í október, þá orðin dauðþreytt, hrukkótt og gráhærð. Eftir ótal ferðir til hárgreiðslukvenna í héraðinu, húðsnyrtifræðinga og næringarþerapista hefur hún nú náð réttu litarhafti á ný, húðin orðin slétt og hárið svona fallega litað. Allt orðið eins og það var fyrir þennslutímabilið, ja nema Snorri. Hann er enn að tala um þetta tveggja mánaða tímabil í samlífi þeirra, sem vel að merkja hefur varað í aldarfjórðung, þegar frú Kolbrún lak niður á hans vinnuplan! Þið getið treyst því að þetta mun ekki gerast aftur. En nú er Snorri kominn á þennan aldur þar sem mönnum finnst svo gaman að rifja upp fortíðina og blandar jafnvel saman nútíð og fortíð. Reglulega talar hann um að nú sé frúin alltaf að heiman en hann sé alltaf heima. Þessi fullyrðing minnir reyndar á virkan alkahólista sem hefur klætt sig í blúndur og bleikt ský. Jú þessi elska hefur nefninlega sjálfur skipt um starf. Hann vinnur enn hjá LbhÍ en sér um Sprotann sem er frumkvöðla- og tækniþróunarsetur hér á Vesturlandi. Hann kemur svona yfirleitt heim á réttum tíma, símatíminn er hinsvegar sá sami: 24/7, og svo eru það allar hinar vinnurnar sem litli stubburinn gleymir ansi oft. Eftir lauslega talningu þá er hann, fyrir utan Sprotann, í 14 stjórnum, nefndum og sjálfboðaliðastörfum svo að það er ennþá svo sem nóg að gera hjá þessari dúllu.
London í dans
Arnar Hrafn fékk nýja dansdömu seinnipart sumars og var strax ákveðið að fara til London í keppnisferðalag (ekki vantar sjálfstraustið þarna). Æft var að kappi og safnað af miklum móð fyrir kostnaði. Mamman þurfti að sjálfssögðu að sauma dansföt á drenginn og eins og vanalega var það gert á síðustu stundu. Eftir allan þennan tíma í dansi var Arnar Hrafn hinn rólegasti yfir þessu (ferðafélagarnir hinsvegar komnir með hjartsláttatruflanir) þrátt fyrir að þurfa að standa á naríunum og úlpunni einum fata, tilbúinn í síðustu mátun, 10 mínútum eftir áætlaða brottför. Eða var það kannski þremur tímum? Allt gekk þetta upp, strákarnir okkar (eins og Kolla orðar það þ.e. Arnar og tveir fóstbræður hans, Logi og Alli) kvöddu með bros á vör, en mamman stóð í hlaðinu með tár á hvörmum veifandi hvítum vasaklút. Hennar nærveru var ekki óskað í þessari ferð, þrátt fyrir að hún gerði allt til þess að gera þeim grein fyrir því að þeir gætu ekki farið í keppnisferð til útlanda án hennar. Þeim gekk afar vel að afsanna þá fullyrðingu!
Dansfélagar
Hér á bæ eru börnin og mamman búin að lifa og hrærast í dansi síðustu árin. Þetta árið hefur verið með öðru móti því dansfélaga vandamál hafa herjað á liðið. Tinna Rós stóð uppi dansfélagalaus frá áramótum en fékk nýjan í haust sem hefur svo ákveðið að snúa sér að öðrum málum. Hvort hún verður í dansi eftir áramót verður bara að koma í ljós. Hafþór Freyr hætti að dansa við sýna dömu í vor og fór að dansa við aðra sem síðan ákvað að hætta í dansi og hefur hann líklega dansað sitt síðasta. Körfuboltinn á hug hans allan og stendur hann sig bara vel þar. Arnar Hrafn fékk nýja dömu eins og áður sagði í sumar en þau hættu að dansa saman núna rétt fyrir jól. Eitthvað var drengurinn að pæla í að snúa sér alfarið að körfuboltanum en ákvað að gefa dansinum séns allavega fram á vor þar sem hann gat ekki slegið hendinni á móti dömunni sem honum bauðst.
Byggði hálfan skjólvegg!
Fyrir nokkru var fjárfest í heitum potti. Bartos, stjúpsonur okkar, fékk það verkefni að handmoka fyrir lögnum í pottinn sem hann og gerði með svita og tárum. En vitandi það að geta skellt sér í pottinn og mýkt upp sára vöðva að verki loknu, vann hann hvíldarlaust þar til allar leiðslur voru komnar undir frostmark. Nú 4 árum síðar er potturinn kominn niður en eitthvað vantar upp á fráganginn hjá karli en það kemur örugglega einhverntímann. En dugnaðurinn var auðvitað að drepa hann í ár eins og svo oft áður og því var drifinn upp skjólveggur við terrasinn okkar. Hann er líka hálfkláraður, eins og potturinn. Við ætlum að taka upp nýtt nafn á Snorra á næstunni, Snorri hálfi Sigurðsson. Hér í Borgarfirði er alþekkt að búa stórmennum viðurnöfn við hæfi (dæmi: Egill Sterki) og þetta finnst familíunni afskaplega fínt nafn. Snorri er ekki sammála, en eins og svo oft áður eða eiginlega alltaf lenti hann í minnihluta í atkvæðagreiðslu...
Landvinningar
Mikill vill meira. Í sumar ákváðu hr. Sigurðsson og hr. Jónsson nágranni okkar að stækka lóðirnar. Málið var að á milli húsanna hjá okkur var mikið landrými sem enginn hafði not fyrir. Því ákváðu þeir nágrannarnir að sækja um stækkun á lóðunum svo þær næðu alveg saman. Fleiri íbúar við götuna gengu í hópinn og var farið í lagfæringar á lóðmörkum margra lóða. Þessar tillögur gengu í gegn og var húsbóndinn á bænum þetta litla ánægður. Nú var komin stór og fín lóð, það þurfti bara aðeins að slétta, tyrfa, planta nokkrum trjám og þá væri þetta komið. Frú Kolbrún, garðyrkjumaðurinn hér á Ásvegi 3, lét sko ekki glepjast af svona fagurgala. Aðeins er nefnilega ekki bara aðeins. Lóðin stækkaði nefninlega um helming og er núna um 2900 fm og hver haldið þið að sjái um að slá þetta ferlíki? Það mun ekki vera húsbóndinn á heimilinu, nei hann er með ofnæmi - greyið. Aukalandið fær því að vera náttúrulegt, með slatta af trjám hér og þar og hananú!
Norðurferðin
Í ár náðum við tveimur ferðum norður til Hriflubænda. Í byrjun maí skelltum við okkur norður að Illugastöðum þar sem við leigðum okkur sumarhús yfir helgi. Og ástæðan fyrir þessari ógurlegu fjölskyldusamveru var heljarinnar teiti sem erfðaprinsessan á Hriflu hélt í tilefni fermingar sinnar. Nú og svo var að sjálfssögðu farið aftur af stað tveimur vikum síðar í sauðburðarferðina miklu. Þá þóknaðist herra frumburði að koma með. Hann sá nefnilega fram á að geta unnið eitthvað og bað hann hr. Sigrðsson að nefna það við bóndann að hafa verkefni tilbúið fyrir hann. Guð forði honum frá því að stoppa í 2 mínútur.
Vestfjarðaferðin mikla
Í sumar lagðist fjölskyldan hans Snorra í víking. Tilefnið var tvöfalt sjötugsafmæli foreldranna og í stað þess að eyða auðinum í útlöndum var ákveðið að stefna á Vestfirði. Úr þessu varð hinn besti túr, en þar sem fjarlægðir frá helstu verslunar- og þjónustustöðum takmörkuðu mögulegar dagleiðir malbiks-fjölskyldanna (maður getur nú ekki rokið út á land nema hægt sé að fara annaðhvort í sund daglega og/eða út að borða) var dvalið langdvölum við Breiðafjörðinn. Nokkur spaugileg atriði komu upp, s.s. þegar tjaldbúðirnar létu nánast undan veðurhamnum eða þegar vel þjálfaðir ættingjarnir gátu ekki vaðið yfir smá læk á Rauðasandi þar sem hann var kaldur osfrv. (vel að merkja, við Hvanneyringarnir fórum öll yfir). Þá kom sér reyndar vel að hafa Hafþór Frey með í för enda bítur kuldi ekki á hann. Hann óð margoft yfir kaldan álinn og bar kulsækin frændsystkini sín fram og til baka.Það sem stóð þó uppúr ferðinni var hve mikið kapp var í ferðafélögunum á sínum dökkleitu og hraðskreiðu jeppum. Við skröltum þetta á honum Brúsa II, Subaru Legacy ´97 ekinn 260 þúsund kílómetra og með upphaflegu vélinni. Hann Brúsi II lagði þó ákveðnar takmarkanir á ferðahraðann og því vorum við oftar en ekki síðust á hverri dagleið sem ekin var. Þar sem þarna vesturfrá næst hvorki radíó, sjónvarp né nokkuð annað sem hægt er að nota til dægrardvalar við hægfara akstur (ákveður einhver að búa þarna sjálfviljugur?) - tók Súbarúgengið upp á því að yrkja upp á gamla mátann. Ekki fer miklum sögum af hæfileikum familíunnar á þessu sviði, en þetta var amk. skemmtilegra en að vera endalaust í Dustin Hoffman leiknum (hver er maðurinn?).
Berjaferðin
Öðru sinni þetta árið héldum við vestur á firði. Að þessu sinni var stefnan tekin á Stykkishólm og þaðan með Baldri yfir á Brjánslæk hvar sumarbústaður beið okkar og nágranna okkar héðan á Hvanneyri. Ferðinni var heitið til berjatínslu. Hverkonar rugl er það annars að tína ber? Bograndi í runnum, leitandi að aðalbláberjum (enda eru venjuleg bláber fyrir mýs segja þeir fyrir vestan)... Hreinsa og hrista, draga svo allt heim, hræra sykri út í og éta svo á sig gat af ferskum berjum með þeim afleiðingum að detoxið hennar Jónínu fölnar í samanburði við árangurinn af berjakúrnum. Af siðferðisástæðum ætlum við að hætta lýsingunni hér...
Ofvaxnir gaurar
Hér má ekki gefa of mikið upp, enda málið á afar viðkvæmu stigi, en eftir 0.5 cm lendir húsbóndinn (les: Snorri) á heimilinu í þriðja sæti í hæðarmælingakapphlaupinu, enda er hann ekki nema 193 cm að hæð. Tinna Rós rekur enn lestina, en stefnir ótrauð á fjórða sætið og þá verður húsfreyjan orðin dvergvaxin samkvæmt skilgreiningum á Ásvegi 3.
Hjólaferð til Danmerkur
Í júní fór Snorri í vinnuferð til Danmerkur og gisti hann hjá systur hennar Kollu. Hann eyddi nokkrum dögum í að heimsækja bændur og búalið og ýmiss fyrirtæki og stofnanir. Frúnni bauð hann svo að koma yfir helgi, sem hún og gerði. Helgin var notuð til að skoða sig um í Aarhus og til að athuga með hugsanlega leigumöguleika á næsta ári fyrir familíuna. Það skal hér með tekið fram að hjónin hjóluðu eða gengu um allt í skoðunarferðunum. Snorri er s.s. að huga að framhaldsnámi sem hann stefnir á að stunda í Danaveldi. Allir eru frekar spenntir yfir þessu, þó hefur erfðaprinsinn svolitlar áhyggjur. Hann á jú sína kærustu og svo eru það vinirnir, já og ekki má gleyma áhugamálunum, maturinn hjá tengdó er alltaf á réttum tíma o.s.frv. Hverjir fara með næsta haust kemur síðar í ljós!!!
Pöbbinn
Fimmti veturinn er nú farinn af stað á pöbbnum sem í daglegu tali kallast einfaldlega Kollubar. Þrátt fyrir efnahagsástandið gengur bara skratti vel og lítið annað um það að segja en Eninga, meninga....
Aldrei fór ég á Þorrablót 2009
Við hér á Ásveginum erum þekkt fyrir að vera frekar ómannblendin og sér á báti. Fjölmenni er ekki við okkar hæfi (kannski af því fáum ekki næga athygli) svo að í staðinn fyrir að sækja hið árlega þorrablót sem haldið er hér í sveitinni skipulögðum við okkar eigið blót með nokkrum vinum. Mættum við galvösk heim til Ara (frænda frú Kolbrúnar) og Hildar konu hans með fangið fullt af heimagerðu slátri og öðrum guðaveigum. Að góðum þorrablótssið var mikið etið og drukkið, söngurinn ekki langt undan og svo að sjálfssögðu leikir og grín. Erfitt verður að slá þessu blóti við, en að sjálfssögðu er þegar farið að skipuleggja næsta blót og það á sama stað. Hér með tilkynnist húsráðendum það.
Jólaseríudrama
Hér á bæ förum við hamförum í jólaskreytingum að okkar mati, þó ekkert á við marga aðra á Íslandinu góða. Að setja út jólaseríur hefur hingað til verið eina starfið hans Snorra í undirbúningi jólanna. En þar sem Þursinn skellti sér í bakið á honum slapp hann nokkuð vel í ár hvað þetta varðar. Erfðaprinsinn sá um að klifra upp í stiga og naglalakka allar perurnar aftur rauðar. Já þið lásuð rétt. Perurnar eru naglalakkaðar ár hvert. Þannig fær kvennlega hliðin hjá Snorra að blómstra óáreitt. Frúin og erfðaprinsinn hentu upp slatta af öðrum seríum hingað og þangað um garðinn og voru bara stolt af. Í hvert skipti sem Snorri lítur út brestur hann í hljóðan grát, ekki af stolti heldur niðurlægingu. Seríurnar eru ekki settar RÉTT upp, það er ekki RÉTT bil á milli ljósanna og ekki RÉTTA tréð valið fyrir hverja seríu. Hann mun ekki klikka á að kaupa lengra ryksuguskaft fyrir næstu jól...
Så er det slut for nu
Enn á ný höfum við skrifað frá okkur vit og rænu en svona er þetta bara, eins og hún Beta í kjallaranum segir alltaf.Elskurnar okkar allra, hafið það nú gott að vanda um hátíðirnar og munið að vera þið sjálf. Ekkert stress og rugl, bara njóta og vera til. Farið og röltið um nágrennið, heimsækið vini sem þið hafið ekki heimsótt lengi eða takið upp tólið og sláið á til þeirra sem þið hafið ekki heyrt í lengi. Það eru okkar óskir til ykkar allra.
Knús og kossar og munið að Hvanneyri er alltaf í leiðinni, hvert sem maður fer!
Snorri, Kolla, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti og Brúsi II
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.