Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
24.12.2010 | 18:42
Jólahornið 2010
Snorri, Kolla, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr og Tinna Rós
Vinir og fjölskylda | Breytt 25.12.2010 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2010 | 10:22
Jólahornið 2010 er á leiðinni...
24.12.2010 | 10:18
Jólahornið 2009
Sæl öll og gleðilega hátíð - já þetta er 2009 Hornið... sáum bara að það var ekki á síðunni og hentum því inn líka!!!
Þá er enn eitt árið að verða liðið og enn eitt skiptið hefur margt gengið á í familíunni eins og vera ber. Að venju höldum við í hefðirnar og rennum í stuttu máli yfir liðið ár í óreglulegri röð. Þessi dagskrárliður Jólahornsins hefur hinsvegar ekkert breyst sl. níu ár:
KÆRI/KÆRA/KÆRU
_____________ (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.
KÆR KVEÐJA
FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.
Karlmenn eiga ekki að ryksuga!
Í lok nóvember, þegar húsbóndinn (les: Snorri) átti afmæli var búið að vera mikið um að vera hjá öllum og þessa afmælishelgi var Dansfélag Borgarfjarðar með uppákomu og því bæði Kolla (formaður félagsins) og börnin upptekin. Karlinn var því skilinn eftir heima við þrif og annað slíkt í aðdraganda afmælisveislu fyrir fjölskylduna. Ekki það að það sé í frásögur færandi að ryksuga, en þá gerðist það þennan dag að eftir að hafa ryksugað húsið og þurrkað af öllu þá fékk Snorri svona svakalega í bakið, og á í því raunar enn. Hann þurfti á læknisaðstoð að halda og fékk þá svona skemmtilega uppáskrift frá lækni: Snorri, karlmenn eiga ekki að ryksuga. Málið er víst að þetta er algengt mein karlmanna seinnipart laugardags, þegar röng vinnustelling við staftstuttar ryksugur (hannaðar af útlendum stubbum) hefur hleypt Þursanum að með sitt bit. Sárkvalinn staulaðist hann út í bíl og nánast sigri hrósandi yfir niðurstöðu læknisins (sem vel að merkja var kona) fór hann heim með þessi stórtíðindi. Frú Kolbrún hlustaði vel og vandlega á sinn mann og sagði svo af yfirvegun (og það mátti jafnvel greina ákveðna meðaumkun í raddblænum): Og ertu búinn að panta lengri háls á ryksuguna fyrir þig, eða á ég að gera það?...
Fékk bílpróf og ekki enn keyrt á!
Já það var sett í gang áskorun hér á heimilinu þess efnis að stefna að slysalausu ári á bílum. Ekki það að hér hafi til þessa verið algengt að tjón yrðu, heldur frekar að svotil allir félagar Arnars Hrafns höfðu keyrt á fljótlega eftir að þeir fengu bílprófið. Þetta hefur gengið eftir og er kappinn nokkuð hróðugur með sig, enda eftir að hann fékk prófið á afmælisdaginn sinn (25. febrúar sl.) hafa fleiri skólasystkin fengið próf og keyrt á núna síðast skólasystir hér á Hvanneyri sem komst einungis nokkra metra frá heimahöfn er ljósastaur stökk í veg fyrir hana!
Fjölgun á Ásvegi 3!
Já það er ekki slegið slöku við hér á bænum. Við höfum reyndar ekki sett í ofninn, enda er hann orðinn hálf lúinn og þreyttur og bakarinn ekki upp á fleiri fiska gerður en sjálfur ofninn en það er nú önnur saga. Börnin hafa heldur ekkert gert í málinu, sem betur fer enda frumburðurinn ekki nema rétt tæplega 18 ára. Hann er hinsvegar kominn með kærustu sem er hér öðru hverju, líkt og hann hjá henni... Líklega má ekki skrifa meira um þetta í bili amk... Á það má hinsvegar benda að Snorra finnst þetta FRÁBÆRT. Nú hefur bæst við einn aðili í viðbót sem teppir klósettið og í ofanálag þarf örugglega að minna hana á, eins og ALLA aðra á heimilinu, að náttföt eru til þess að sofa í en ekki dröslast í langt fram eftir degi!
Björgunarsveitin...
Já Snorra hefur nú tekist að véla fleiri í sveitina af heimilinu en Arnar Hrafn er genginn til liðs við Björgunarsveitina Ok og Hafþór Freyr bíður á hliðarlínunni eftir að verða 16 ára svo hann megi ganga í sveitina. Annars er gaman að fylgjast með Snorra í þessu starfi. Hann er nú búinn að vera með í nokkur ár og núna kominn í Svæðisstjórn, sem er einskonar stjórnstöð björgunaraðgerða hér á Vesturlandi. Frú Kolbrún sá strax í gegnum þennan skjóta frama en dagljóst er að Snorri er í svo lélegu formi að þeir treystu honum ekki til annars en að sitja í stjórnstöð við stjórnun aðgerða, svo hann færi sér og öðrum ekki að voða við leit... eina rökrétta skýringin!
Karfa enn vinsæl...
Þrátt fyrir að hafa fengið framfararverðlaunin sl. vor hjá Skallagrími hefur Arnar Hrafn dregið úr æfingatíðninni en aukið á móti dansæfingar. Reyndar er það afar afstætt að fá verðlaun fyrir framför. Tökum t.d. Kollu. Alla jafna hittir hún ekki niður körfu, svo að ef hún myndi nú allt í einu fara að gera það þá hefur hún tekið miklum framförum ekki satt? Segir ekkert um getuna... Jæja nóg grín gert að frumburðinum, sem er reyndar skratti góður í körfu..., dansinn á hugann svo við því er ekkert að gera. Hann æfir reyndar körfu þrisvar í viku svona með, til þess að halda sér við. Hafþór Freyr æfir af krafti en er með annarskonar stíl en stóri bróðir (sem er reyndar ekkert mikið stærri). Sá eldri fer þetta á ferðinni, en hinn á skriðþunganum. Sitt hvor nálgunin sem leiðir þó mikið til að svipaðri niðurstöðu!!!
Jólasveinaþjónusta Hafþórs Freys
Eins og aðrir á Ásvegi 3, er Hafþór Freyr haldinn sama dugnaði (les: ofvirkni). Nýjasta uppátækið er Jólasveinaþjónusta HFS sem er þjónustufyrirtæki með afar upplýsandi nafni. Metnaðurinn er í góðu lagi, ekta gærur notaðar í skegg, búningurinn sérhannaður af Saumaþjónustu KAÖ ehf. (sem hefur á árinu framleitt fjölmarga dansbúninga svo dæmi sé tekið) og skórnir keyptir hjá KB-Borgarnesi. Allt til þess að skapa hinn fullkomna jólasvein. Honum hefur verið vel tekið, enda lagt mikið upp úr raddsetningu, tekstakunnáttu á jólalögum osfrv. Þjónustan hefur verið keypt í grunnskólana og í tengslum við jólatréssölu Björgunarsveitarinnar. Þá er framundan mikið átak við útdeilingu á pökkum á Hvanneyri. Flott framtak hjá stráksa, sver sig í ættina svo um munar.
Flýttu þér hægt Snorri!
Það er svo sem margt sem gengur á, á Ásveginum, og á liðnu ári hefur hávaði þó verið meiri en góðu hófi gegnir. Það stafaði af merkilegum smellum og skellum í strekkigormum á bílskúrshurðinni. Forsagan er sú að við keyptum hurð af fyrirtækinu Mest og Snorri skellti henni upp fyrir rúmu ári. Þetta gerði hann sjálfur af krafti og var ekki lengi að... Fyrirtækið fór svo á hausinn, sem skipti okkur engu máli nema fyrir þær sakir að þegar hurðin var opnuð bárust hávaðasamir smellir og skellir frá gormunum. Þetta reyndi Snorri að laga en tókst ekki, ljóst var að þetta yrði bara að vera svona. Svo hávaðasamir voru gormarnir að þegar frú Kolbrún fór til ræstistarfa upp úr klukkan sex á morgnana þá rumskaði alltaf háttvirtur heimilisfaðirinn af sínum væra silkidúnmjúka blundi. Þar sem hann þarf alltaf sinn bjútíslíp var þetta auðvitað ótækt, en þar sem enga hérlenda ráðgjöf var að hafa hélt þetta svona áfram í heilt ár. Hvern morgun vakti frú Kolbrún sinn elskaða með smellum og skellum. Smellirnir voru svo kraftmiklir að milliloftið titraði og skalf. Aðrir sváfu þetta af sér, enda með svefngen móður sinnar. Fyrir rest, eftir að hafa vaknað upp með andfælum í hundruði morgna, sendi Snorri svohljóðandi tölvupóst á umboðsaðilann í Danmörku sem hann fann á gúgglinu: Der kommer altið høje lyd og kliks fra spændingsgormene, kan I hjælpe? (þýð: Það koma alltaf há hljóð og smellir frá gormunum, getið þið hjálpað?). Svarið kom daginn eftir: Har du glemt smøringen på dem? (þýð: Gleymdir þú að smyrja þá?). Eftir 5 sekúndna úðun með WD40 sefur nú kappinn hvern morgun það borgar sig oftast að lesa leiðbeiningar (já þetta með smurninguna stendur þar nefninlega skýrum stöfum í þeim á mörgum tungumálum!!!).
Borgaralegur orð dagsins
Nýyrðasmíði fjölskyldumeðlima er ekki hætt, síður en svo og hér heldur því áfram orðahorn Jólahornsins, sem kynnt var til leiks fyrir nokkrum Jólahornum. Orðið að þessu sinni er Borgaralegur eða Borgó eins og það útleggst einnig. Þetta orð skal notað yfir þá athöfn að borða pitsu með hníf og gaffli. Orðið er tilkomið þegar við fórum á Eldsmiðjuna í Þingholtinu í haust sem leið. Þegar við tókum upp hnífapörin, þegar eta átti flatbökuna, sagði Tinna Rós (með pitsusneiðina í hendinni og tómtsósu út á kinn): Voðalega eru þið eitthvað Borgararleg, að borða pitsu með hníf og gaffli.
Reykjavíkurferðin mikla
Undanfarin ár höfum við reynt að fara saman í fjölskyldu-helgarferðir í bústaði nokkrum sinnum á ári. Þetta er skemmtileg leið til þess að njóta lífsins og í ár fórum við í bústað í Fnjóskadal, bústað á Barðaströndinni og í síðasta skiptið ákváðum við að fara til Reykjavíkur í íbúð Stéttarfélags Vesturlands. Við fórum því í kúltúrferð til höfuðborgarinnar og gistum í miðbænum! Uppleggið var reyndar að allir færu, en svo þurfti Hafþór Freyr að fara á körfuboltamót á Bolungarvík og Arnar Hrafn að vinna svo við litla fjölskyldan fórum því saman í bæjarferð. Við erum svona hægt og rólega að verða þrjú hér (strákarnir orðnir svo stórir) og skiljum orðið mun betur þá sem leggja í svona í kringum fertugt... Ræðum það ekki frekar, að sinni amk. Þessi Reykjavíkurferð tókst reyndar afar vel og fórum við í Þjóðminjasafnið, gengum um Þingholtin þver og endilöng og fórum í afar góða ferð í Kringluna. Gengum svo þaðan í Fossvoginn og þá alla leið meðfram Öskjuhlíðinni og inn að Ráðhúsi. Við lögðum nefninlega bílnum og hreyfðum hann ekki, rétt eins og við værum erlendis. Frábær helgi, sem við endurtökum örugglega síðar.
Heja Norge
Einhvernveginn hefur Arnar Hrafn getað komið sér undan flestöllum fjölskylduferðum þetta árið. Eins og vanalega fór Kolla með ungahópinn sinn á unglingalandsmót um verslunarmannahelgina en Arnar Hrafn ákvað að skella sér til Noregs á ungmennaviku þar. Hver kannast ekki við klífa skriður, skríða kletta jamm það var akkúrat það sem hann gerði þessa vikuna. Heil vika í útivist í Noregi var málið en tók það eitthvað af orkunni og ofvirkninni?? Neibb, hann er enn með sama njálginn.
Vatnsguðinn frá Hvanneyri
Stundum getur verið svo ótrúlega einfalt að gleðja fólk og dæmi um það fer hér á eftir. Í sumar sem leið voru miklir þurrkar í Borgarfirði og fór Skorradalur ekki varhluta af því. Frændi og skáfrænka Snorra lentu í því í dalnum að verða vatnslaus og því leituðu þau eðlilega til frænda á Hvanneyri. Hann, þaulvanur björgunarsveitarmaðurinn, geystist upp í dal og hélt til fjalla í vatnsbólsleit í hlíðinni ofan við bústaðinn. Hann gekk leyndardómsfullur um hlíðina, leitandi að líklegum stöðum þar sem bera mætti sig eftir vatni. Hann var mjög spekingslegur við þetta verk og hefði því auðveldlega mátt ætla að hann hefði hugmynd um það sem hann var að gera (?). Þarna rambaði hann um í drykklanga stund eða þar til hann datt allt í einu ofan í gamlan lækjarfarveg, sem var hulinn gróðri, en með smá bleytu í! Þarna var settur niður brunnur, slanga tengd við og hókus-pókus vatn fór að renna í bústaðinn á ný. Auðvitað töldu bústaðareigendur þetta afrek algerlega einstakt og stendur nú til að setja upp skurðgoð á staðnum til heiðurs hinum mikla Vatnsguði. Snorra hefur enn láðst að geta þess við hlutaðeigandi að þetta var nú bara einskær heppni hjá honum.
Veislan óvænta...
Belive it or not, hann Snorri kallinn er orðinn fertugur (já nei fertugur, ekki fimmtugur)! En það gerðist að vísu í fyrra svo þetta er nú orðin gömul frétt (eins og hann sjálfur). En sá gamli hafði af okkur heljarinnar veislu, svo að mikil fýla hvíldi yfir vinum og vandamönnum. Svo þegar líða tók á sumarið ákvað frúin að gera eitthvað í málunum og með stutttum fyrirvara hóaði hún í nokkra vini og ættingja og bauð í ekta sveitamanna partý. Miðað við lítinn fyrirvara náðist í allgóðann hóp. Aumingja saklausi drengurinn hann Snorri vissi ekkert hvað var verið að bralla á bak við tjöldin (bara eins og ekta pólitík). Veislan átti nefnilega að koma á óvart, og það tókst. Honum var nefnilega tilkynnt að búið væri að leigja barinn til veisluhalda og starfsmaðurinn okkar ætlaði að sjá um hana. Mesta álagið var að halda Snorra heima þegar gestirnir voru að týnast á svæðið því hann er jú alltaf með fingurna í öllu. Frúin ákvað að bjóða honum upp á hvítvín sem dugði á hann í ca. 2 mínútur. Þá var hann farinn að ókyrrast. Þá var dregið fram plan B og það var að kalla í vin hans sem beið eftir SOS merki frá frúnni. Þegar hann mætti á svæðið róaðist Snorri nokkuð og var hinn ljúfasti þar til hringt var í hann frá barnum og honum tjáð að græjurnar væru dottnar úr sambandi. Hann rauk af stað til að bjarga málunum eins og ekta ofurhetja og var algjörlega grunlaus þegar hann gekk inn á barinn, beint í flasið á gestunum sem óskuðu honum til hamingju með afmælið með tilheyrandi látum.
Bjúgnagerðakonan...
Já hann kann að velja þær, hann sonur okkar. Erna Dögg, kærasta Arnars Hrafns, kemur frá stórbýlinu Signýjarstöðum í Hálsasveit og þar á bæ er matargerðin allsráðandi. Húsfreyjan á bænum (sem reyndar vinnur með frú Kolbrúnu) skellti sér í bjúgnagerð þar á bæ, sem er árviss viðburður og vantaði hana aðstoð. Að sjálfssögðu kom engin önnur til greina en frú Kolbrún, enda þekkt fyrir sína eldamennsku og matarást (og þolinmæði). Uppskeran voru tæplega 200 bjúgu og dass af hakki. Eftir góða reykingu á bjúgunum kom sending í frystinn okkar, sterkt ilmandi af heimareykingunni. Óhætt er að segja að nú smakkast allt hjá okkur úr frystinum eins og reykt bjúgu. Það er ekki verra að geta opnað frystinn og fengið jólafýlinginn beint í nös.
Skautaferðin mikla...
Síðast liðinn vetur tóku 4 meðlimir fjölskyldunnar þátt í uppfærslu á leikritinu um Línu Langsokk sem ungmennafélagið setti upp. Hafþór Freyr, Tinna Rós og Snorri voru meðal leikenda. Snorri sá einnig um ljósin í sýningunni og Kolla sá um sminkið. Þetta var alveg frábært tímabil, nema kannski hjá Arnar Hrafni. Það var eitthvað lítið eldað fannst honum á þessu tímabili. Þegar síðustu sýningu var lokið var ákveðið að fara með allan sýningarhópinn til Reykjavíkur í skautahöllina og svo út að borða. Listdans var þemað í þessari ferð og fólk klætt samkvæmt því. Misgóðir voru hæfileikarnir á skautasvellinu en Snorri sýndi stórglæsilega takta þegar hann skakklappaðist um á svellinu með gamalmennagöngugrind og hana Jósý vinkonu sína sér til stuðnings. Líklega er best að líkja þeim Boris og Svettlönu úr Spaugstofunni, en Snorri og Jósý eru ekki alveg á sama máli um það. Stórmyndarlegt fólk, þó svo að Snorri hafi nú staðið upp úr sökum glæsileika (að eigin sögn).
Strætóferðin
Árið 2009 er það merkisár sem strætóferðir frá Borgarnesi til Reykjavíkur voru lagðar af (eftir reyndar kjánalega stuttan reynslutíma en það er önnur saga). Snorri lagði sitt af mörkum til þess að tilraunin gengi og fór eitt sinn með strætó til Reykjavíkur á námskeið í stjórnum leikhúsljósa (já einmitt, enn eitt áhugamálið maðurinn er auðvitað ekki í lagi). Þarnæstu helgi var leikurinn endurtekinn. Ræs eldsnemma á laugardegi og Kolla ók honum í Borgarnes. Þar beið hann drykklanga stund eftir strætó og skrölti svo á leið í bæinn. Í Mosfellsbæ var skipt um vagn og aftur á Hlemmi og leiðin tekin niður Hverfisgötu. Við Þjóðleikhúsið var stokkið út og rokið niður að Listaháskólanum... til þess eins og grípa í læsta hurð! Eftir tveggja tíma ferðalag hafði hann s.s. rokið af stað einni helgi fyrr en ætlað var. Aumingja ofvirki náunginn sat nú aumur á tröppum skólans og þurfti að eyða tímanum í bara eitthvað þar til fjölskyldan kæmi í bæinn kl. 16. Heill dagur án þess að vera með skipulagða dagskrá! Margir klukkutímar til þess eins að nota í bið! Ótrúlega mörgum verðmætum mínútum hent á altari frumhlaups og gleymsku! Einhvernveginn leið nú dagurinn en erfitt var það fyrir hann. Fljótlega eftir þessa uppákomu voru strætóferðir lagðar af á ný, líklega hafa fleiri lent í sambærilegri reynslu og lagt inn kvörtun til sveitastjórnar.
Vinnualki nr. 2
Það er ekki laust við að húsbóndinn (les: Snorri aldrei þessu vant) hafi orðið frekar kátur þegar upp kom skemmtilegt atvik sl. sumar, þegar Kolla var allt í einu komin í þrjár stöður í einu. Henni var boðin vinna á hótelinu í Reykholti og á sama tíma sá hún um ræstingar fyrir Landbúnaðarháskólann og auk þess að vinna í félagsþjónustunni hjá Borgarbyggð. Áður en frúin hafði blikkað auga, hafði hún tekið að sér öll þessi störf og gat hvergi losað sig úr vinnu. Fjölskyldan sá hana sama og ekkert í tvo mánuði þar sem hún byrjaði daginn upp úr kl. 6 við ræstingar, fór svo í Reykholt og eftir vinnu og á kvöldin að sinna eldri borgurunum sem áttu rétt á félagsþjónstu. Þetta var svona einskonar súrsæt stund fyrir Snorra, sem oftar en ekki hefur verið legið á hálsi fyrir það að kunna ekki að segja nei við nokkrum hlut eins og frú Kolbrún kallar það. Úr þessu ástandi losnaði frúin ekki fyrr en í október, þá orðin dauðþreytt, hrukkótt og gráhærð. Eftir ótal ferðir til hárgreiðslukvenna í héraðinu, húðsnyrtifræðinga og næringarþerapista hefur hún nú náð réttu litarhafti á ný, húðin orðin slétt og hárið svona fallega litað. Allt orðið eins og það var fyrir þennslutímabilið, ja nema Snorri. Hann er enn að tala um þetta tveggja mánaða tímabil í samlífi þeirra, sem vel að merkja hefur varað í aldarfjórðung, þegar frú Kolbrún lak niður á hans vinnuplan! Þið getið treyst því að þetta mun ekki gerast aftur. En nú er Snorri kominn á þennan aldur þar sem mönnum finnst svo gaman að rifja upp fortíðina og blandar jafnvel saman nútíð og fortíð. Reglulega talar hann um að nú sé frúin alltaf að heiman en hann sé alltaf heima. Þessi fullyrðing minnir reyndar á virkan alkahólista sem hefur klætt sig í blúndur og bleikt ský. Jú þessi elska hefur nefninlega sjálfur skipt um starf. Hann vinnur enn hjá LbhÍ en sér um Sprotann sem er frumkvöðla- og tækniþróunarsetur hér á Vesturlandi. Hann kemur svona yfirleitt heim á réttum tíma, símatíminn er hinsvegar sá sami: 24/7, og svo eru það allar hinar vinnurnar sem litli stubburinn gleymir ansi oft. Eftir lauslega talningu þá er hann, fyrir utan Sprotann, í 14 stjórnum, nefndum og sjálfboðaliðastörfum svo að það er ennþá svo sem nóg að gera hjá þessari dúllu.
London í dans
Arnar Hrafn fékk nýja dansdömu seinnipart sumars og var strax ákveðið að fara til London í keppnisferðalag (ekki vantar sjálfstraustið þarna). Æft var að kappi og safnað af miklum móð fyrir kostnaði. Mamman þurfti að sjálfssögðu að sauma dansföt á drenginn og eins og vanalega var það gert á síðustu stundu. Eftir allan þennan tíma í dansi var Arnar Hrafn hinn rólegasti yfir þessu (ferðafélagarnir hinsvegar komnir með hjartsláttatruflanir) þrátt fyrir að þurfa að standa á naríunum og úlpunni einum fata, tilbúinn í síðustu mátun, 10 mínútum eftir áætlaða brottför. Eða var það kannski þremur tímum? Allt gekk þetta upp, strákarnir okkar (eins og Kolla orðar það þ.e. Arnar og tveir fóstbræður hans, Logi og Alli) kvöddu með bros á vör, en mamman stóð í hlaðinu með tár á hvörmum veifandi hvítum vasaklút. Hennar nærveru var ekki óskað í þessari ferð, þrátt fyrir að hún gerði allt til þess að gera þeim grein fyrir því að þeir gætu ekki farið í keppnisferð til útlanda án hennar. Þeim gekk afar vel að afsanna þá fullyrðingu!
Dansfélagar
Hér á bæ eru börnin og mamman búin að lifa og hrærast í dansi síðustu árin. Þetta árið hefur verið með öðru móti því dansfélaga vandamál hafa herjað á liðið. Tinna Rós stóð uppi dansfélagalaus frá áramótum en fékk nýjan í haust sem hefur svo ákveðið að snúa sér að öðrum málum. Hvort hún verður í dansi eftir áramót verður bara að koma í ljós. Hafþór Freyr hætti að dansa við sýna dömu í vor og fór að dansa við aðra sem síðan ákvað að hætta í dansi og hefur hann líklega dansað sitt síðasta. Körfuboltinn á hug hans allan og stendur hann sig bara vel þar. Arnar Hrafn fékk nýja dömu eins og áður sagði í sumar en þau hættu að dansa saman núna rétt fyrir jól. Eitthvað var drengurinn að pæla í að snúa sér alfarið að körfuboltanum en ákvað að gefa dansinum séns allavega fram á vor þar sem hann gat ekki slegið hendinni á móti dömunni sem honum bauðst.
Byggði hálfan skjólvegg!
Fyrir nokkru var fjárfest í heitum potti. Bartos, stjúpsonur okkar, fékk það verkefni að handmoka fyrir lögnum í pottinn sem hann og gerði með svita og tárum. En vitandi það að geta skellt sér í pottinn og mýkt upp sára vöðva að verki loknu, vann hann hvíldarlaust þar til allar leiðslur voru komnar undir frostmark. Nú 4 árum síðar er potturinn kominn niður en eitthvað vantar upp á fráganginn hjá karli en það kemur örugglega einhverntímann. En dugnaðurinn var auðvitað að drepa hann í ár eins og svo oft áður og því var drifinn upp skjólveggur við terrasinn okkar. Hann er líka hálfkláraður, eins og potturinn. Við ætlum að taka upp nýtt nafn á Snorra á næstunni, Snorri hálfi Sigurðsson. Hér í Borgarfirði er alþekkt að búa stórmennum viðurnöfn við hæfi (dæmi: Egill Sterki) og þetta finnst familíunni afskaplega fínt nafn. Snorri er ekki sammála, en eins og svo oft áður eða eiginlega alltaf lenti hann í minnihluta í atkvæðagreiðslu...
Landvinningar
Mikill vill meira. Í sumar ákváðu hr. Sigurðsson og hr. Jónsson nágranni okkar að stækka lóðirnar. Málið var að á milli húsanna hjá okkur var mikið landrými sem enginn hafði not fyrir. Því ákváðu þeir nágrannarnir að sækja um stækkun á lóðunum svo þær næðu alveg saman. Fleiri íbúar við götuna gengu í hópinn og var farið í lagfæringar á lóðmörkum margra lóða. Þessar tillögur gengu í gegn og var húsbóndinn á bænum þetta litla ánægður. Nú var komin stór og fín lóð, það þurfti bara aðeins að slétta, tyrfa, planta nokkrum trjám og þá væri þetta komið. Frú Kolbrún, garðyrkjumaðurinn hér á Ásvegi 3, lét sko ekki glepjast af svona fagurgala. Aðeins er nefnilega ekki bara aðeins. Lóðin stækkaði nefninlega um helming og er núna um 2900 fm og hver haldið þið að sjái um að slá þetta ferlíki? Það mun ekki vera húsbóndinn á heimilinu, nei hann er með ofnæmi - greyið. Aukalandið fær því að vera náttúrulegt, með slatta af trjám hér og þar og hananú!
Norðurferðin
Í ár náðum við tveimur ferðum norður til Hriflubænda. Í byrjun maí skelltum við okkur norður að Illugastöðum þar sem við leigðum okkur sumarhús yfir helgi. Og ástæðan fyrir þessari ógurlegu fjölskyldusamveru var heljarinnar teiti sem erfðaprinsessan á Hriflu hélt í tilefni fermingar sinnar. Nú og svo var að sjálfssögðu farið aftur af stað tveimur vikum síðar í sauðburðarferðina miklu. Þá þóknaðist herra frumburði að koma með. Hann sá nefnilega fram á að geta unnið eitthvað og bað hann hr. Sigrðsson að nefna það við bóndann að hafa verkefni tilbúið fyrir hann. Guð forði honum frá því að stoppa í 2 mínútur.
Vestfjarðaferðin mikla
Í sumar lagðist fjölskyldan hans Snorra í víking. Tilefnið var tvöfalt sjötugsafmæli foreldranna og í stað þess að eyða auðinum í útlöndum var ákveðið að stefna á Vestfirði. Úr þessu varð hinn besti túr, en þar sem fjarlægðir frá helstu verslunar- og þjónustustöðum takmörkuðu mögulegar dagleiðir malbiks-fjölskyldanna (maður getur nú ekki rokið út á land nema hægt sé að fara annaðhvort í sund daglega og/eða út að borða) var dvalið langdvölum við Breiðafjörðinn. Nokkur spaugileg atriði komu upp, s.s. þegar tjaldbúðirnar létu nánast undan veðurhamnum eða þegar vel þjálfaðir ættingjarnir gátu ekki vaðið yfir smá læk á Rauðasandi þar sem hann var kaldur osfrv. (vel að merkja, við Hvanneyringarnir fórum öll yfir). Þá kom sér reyndar vel að hafa Hafþór Frey með í för enda bítur kuldi ekki á hann. Hann óð margoft yfir kaldan álinn og bar kulsækin frændsystkini sín fram og til baka.Það sem stóð þó uppúr ferðinni var hve mikið kapp var í ferðafélögunum á sínum dökkleitu og hraðskreiðu jeppum. Við skröltum þetta á honum Brúsa II, Subaru Legacy ´97 ekinn 260 þúsund kílómetra og með upphaflegu vélinni. Hann Brúsi II lagði þó ákveðnar takmarkanir á ferðahraðann og því vorum við oftar en ekki síðust á hverri dagleið sem ekin var. Þar sem þarna vesturfrá næst hvorki radíó, sjónvarp né nokkuð annað sem hægt er að nota til dægrardvalar við hægfara akstur (ákveður einhver að búa þarna sjálfviljugur?) - tók Súbarúgengið upp á því að yrkja upp á gamla mátann. Ekki fer miklum sögum af hæfileikum familíunnar á þessu sviði, en þetta var amk. skemmtilegra en að vera endalaust í Dustin Hoffman leiknum (hver er maðurinn?).
Berjaferðin
Öðru sinni þetta árið héldum við vestur á firði. Að þessu sinni var stefnan tekin á Stykkishólm og þaðan með Baldri yfir á Brjánslæk hvar sumarbústaður beið okkar og nágranna okkar héðan á Hvanneyri. Ferðinni var heitið til berjatínslu. Hverkonar rugl er það annars að tína ber? Bograndi í runnum, leitandi að aðalbláberjum (enda eru venjuleg bláber fyrir mýs segja þeir fyrir vestan)... Hreinsa og hrista, draga svo allt heim, hræra sykri út í og éta svo á sig gat af ferskum berjum með þeim afleiðingum að detoxið hennar Jónínu fölnar í samanburði við árangurinn af berjakúrnum. Af siðferðisástæðum ætlum við að hætta lýsingunni hér...
Ofvaxnir gaurar
Hér má ekki gefa of mikið upp, enda málið á afar viðkvæmu stigi, en eftir 0.5 cm lendir húsbóndinn (les: Snorri) á heimilinu í þriðja sæti í hæðarmælingakapphlaupinu, enda er hann ekki nema 193 cm að hæð. Tinna Rós rekur enn lestina, en stefnir ótrauð á fjórða sætið og þá verður húsfreyjan orðin dvergvaxin samkvæmt skilgreiningum á Ásvegi 3.
Hjólaferð til Danmerkur
Í júní fór Snorri í vinnuferð til Danmerkur og gisti hann hjá systur hennar Kollu. Hann eyddi nokkrum dögum í að heimsækja bændur og búalið og ýmiss fyrirtæki og stofnanir. Frúnni bauð hann svo að koma yfir helgi, sem hún og gerði. Helgin var notuð til að skoða sig um í Aarhus og til að athuga með hugsanlega leigumöguleika á næsta ári fyrir familíuna. Það skal hér með tekið fram að hjónin hjóluðu eða gengu um allt í skoðunarferðunum. Snorri er s.s. að huga að framhaldsnámi sem hann stefnir á að stunda í Danaveldi. Allir eru frekar spenntir yfir þessu, þó hefur erfðaprinsinn svolitlar áhyggjur. Hann á jú sína kærustu og svo eru það vinirnir, já og ekki má gleyma áhugamálunum, maturinn hjá tengdó er alltaf á réttum tíma o.s.frv. Hverjir fara með næsta haust kemur síðar í ljós!!!
Pöbbinn
Fimmti veturinn er nú farinn af stað á pöbbnum sem í daglegu tali kallast einfaldlega Kollubar. Þrátt fyrir efnahagsástandið gengur bara skratti vel og lítið annað um það að segja en Eninga, meninga....
Aldrei fór ég á Þorrablót 2009
Við hér á Ásveginum erum þekkt fyrir að vera frekar ómannblendin og sér á báti. Fjölmenni er ekki við okkar hæfi (kannski af því fáum ekki næga athygli) svo að í staðinn fyrir að sækja hið árlega þorrablót sem haldið er hér í sveitinni skipulögðum við okkar eigið blót með nokkrum vinum. Mættum við galvösk heim til Ara (frænda frú Kolbrúnar) og Hildar konu hans með fangið fullt af heimagerðu slátri og öðrum guðaveigum. Að góðum þorrablótssið var mikið etið og drukkið, söngurinn ekki langt undan og svo að sjálfssögðu leikir og grín. Erfitt verður að slá þessu blóti við, en að sjálfssögðu er þegar farið að skipuleggja næsta blót og það á sama stað. Hér með tilkynnist húsráðendum það.
Jólaseríudrama
Hér á bæ förum við hamförum í jólaskreytingum að okkar mati, þó ekkert á við marga aðra á Íslandinu góða. Að setja út jólaseríur hefur hingað til verið eina starfið hans Snorra í undirbúningi jólanna. En þar sem Þursinn skellti sér í bakið á honum slapp hann nokkuð vel í ár hvað þetta varðar. Erfðaprinsinn sá um að klifra upp í stiga og naglalakka allar perurnar aftur rauðar. Já þið lásuð rétt. Perurnar eru naglalakkaðar ár hvert. Þannig fær kvennlega hliðin hjá Snorra að blómstra óáreitt. Frúin og erfðaprinsinn hentu upp slatta af öðrum seríum hingað og þangað um garðinn og voru bara stolt af. Í hvert skipti sem Snorri lítur út brestur hann í hljóðan grát, ekki af stolti heldur niðurlægingu. Seríurnar eru ekki settar RÉTT upp, það er ekki RÉTT bil á milli ljósanna og ekki RÉTTA tréð valið fyrir hverja seríu. Hann mun ekki klikka á að kaupa lengra ryksuguskaft fyrir næstu jól...
Så er det slut for nu
Enn á ný höfum við skrifað frá okkur vit og rænu en svona er þetta bara, eins og hún Beta í kjallaranum segir alltaf.Elskurnar okkar allra, hafið það nú gott að vanda um hátíðirnar og munið að vera þið sjálf. Ekkert stress og rugl, bara njóta og vera til. Farið og röltið um nágrennið, heimsækið vini sem þið hafið ekki heimsótt lengi eða takið upp tólið og sláið á til þeirra sem þið hafið ekki heyrt í lengi. Það eru okkar óskir til ykkar allra.
Knús og kossar og munið að Hvanneyri er alltaf í leiðinni, hvert sem maður fer!
Snorri, Kolla, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti og Brúsi II
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2009 | 12:21
Gleðilega páska Tinna Rós, Hafþór Freyr og Arnar Hrafn
Næsta vísbending fyrir þig Tinna Rós: Ég geymi oft bolta en oft ekki...
Næsta vísbending fyrir þig Hafþór Freyr: Þú heldur á næstu vísbendingu á mynd sem er undir flokknum "Jólin 2008".
Næsta vísbending fyrir þig Arnar Hrafn: Skoðaðu vel myndirnar í flokknum "Jólin 2008". Í textaskýringu á einum stað er vísbending fyrir þig.
Já og eitt enn: það má ekki nefna þessa síðu við hin systkinin fyrr en eftir að páskaeggjaleit er lokið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2009 | 18:38
Gleðilegt nýtt ár - skoðið myndirnar
Óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir hið liðna. Höfum nú sett inn myndir frá helstu jólaboðum og áramótunum. Smelltu á flokkinn "Myndaalbúm" hér við hliðina.
Njótið vel
Kolla og Snorri
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2008 | 13:57
Jólahornið 2008
Stofnað árið 2000
Sæl öll og gleðilega hátíð. Þá er enn eitt árið að verða liðið og enn eitt skiptið hefur margt gengið á í familíunni eins og vera ber. Að venju höldum við í hefðirnar og rennum í stuttu máli yfir liðið ár, þessi dagskrárliður Jólahornsins hefur ekkert breyst sl. átta ár:
KÆRI/KÆRA/KÆRU _____________ (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.
KÆR KVEÐJA
FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.
Nú er 2008, ekki 1008, ekki slátur mamma!
Margt áhugavert gerðist á árinu og þegar efnahagslægðin skreið alla leið upp á Hvanneyri, var ákveðið að taka slátur sem er svo sem ekki í frásögur færandi þar sem það er nú oftast gert hér á haustin. Þetta haustið s.s. í engu frábrugðið öðrum haustum, ef frá er talin lítil athugasemd frumburðarins. Hann telur nefninlega slátur ekki upp með sínum uppáhaldsmat, eða eins og hann orðaði það: að hræra saman blóði við mjöl gerir blóðið ekkert að meiri mat, svo ég tali nú ekki um að bæta út í blóðið fitu!. Nei hann telur sig ekki kominn frá Transilvaníu og því blóðneysla ekki sérlega áhugaverð iðja, eða eins og hann orðaði það: nú er árið 2008, ekki 1008 og við þurfum ekki að leggja okkur til munns sama fæðið og víkingar forðum... ekki hafa slátur mamma svo mörg voru þau orð frumburðarins. Sumir myndu nú kalla þetta snobb, en aðrir t.d. frændfólkið okkar í Hafnarfirðinum líklega flokka orð hans með því skynsmalegra sem hægt væri að mæla. Erum við þá ekki einusinni farin að ræða um kjötfarsát, sem á reyndar sérlega vel upp á pallborðið hérna megin Skarðsheiðarinnar síður sunnan hennar skilst okkur...
Karfa alla daga
Nú hafa strákarnir fundið nýja aðferð við að halda okkur uppteknum við akstur alla daga. Já karfa skal það vera heillin. Báðir eru farnir að æfa körfubolta, þó svo Arnar æfi af meira kappi enda æfir hann með hinu stórgóða liði Skallagríms (sem hefur reyndar ekki unnið leik í deildinni þegar þetta er skrifað en...). Já frjálsar hafa verið settar á reynsluhilluna og karfan tekið við. Hafþór æfir einnig og er að standa sig vel. Amk. rennur barnasmjörið ljúft af honum þessa dagana!
Flutti á miðhæðina!
Hugmyndir okkar húsbændanna á Ásvegi 3 var að við myndum eiga miðhæðina út af fyrir okkur og börnin myndu vera á efstu hæðinni. Loksins þegar okkur tókst að bola Tinnu Rós upp á efstu hæð, hrósuðum við áfangasigri sigri sem við bjuggum við í stuttan tíma. Hafþór taldi sig nefninlega vera yfir það hafinn að búa í hæstu hæðum og flutti niður í tölvuherbergi. Tinna Rós flutti þá yfir í gamla herbergið hans Hafþórs, sem vel að merkja er nákvæmlega eins og hennar herbergi var. Nei í það herbergi skildi flutt og ekkert múður. Pabbi, sem rétt hafði farið niður með verkfærin eftir að hafa hengt upp allskonar dúkkur, hillur og spegla mátti takk fyrir snúa aftur með græjurnar og skrúfa allt niður og setja upp í nýja herberginu. Og afhverju var flutt? Jú hún vildi nefnlega geta horft á flugeldana úr sínu eigin herbergi (glugginn vís að Borgarnesi). Þetta eru, eins og allir lesendur sjá greinilega, svo góð rök að pabbi gaf þetta að sjálfsögðu eftir enda vanur því að hlýða kvennkostinum á heimilinu.
Arnar kominn með bíl og æfingaleyfi
Mikið svakalega líður þetta líf hratt áfram. Örstutt er síðan frumburðurinn fæddist, með tilheyrandi meðgöngueitrun og hvað það nú var allt saman. Örstutt er síðan við vorum í námi í Danmörku. Örstutt er síðan við byggðum húsið okkar. Örstutt er síðan við gáfum út fyrsta Jólahornið en verum nú smá raunsæ. Ef við horfum jafn langt fram í tímann og t.d. síðan Jólahornið var stofnað, þá á væntanlega margt eftir að vera allt öðruvísi en það er í dag. Förum fram til ársins 2016. Arnar Hrafn er orðinn 24urra ára (Snorri varð pabbi 23ja), Hafþór Freyr orðinn 22ja ára (jafn gamall og Kolla var þegar hún varð mamma fyrsta sinni) og Tinna Rós komin með bílpróf fyrir rúmu ári. Óhh mææ god! Jæja, svona er þetta bara. Núna eru s.s. 2 mánuðir í að Arnar Hrafn fái bílpróf og er pabbi (já vel að merkja PABBI) búinn að kaupa bílskrjóð fyrir guttann. Fólksvagen Golf af bestu gerð, svolítið við aldur en voða græja með kraftpústi, bassaboksi og ég veit ekki hvað. Æ hvað það er nú gaman að eiga stráka, er það ekki pabbar?
Snorri já og svo hann Gutti, gamlir orðnir
Já þeir félagar eru orðnir hálf lúnir. Annar nú nýkominn á fimmtugsaldurinn og hinn á sextugsaldurinn svona ef við reiknum nú hundaárin yfir í mannár. Reyndar er Gutti í mun betra formi en hinn gamlinginn, enda mesta hreyfing Snorra þegar hann röltir fram á klósett á morgnana til þess að tæma bekkenið. Afmælisveislu Snorra var frestað fram á næsta ár þar sem Sálin var upptekin þann 28. nóv. sl. og því var veislunni slegið á frest fram á næsta ár, veislan verður haldin við lofum.
Hvað erfði ég frá þér mamma?
Fyrir skömmu átti Arnar Hrafn að gera verkefni í menntaskólanum þar sem hann átti að gera grein fyrir uppruna sínum, benda á helstu mannkosti sína og hvaðan hann hefði hitt og þetta í fari og háttarlagi. Hann dró til stafs ýmsa þætti sem hann tengdi við pabba sinn, íþróttir, snerpu, bólusækni í andliti og baki, hæð, hárlit, vaxtarlag osfrv. Svo kom að því að tengja við mömmu eitthvað. Eftir vandlega skoðun, ákvað hann að hringja í mömmu sína og spurði: Mamma, hvað erfði ég eiginlega frá þér? frú Kolbrún var frekar móðguð og ákvað að skrifa niður allt það sem barnið hefði frá blóðmóður sinni og afhenda honum um kvöldið. Kvöldið kom og morguninn á eftir og hann fór í skólann með upplýsingar um áðurnefndar tengingar við pabba og þær mikilvægu upplýsingar að hann hefði nasavængina hennar mömmu sinnar...
Hafþór fermdur
Í júníbyrjun var litli drengurinn okkar fermdur. Hann ákvað strax að þennan undirbúning skyldi taka alvarlega og tilkynnti foreldrum sínum að þeim bæri skylda til að mæta með honum í kirkju og taka fullann þátt í öllu því sem Sr. Flóki myndi setja okkur fyrir, með bros á vör. Heiðingjar er kannski ekki rétta orðið yfir hr. og frú Sigurðsson en svona nálægt því er lílkega ekki fjarri lagi. Dæmi hver fyrir sig. Snorri tilkynnti strax að hann tryði á engan nema sjálfan sig (sörpræsinglí) svo þetta væri mál mömmunar, nema ef Hafþór Freyr ætlaði að láta ferma sig inna trúar-reglunnar Snorrisma. Mamman tók hins vegar á þessu með léttu spjalli um það að fólk stundaði trúna á mismunandi vegu og að hún hefði sína trú fyrir sjálfa sig. Ræðan endaði svo með fallegu brosi og þessum orðum: Hafþór minn, trúin mælist ekki í kirkjusókninni. Sterkar líkur eru á því að Hafþór hafi faið til prestsins með það sama og tilkynnt honum það sem móðir hans hafi sagt. Því í fermingunni sjálfri hélt sr. Flóki þrumandi ræðu um trúmál og tilkynnti söfnuðinum það að trúin væri ekki eitthvað sem hægt væri að hafa fyrir sjálfan sig, maður eigi að deila henni í Guðs húsi. Frúin átti í smá erfiðleikum með hláturinn en allt fór vel að lokum. Hafþór Freyr fermdist með pompi og prakt og ættingjar og vinir drukku með okkur kaffi í tilefni dagsins. Trúin hefur alltaf verið mikil hjá honum Hafþóri og trúarbókin sem hann byrjaði á fyrir um 2 árum er ekki enn komin út, en það er aldrei að vita hvað verður í framtíðinni. Mamma hans tilkynnti honum þó að það væri svona eiginlega búið að rita um þetta málefni og ber bókin titilinn BIBLÍAN.
Aldrei fórum við Norður
Nei ekki fórum við Norður að Hriflu þetta vorið og var litla....yngsta fólkið frekar ósátt við það. Ástæðan var örlítill undirbúningur að fermingu Hafþórs. Loforð var tekið af eldri-borgurunum að þetta myndi ekki henda aftur. Þegar er byrjað að plana ferðina vorið 2009 því þá ætla þeir bræður að fara saman á bíl og við eldri ásamt dekurdúkkunni okkar verðum á lummulega bílnum, honum Grána gamla.
Snorri og áhugamálin
Já það er ekki ofsögum sagt að þegar Snorri tekur sér eitthvað fyrir hendur að þá gerir hann það með stæl. Drengurinn ákvað það fyrir margt löngu að stunda engin áhugamál fyrr en börnin væru orðin stálpuð og/eða gengin út. Hann taldi sig nefnilega vinna svo mikið að þessum litla frítíma sem hann hafði, ætlaði hann að splæsa í börn og frú. Svo líða árin og allt í einu er bakið farið að gefa sig, gráu hárin mætt og bumban farin að stinga sér út á milli bols og strengs. Svo hann ákvað að bæta sér upp öll glötuðu áhugamálsárin og skellti sér í söngnám. Ekki nennir drengurinn að æfa sig heima svo hann þenur raddböndin með Kammerkór Vesturlands einu sinni í viku. Bumban er á miklu undanhaldi þar sem hann og nokkrir aðrir drengir hér á svæðinu hittast og spila blak af miklum móð. Nú og svo ofan á allt þetta er hann í björgunarsveitinni Ok, sinnir barnum sem aldrei fyrr og sinni venjulegu dagvinnu sem hefur ekkert minnkað með árunum. Já það er eins gott að börnin flytji ekki að heiman í bráð, því þá mun hann hverfa inn í áhugamálin fyrir fullt og allt.
Svo lærir sem lifir
Já maður er nú alltaf að læra eitthvað nýtt eins og gengur. Margt hef ég (Snorri) numið af mér eldra og reyndara fólki, þó svo að upp úr standi lærdómur sem ég hef dregið af annars vegar pabba og hinsvegar tengdapabba. Vísir menn og margfróðir. Ég held að allir sem þetta lesa ættu að fara í smiðjur reynsluboltanna í lífinu og læra af þeim, það marg borgar sig og hér er eitt lítið dæmi. Um daginn var ég að hengja út jólakrans við hliðna á útihurðinni. Ægifagur krans með ljósleiðara og öllum pakkanum. Tengdapabbi var skammt undan við að lappa upp á gamla seríu sem við eigum og fór þetta allt fram af yfirvegun og rósemi. Þegar ég var við það að hengja upp kransinn spurði ég Ölla (tengdapabba): Í hvaða hæð á ég að hafa kransinn Ölli? Hann svaraði hægt og ákveðið, og algerlega án þess að hika: Ja heima hjá mér myndi ég ekki taka þessa ákvörðun! Fyrir augum mér runnu fyrirsagnir stórblaða: Hvílíkt frumhlaup, hvílík hroðvirkni og hvílík fljótfærni hjá Snorra. Þarna munaði ekki nema eins og einu naglagati að ég hefði mögulega náð að upplifa svartnætti, nokkrum hamarshöggum frá því að lenda í mennsku kviksyndi. Ég svifti umsvifalaust upp hurðinni og kallaði á Kollu til þess að taka þessa ákvörðun. Enn á ný bjargaði reynsla mér eldri manna mér frá tjóni. Já ég er alltaf að læra og læra og ég veit ekki hvar ég væri í dag ef ég hefði ekki visku, mér eldri og reyndari manna, að sækja í. Líklega væri ég amk. hamarslaus maður, það er víst, og ofan í kaupið með jólakrans í rangri hæð.
Dansinn dunar
Já dönsum á gleðispori, gæfan er gleðirík.
Fjölskyldan skekur skanka, sælan er æðisleg.
Dansinn hann dunar og dunar og dunar og dunar
Já þetta litla póm var gjört í tilefni af því (hluta stolið frá frægu skagfirsku skáldi) að hér eru sem fyrr allir að dansa. Arnar Hrafn hefur að vísu fengið nýja dömu upp á arminn, hana Kötu okkar en þau eru jafnaldrar og í sama skóla. Áður dansaði hann við Björgu, en þar sem hún var flutt í bæinn þá gekk þetta ekki nógu vel. Hafþór Freyr er enn með sína dömu, Vigdísi og Tinna Rós dansar við hana Svövu Sjöfn. Svo til að toppa þetta allt, þá er Kolla auðvitað í stjórn Dansfélags Borgarfjarðar en ekki hvað? Snorri er hinsvegar enn að reyna að átta sig á því út á hvað þessi Foxtgrott gengur ekki er útlit fyrir að árið 2009 dugi til þess að hann leysi þá gátuna.
Búkett orð dagsins
Snorri á alveg frábæra frænku sem á það til að sletta svolítið upp á aðra tunguna. Vegna þessa er hér lítið orðahorn Jólahornsins kynnt til leiks. Orðið að þessu sinni er bukett eða búkei eins og það útleggst með réttum framburði. Þetta skal notað yfir fallega blómvendi, dæmi: nei mikið er þetta glæsilegur búkei.
Barnaþrælkunin 2009
Já sem fyrr er sami húsaginn á heimilinu, hér eiga allir að vinna sem geta unnið. Það er ekkert elsku mamma á þessum bæ. Sl. sumar var í engu frábrugðið öðrum hvað þetta áhrærir. Arnar Hrafn fékk vinnu hjá Landbúnaðarháskólanum og vann hann á búi skólans (afar sniðugt fyrir svona ofnæmispésa haldinn sömu sjálfspíningarhvöt og pabbi sinn). Hafþór Freyr vann bæði við unglingavinnuna og hjá mömmu í búðinni og Tinna Rós stóð galvösk margar vaktir í búðinni. Já við þvingum hér alla til að vinna, það gerir krökkunum gott að fá ábyrgðartilfinningu það er amk. okkar skoðun og líkur þar með pólitískum uppeldishluta Jólahornsins 2008.
Ví-Æ-PÍ
Já þeir voru heldur ánægðir með sig, strákarnir í Danmerkurferðinni. Þeir fóru í alla helstu rússíbana landsins og fengu einnig að fara á leik með Gulla Viktori frænda sínum, sem er atvinnumaður í fótbolta í landi Bauna. Sáu þeir þar leik heimamanna í Árósum á móti Bröndby og það fór allt upp í háaloft á milli stuðningsmanna, slagsmál og læti. Þetta var mikil upplifun og umtöluð þegar heim var komið. Þá var nú ekki verra að komast í VIP salinn í hléi, þar sem allur pakkinn var tekinn. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þeir brugðust við er þeir fréttu af áhuga Lifrarpollsmanna á honum Gulla. Þeir eru þegar farnir að Gúggla borgina og spotta út áhugaverða staði að heimsækja, ef Gulli fær þar góðan díl sem allir í stórfamilíunni vona enda á hann það svo sannarlega skilið. Snorri er sér í lagi áhugasamur um málið enda Púlari frá fyrstu tíð, en ekki Arsenal-maður eins og guttarnir á heimilinu. Svo segir hugur vor að ef af félagaskiptum Gulla verður, þá muni Púlurum í familíunni fjölga svo um munar. Æ hvað það er nú gaman að eiga stráka, er það ekki pabbar?
Extra lartsj
Í vetur sem leið fór Snorri sem fararstjóri í ferð bænda til Suður-Ameríku. Ferðin var um margt óvenjuleg og má lesa ferðalýsingu pabba Snorra (sem fór með) á www.naut.is. Eitt af því sem kom upp á í ferðinni var að allir ferðalangarnir urðu tepptir í New York í nokkra daga og það farangurslausir. Snorri nennti ekki að kaupa sér mikið af klæðum þessa daga, en varð auðvitað að græja nokkra hluti svo sem nærföt, sokka og þ.h. Af gömlum vana keypti hann allt í XL, þ.e. extra large eins og gefur að skilja. Nema hvað, hann smellti sér í sturtu eftir nærfatakaupin og klæddi sig í þessar fínu boxer nærbuxur og rölti beint fram í hótelherbergið. Þessi saga myndi enda hér og nú, ef brækurnar hefðu ekki hlunkast niður um hann á miðri leiðinni, svona líka allt of, allt of, allt of stórar. XL þarna vesturfrá er s.s. einhver hjúmongus stærð, stærð sem hentar amerískum hamborgararössum. Sem betur fór var hann einn á herbergi og það var jafngott að hann stakk sér ekki til sunds í nýju sundskýlunni sem hann keypti líka...
Ný íþróttagrein hjá ÍSÍ: að grípa frammí fyrir
Á árinu héldum við áfram að þjálfa krakkana okkar í því að ná góðum tökum á hinni geysivinsælu og spennandi íþróttagrein: Gríptu frammí fyrir öðrum. Þessi grein hefur um langa hríð verið stunduð af fjölskyldu Snorra og það með afar góðum árangri. Nokkrir í fjölskyldunni hans hafa náð undraverðum árangri í greininni og stefnir nú allt í að strákarnir á Ásveginum séu að verða miklir meistarar, en Tinna Rós á enn nokkuð í land en þetta kemur. Á þetta reyndi verulega í sumar þegar fjölskyldumót niðja afa og ömmu á Skeggjó (móðurafi og amma Snorra) var haldið í Skorradal. Þar komu saman helstu sérfræðingarnir á þessu sviði á landinu öllu, og þótt víðar væri leitað. Frábær keppni var haldin um leið og matast var, en keppnin fer þannig fram að þegar einn er að segja frá einhverju afar skemmtilegu eða spennandi, þá byrjar næsti (má t.d. vera sessunautur, mótsetuaðili og/eða jafnvel sá sem viðkomandi er að tala við) að tala algerlega þvert ofan í það sem verið er að tala um. Snýst keppnin um það að ná að klára frásögnina án þess að truflast af þessu og/eða láta það hafa áhrif á sig að hlustandinn hefur þegar hafið upp raust sína sjálfur við aðra frásögn. Þarna urðu margir frábærir keppnismenn að láta í minni pokann sinn og stinga sínum áhugaverðu sögum í sama pokann. Það verður nú að viðurkennast að þeir sem ekki eru blóðskildir á Skeggjagötuna eiga yfirleitt lítið erindi í keppnina yfir höfuð. Eins og margir vita er Snorri ríkjandi meistari í greininni í okkar litlu fjölskyldu hér á Hvanneyri og núna erum við að ala upp gríðarlega efnilega einstaklinga á þessu sviði. Verður spennandi að fylgjast með þeim á næstu árum. Við hlökkum til þess að mæta með þá galvaska í næsta ættarmót!
Villtu ekki anda núna vinur?
Húsbóndinn (les: Snorri) hefur átt við einhver eymsl að stríða í baki á liðnu ári og fékk svona líka fínt reseft frá lækni til þess að láta sjúkraþjálfara kíkja á sig. Hann pantaði tíma og fékk inni 6 vikum síðar. Þá var auðvitað enginn bakverkur lengur til staðar en hann fór engu að síður. Þarna berháttaði hann sig fyrir framan unga og huggulega konu, sem var á að giska svona helmingi minni og léttari en hann. Nema hvað, hún lét kappann leggjast á nuddbekk og byrjaði að ýta á einhverja skakka hryggjarliði. Skipti engum togum að hún fann líka þessa fínu misfellur í bakinu á honum og fór að hnoðast á honum af öllum sínum þunga. Snorri, sem á þessum tímapunkti var með andlitið ofan í undarlegu gati á bekknum, gantaðis með þetta og hvað sig vera að upplifa hluti eins og maður sér í bíómyndum. Allt í einu fann litla daman auman blett og fór að djöflast á honum, ýtti fastar og fastar og meira og meira. Snorri, sem þekktur er fyrir hreysti, tók þessu vel og lést ekki finna fyrir neinu. Jafn hratt og hún hafði byrjað hnoðið, hætti hún og sagði þessa líka fínu setninguSnorri, viltu ekki anda núna?. Já kappinn mikli var nefnilega svo kvalinn eftir þessa litlu dömu, að hann hafði algerlega spennt upp hvern vöðva sem hann náði til og hafði fullkomlega gleymt því að maður þarf að anda stundum, svona til þess að líða ekki út af. Skömmustulegur dró hann andann og ákvað bara eftir þetta að leyfa henni að upplifa með sér hve andsk. vont þetta var. Nokkrum háðsglósum síðar, frá vörum litlu dömunnar, lauk þessum kvalatíma og haltraði Snorri burt. Hann átti að koma aftur og aftur og aftur, en er enn ófarinn!
Barnið orðið stærst!
Já nú er það slæmt. Arnar Hrafn er orðinn stærri en pabbinn og dagljóst að Hafþór Freyr mun sigla yfir hann einnig. Þessi staðreynd er Snorra erfið, enda óx hann pabba sínum aldrei yfir höfuð, og á fjölskyldumynd, sem tekin var í sumar, gaf Snorri honum Arnari Hrafni gott olnbogaskot rétt fyrir myndatökuna. Glæsileg mynd í alla staði nema hvað Arnar Hrafn er í keng á henni og því Snorri enn lang stærstur í fjölskyldunni...
Vestfjarðaferðin mikla
Nágrannarnir okkar þau Inga og Keli buðu okkur í heimsókn til sín í sumarhús í Dýrafjörðin í sumar. Allt var skipulagt fram í fingurgóma. Enn eitt gleymdist. Snorri er tekur sér ekki sumarfrí og Arnar Hrafn peningapúki týmdi ekki að taka sér sumarfrí (Kolla býr orðið með tveimur Snorrum). En að bíða er það sama og tapa. Svo frúin pakkaði niður og skellti sér vestur ásamt Tinnu Rós og Hafþóri Frey á honum Grána gamla. Stoppað var í Fremri-Gufudal, rifjaðir upp gamlir tímar og kaffið drukkið af bestu list. Svo var ferðinni haldið áfram og næsta stopp var í Dýrafirðinum hjá þeim hjónum þar sem dýrindis kjötsúpa beið, ferðalöngunum til mikillar gleði. Ísafjörður, Bolungarvík, Súgandafjörður og Flateyri voru heimsótt og svo auðvitað Þingeyri og hesthúsahverfið þar sem Keli var látinn sína gæðinga sína. Farið var í veiðitúr og var aflinn 4 vænir silungar/urriðar. Eftir alltof stutt stopp var haldið heimá leið og heimtaði fröken Tinna Rós að taka ferjuna Baldur yfir fjörðin. Hún hafði nefninlega metið það svo að af tvennu illu, þá var skárra að farþegaskipið myndi rekast á ísjaka (sem er víst frekar regla en undantekning að hennar sögn, samanber Títanic) en að keyra fram af þessum stórhættulegu fjöllum sem eru þarna fyrir vestan.
Allir fóru til Danmerkur... nema pabbi
Í sumar fór Tinna Rós í heimsókn til Dagnýjar frænku í Árósum. Þar dvaldi hún með frænkunni í nokkrar vikur, eða allt þar til Arnar, Hafþór og Kolla komu út í sk. rússíbanaferð. Ferð þessi var breytt fermingarferð Hafþórs Freys og gekk hún út á að heimsækja skemmtigarða á hverjum degi í heila viku. Þetta gekk eftir og var gríðarlegt fjör. Arnar fór með, á eigin kostnað, en mamma og pabbi muldu þó aðeins undir hann eins og vera ber. Því miður markaði þessi ferð upphaf falls íslenska samfélagsins eins og við þekkjum það. Gengið féll við endurkomu þeirra til landsins... Já tókuð þið eftir því Snorri fór náttúrulega ekki, maður getur ekki farið í frí á miðju sumri sjáðu.
Rauður seldur í miðri kreppunni!
Þrátt fyrir ótíðina tókst okkur að selja hann Rauð okkar og það fyrir metfé. Að sögn bílasalans var þetta eini bíllinn sem seldist þá vikuna og það enginn smá sparnaðarbíll! Níðþungur amerískur olíuhákur! Verði kaupandanum að góðu!
Nýr leigjandi í kjallaranum
Enn á ný urðu leigjenda skipti hjá okkur í kjallaranum. Fyrirtækið Sólfell sem hafði verið með íbúðina sl. 2 ár var pent sagt upp leigunni þegar ekki hafði tekist að kreysta út aura frá því góða fyrirtæki í nokkra mánuði. Núna er Arnar Þór mágur að nota alla sína menntun í það að ná í þessa aura aftur og fer dómstólaleiðina við þá innheimtu (lítið gefinn fyrir handrukkun). Í stað hinna austur-evrópsku borgara sem hafa verið í kjallaranum undanfarin ár er nú flutt yngismærin Beta, en hún vinnur m.a. hjá okkur á Pöbbnum.
Kollubúð í langþráð leyfi...
Já, loksins gerðist það. Þann 21. október ákvað forstjórinn að nú væri nóg komið og búðinni skildi lokað...í bili. Þann daginn reddaði stjórinn sér nýrri vinnu og þremur dögum síðar var svo alsherjar útsala og versluninni skellt í lás á þeim herrans degi 24. október eða á afmælisdeginum hans Hafþórs. Nú má ekki skilja þetta sem svo að fyrirtækið sé komið undir, nei við rekum áfram Pöbbinn og ætlum að stækka hann inn í svæðið þar sem búðin var. Hinsvegar var verslunarreksturinn ekki að skila nógu að okkar mati, miðað við það sem Pöbbinn er að skila (miðað við vinnu og kostnað) svo að þetta var lausnin. Ótrúlega ánægð kona mætti svo í nýju vinnuna sína 2 dögum síðar en hún er að vinna við félagsþjónustuna í Borgarbyggð og svo til þess að ná kaupinu upp, að ræsta hjá Landbúnaðarháskólanum!!!
Vakti leigjandann!
Já það getur stundum verið erfitt að búa í fjölbýlishúsi, eins og leigjandinn okkar upplifði nú fyrir jólin. Svefnherbergið hennar er beint fyrir neðan stofuna okkar og á hverjum morgni nú í aðdraganda jólanna vaknaði hún upp við, svona rétt upp úr kl. 7, Snæfinn snjókarl! Ekki það að hún væri með hjásvæfu með kaldar hendur eða eitthvað svoleiðis, nei Tinna Rós æfði sig að spila lagið um hann Snæfinn á hverjum morgni áður en hún fór í skólann enda var lagið hluti af helgileiksundirbúningi í grunnskólanum hér á Hvanneyri. Við erum reyndar ekki frá því að leigjandi hefði jafnvel heldur viljað kaldar hendurnar, en það er nú önnur saga allt önnur og fyrir annarskonar tímaritsbirtingu.
Pöbbinn
Fjórði veturinn er nú farinn af stað og þrátt fyrir niðursveiflu í þjóðfélaginu gengur barasta vel að selja bjór og annað áfengi. Á árinu hafa nokkur bönd komið og spilað á Pöbbnum og stærsti viðburðurinn var núna í nóvember þegar Ný Dönsk kom og spilaði á Pöbbnum. Frábærir tónleikar og troðfullt hús. Þetta tókst svo vel að nú eru skemmtanastjórar Pöbbsins að leita verðugra arftaka til þess að troða upp á vorönninni. Við erum ekki úrkula vonar um að ABBA komi saman af þessu tilefni sjáum hvað setur!
Þú vilt senda Tinnu til Danmerkur
Tinna Rós fékk í gegn að fara í heimsókn til Dagnýjar eins og annarsstaðar kemur fram. Hún notaði mögnuð kvennaráð við undirbúning ferðarinnar sem við viljum greina hér frá. Trixið var að tala yfir mömmu sinni sofandi í tíma og ótíma, þar sem hún mælti/hvíslaði: Þig langar að senda Tinnu Rós til Danmerkur endurtekið eftir þörfum. Ofan í kaupið lofaði hún svo að borga helminginn í flugmiðanum (það er svo glatað að eiga börn sem eiga fullt af peningum inn á bankabók það snarskerðir völd foreldranna) og svona gekk þetta koll af kolli. Svo fór hún að tala um hvað hún ætlaði að gera í Danmörku, hvað þær frænkurnar væru búnar að skipuleggja saman (MSN er líka vont tæki) osfrv. Fyrir rest var ferðin hennar orðin okkur foreldrunum svo eðlileg að þegar kom að því að panta miða, þá gerðist það svona eiginlega sjálfkrafa. Það var eiginlega ekki fyrr en rétt í kringum brottför að við áttuðum okkur á því að við vorum bara foreldra-prúðuleikarar, algerlega stýrt af dömunni.
Pabbi, ég elska þig!
Ja það verður nú seint sagt um karlpeninginn á heimilinu að hann sé mikið fyrir að tjá tilfinningar sínar opinberlega, en það gerðist þó amk. einu sinni á árinu og vert að geta þess hér. Þannig var að húsbóndinn (les: Kolbrún) hélt utan til Danmerkur (sjá víðar). Pabbinn sá um að panta bílaleigubíl fyrir fólkið sitt og þegar út var komið beið þeirra á bílaplani bílaleigunnar glænýr Ádí A3, sem ku vera sportbíll af bestu gerð. Síminn hringdi hjá pabba heima á Íslandi og það eina sem var sagt í símann var pabbi ég elska þig, líklega fyrsta skipti sem þessi orð hafa komið af vörum Arnars Hrafns. Já drengjunum þótti mikið til pabba koma og fréttu þeir ekki fyrr en löngu síðar að steisjon skódinn sem pabbi pantaði var víst bilaður og þetta var barasta eini bílinn sem var laus á leigunni en hver er svo sem að velta sér upp úr smáatriðunum. Það sem var reyndar bráðfyndið við þetta allt er að þessi bíll er smábíll í raun, þótt sportbíll sé og því nánast kúldruðust þau öll í bílnum og vart var pláss fyrir fætur þessara nærri tveggja metra manna. En þeir voru hrikalega flottir og töff, það var fyrir öllu. Æ hvað það er nú gaman að eiga stráka, er það ekki pabbar?
Snjósleðinn mikli
Til þess að vera eins og alvöru þotu-fjölskylda var fjárfest í snjósleða sl. haust. Gríðarlegt tæki sem er svolítið laskað en hvaða máli skiptir það? Kraftmikill sleði sem strárkarnir geta leikið sér á segir Snorri. Æ hvað það er nú gaman að eiga stráka, er það ekki pabbar?
Sundlaugin köld
Já þessi elska er orðin gömul.....sundlaugin. Ekki vildi hún í gang þetta árið sem var heldur súrt því þetta var jú síðasta sumarið okkar með Hreppslaug. Lindin sem rennur í laugina var bæði köld og vatnslítil og heitavatnsrörið sem var tengt við laugina fór í sundur á einum góðum vatnadegi í Andakílsá. Þessum kafla hjá okkur er sem sagt lokið og sjáum við jafnvel fram á að geta tekið okkur sumarfrí á næsta ári... án Snorra að sjálfssögðu þar sem hann finnur sér áræðanlega eitthvað ótrúlega mikilvægt að dunda við næsta sumar, sem tekur allan hans tíma utan hefðbundinnar vinnunnar.
Útihátíðin Aldrei fór ég á Landsmót 2008
Þeir sem misstu af henni, geta mætt á næstu útihátíð hjá okkur, en við höfum ákveðið að halda alltaf útihátíð á sama tíma og Landsmót hestamanna fer fram. Þessi hátíð í ár var með glæsilegra móti, mikið um skemmtiatriði og það sem mestu skipti mikið af skemmtilegu fólki. Sjáumst á næstu útihátíð hér á Ásnum.
Hvað er ekkert gaman að eiga stelpu?
Tinna Rós vill að gefnu tilefni koma athugasemd á framfæri við lesendur Jólahornsins 2008, vegna endurtekinna athugasemda um hve gaman það er að eiga stráka. Það er ekki minna gaman að eiga stelpur.
Virðingarfyllst
Tinna Rós
Æ verum nú extra góð hvert við annað!
Jæja, nú er mál að linni enda langt liðið á síðustu síðu. Elskurnar okkar, hafið það nú náðugt um jólin og takið utan um hvert annað. Við þurfum öll á því að halda, rétt eins og grænmeti með matnum (eyðilagði þetta hugljúfu stemminguna?)!
Hvetjum alla til þess að slaka á og njóta þess að vera til. Lífið heldur áfram og engu skiptir hvernig þetta þróast allt saman, svo fremi sem heilsan heldur og börnin stækka og dafna.
Knús og kossar til ykkar allra og munið að Hvanneyri er alltaf í leiðinni, hvert sem maður fer!
Kolla, Snorri, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti og Brúsi II
18.12.2007 | 22:31
Jólahornið 2006/2007
Jólahornið 2006/2007 ®
Stofnað árið 2000
Sæl öll og gleðilega hátíð. Þá er enn eitt árið að verða liðið með tilheyrandi viðburðum hjá okkur öllum. Hjá okkur hefur ýmislegt á dagana drifið sem við munum nú fara yfir í örfáum orðum. Þrátt fyrir stækkandi áskrifendahóp (þessu lesefni er reyndar meira eða minna troðið upp á fólk) hefur útgáfan heldur vaxið en minnkað með tilheyrandi vandamálum fyrir þá sem ekki kunna við annað en að lesa í gegnum allt Hornið. Sorrý abát ðat! Þeir sem ekki vilja lesa of mikið, lesa bara þennan fyrsta inngangskafla og ekki meira um það. Hinir verða sér úti um góðan bunka af tissjúi til þess að þerra saknaðartárin sem hljóta að koma fram við áframhaldandi lestur. Við rennum yfir helstu málefni fjölskyldunnar með okkar þekkta frásagnarhætti sem Guðbjörn Finnsson, Jólahornsgagnrýnandi orðaði svo vel:
Höfundar rita samfelldan texta, með hjartnæmum og viðkvæmum hætti, fjalla af alúð og varfærni um málefni sem oft er erfitt að tjá sig um og komast frá öllu saman með sóma. Efnið hlýtur að verða tilnefnt til bókmenntaverðlauna á næstu listahátíð sultugerðarmanna í Súgandafirði og alveg örugglega til frásagnarverðlauna á næstu árshátíð vitavarða og veðurathugunarmanna á Dalatanga. nbl.is/367
Jæja nóg um það, hér kemur svo staðlaða kveðjan:
KÆRI/KÆRA/KÆRU _____________ (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR.
KÆR KVEÐJA
FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.
Hvað varð um Jólahornið 2006?
Eftir annasama tíma á síðasta ári, á fyrsta rekstrarári pöbbsins okkar, endaði árið með því að Jólahornið 2006 varð andvana fætt eintak. Þá stefndum við á Nýárshorn í staðinn, en það varð enn minna úr því en Jólahorninu 2006. Nú höfum við hinsvegar tekið okkur á og því ertu með í höndunum glænýtt eintak af Jólahorninu 2006/2007. Í þessu Horni verður farið víða við, tekið á helstu þjóðmálum, farið yfir þekktar aðferðir til að létta sig, pistill um vaxtastýringu Seðlabankans, dömuhornið er á sínum stað sem og ferðahornið margfræga auk umfjöllunar um gjaldeyrismál. Vegna plássleysis verður hinsvegar samlífshorninu sleppt í þessu horni, en við bendum áhugasömum um það málefni að fá sér sálfræðiaðstoð...
Ritstjórar
Sendu þakkarkveðju til Hollands!
Elsku dúllur, frændfólk, vinir og vandamenn (já og þú sem líka ert að lesa þetta en við þekkjum ekki neitt, hvað ertu að kíkja í prívatpóst og lesa um eitthvað sem þér kemur ekkert við?): ástarþakkir fyrir öll jólakortin á síðustu árum og takk fyrir allt gamalt og gott. Undanfarin ár hafa verið frekar annasöm hjá molbúunum að Ásvegi 3 (efri hæð), þó er auðvitað engin afsökun fyrir því að hafa ekki sent út hugguleg jólakort sem á stendur: Kv. Fjölsk. Ásv. 3. Svona kort fást út um allt, en metnaðurinn bar okkur ofurliði og fyrst við komum ekki út stórri útgáfu af Jólahorni um síðustu jól, vildum við frekar sleppa því. En yfir í tenginguna úr síðasta Horni en þá var ferðinni heitið til Kanarí í jólafrí (2005) og sendum við Áramótahornið 2005 til allra þaðan þar sem það þótti okkur voða góður húmör. Við prentuðum allt út hér heima og drösluðumst svo með bréfin alla leið suður eftir og póstlögðum þar. Ekki vildi þó betur til en svo að um helmingur bréfanna fór í ruslið en hún Óla vinkona okkar tók pokann með bréfunum í (verðum að viðurkenna að þau voru í ruslapoka, en...) og skutlaði honum í gáminn eins og hverju öðru drasli frá okkur. Verst var að við vissum aldrei hverjir fengu bréf og hverjir ekki, því við vorum búin að póstleggja slatta! Úr þessu hefur hinsvegar verið bætt en Jólahorn fyrri ára hafa verið sett á netið, á bloggsvæði okkar. Þarna má lesa í ró og næði alla vitleysuna sem við höfum párað niður síðustu árin, en slóðin er: www.hvanneyringarnir.blog.is (lykilorð: gutti).
Annars var hún Óla besta skinn að öðru leiti. Hún var ræstitæknirinn okkar og kynnti sig alltaf svona kumpánlega þegar hún kom daglega að ræsta út hjá okkur, bankaði létt á hurðina og kallaði Óla. Ósköp er þetta viðkunnanlegt hjá konunni að kynna sig svona formlega sagði Snorri í svefnrofanum á hverjum morgni eða þar um bil.
Ferð eldriborgaranna um eyðimörkina
Annars var Kanaríferðin um jólin 2005 alveg hreint frábær og óhætt er að mæla með því að vera á erlendri grundu um jól og áramót, maður er ekkert að missa af einhverju því maður fær alltaf eitthvað annað í staðinn gott fólk.
Eitt eftirminnilegasta atriðið var þegar við röltum um eyðimörkina. Dag einn gengum við frá íbúðinni okkar og yfir á hina sk. Ensku strönd. Þetta er nokkur spölur og yfir svona smá eyðimörk að fara. Við tókum allar klassísku myndirnar í nefið og skrifuðum í sandinn eins og alvöru múvístjörnur. S+K í hjarta að sjálfsögðu, nöfnin okkar rituð í sandöldurnar osfrv. Förinni var haldið áfram eftir sandinum og fram hjá nokkrum pálmatrjáarjóðrum. Í miðri eyðimörkinni tókum við eftir því að ekki var allt með felldu. Aðrir sem voru á sömu gönguleið og við voru mun léttklæddari en við, eiginlega bara alls ekkert klæddir! Höfðum við hjónakornin frá Hvanneyri þá gengið með saklaus börnin okkar inn í mitt svæði núdista, þar sem ofan í kaupið virtist vera afskaplega afslöppuð (kannski ekki alveg rétta orðið í þessu tilfelli) afstaða til frjálsra ásta! Grínlaust þá tókum við ekki eftir nokkrum hlut fyrr en eiginlega allt of seint. Um leið og þetta uppgötvaðist var reynt að finna stystu leið út úr svæðinu en á hraðri för burtu með börnin tókst pabbanum að leiða hópinn fram hjá heilli tylft íturvaxinna kvenna á Evuklæðunum! Sumar hverjar með einhverskonar brasillíska áferð á neðri hluta líkamans, sem líklega var við hæfi enda var það viðeigandi tenging við þessa eyðimörk sem við vorum stödd í. Kolla hefur ekki enn getað sannað málið, en er þess þó fullviss að stysta leiðin var vart valin út úr eyðimörkinni þennan dag. Snorri þvertekur þó fyrir annað en að hafa ætlað stystu leið trúi því hver sem vill! Þessi lokasýning í eyðimörkinni hafði amk. svo djúpstæð áhrif á hann að nú hefur hann skipulagt ferð til Brasilíu í febrúar nk. það segir þó nokkuð um málið.
Hvað er þetta með þrettándann og brennu?
Hafa ekki fleiri en við velt þessari súrrealísku upplifum fyrir sér? Í Borgarfirðinum er rík hefð fyrir þrettándabrennu, sem við fórum á í janúar sl. eins og vera ber. Þarna stóðum við saman við bálið og horfðum á gamlar pallettur, landróðrabátinn Skeljung BA-724, nokkur jólatré og 2-3 sagpoka fuðra upp fyrir framan okkur samhliða því að sjá gamla brennuvarga skvetta hráolíu á bálið með reglubundnum hætti. Á meðan söng einhver í lélegt hljóðkerfið ættjarðarlög og undarlegar brennuvísur, einhver með merkilega lítið tóneyra. Nístingskuldi var og hörð norðanátt, að sjálfsögðu, eins og alltaf er á þrettándanum og þarna lét maður baka sig af Skeljungi BA-724 að framan, svo snéri maður sér hægt og rólega til hliðar og hitaði þannig aðra hliðina og svo á hina hliðina til þess að hita þar upp og svo gerði maður sér upp áhuga á að skoða eitthvað aftan við okkur svo að bakið myndi nú hitna líka. Þetta er svona einskonar heilgrillun á teini, nema hvað teinninn er ekki til staðar. Þér verður kalt, svo heitt, svo ofsalega heitt, svo kalt aftur osfrv. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega, hugsaði maður með sér en svo gerðist það! Allt í einu var sem frostkuldinn hætti að bíta í kinnarnar, vindurinn hætti að blása og sem algert algleymi næði yfirhöndinni hjá Snorra. Nei hann var ekki orðinn meðvitundarlaus vegna þess að það hefði kviknað í honum eða eitthvað svoleiðis, Björgunarsveitin Brák hóf upp raust sína með skothríð sem var engu lík. Tívolítertur, stórar bombur og allt hvað eina. Merkilegt hvað þetta fær alla (les: karlmenn) til þess að segja svona innra með sér JESS, hleypa brúnum og dæla upp auka leveli af testósteroni. Því hærri hvellir, því meira testósteron. Ja hérna hér, má ég þá frekar biðja um annað lag af lakki á táneglurnar!
Hraðhlustunin hans Snorra
Skemmtilegur þessi munur sem er á börnunum okkar. Hvert með sínu sniði. Þannig er Arnar Hrafn langur og mjór og sver sig í ætt föður síns hvað snertir byggingalag og lund (montrass), Hafþór Freyr einnig stór en verður vart kallaður mjór eins og Arnar, svona meira í ætt við móður sína þar sem karlmenn eru breiðvaxnir og miklir. T.d. er 13 ára kappinn þegar orðinn töluvert herðabreiðari en pabbi sinn! Lundin þeim megin reyndar ekki ósvipuð (montrassar). Tinna Rós einhverskonar blanda okkar sómahjóna (montrass), en er klárlega með talhæfni móður sinnar. Líklega best líst þannig: Þegar Snorri og Hafþór Freyr fara eitthvað saman á bílnum tala þeir mikið saman með því að þegja, ná góðum tengslum og skilja allt sem um er rætt. Þegar Snorri og Arnar Hrafn fara eitthvað saman á bílnum þá talar Arnar Hrafn nokkuð reglulega og pabbi nikkar í réttum hlutföllum við fyrirspurnir og/eða frásagnir. Ljómandi gott kerfi. Þegar Snorri fer með Tinnu Rós eitthvað á flakk kveður við algerlega nýjan tón í samskiptum. Hún talar stanslaust allan tímann og svo tekur Snorri svona fimmta til sjötta hvert orð, raðar orðunum upp í setningar og nær nokkurn veginn samhengingu þannig. Þetta er í raun það sama og hraðlestur, kallast hrað-hlutstun. Þetta er auðvitað gríðarlega dýrmætur eiginleiki að hafa þegar maður á konu eða dóttur, eiginlega gjörsamlega nauðsynlegur eiginleiki eitthvað sem allir karlmenn hljóta að þekkja, ja ef þeir hafa yfirhöfuð rætt nokkurn tímann við hitt kynið. Trixið samhliða þessari tækni er svo að með æfingunni nær maður að eyða burtu óþarfa orðunum og þá verður þetta ótrúlega fínt. Strákarnir hafa eðlilega ekki náð þessari stöðu í þroska og því gerðist það einn daginn að Tinna Rós sat í miðjunni afturí og lét dæluna ganga. Hafþór Freyr sat frammí og allt í einu tók Snorri eftir því að Hafþór Freyr var orðinn frekar óþreyjufullur, farinn að svona dingla fætinum fram og til baka og virkaði hálf taugaveiklaður. Svo leit hann reglulega aftur á systur sína, sem vel að merkja blaðraði stanslaust. Hafþór Freyr sagði ekki neitt. Hann greip um höfuð sér og ruggaði sér fram og aftur í sætinu. Snorra leist ekki orðið á ástandið og hélt jafnvel að strákurinn væri að verða veikur. Allt í einu snéri Hafþór Freyr sér við, skellti lófanum á mót Tinnu Rós (líkt og lögreglumaður við umferðarstjórn) og sagði Tinna, togg tú ðí hend bíkos nóbodí els is lissening to jú. Áhrifin létu ekki á sér standa. Snorri rétt náði að halda bílnum inn á veginum í hlátursrokunum hans (hláturrokur hjá Snorra eru þannig: það er svona töluvert bros með nefblæstri samhliða, eiginlega eins og Ritsjard Gér gerir), Hafþóri Frey leið eins og sigurvegara og Tinnu Rós líka, þar sem hún skildi ekki enskuna hans og hélt bara áfram að blaðra með sama hætti á áður!
Kolla og einelti fatanna
Síðustu ár voru merkileg ár í sjálfu sér, þó ekki væri nema eingöngu fyrir það hve eineltisárátta frú Kolbrúnar náði nýjum hæðum. Framan af fór nefnilega að bera á því að hún legði fatnað húsbóndans í einelti og þvott eftir þvott og þurrkun eftir þurrkun styttust bolir, buxur og hvaðeina sem í þvottahúsið fór. Tók steininn úr þegar rándýri Kimi Räkkonen bolurinn passaði orðið eingöngu á álfa og huldufólk, aðilar sem fylgjast ekki einu sinni almennilega með formúlu 1, enda er heimsmeistaramótið í steinatökum aðal íþróttagreinin hjá þeim! Tók þá húsbóndinn (les: Snorri) til sinna ráða og hóf formleg afskipti sín af þvotti og þurrkun hans. Árið 2007 hefur því fengið viðhafnarheitið Ár þvottsins hér á Ásvegi 3, en við höfum ákveðið að taka upp þann góða kínverska sið að skýra árin okkar með formlegum hætti og hætta því að nota hégómleg ártöl eins og aðrir gera. Árið 2008 mun þannig heita Ár öldungsins (Snorri verður fertugur, með tilheyrandi komplexum).
Arnar Hrafn og Þingvallaferðin gangandi
Enn eitt ruglaða eintakið á þessu heimili lét á sér kræla þegar frumburðurinn tók upp með sjálfum sér að vilja ganga frá Lundarreykjadal og yfir til Þingvalla! Það þýddi ekkert að reyna að tala hann af þessu og því var ekkert annað að gera en að styðja við bakið á honum, keyra hann uppeftir og henda honum þar úr bílnum. Allan daginn áttum við svo von á uppgjafarhringingunni: nenniði að sækja mig?, en viti menn hann hringdi frá Þingvöllum, þokkalega borubrattur svo ekki sé nú dýpra tekið í drullunni.
Fornleifafundur Kolbrúnar
Um mitt sumarið 2006 tóku þau mæðgin, Kolla og Arnar Hrafn upp mikla gönguáráttu. Upp úr stendur þó gönguferð þeirra yfir Skarðsheiðina en lagt var upp frá Hreppslaug og komið niður í Ölver við suð-vestanverða heiðina. Mikil ganga og afrek út af fyrir sig. Á leiðinni vannst ekki minna afrek en það var fornleifafundur frú Kolbrúnar. Það var undir lok ferðarinnar er hún fann all merkilegan hlut, hlut sem hún vissi af í nokkurn tíma á eftir en týndi svo aftur. Þetta voru sem sagt hundgamlir vöðvar á víð og dreif í líkamanum sem gerðu þarna vart við sig, sem og dagana á eftir en hurfu svo á ný! Leit stendur enn yfir, en leitarmenn eru orðnir vonlitlir um að vöðvarnir finnist á ný...
Að setjast í rólegra djobb
Við árskiptin 2005-2006 skipti Snorri um starf og hóf að nýju að vinna hjá Landbúnaðarháskólanum. Þetta var að eigin sögn til þess að minnka vinnuálagið og breyta til. Vissulega varð breyting á starfinu en vinnuálagið er nú lítið minna!
Að vera borgaralubbi
Hafþór Freyr hefur tekið upp iðju móður sinnar, að búa til nýjar skilgreiningar og orðasambönd. Það nýjasta er orðið borgaralubbi, orðið borgaralubbi kannast einhver við það? Orðið lýsir einstaklingi sem alinn er upp á höfuðborgarsvæðinu og þykir púkalegt að búa í sveit! Já stráksi er á réttri leið.
Ferming og ferming
Já Arnar Hrafn er orðinn fermdur en hann fermdist vorið 2006. Aðalgjöfin frá okkur til hans var ferð á Formúlu 1, að sjá Kimi Räkkonen keppa á móti Shjúmma á sjálfum heimavelli Ferrari, í síðasta móti þess síðarnefnda á heimavelli og í síðasta skipti Kimi í treyju McLaren. Þeir feðgar fóru s.s. til Ítalíu og gerðu hreint frábæra ferð. Verður henni ekki lýst nánar hér, en þeir eru ekki enn komnir á jörðina, einu og hálfu ári síðar!
Svo er ferming framundan hjá Hafþóri Frey. Hann mun fermast 8. júní 2008, svo að við erum jafnt og þétt að fullorðna liðið okkar sem er í raun stórskrítið því okkur líður eins og tuttugu ára enn, furðulegt að eiga svona gömul börn. Arnar Hrafn er t.d. orðinn jafngamall og mamma hans var þegar hún byrjaði með þeim tæplega fertuga og Hafþór Freyr jafngamall og pabbi hans var þegar hann hitti Kollu fyrst! Þetta er auðvitað sjúkt.
Þessari fullorðnun á heimilinu fylgir ýmiskonar probblem. Þar má nefna fyrirlestra um kynlíf, ábyrgð og skyldur osfrv. Einnig um rakstur og annað sem fylgir fullorðnun drengjanna. Þessum vandasömu verkefnum var jafnt skipt á milli hjónanna, mamma fékk kynlífsspjallið og pabbi raksturskennsluna! Sanngjörn skipti ekki satt?
Hestaheilsa!
Já hann Hafþór Freyr er enn við hestaheilsu (hverskonar heilsufar er það annars? Fær hvorki heimæði né spatt?) eftir lækningarnar að handan. Við vitum vel að þetta er alveg ótrúlegt og þar sem Snorri er alveg ferlega jarðbundinn hvað þetta snertir þá rígheldur hann í þá staðreynd að tölfræðilega þá getur 1 af hverjum 10.000 læknast af sjálfu sér með þennan sjúkdóm sem hann var með. 10-15 eru með sjúkdóminn hér á landi og reiknið svo líkurnar á því að þetta hendi... Já, já Snorri minn okkur er alveg sama hvað þú heldur eða hverju þú vilt trúa, mestu skiptir að drengurinn er hraustur og laus við reglubundnar heimsóknir á Barnadeild Hringsins.
Heiti potturinn rétt að verða klár
Sumarið 2006 var ráðist í stórframkvæmdir á heimilinu og fjárfest í forláta heitum potti. Það átti bara eftir að smíða í kringum hann, tengja við vatn og frárennsli og málið dautt eins og húsbóndinn orðaði það (les: Snorri). Nú sumarið leið og hafðist að grafa vatnslagnir frá bílskúrnum að áfangastað í hjarta lóðarinnar. Meira var svo ekki gert sökum anna. Sumarið 2007 rann skjótar upp en hönd á festi og varð lítið af framkvæmdum aftur, en þó grafið fyrir pottinum og frárennslið gert klárt. Nú er s.s. komið að jólum 2007 og enn bólar ekkert á heita pottinum, sem vel að merkja hefur fokið í millitíðinni og farið í viðgerð eftir það! Allar líkur eru taldar á því að árið 2008 líði án þess að potturinn verði settur niður en Snorri hefur þó ákveðið að það herrans ár, 2009, verði ár pottsins svo að vonandi drattast málið á lokapunkt þá enda verður maðurinn þá kominn á fimmtugsaldurinn og þarf líklega frekar en áður á því að halda að hita upp hrörnaðan kroppinn...
Alveg eins og kýrnar!
Nýverið fékk Arnar Hrafn smá vinnu við að þjóna til borðs í fertugsafmæli vinkonu okkar hér á Hvanneyri. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi ef ekki hefði komið upp all skemmtilegt atvik undir lok veislunnar, vel að ganga þrjú að nóttu. Þá stóðu þeir feðgar saman hlið við hlið og var sá eldri að bíða eftir þeim yngri. Vatt sér þá að þeim miðaldra frú og lofaði unga piltinn í hástert, myndarpiltur sagði hún. Nú Snorri stökk á bráð sína og bar skjótt við faðerni sínu á sveininum unga, en þá sagði þessi ágæta frú: Þetta er eins og með kýrnar. Með kýrnar?, spurði Snorri um leið. Já, það er alveg sama hve nautið er ljótt, kálfarnir eru alltaf svo fallegir.... Nautið fór heldur sneypt heim en kálfurinn var full kátur.
Mótorhjólakappinn og húðabaninn
Já þeir eru kappar miklir, strákarnir okkar. Annar ber húðir og syngur hin ýmsu þungarokkslög við, við miklar og góðar undirtektir foreldranna. Hinn spennir taugarnar með því að aka um á skellinöðru með tilheyrandi brambolti og einu fótbroti til þessa. Ohh, okkur hlakkar svo til þess þegar bílprófsaldrinum verður náð eða þannig.
Keppnisferðin til Írlands í tvígang
Fótalipurð er ekki eitthvað sem fólki dettur í hug þegar það ber okkur hjónin augum. Einhver stökkbreyting hefur greinilega átt sér stað þar sem börnin okkar öll eru á fullu að æfa samkvæmisdansa og gengur bara vel. Arnar var fyrstur til að byrja að æfa og fór Frúin með hann ásamt nokkrum öðrum, um 25 manns, héðan úr Borgarfirðinum til Írlands á alþjóðlegt mót í samkvæmisdönsum (árið 2006). Ferðin var alveg frábær í alla staði og var spurning um hverjir skemmtu sér betur, þeir fullorðnu eða krakkarnir. Ferðalagið var strembið en það tók 15 tíma að komast á áfangastað, en vel þess virði. Því var ákveðið að fara aftur þetta árið. Af þeim tæplega 100 manns sem fóru frá Íslandi vorum við 65 héðan úr sveitinni. Svo það er óhætt að segja að áhuginn hér sé mikill. Í ár varð Hafþór gjaldgengur svo Frúin skutlaði sér með 2 dansara og ömmuna og afann úr Hafnarfirðinum sem voru höfð með sem lukkudýr og hjálparhellur. Tinna Rós er svo til nýbyrjuð og dansar af krafti við vinkonu sína og gengur þeim bara vel. Sporin æfir hún að fullu hvort sem er í verslunum, veitingahúsum, bílaþvottastöðum.... nei bíðið við, þangað höfum við aldrei komið. Allavega lítur það stundum út fyrir að hún viti ekki hvert hún er að fara, því jú sporin eru ýmist til hliðar, afturábak eða áfram.
Pólsk áhrif á Hvanneyrarlífið
Fóstursonur okkar, hann Bartos kom að vanda til okkar síðustu sumur. Það fyrra vann hann hjá okkur á ný en sl. sumar fékk hann vinnu við byggingarframkvæmdir hjá kunningja Snorra. Hann gisti hinsvegar hjá okkur, enda hefði annað verið alveg fáránlegt. Hann vann svo stund og stund með okkur við ýmis viðvik og var þannig okkar kóstgangari. Prýðispiltur og heldur skárri eftir að hafa búið með okkur allan þennan tíma!!!
Borðuðu úti í þrjár vikur
Enn ganga framkvæmdir við kofann hálf hægt en þó tosast þetta nú allt í rétta átt. Markmiðið núna er að klára fyrstu umferð í framkvæmdum, áður en kemur að viðhaldi elsta hluta hússins!!! Þannig er nú komin ný eldhúsinnrétting og á meðan þeim framkvæmdum stóð borðaði bara fjölskyldan úti. Þetta var í heilar þrjár vikur og ekki má skilja orð okkar á þann veg að við hefðum verið á veitingahúsum, nei við borðuðum í orðsins fyllstu merkingu ÚTI. Sólpallurinn og grillið urðu okkar heimilisvinir með tilheyrandi kjötbruna. Einkar huggulegt og gott. Næst verður hugað að framkvæmdum í maí, svona fyrir næstu fermingu.
Kolla og ferðirnar á landsmótin
Eins og venjulega er farið á unglingalandsmót á þessum bæ. Árið 2006 var farið að Laugum norður í Þingeyjarsveit. Þar voru saman komin 9.000 manns á 3 hekturum. En þröngt mega sáttir sitja, liggja, borða, keppa og þar fram eftir götunum. Alveg frábær staður og skemmtilegt mót að vanda. Strákarnir stóðu sig með prýði. Arnar lenti í 3. sæti í hástökki og Hafþór náði því 4. í glímu. Glímuna hefur hann reyndar aldrei æft en hann skellti sér á smá námskeið fyrri hluta árs. Eitthvað minntist nú kynnirinn á að það vantaði eitthvað upp á kunnáttu í reglum hjá piltinum og móðirin hló sig máttlausa í stúkunni þegar hann, risinn, tók hvern pattann upp og hristi þá duglega eins og gólftuskur. Þarna hefði verið gaman að hafa upptökuvél. Árið 2007 fór svo Frúin með liðið sitt austur á Höfn í Hornafirði. Það er ansi langt þangað ef þið vitið það ekki. Frúin var á fullu að fylgjast með sínum mönnum og átti fullt í fangi með að hlaupa á milli staða. Á svona tímapunktum væri gott að hafa þá kunnáttu að getað klónað fólk. Arnar náði sínum besta árangri í hástökki, bætti sig um 10 cm og stökk sig inn í svokallaðan úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands. Þessi árangur hefur svo kostað okkur amk. tvær ferðir á viku til Reykjavíkur í vetur þar sem hann æfir frjálsar hjá sérstökum þjálfara ÍR. Vonandi skilar það sér í enn betri árangri og landsliðssæti í hástökki næsta sumar (nú eiga allir að krossleggja fingurna takk fyrir). Nú ef þið eruð ekki þegar búin að átta ykkur á því, þá er ólmóst fortí ekki með í þessum ferðum. Hann ber við heiftarlegu frjóofnæmi og segist því þurfa að vera heima og vinna í firmanu í staðinn. Nóta bene að þá eru þessar ferðir farnar um verslunarmannahelgi svo dæmi hver um sig...
Mr. and Mrs. Fittness
Jamm...........
Fóru í sumarfrí!
Ótrúlegt en satt, en það náðist að draga Snorra í sumarfrí þetta árið (2007). Eftir margra mánaða skipulagsvinnu, var lagt af stað til Danmerkur í sumarlok ásamt foreldrum Kollu og bróður honum Stefáni. Þar hittum við svo Dagný systir hennar sem býr þar úti og fórum við saman á eyjuna Fanö og vorum þar í viku tíma. Staðurinn var alveg frábær. Nánast engar verslanir, veitingastaðir og barir lokuðu kl. 20.00 og eini farkosturinn voru hjólin sem við tókum á leigu þennan viku tíma. Hver einasti hjólastígur, göngustígur og gata var hjóluð á þessum stutta tíma, enda var ferðin skipulögð með það í huga að vera ekki á bílaleigubíl. Tennis, borðtennis, veggtennis, strandblak, badminton og frisbí var stundað af kappi allan tímann. Þó gekk mönnum misvel að fá að blómstra í þessum greinum en allir skemmtu sér konunglega. Ekki er rétt að vera að tíunda einhver úrslit í öllum þessum keppnum enda hallar verulega á Frúna í þeim efnum (þau svindluðu öll). Þegar vikan var liðin var haldið til Aarhus á Jótlandi en þar er hún Dagný búsett ásamt Fannari kærasta sínum. Við leigðum okkur bíl til að komast á milli en svo átti að skipta yfir í hjólin. Þar var naflastrengurinn við fjölskylduna klipptur og við litla fjölskyldan fórum í sumarhús sem var ca. 60 km. frá Aarhus. Húsið völdum við (frúin) á netinu, lítið, sætt og á ótrúlega góðu verði. En ekki er allt sem sýnist á netinu. Leigan var ekki mikil þar sem aðrir leigjendur voru þegar á staðnum. Þeir voru að sjálfssögðu allir drepnir hver á fætur öðrum, enda um skordýr að ræða! En þar sem húsið stóð lengst út í skógi, langt frá allri siðmenningu héldu þessi kvikindi að þau hefðu meiri rétt á að vera þarna en við. Á netinu stóð: 1.5 km. í næstu búð! Ja kannski í beinni loftlínu, enda var afleggjarinn frá bústað og niður á veg 1.6 km. Þá voru eftir um 3 km. í næsta bæ og þar með í búðina. Næsta hjólaleiga stutt frá, stóð á netinu! Við erum enn að leita!!! Við sem sagt enduðum á því að vera á bílaleigubíl seinni vikuna og var því daglega rúntað til Aarhus og tímanum eytt með familíunni í búðum, matarboðum, skemmtigörðum og fl.
Danmerkurferð með Arnari
Viku eftir sumarfríið góða fór Frúin með erfðaprinsinn í viku ferð til Danmerkur. Allir krakkarnir í bekknum hans fóru ásamt 6 harðskeyttum foreldrum. Dvaldist hópurinn á norður Sjálandi og eins og fyrra fríi var ferðin skipulögð sem hjólaferð (hverslags sjálfspíningar-hvöt er þetta??). Eitthvað misskildu blessuð börnin ferðaplanið (eða hlustuðu ekki) því þau héldu að þau myndu eingöngu hjóla á kamarinn eða í mesta lagi í næstu verslunarmiðstöð sem að sjálfssögðu átti að vera á næsta götuhorni. En fangaverðirnir létu kvartið og kveinið ekkert á sig fá og hjóluðu tugi kílómetra með bros á vör á hverjum degi. Þess ber þó að geta að allmargir naglar voru í hópnum, sem reyndu að þagga niður í mestu stynjurunum. Eftir langar hjólaferðir, sjósund, verslunarferð og kajakferð var haldið til Köben þar sem gist var í 2 nætur. Þar var heilum degi eytt í Tívolí og síðasti dagurinn fór svo í að versla (AFTUR) á Strikinu. Frábær ferð og ótrúlega skemmtilegir krakkar.
Smá heilun í lokin að vanda
Jæja, nú er mál að linni enda frásögnin orðin lengri en orð fá lýst. Takið því nú létt um jól og áramót og njótið lífsins með fjölskyldu og vinum. Jólin eru til þess að hafa það gott og skemmtilegt, ekki vera með stress og vesen, bara slappa af.
Eftir lestur Jólahornsins 2006/2007©er gráupplagt að leggja frá sér Hornið og fara út í göngutúr með familíunni og/eða góðum vin/vinum. Bara í smá stund, anda að sér jólaloftinu og hlusta á umhverfið og náttúruna. Það er ómetanlegt og þið vitið jafn vel og við, að það er ekkert sem liggur svo á í lífinu að ekki sé tími fyrir smá göngutúr og samveru. Það er því enn á ný okkar jólagjöf til ykkar. Eitt er víst að við munum gera þetta að vanda um jólin.
Knús og kossar til ykkar allra og munið að hláturinn lengir lífið (eða nefblástur með brosviprum eins og sumir gera...).
Kolla, Snorri, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti, Brúsi II og Rauður.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2007 | 09:25
Jólahornið 2005
Áramótahornið 2005 ®
Grítíngs tú jú oll from ðe Kanaríælands! Sæl öll sömul og gleðilega hátíð. Þá er enn eitt árið að verða liðið með tilheyrandi viðburðum hjá okkur öllum. Hjá familien Hvanneyri hefur ýmislegt á dagana drifið sem við munum nú fara yfir í örfáum orðum. Þrátt fyrir stækkandi áskrifendahóp (þessu lesefni er reyndar meira eða minna troðið upp á fólk) þorði enginn að kvarta vegna síðasta Jólahorns enda birtum við þar, fyrst á Íslandi, lausn í jólakveðjum sem henta fyrir alla. Þeir sem ekki vilja lesa of mikið, lesa bara þennan fyrsta inngangskafla og málið er dautt. Hinir, lesa og tárfella, eins og þeir vilja enda oftar en ekki um hjartnæmar og viðkvæmar frásagnir að ræða. Einhver mestu trúnaðarmál sem um ræðir og fallegar lýsingar á helstu afrekum (?). Jæja nóg um það, hér kemur svo staðlaða kveðjan:
KÆRI/KÆRA/KÆRU _____________ (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR. KÆR KVEÐJA FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.
Að þessu sinni sendum við út Áramótahorn í stað hins hefbundna Jólahorns, enda þótti okkur svo sniðugt að senda þetta frá Kanarí!
Jól í skugga ístru
Þar sem síðasta Jólahorni sleppir var undirbúningur í fullum gangi fyrir jólin og þau komu svo og gengu yfir hratt það árið. Helst bar þó til tíðinda að framvöxtur fullorðna fólksins var orðinn full mikill og skyggði það nokkuð á gleðina. Það var því sett mikið takmark við áramótin, að vinna á þessum ístrubelgjum með öllum tiltækum ráðum (sjá síðar undir kaflanum Átakið 2005).
Ðí hönsjbakks
Það er kunnara en frá þarf að segja að Familían að Ásvegi 3 er einkar glæsileg ásýndum, annáluð fyrir þokka og fallegt fólk í alla staði (líka Snorri!). Það var því sem rýtingsstunga í bakið á okkur öllum þegar danskennari Arnars Hrafns fór að finna að annars glæsilegri réttstöðu hans á dansgólfinu. Henni fannst hann s.s. heldur of boginn í baki. Hún pikkaði reglulega í bakið á honum og minnti hann á að rétta úr sér. Talaði jafnframt fjálglega um það að setja herðartré inn í dansklæðnaðinn til að rétta úr herðunum og við vitum ekki hvað! Nema hvað, þetta áreiti hélt áfram þegar Hafþór Freyr byrjaði í dansi. Enn hélt þetta áfram þegar við hjónin hófum dansnám og nú var þetta farið að minna illilega á einelti. Við höfnuðum þessu að sjálfsögðu, enda eins og áður segir einkar glæsilegt fólk. Eitt sinn var það þó svo að Hafþór gekk heldur búralegur út úr húsi og í átt að frú Fittness 2005© og sá hún þá að það mætti nú aðeins rétta úr bakinu á drengnum. Þegar hann settist inn í bílinn, notaði hún sína þekktu leikhæfileika og líkamlegu tjáningu og sagði: Hafþór minn, ekki vera svona boginn í bakinu og lét svo um leið herðarnar síga af glæstum þokka fram á við til þess að undirstrika enn betur hvað hún átti við (á þessum tímapunkti í sögunni er við hæfi að loka augunum og visjúalísera þetta fyrir sér). OK. Búin(n) að visjúalísera? Höldum þá áfram. Nema hvað, herðarnar sigu ekkert niður! Axlirnar ekki heldur. Ekkert gerðist! Það var sem líkaminn væri ekki tilbúinn að taka þátt í þessum Sjeikspírsþætti en svo kom hið sanna í ljós. Forstjórinn hafði þá setið sjálf svona gjörsamlega í keng að hringjarinn frá Nottredam hefði þótt teinréttur við hlið hennar. Eðlilega hreyfði þetta við okkur öllum, enda í fyrsta skipti sem við viðurkennum opinberlega einhvern ágalla á okkur!!! Í kjölfarið var send inn netpöntun til hjálpartækjabankans (ekki þess sem við erum með reikning hjá...) og pantaðar fimm axlarspennur sem virka svipað og að vera með herðartré inn í fötunum en er heldur minna óþægilegt.
Enn einn ofnæmissjúklingurinn mættur
Þá er það staðfest, ofnæmi er bráðsmitandi. Í sumar var ofnæmi húsbóndans (les: Snorra) með því mesta sem hefur verið frá upphafi og þrátt fyrir ýmiskonar lyf var lítið hægt að gera annað en að reyna að minnka vinnuálagið (þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það gekk). Svo gerðist það merkilega, Gutti hinn hárfagri byrjaði að missa hárin í mun meira mæli en áður. Þetta gekk svo langt að hann var að klóra sér nánast stanslaust og þá bað Kolla dýrlækninn og nágrannann, Gunnar Örn, til þess að kíkja í heimsókn. Hann var fljótur að greina Gutta, hann var með ofnæmi fyrir kjöti! HUNDUR MEÐ OFNÆMI FYRIR KJÖTI? Hvurslags hundur er það eiginlega? Hverskonar furðufólk elur hund með þeim hætti að hann fær ofnæmi fyrir kjöti?, Snorri gat varla hætt að hlægja yfir þessari sögu sem Kolla sagði honum um Gutta ofnæmissjúkling þegar hann kom heim úr vinnunni með bólgin augu, stíflað nef og kokkláða ja eða þar til það rann upp fyrir honum að hún var að tala um heimilishundinn! Eftir þetta hefur Snorri þurft að éta ofan í sig allt sem hann hefur látið flakka um liðið sem kaupir sérstakt og sérvalið gæludýrafóður fyrir heimilisvinina. Nú fær Gutti bara besta fóður sem völ er á og kostar á við meðal mánaðarlaun stjarneðlisfræðings í Póllandi. Pabbi borgar, enda með einna mesta innsýn inn í heim ofnæmis á þessu heimili í það minnsta.
Annars er hann Gutti okkar er samur við sig og unir sér vel í sveitinni. Lífið snýst um að fara með húsbóndanum á flakk og stundum líka með Snorra. Svo er hann að vanda vinalegur við alla nema póstmanninn og leggur hreinlega fæð á hann. Annars átti hann viðburðalítið ár ef frá er talið ofnæmið, komst ekkert í snertingu við tíkur né póstmannsfætur.
Húðir barðar hér sem aldrei fyrr
Það er ljóst að þegar maður á tvo stráka í röð, þá fylgja því ýmisskonar vandamál sem og kostir. Eitt af því sem sem gerðist á árinu var það að þeir félagar, Arnar Hrafn og Hafþór Freyr, ákváðu að fjárfesta í tunnum með strengdum húðum yfir. Þeir náðu að gabba pabba til þess að lána sér fyrir trommunum og þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir til þess að fá þetta endurgreitt, hefur hann ekki haft árangur sem erfiði. Hvað um það, trommurnar voru settar upp í stofunni, þá fluttar upp á aðra hæð í meira hljóðdempandi umhverfi, en eftir að myndir fór að hrynja niður í stofunni vegna hristings veggja og lofta, þá voru strákarnir sendir með trommusettið inn í bílskúr. Þar sitja þeir daglangt við þá undarlegu iðju að berja prikum á húðir til þess að framkalla bank og dynki í réttum hrynjanda. Vegna hávaðans sem þetta skapar, má eingöngu æfa slagverkið fyrir kl. 20 á kvöldin. Sú snjalla regla sem Snorri setti upp (sjá: stendur montinn í dyragættinni og segir frá þessu) var eiginlega hreint ekki góð, þar sem á matmálstíma þegar fréttir eru og allir eru að jafna sig eftir matinn, þá nötrar allt og skelfur í eldhúsinu vegna lokaæfinga áður en klukkan slær tuttugu núll núll. Æ, þetta eldist af þeim eða okkur, þar sem við vitum fyrir víst að heyrnin slappast með árunum og þetta mun því hafa minni og minni áhrif á okkur þegar frá líður. Hvað um það, Hafþór Freyr er öllu liðtækari í þessari íþrótt og fær núna einkakennslu í slagverki hjá ungum poppara hér á staðnum.
Enn eitt orðatiltækið
Á árinu gekk Snorri vaskelga fram í vinnu á heimilinu og límdi hann m.a. botninn á tröllaskeinistatífið, sem hefur verið laus í vel á annað ár. Að sjálfsögðu gat frú Kolbrún ekki setið á sér, svo stolt var hún yfir þessu framtaki, að enn eitt máltækið fæddist af annars þrýstnum vörum hennar: Æ ástin, þú ert svo magnaður. Þegar þetta er sagt venjulega, er það í ákveðnum tón, oftar en ekki með slíkri passjón að ekki er um að villast hvað átt er við. Hinsvegar, þegar Kolla segir þetta, þá er ekki um að villast á bak við þessa magnþrungnu, í raun ástríðufullu og tvíræðu setningu með seksúel undirtón - býr ekkert nema hæðni, hæðni sem á sér fáa ef nokkra jafnoka... Þeir hjá Orðabók Háskólans hafa því núna breytt ýmsum skráningum hjá sér á orðum og orðatiltækjum og hafa glöggir daglegir lesendur orðabókarinnar áttað sig á því að áherslumerki og framburðartákn eru nú skráð með nokkrum orðum og setningum, allt þökk sér Kollu.
Snorri slær í gegn
Seinnipart vetrar var Snorri beðinn um að taka þátt í söngsýningu í Logalandi, þar sem nokkrir valdir einstaklingar voru fengnir til þess að taka lagið. Snorri sló algerlega í gegn enda ekki annað hægt með Stuðmannalagið slá í gegn og hinn þekkta slagara svona er á síld sem auðvitað allir þekkja? Nei svona grínlaust, þá gekk þetta nú þolanlega, en við þetta tækifæri ákvað Snorri að leggja einsönginn á hilluna sína. Ef þið hafið ekki séð hilluna, þá er þetta hillan sem geymir ýmis sóknarfæri fyrir einstaklinginn Snorra sem hann hefur reynt að sönnu, að eru ekki alveg að gera sig eins og karate, körfubolta, leikur í stjörnumerkjamyndunum, flugstjórn, smíði kjarnorkuflauga ofl.
Hreppslaug
Gamla góða Hreppslaug. Ja hvað getum við sagt um hana? Hún vinnur vel fyrir sér greyið og er farin að skila einhverju til baka og kominn tími til. Hinsvegar lentum við í því að þegar við auglýstum eftir starfsfólki sem átti að fá vel borgað fyrir vinnu sem féll ávalt utan hefbundinns vinnutíma (kvöld og helgar) þá sótti enginn um!!! Já enginn! Það hringdi ekki einu sinni nokkur kjaftur! Þar sem enginn er ekki með kennitölu og bankareikning, var ekki hægt að ráða hann í vinnu og því stóðum við hjónin oftast vaktir þarna uppfrá í sumar, þrátt fyrir að það hafi hreint ekki staðið til. Við vorum eiginlega mjög hissa á því að enginn myndi sækja um, en svona er bara Ísland í dag. Það hafa það greinilega allir mjög gott og fáa virðist vanta aura fyrst fólk fúlsar við vinnu á kvöldin og um helgar. Við vorum því mjög óttaslegin þegar ráða þurfti fólk á sveitakrána, en viti menn: 12 sóttu um starf þar!!! Það er líklega einhver rómantík í því að vinna á krá en ekki í sundlaug!
Anoðervon bæts ðe döst
Rauður kom á heimilið í janúar og hefur reynst mjög vel. Annars var árið merkilegt fyrir þær sakir að þessi annars ágæti ameríkanski jeppi laðaði fram áður óþekktan hégóma hjá húsbóndanum (les: Snorra) er hann ók um stoltur jeppaeigandinn. Hinsvegar áttaði hann sig á því síðar að þetta er bara alger sleði enda 3,5 tonn að þyngd og hreint enginn ferðabíll í snjó, drullu eða öðru sem maður ætlar jeppum að komast! Þessu kynntumst við hjónin þegar við renndum okkur niður að Hvítá til þess að ná í sand í terrasinn. Þar setti Snorri Rauð á kaf í sand og mátti minnstu muna að ná þyrfti í ýtu til þess að losa flekann. Hann hefur eftir það verið mest notaður á malbiki. Annars á hégómi engin takmörk eins og glöggir lesendur Fréttablaðsins gátu lesið um í lok nóvember. Hver óskar annars opinberlega einhverjum til hamingju með 37 ára afmælið??? Nema hvað, eftir Fréttablaðsathyglina sem Snorri fékk brenglaðist aðeins hégómastaðallinn og dag einn vorum við hjónin að gangi í Kringlunni. Ótrúlega margir veittu Snorra athygli og hann var barasta nokkuð upp með sér (not) og Kolla var hissa á þessari athygli/augngotum sem hann fékk. Snorri var reyndar hálf undrandi á þessu því þrátt fyrir það að vera stundum í fréttum, þá var þetta nú meira en góðu hófi gegndi. Til þess að gera langa sögu stutta komst Snorri að því síðar um kvöldið, þegar hann rölti sér á salernið, að buxnaklaufin hafði verið mjög hressilega opin á gallabuxunum og fermingarbróðirinn blasti nánast við þjóðinni við gönguna í Kringlunni. Eftir þetta skemmtilega atvik, hefur Snorri haft þann undarlega kæk að þegar á hann er litið þá þreifar hann alltaf ofurvarlega eftir rennilásnum á buxunum svona til öryggis.
Leikhúsferðin
Já maður er nú orðinn snobbaður í meira lagi þegar leikhúsin eru lögð undir, er það ekki? KB-banki bauð sem kunnugt er öllum helstu viðskiptamönnum sínum á tónleika með forsetanum og fleirum. Okkur var nú ekki boðið í það partíiið, en var hinsvegar boðið (ásamt öðrum stórskuldugum forsvarsmönnum fyrirtækja) á leiksýninguna Woyzeck í Borgarleikhúsinu. Í stuttu máli sagt, ekki okkar tebolli og við ætlum að snobba fyrir einhverju öðru næst og ætlum á fystu uppfærslu ársins 2006 hjá Brúðuleikhúsinu. Hverjum dettur annars í hug að byggja leiksýningu á gervigrasi, vatni og blikkrörum frá Blikk og stál ehf.? Ja hérna hér. Við leggjum til að þið lesið frekar bókina, báðar síður.
The mansion
Úff, lítið gerst sökum anna við fyrirtækjauppbyggingu. Þó fæddust svalir á árinu og eitthvað þokaðist með nokkur önnur atriði, en í heildina litið gerðist lítið. Það stendur þó til bóta þar sem ferming verður hér næsta sumar og þá stendur nú til að vera búin með kofann að mestu.
Pöbbinn na zdrowie
Já árið 2005 var ár stórátaka. Við renndum okkur í það stórverk að opna bar á Hvanneyri og fór allt sumarið, sumarfríið og allir peningarnir í það. Með frábærri aðstoð dyggra manna og kvenna tókst þetta verk, en það fólst í því að gera handónýtt hús að pöbb. Við lýsum þessu ekkert nánar, sjón er sögu ríkari en við erum mjög ánægð með árangurinn og viðtökur fólks framar öllum rekstraráætlunum. Eitthvað fer nafnið þó fyrir brjóstið á fólki sem styrkir frúna í þeirri trú að nafnið sé pottþétt.
Kaffiterían á Hvanneyri
Í sumar bauð Landbúnaðarháskólinn út veitingarekstur/mötuneyti skólans. Kolla gat auðvitað ekki setið á sér og bauð í verkið og viti menn fékk! Nú voru góð ráð dýr (ekki fyrirtækið) og hún réð vinkonu sína, hana Önnu Siggu (Danmerkurfara úr síðasta jólahorni) sem deildarstjóra hinnar nýju deildar: Framreiðsludeild Kertaljóssins ehf. Reksturinn gengur bara þokkalega vel og eru fín tækifæri fólgin í samþættingu á þessum rekstir, búðarinnar og pöbbsins. Ekki meira um það.
Átakið 2005©
Já, já enn eitt átakið fór í gang á árinu og að þessu sinni voru báðir hælisstjórnendurnir í því. Frú Fitness gekk að þessu sinni hart fram í því að draga karlinn með svo að jólin 2005 myndu ekki lenda í skugga ístrunnar eins og síðast. Nema hvað, fyrsta æfingin fór í það að draga hann í göngutúr. Göngutúr? Eins og gangan í fyrra hafi ekki verið næg? Jæja, hann lét til leiðast og gekk í fyrsta skipti síðan við fluttum á Hvanneyri suður í land sem kallað er og alveg út að Andakílsá. Mikið afrek fyrir Snorra, minna fyrir frú Fitness. Næsta æfing var tekin heima, á hinu þekkta líkamsræktartæki í hjónaherberginu (gott að rifja hér upp úr bréfinu í fyrra). Kolla byrjaði á því að djöflast eitthvað þarna inni og gamli sat inn í stofu og horfði á CSI. Allt í einu eru hurðinni á svefnherberginu hrundið upp og út kemur æðandi frú Fitness, bullsveitt og minnti ótrúlega mikið á Soffíu frænku í þekktu leikriti (hún er alltaf svo reið, eins og einn ræninginn sagði). Jæja, farðu nú inn á stigvélina og vertu þar í 15 mínútur. Það hlakkaði í Snorra yfir þessari litlu áskorun og hófst handa við stigvélina. Fyrst var þetta frekar auðvelt, svo frekar þungt á fótinn og þvínæst tók erfiðið við og baráttan við kálfavöðvana. Hann var hreint að bugast en herti sig upp í þetta og beitti miklum sjálfsaga. Svona Snorri, þú getur þetta, öskraði hans innri maður. Áfram nú, kláraðu þessa mínútu og svo sjáum við til, frábær sálfræðihernaður hans innri manns og dulinn blekkingarleikur snarvirkaði og fyrsta mínútan hafðist af. Í stuttu máli sagt, þá varð árangurinn af Átakinu 2005 svipaður og af Átakinu 2004: Við verðum að gera eitthvað í okkar málum árið 2006!
Stóra fjölskylduferðin
Snemma árs var í fjölskyldu Snorra rætt um að fara saman í fjölskylduferð. Fjölskyldan er nú orðin nokkuð stór og því þurfti að skipuleggja þetta með góðum fyrirvara. Ljóst var að finna þyrfti stað sem allir gætu sætt sig við og verið tilbúnir til að fara á. Litla systirin kom með hugmynd um jólaferð og við stukkum strax á þá hugmynd, aðrir tóku dræmt í það og enn aðrir hreint ekki vel. Við gátum og getum enganvegin verið laus að sumarlagi vegna fyrirtækisins og því var þetta hið besta mál. Allir skólakrakkar í fríi, flestir geta tekið frí úr vinnu og allt hið besta. Rétt? Rangt! Fylgi við hugmyndina féll hratt. Ein fjölskyldan stakk af til Danmerkur, önnur í fjallgöngutúra til Ítalíu og sú þriðja, ja sú þriðja ákvað að kaupa sér tugmilljónkróna hús á Arnarnesinu til þess að sleppa við það að fara með okkur út um jólin! Nei, sennilega var það ekki ástæðan en þó ekki hægt að útiloka það! Þar sem við ákváðum það fyrir löngu að fara með fjölskylduna út á tveggja ára fresti, var ekki aftur snúið og við keyptum okkur ferð til Kanarí um jólin og komum ekki til baka fyrr en á nýju ári! Við látum bara eitthvað annað bíða eins og bílskúrshurð og annað veraldlegt dót. Skiptir engu máli þegar til lendar er litið, en það gera börnin okkar hinsvegar.
1/12 ársins í útlöndum!
Ársins 2005 verður minnst í þessari familíu fyrir ár utanlandsferða húsbóndans (les: Snorra). Fyrst fór hann í árlega ferð sína til Danmerkur með hóp bænda, þá fór hann með hóp bænda og fleiri aðila (m.a. afa Sigga) til Nýja-Sjálands (sjá síðar), svo aftur til Danmerkur og svo núna til Kanarí-eyja. Samtals verða gistinætur á erlendri grundu því meira en 31 dagur, eða rúmur mánuður takk fyrir!
Þvoði bílinn tvisvar á árinu 2005!
Lesið nánar um atburðinn í sjálfsæfisögu Kollu, sem gefin verður út árið 2050.
Nýja-Sjálandsferðin
Það er auðvitað enganvegin hægt að gera stutta grein fyrir ferð til þess lands sem er akkúrat lengst í burtu frá Íslandi á hnettinum. Snorri var fararstjóri í ferð bænda og fleiri aðila (m.a. pabba Snorra) til London áfram til Hong Kong og áfram til Nýja-Sjálands þar sem íslenskur Nýjasjálendingur tók við farartjórn að stærstum hluta. Í stuttu máli sagt sá Snorri mesta mannhaf sem hann hafði augum litið í Hong Kong þar sem voru frábærir útimarkaðir og virkilega óvenjulegt mannlíf og menning. Nýja Sjáland er ótrúlega skemmtilegt land að heimsækja, gríðarlega vel gróið og afslappað fólk. Eina sem er undarlegt þarna, en venst, er að sólin fer í kolöfuga átt (rangsælis). Óhætt að mæla með ferð þarna niðureftir/undir. Kostar mun minna en maður heldur, dæmi: London-Hong kong kr. 60 þús. vikutúr.
Nýtt djobb
Snorri ákvað í haust að sækja um starf hjá Landbúnaðarháskólanum og var ráðinn í djobbið. Starfið er að sjá um rekstur á búrekstri skólans með tilheyrandi mannahaldi. Spennandi og krefjandi verkefni sem hefst um leið og við komum til baka frá Kanaríeyjum.
Á för með framliðnum
Munið eftir manninum með pinnana? Nema hvað, við fengum hingað annan merkilegan gest sem vildi meina að við værum öll hlaðin af púkum sem ættu ekkert erindi hjá okkur og þyrftu hjálp til þess að komast inn í ljósið. Nema hvað, okkur þótti þetta mjög skemmtilegt og Snorri sérstaklega ánægður að þessir púkar hefðu lítil eða engin áhrif í hjónaherberginu... og hvað svo? Jú púkakarlinn sagði Hafþór Frey ofhlaðinn óþekkum púkum sem réttast væri að fjarlægja. Eftir tveggja vikna særingar var drengurinn laus við fylgisveinanna og var ekki laust við að hann væri mun þægilegri í umgengni. Hins vegar tilkynnti púkakarlinn góði okkur að hann hefði pantað tíma hjá hinum eina sanna Einari miðli þar sem hann hafði fundið út að Hafþór væri eitthvað lasinn. Mjög spúkí. Frúin var alveg í skýjunum (enda mjög svo trúuð á svona mál) en trúleysinginn hann Snorri glotti bara að venju og sagði: Einmitt, pantaði tíma hjá miðli sem dó sjálfur fyrir mörgum árum?. Síðla jánúar mánaðar þegar tíminn hjá Einari heitnum var liðinn var okkur tilkynnt að Hafþór myndi nú líklegast læknast með komandi sumri. Glottið hjá Snorra breikkaði til muna og eitthvað dofnaði nú trúin hjá frúnni við þessar upplýsingar. Ef við höfum Stórbónda á hægri hönd og læknasérfræðing á vinstri hönd, hverjum trúir maður? Ja, þrátt fyrir að vera komin yfir móðuna miklu að þá tókst honum Einari ásamt vini okkar Stórbóndanum að losa Hafþór undan frekari heimsóknum á spítalann og það er engin lýgi! Hefur ekki mætt þangað síðan um miðjan apríl og einhvernveginn virðist sjúkdómurinn nánast horfinn með mjög mystiskum hætti svo ekki sé nú meira sagt. Þó þarf gaurinn að mæta eftir áramót í rannsókn (enda hefur læknirinn lýst furðu sinni yfir þessu öllu saman) sem vonandi gefur okkur eins góða niðurstöðu og síðast, ef ekki betri.
Tinna Rós með athyglissýki móðurinnar!
Rósin okkar siglir sinn sjó hér á Hvanneyri. Orðin alveg ferleg dama með snert af athyglisþörf sem birtist m.a. í því að vilja syngja hátt og snjallt út um gluggann á bílnum svo að allir heyri. Þetta er farið að vera pínu pínlegt, en venst. Svo er hún í námi hjá Arnari við dans og mun byrja eftir áramóin í þeirri íþrótt eins og við hin. Hún er s.s. orðin sjö ára skvísan sú og er því í öðrum bekk. Strákarnir eru reyndar ekki byrjaðir að mjálma hér fyrir utan húsið en þar sem stutt er í gelgjuna er Snorri þegar byrjaður að mæla út fyrir því hvar hurðargatið á að vera innan úr hjónaherberginu og inn í hennar herbergi, þannig að ekki verði hægt að læðast þangað inn nema með því að nánast skríða fyrst yfir hans hluta hjónarúmsins og svo yfir riffilstatífið! Þetta gamla og góða trix mun vafalítið halda eitthvað aftur af gauragangi í kringum Tinnu Rós.
Arnar Gelgja Hrafn Snorrason
Gelgja? Neiiiijjjjjjjj. Undirbýr nú fermingarveislu mikla og hefur þegar lagt á ráðin með hvað hann vill fá í gjöf: Ferrarí, litla einkaþotu, verslunarmiðstöð, einkatónleika frá Metalikku ofl. Alltaf jafn hógvær pilturinn (hvaðan hefur hann hógværðina?). Honum gengur ljómandi vel í skólanum og æfir samhliða bæði frjálsar og dans. Í febrúar stendur svo til að fara í keppnisferð í samkvæmisdönsum til Írlands. Mamma fer með honum til halds og trausts, enda taldi pabbinn sig illa í stakk búinn að bera brúnkukrem á hann fyrir sýningu ekki beint matsjó atriði það!
Missti skó í kartöflupottinn!
Lesið allt um málið á nýju heimasíðu Kertaljóssin ehf.: www.kerti.is
Dansljónin taka á því!
Við reiknum ekki með því að margir tengi okkur hjónin við samkvæmisdansa, amk. ekki sem fyrsta val. Á árinu hélt hinsvegar samkvæmisdansinn áfram að þröngva sér inn á fjölskylduna, ekki nóg með að Arnar Hrafn væri að keppa í þessum fingraæfingum og dillingum, þá fór frú Snerpa fram á það að hún og hr. Flækjufótur hefðu æfingar af kappi þar sem bæði Hafþór Freyr og Tinna Rós höfðu einnig byrjað á þessu! Vissulega verður því ekki neytað að Snorri er vel þekktur fyrir þokkaða framkomu, faglegan limaburð og einstaka lipurð og lét hann því til leiðast. Nú, eftir þriggja mánaða stífar æfingar (vikulega), hefur hann náð þeim áfanga að geta dillað sér í takt við þær frænkur Rúmbu og Sömbu en ekki er laust við að það sé það eina sem hann getur, þ.e. að dilla sér. Ráðgert er að halda þessum dillanda áfram eftir áramótin og hver veit nema þau hjón stígi á stokk þegar frá líður og dilli sér saman með þeim frænkum.
Stakk seríunni í samband!
Undirbúningur jólanna er eðlilega með minna móti í ár, en Forstjórinn setti upp nokkrar seríur í glugga með dyggri aðstoð og stjórnun Litla forstjórans. Snorri tók sinn þátt í þessu og stakk í samband útiljósaseríunni sem hann nennti aldrei að taka niður frá því í fyrra!
Linnir framkvæmdagleðinni?
Ja hér eru enn töluvert af vannýttum sóknarfærum að okkar mati og hver veit nema kvíarnar verði færðar út næsta ár, enda fer grasið alltaf svo illa ef kvíarnar eru ekki færðar (spyrjið bara þá sem þekkja til kvíaeldis)! Við skulum ekki hræða neinn um of með því að uppljóstra neinu hér og nú, en líkurnar verða þó að teljast töluverðar á því að eitthvað verði gert því ef ekki... þá er það í fyrsta skipti síðan við fluttum til landsins!
Kertaljósið ehf. sekkur dýpra og þó
Eins og önnur stórfyrirtæki (Alcoa, Impregilo ofl.) var ráðist í það að fá til starfa erlenda verkamenn þar sem það var í tísku á árinu. Við byrjuðum á því að fá hingað til okkar pólskan verkamann að nafni Bartosz. Harðduglegan strák sem vílaði ekkert fyrir sér og það kunni Snorri sértaklega vel við, enda vanur því að ganga í þau störf sem þarf að vinna. Það var hinsvegar ekki fyrr en í lok ágúst að við áttuðum okkur á því að við höfðum staðið kolvitlaust að þessu með hann Bartosz. Hann fékk nefninlega fínan aðbúnað hér hjá okkur, sér herbergi á okkar heimili, nóg að borða, aðgengi að tölvu og netinu, gott kaup og við vitum ekki hvað! Það var því ekki annað hægt að gera en að senda hann beint heim til Póllands, við ætluðum hreint ekki til þess að það spyrðist út um Kertaljósið ehf. að þar liði erlendum verkamönnum betur en hjá öðrum stórfyrirtækjum (buðum honum reyndar vinnu aftur ef hann vill, þegar háskólanum líkur næsta sumar en það er nú allt önnur saga og má engum segja, amk. ekki neinum frá hinum stóru fyrirtækjunum hér á landi...).
Svo réðum við að sjálfsögðu þýska dömu í vinnu, enda jafnrétti eitthvað sem er verulega innprentað í forstjórann. Sú heitir Sandra Rock og er hörku dugleg.
Kanarí með eldri borgurum
Já eins og fram hefur komið erum við á Kanaríeyjum yfir jól og áramót og ekki væntanleg heim fyrr en 3. janúar. Hér föllum við inn í hópinn enda eru hér á sjötta þúsund íslenskir ellilífeyrisþegar. Kolla er þegar búin að kaupa sér sundhettu með upphleyptu blómamynstri og tekur virkan þátt í morgun-sundleikfiminni. Snorri tekur daglega þátt í Mullers-æfingaklúbbnum og svo eru allir fjölskyldumeðlimirnir orðnir slúngnir í bæði félagsvist og bingói. Um áramótin verður boðið upp á gömlu dansana, handprjón og svo verður boðið upp á hinn þekkta fyrirlesara Anton Guðjónsson, sem mun fræða okkur um það hvar hægt er að gera bestu kaupin á lesgleraugum, gervitönnum og snyrtilegum ísgöddum sem passa við betri skóna. Mikil tilhlökkun komin í familíuna vegna þessa!
Smá heilun í lokin
Jæja, nú er mál að linni enda flestir búnir að leggja bréfið frá sér amk. þrisvar sinnum og spyrja sig: tekur þetta aldrei enda?. Takið því nú létt um jól og áramót og njótið lífsins með fjölskyldu og vinum. Eftir lestur Áramótahornsins 2005© er gráupplagt að leggja frá sér hornið, rölta fram í anddyri og klæða sig í og fara út í göngutúr með familíunni og/eða góðum vin/vinum. Bara í smá stund og hlusta á umhverfið. Það er ómetanlegt og þið vitið jafn vel og við, að það er ekkert sem liggur svo á í lífinu að ekki sé tími fyrir smá göngutúr. Það er okkar jólagjöf til ykkar. Eitt er víst að við munum gera nóg af þessu á Kanarí. Knús og kossar til ykkar allra og munið að hláturinn lengir lífið.
Bestu kveðjur til ykkar allra,
Kolla, Snorri, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti, Brúsi II og Rauður.
10.12.2007 | 16:08
Jólahornið 2004, 3. árg. 1 tbl.
Jólahornið
3. árg., 1. tbl.
Komið nú blessuð og sæl, nær og fjær. Við heilsum ykkur héðan af Hvanneyri í frosti og norðangarra. Enn eitt árið er að verða liðið og þetta var reyndar einstaklega fljótt að líða. Eins og við höfum vanið ykkur á undanfarin ár, ætlum við að renna í nokkrum orðum yfir liðið ár sem hefur verið nokkuð viðburðarríkt hjá Familien Åsvej tre, Angelikarodlandtange, Stejlklippefjord (Fjölskyldunni Ásvegi þrjú, Hvanneyri, Borgarfirði). Þar sem einn (1) kvartaði í fyrra yfir síðasta bréfi, það hafi verið bæði langt, egósyntrískt (nei) og með smáu letri, höfum við ákveðið að koma til móts við slíkt þenkjandi einstaklinga:
KÆRI/KÆRA/KÆRU _____________ (viðeigandi nafn)
GLEÐILEG JÓL OG FARSÆLT KOMANDI ÁR. KÆR KVEÐJA FJÖLSKYLDAN ÁSVEGI 3, HVANNEYRI.
Jólin í fyrra
Frásögn Jólahornsins í ár hefst þegar jólin komu á hefðbundnum tíma hér á Hvanneyri eins og annarsstaðar. Við fórum í okkar árlegu ferð upp í Skorradal til að höggva tré með góðum vinum og kunningjum. Þetta er orðin ósköp hugguleg hefð og að þessu sinni voru margar fjölskyldur í hnapp við að leita að hinu fullkomna jólatré. Eftir langa leit í kulda og trekki (...kúri ég volandi, hey!) fundum við Jólatréð 2003. Þetta var fallegt og lögulegt rauðgreni. Kollu fannast það reyndar heldur stórt, en Snorri benti á að það stæði nú í brekku og að brekkan blekkti verulega. Tréð væri nú eiginlega bara hálfgert krækiberjalyng! Tréð var sagað og svo ætlaði Snorri að draga það af stað. Eitthvað var það nú í þyngra lagi! Sennilega bara laufblöð og dótarí á milli greinanna, sagði hann. Fyrir rest komst húsbóndinn með tréð niður að bílunum og eftir að hafa drukkið heitt kakó og sporðrennt ljúffengum smákökum var farið að raða trjánum í kerrurnar og þá kom staðreyndin endanlega í ljós. Tréð stóð langt aftur úr kerrunni og þegar upp var staðið, kom í ljós að bæði þurfti að stækka jólatrésfótinn og kaupa viðbót af seríum og öðru jólaskrauti vegna stærðar trésins. Þriggja metra og sjötíu sentímetra rauðgreni hafði verið fellt í sjálfsblekkingarleik húsbóndans og þarna stóð það á miðju stofugólfinu: Tré, sem hafði sigrað sólrík þurrkasumur og votviðrasöm haustveður í Skorradal. Tré, sem hafði haft betur í baráttu við veður og vinda í áratugi. Tré, sem hafði í stuttu máli sigrað íslenska veðráttu gegn öllum líkum, en þrátt fyrir mikla baráttu varð nú að lúta í lægra haldi fyrir þorpsbúum frá Hvanneyri. Tré, sem nú var að þorna upp í allt of litlum jólatrésfót! Húsbóndinn var reyndar afar stoltur af afrekum fjölskyldunnar, en ekki var laust við að húsfreyjan væri bara töluvert mædd yfir því að þurfa að skreyta allar þessar greinar. Ekki bætti úr skák að hún vissi sem var, og kom síðar í ljós, að svona tré myndi fella nálar á við jólatré margra fjölskyldna til samans og nálarnar myndu þar að auki festast í stofuteppinu. Rétt að skjóta hér inn í að nálarnar eru enn að koma upp úr teppinu, tæpu ári síðar!
Aðfangadagur jóla rann upp og Kolla byrjaði daginn á því að fara og hitta tvær aðrar mektarkonur hér á stað. Stuttu síðar sást til þriggja jólasveina á staðnum, sem fóru hús úr húsi með gjafir handa spenntum börnunum. Jólasveinarnir komu auðvitað við hér en því miður var Kolla ekki heima þegar þá bar að garði. Eftir fjöruga heimsókn bræðranna úr Skessuhorni, minntist einhver á að jólasveinarnir hefðu nú verið hálf kvennlegir en því tali var nú bara eytt. Kvennlegir jólasveinar úr Skessuhorni? Snorri hafði nú ekki heyrt aðra eins vitleysu...
Í kjölfar áts og pakkaopnunar var farið í árlegan göngutúr um staðinn og svo var því bara tekið rólega. Jólakortin voru tekin upp eitt af öðru og skiptust forstöðumenn hælisins að Ásvegi 3 á að lesa upp kortin. Ákaflega yndisleg stund og gaman að lesa jólakveðjurnar eins og alltaf. Engin jólaboð voru á jóladag og við héldum í hefðina og fórum upp í Skorradal og gengum þar um í Stálpastaðaskógi. Aldeilis frábær dagur og allir með jólaskapið uppivið, sem er nú heldur til bóta!
Áramótin
Að venju var glatt á hjalla hjá okkur um áramótin. Lítið áramótaboð breyttist í mörghundruð manna veislu á augabragði. 4 fjölskyldur (18 manns) sátu hér til borðs og gæddu sér á frábærum veislumat sem allir lögðu til og að sjálfsögðu sáum við um að útvega frábært nautakjöt í alla! Eftir matinn var farið á hina árlegu brennu þar sem nánast allir Hvanneyringar og nærsveitungar stóðu stolltir og horfðu á þetta líka svakalega eldhaf (borgarbúar kalla þetta sjálfsagt varðeld).
Eins og undanfarin ár tóku nokkur fyrirtæki og stofnanir sig til við að safna aurum í flugeldasýningu á áramótabrennunni hér á Hvanneyri. Snorri og Kristján granni sáu um að skjóta öllu saman upp og þótti þetta hið mesta augnayndi. Ein tertan tók reyndar upp á því að byrja að skjóta sér upp í miklum ljóma um leið og Snorri bar eld að og ekki laust við að heyrnin hafi beðið smá skaða af, en hvað er það á við frábæra flugeldasýningu? Svo talar hann hvort sem er svo hátt að smá heyrnarskaði skiptir afar litlu máli! Ekki þótti nú öllum mikið til koma og ákvað Tinna Rós ásamt tveimur vinum sínum að halda til í bílnum og hlusta á útvarpið (undir sætunum í bílnum).
Þegar brennan var brunnin upp (eftir ca. korter) hélt hópurinn heim á leið í Skaupið. Rétt fyrir miðnætti mættu allir Ásverjar (íbúar á Ásvegi) að hólnum við hliðina á húsinu okkar og skutum við upp í sameiningu og var þetta að vanda frábær skemmtun.
Danmerkurferð I
Í lok janúar fór Snorri í sína árlegu Danmerkurferð og að þessu sinni voru 72 (les: túoghalvfjes) undir hælnum á honum. Ferðin tókst vel í alla staði og hafa nú rúmlega 450 manns farið utan með Snorra á landbúnaðarsýninguna sem alltaf er sótt heim. Ferðin er vikuferð og endar alltaf á því að hópurinn kemur til Kaupmannahafnar. Við hjónin vorum búin að ákveða það að hittast í lok vikunnar og ekki er laust við að ákveðin tilhlökkun hafi verið meðal Snorra í rútunni á leiðinni til Kaupmannahafnar, vitandi að Kolla væri komin upp á hótelherbergi og biði þar... Þegar til Köben var lykillinn að herberginu ekki í lobbýinu og æddi kappinn því upp á herbergi og það var að sjálfsögðu læst. Aha, búin að læsa og allt!. Bankaði létt en ekkert svar! Bankaði hækkra en ekkert svar! Barði látlaust á hurðina í lengri tíma en ekkert svar! Bíddu, hvað var í gangi? Meira að segja megahitturinn með Herbert Guðmundssyni, Svaraðu, kallinu, frá mérheheherrr virkaði ekki, þótt hann væri sunginn af hjartans list á gangi hótelsins. Kappinn geystist niður og fékk ungan vikapilt til að koma með sér upp til að opna herbergið. Þegar inn var komið, var Kolla vissulega í herberginu og rétt til getið: uppi í rúmi en steinsofandi! Og það sem meira var, fárveik!!! Ekki byrjaði nú rómantíska helgarferðin beint vel. Heilsan kom reyndar hægt og bítandi og var nokkurnvegin komin þegar við fórum heim um borð í Icelandair vél á sunnudeginum!
Helstu afrek ársins:
Snorri: Tók að sér óvenju lítið af nýjum verkefnum!
Kolla: Þagði einu sinni í um eina klst. en var vakandi!
Arnar: Íslandsmeistari innan húss í hástökki!
Hafþór: Ekkert orðið veikur í ár!
Tinna: Lærði að lesa!
Gutti: Lifað skýrlífi í heilt ár!
The Mansion
Kofinn okkar er hægt og rólega að skríða saman og hefur stefnan ekkert breyst varðandi notkun hússins, það á enn að vera tilbúið þegar frumburðurinn fermist (eftir rúmt ár). Á árinu hefur það helst gerst í okkar málum að þeir bræður eru fluttir upp á efri hæðina, þar sem þeir eru í góðu yfirlæti. Klósettið uppi er reyndar ekki tilbúið og heldur ekki herbergið hennar Tinnu Rósar. Við ætlum að klára klósettið sem allra fyrst og svo herbergið hennar Tinnu Rósar. Strákunum þykir nú ekkert sérlega slæmt að geta haft sitt eigið herbergi og það sem mikilvægast er, að geta lokað að sér. Áður voru nefninlega bara hengi fyrir hurðargötunum og þegar skapið er mikið, er afskaplega slæmt að geta ekki skellt hurðum svona til auka áhrifin og leggja áherslu á hina léttu lund. Það eyðileggur einhvernvegin áhrifin að taka sér stöðu við hengið, horfa grimmilega fram á foreldra sína og renna svo henginu til hliðar með tilheyrandi gardínuklið (smá leiðbeiningar: áhrifamest að loka augunum, sjá þetta fyrir sér og fara svo yfir síðustu setningu aftur í huganum)!
Við þessa búferlaflutninga drengjanna, gat Tinna flutt úr okkar herbergi í hobbýherbergið og fyrir vikið höfum við klárað fataherbergið sem er inn af hjónaherberginu (þar sem Tinna var áður líka). Þetta er s.s. allt á réttu róli.
Af orðsnilld
Margir kannast eflaust við frásögnina af því þegar Hafþór Freyr talaði um geimverur hérna um árið. Rifjum hana aðeins upp. Við vorum að aka upp í Borgarfjörð og vorum rétt komin upp úr Kollafirði, þegar Hafþór Freyr (þá 5 ára) sagði upp úr þurru hljóði: Pabbi eru til geimverur? Snorri svaraði að bragði: Nei auðvitað ekki!. Hafþór Freyr var nú ekki par sáttur við svörin og sagði: Jú það eru víst til geimverur og það er geimvera í þessum bíl.... Allir voru nú orðnir nokkuð forvitnir og þá kom skýringin hjá kappanum... ég er geimvera. Við börðumst við hláturinn og höfum átt þessa sögu upp í erminni og notað þegar okkur hefur fundist að þessi sjálfslýsing Hafþórs Freys eiga vel við (s.s. nokkuð reglulega). Hann náði þó algerlega að toppa þetta í ár. Dag einn hafði hann verið frekar óþekkur og Snorri var að fara yfir málin með honum í eldhúsinu. Eitthvað varð þeim sundurorða og þótti pabbanum stráksi verða full óhlýðinn. Til að leggja áherslu á orð sín, bankaði Snorri hnúunum í borðið í takt við orðaflauminn og sagði af ákveðni: Hafþór Freyr, ég vil að mér sé hlýtt. Hafþór Freyr brást við þessu með eftirfarandi hætti: Horfði ákveðinn framan í pabba sinn, bankaði hnúunum niður í borðið í takt við orðanna hljóðan og sagði svo hægt (svona eins og íslenska fyrir útlendinga): Af hverju ferðu - þá ekki - í - peysu?. Samtalið varð ekki lengra.
Einkarekin líkamsræktarstöð á Ásvegi 3
Á miðju ári tók sig upp gamall og reyndar síendurtekinn áhugi á því að brenna mör og voru helstu kostir í stöðunni metnir. Valið stóð um það að bruna í Borgarnes og mæta þar reglulega í ræktina, sprikla hér í íþróttahöllinni með öðrum, eða (og það taldi frú Kolbrún afar snjalla hugmynd, sem hún átti reyndar sjálf) að fá alhliða líkamsræktarstöð og setja hana upp hér í húsinu. Stebbi, bróðir Kollu, átti mikla græju sem hann skildi eftir þegar hann flutti utan og þetta mikla tæki keypti stóra systirin (sem er reyndar yngri en Stebbi) af bróður sínum. Nú í stuttu máli sagt, þá er húsið rúmir 300 fermetrar en hvar endaði svo líkamsræktarstöðin??? Jú í hjónaherberginu! Apparatið hefur þegar risið í hjónaherberginu og vekur mikla lukku meðal heimilisfólks og gesta. Krakkarnir leika sér á stigvélinni, strákarnir lyfta lóðum og æfa sig sem mest þeir mega og krakkarnir í nágrenninu koma hingað reglulega í lóðalyftingar. Hvað varðar upphaflegu hugmyndina, þ.e. að brenna mör, þá höfum við hjónin ekki enn notað tækið að ráði. Stöðin góða hefur hinsvegar eflt og aukið verulega hróður Snorra sem eiginmanns, enda talar frú Kolbrún oft um líkamsræktarstöðina sína í hjónaherberginu við vinkonurnar og er leitun að öðrum eins ummælum konu...
Þrír bílar kvaddir á árinu!
Í byrjun árs var Bensi gamli loks klár í slaginn á ný og Brúsi I var kvaddur með viðhöfn og gegnir hann nú störfum í Reykjavík. Í vor bilaði Bensi hinsvegar enn einu sinni og keyptum við þá Súbarú steisjón frá því herrans ári 1998 (hér eftir Brúsi II). Pæja entist svo aðeins fram eftir sumri en fór svo í sína hinstu ferð í Borgarnes og endaði sína annars ágætu lífdaga hjá Sorpu. Kolla fékk sem nemur fjórum rósavínsflöskum fyrir hana Pæju. Bensi var í lagi og ólagi til skiptis fram eftir sumri og því fæddist sú hugmynd að skipta um bíl. Bensi var settur á söluskrá og var farinn innan tveggja vikna. Ákveðin eftirsjá er nú á eftir honum Bensa gamla, en um leið fögnuður í herbúðunum á Ásvegi nr. 3. Það verður nú að viðurkennast að Brúsi II er nú ekki alveg okkar tebolli og finnst okkur hann full lítill fyrir okkar stóru fjölskyldu (les: löngu og/eða hávöxnu fjölskyldu). Þar sem við mundum vel eftir því hve vel okkur leið í amerískum fólksbíl (frá því í USA í fyrra), ákváðum við að leita að góðum amerískum sjö manna fólksbíl með díselvél. Amerískan vegna þess að þeir eru stórir, sjömanna af því að við erum fimm í fjölskyldunni og dísel af því að við keyrum mjög mikið. Öll fjölskyldan kættist yfir málinu og voru allir mjög innvolveraðir í ákvarðanatökuna. Í gang fór mikil leit um hina frjálsu Ameríku og fyrir rest kom niðurstaðan. Ef við ætluðum að halda í þennan draum þ.e. um að eiga amerískan sjömanna díselbíl þá væri eina lausnin í stöðunni að kaupa jeppa! Eitthvað vafðist þetta nú fyrir húsbóndanum. Jeppa? Nei, Snorri ætlaði sér nú ekki að taka þátt í hégómaleiknum. Já nei takk fyrir, eða eins og hann orðaði það: Hvað næst? Einkanúmer?. Snorri ákvað því að koma í veg fyrir þessi áform með skotheldu trikki og kallaði til hins árlega haustfundar fjölskyldunnar, en rétt eins og hjá öllum stjórnmálaflokkum með þokkalega sjálfsvirðingu, er alltaf haldinn haustfundur fjölskyldunnar að Ásvegi 3 í lok september. Á dagskrá voru hefðbundin haustfundastörf og svo hinn óútreiknanlegi liður önnur mál, en eins og lesendur Jólahornsins kannast við, þá eru í gildi mjög sérstakar reglur sem lúta að kosningum hér í familíunni og eru þær reglur yfirleitt kallaðar til verka undir umræddum lið. Þetta er ekki ólíkt því kerfi sem valdhafar í Úkraínu hafa haft til þessa með nokkuð góðum árangri, ja eða allt þar til einhverjir eftirlitsmenn fóru að skipta sér af nú nýverið og fundu út að kosningakerfið var í raun algert plat. Jæja, hvað um það. Eftirfarandi tilboð var lagt á borðið: Hvað segið þið um að eiga bara áfram hann Brúsa II og í stað þess að kaupa jeppann þá getum við keypt bílskúrshurð, loftaklæðingarefni í stofuna, þær innihurðir sem vantar og jafnvel nýja eldhúsinnréttingu?. Rétt eins og Snorra grunaði var málið afar einfalt, fundurinn varð stuttur og fjölskyldan ákveðin og samheldin að vanda (ja nema einn). Jeppinn kemur sem sagt til landsins 28. desember og um er að ræða splúnkunýjan (árg. 2000) og glæsilegan (ekinn 100 þús km.) Ford-jeppa af Excursion gerð og hefur hann þegar fengið nafnið Rauður.
Danmerkurferð II
Í september náðum við að draga heimsborgarana og vini okkar, þau Önnu Siggu og Kristján, með til Danmerkur. Föst dagskrá var skipulög með nokkurra daga fyrirvara svo að hægt yrði að gera allt það sem okkur langaði að gera: í fyrsta lagi ekki fara í búðir, í öðru lagi athuga með helstu bari, í þriðja lagi ekki fara í búðir osfrv. En að sjálfsögðu var skipulaginu breytt við fyrsta tækifæri og var drengjunum dröslað í allar helstu verslanir sem hægt var að finna. Eitt gátu þeir þó huggað sig við að barirnir voru ýfið fleiri en búðirnar. Eftir að hafa náð ótrúlegum árangri í verslunarferð á fimmtudeginum (sem átti að vera heilagur hvíldar- og drykkjudagur) var ákveðið að skreppa í gamla bæinn okkar Birkeröð á föstudeginum. Þeir héldu að strákarnir væru hólpnir, en sá góði bær hefur líka fínar búðir! Eftir mikla þolinmæði gagnvart dömunum voru mennirnir verðlaunaðir með bjór og frönskum vöfflum. Sátum við svo eins og rónar á garðbekk og drukkum bjór rétt um hádegisbil mjög huggulegt móment.
Í ferðinni gerðist í sjálfu sér mjög margt eftirminnilegt, en nokkur atriði standa þó uppúr. Eitt af þeim var ferð í klúbb á Strikinu. Sveitafólkið ákvað að kíkja aðeins á lífið og skellti sér því á pöbbarölt. Á Strikinu fannst góður staður þar sem hljómsveit ein mikil tróð uppi með mikinn söng og hljóðfæraleik (hljómar einhvernvegin betur en þungarokk!). Þar ákvað Kolla að rifja upp gamla tíma (mjög gamla tíma, já eiginlega mjög, mjög gamla tíma) og keypti því tekíla með salti og sítrónu. Það fór svo að fleiri helltu sér í þá deild og úr var mikil skemmtun. Anna Sigga ákvað hinsvegar að halda sig bara við léttari veigarnar til að geta dröslað okkur hinum rétta leið heim að hótelinu (blindur leiðir haltan...) en það þurfti nú reyndar alls ekki. Eftir að hafa náð athygli hljómsveitarmeðlima nokkrum sinnum fyrir frammíköll og dólgslæti var ákveðið að hverfa á braut en til að gera smá bravör úr þessu tókum við hljómsveitarstjórann tali og buðum þeim að troða upp á Hvanneyri næst þegar þeir ættu leið hjá. Þeir hafa nú reyndar ekki hringt enn...
Á laugardeginum var svo farið í hið margrómaða Tívolí. Þar var tvennt á dagskránni, að fara í nýja rússíbanann og smakka bjórinn. Kristján og Kolla ætluðu að taka það að sér að smakka ölið og vildu eftirláta hinum að fara í banann. Það var að sjálfsögðu ekki tekið til greina. Náhvít skjögruðum við (les: Kolla) upp í stóra rússíbanann og enn hvítari og skjálfandi á beinunum röltum við (les: Kolla) niður eftir að hafa verið sett í einhvern þann lífsins mesta háska sem hægt er að leggja nokkurn í (innskot frá Snorra: tek ekki beint undir svona sterkt orðalag, enda lífsreyndur maður og hef t.d. verið farþegi frú Kolbrúnar í Pæjunni á leið í Borgarnes!).
Á sunnudeginum voru búðir LOKAÐAR og því ákveðið að fara að skoða borgina. Menningarlegheitin voru alveg að fara með okkur. Skoðaðar voru kirkjur, hallir, stræti og torg og ekki má nú gleyma blessuðum görðunum. Einn garðurinn er annálaður fyrir náttúrufegurð og líka það að vera samkomustaður samkynhneigðra karla á kvöldin. Þessi staðreynd vakti að sjálfsögðu forvitni drengjanna og þegar í ljós kom á einum stað einskonar troðningur á bak við runna, skelltu þeir sér þangað til að skoða ummerkin. Þau voru all svakaleg og verður ekki lýst hér nánar, en hinsvegar var þessi för þeirra pilta frekar vanhugsuð. Þegar þeir komu til baka úr skoðunarferðinni, vöktu þeir að sjálfsögðu athygli nærstaddra og af hverju? Setjum þetta aðeins í samhengi: Við vorum stödd í þekktum garði þar sem samkynhneigðir karlar hittast og fara saman á bak við runna. Væntanlega koma þeir þá líka saman út úr runnunum, rétt eins og þessi tveir ágætu herramenn frá Íslandi! Ekki þarf að spyrja að því, en að sjálfsögðu sneiddu þeir hjá öllum slóðum og troðningum eftir þetta amk. svona saman og hönd í hönd...
Í lok dags fórum við svo heim aftur eftir mjög vel heppnaða för til kóngsins Köbenhávn og hafi frú Margrét Þórhildur bestu þakkir fyrir fínar móttökur.
Af niðjum frú Kolbrúnar og Snorra
Blessuð börnin eldast og stækka. Tinna Rós, 6 ára, er mikið til tannlaus núna og það fer henni bara ágætlega. Hún byrjaði í skólanum í haust og var í nokkra daga og svo í verkfalli eins og allir kannast við. Eftir að verkfalli lauk hefur gengið vel í skólanum og er hún ágætasti námshestur. Hún kann ljómandi vel við sig í skólanum en besta vinkona hennar, Svava Sjöfn, er þó enn í leikskóla og getur Tinna Rós vart beðið eftir að Svava Sjöfn byrji líka í skóla. Tinna Rós hefur, ótrúlegt en satt, erft risavöxt fjölskyldunnar og er orðin hátt í 130 cm há. Hafþór Freyr er orðin risi líka og rétt um 160 cm. hár og er 10 ára. Segja má að allt sé við það sama hjá honum. Við förum alltaf á Barnaspítala Hringsins í lyfjagjöf á þriggja vikna fresti og gengur það bara alveg ágætlega. Líkamleg heilsa verið með ágætum sl. ár, en hinsvegar hefur andlegt jafnvægi verið betra. Þetta gengur svona dálítið í hríðarbyljum, en svona er þetta nú bara og er víst algengara en maður heldur, sérstaklega meðal langveikra barna. Í haust byrjaði Hafþór Freyr að æfa frjálsar með bróður sínum og hafa þeir farið saman á æfingar það sem af er vetri. Þeir ákváðu hinsvegar báðir að hvíla píanóleik að sinni. Frjálsu æfingarnar hafa haft mjög góð áhrif á Hafþór Frey og hefur kúluvarpið hentað honum best. Kappinn hefur sett markið hátt fyrir næsta meistaramót í frjálsum, en kúlan flýgur orðið um 10 metra sem er mjög góður árangur. Arnar Hrafn orðinn 12 ára og byrjaði árið með því að verða Íslandsmeistari innanhúss í hástökki drengja og setti um leið Borgarfjarðarmet. Á árinu hefur hann svo tvíbætt metið og í dag er það 150 cm! Hann hefur æft frjálsar af krafti í ár og varð hann annar utanhúss á Íslandsmótinu. Þar sem frjálsar æfingar eru nú bara 2-3svar í viku hefur hann æft samkvæmisdansa til viðbótar. Eins og í hástökkinu er hann mikill keppnismaður og hefur hann þegar náð að vinna til verðlauna í greininni og stefnir hann og hans dansfélagi til metorða í faginu. Þessir hæfileikar leynast nú í foreldrunum, eins og flestir taktöruggir vita og hafa séð. Sveiflurnar og trikkin sem við kunnum á dansgólfinu eru auðvitað með ólíkindum, svo mögnuð eru nú tilþrifin að Arnar Hrafn hefur þráfaldlega beðið okkur um að hætta að dansa þegar hann og/eða aðrir sjá til. Þetta er kórrétt mat hjá honum, svona leynivopn eins og okkur, ber að varðveita og beita svo á ögurstundu.
Lind
Félagið Lind, sem er stuðningsfélag einstaklinga með ónæmisgalla (eins og Hafþór Freyr hefur), hefur komið upp heimasíðu með upplýsingum um þennan sjúkdóm og er slóðin www.onaemisgallar.is. Að sjálfsögðu tróð Kolla sér í stjórn félagsins og í október fór stjórnin til Parísar á alþjóðlega ráðstefnu um ónæmisgalla. Eftir að hafa náð að skoða París í mýflugumynd var setið undir mjög svo fróðlegum fyrirlestrum alla dagana. Ráðstefnunni lauk svo með galadinner á laugardagskvöldinu. Þar sátu allir Íslendingarnir saman ásamt einni Írlandi. Þegar líða tók á kvöldverðin ákvað Kolla að spjalla við dömuna frá Írlandi. Til að opna fyrir tilvonandi samræður var að sjálfsögðu mjög áríðandi að hafa fyrstu spurninguna mjög fagmannlega. Eftir vel úthugsað mál dró frúin upp engilsaxneskuna og slengdi fram þeirri mjög svo eftirminnilegu spurningu: How many are in your orgasm?. Konu greyjið, sem varð fyrir þessari frökku framkvæmdastýru frá Hvanneyri, átti hreinlega ekki til orð (orgasm þýðir s.s. ekki félagasamtök (organitation) heldur lýsir orðið ákveðnu líkamlegu og andlegu ástandi!). Eftir nokkrar vandræðalegar sekúndur átti hún hinsvegar til ýmislegt annað, dæmi: gríðarlega mikinn hlátur, hláturtár, hláturmagaverki ofl. Frú Kolbrún áttaði sig um síðir á þessari snilld sinni og hvarf jafn hratt niður í eigin hugsanir og það tók roðann að birtist á kinnunum...
Svíþjóðarferð Snorra
Heja. Jevla bra. Intet mere at sige fordi han var jo i Sverge ikke i Norge eller i andet fantastiskt land!
Fjölskyldumót afa og ömmu á Skeggjó
Árlegt fjölskyldumót afa og ömmu á Skeggjó (móður afi og amma Snorra) var haldið að þessu sinni á vegum Togga frænda. Allir hittust í góðum gír í húsi Landsvirkjunar við Þingvallavatn (já eða afrennsli þess). Þar ákváðu börnin að halda til veiða og fengu þau góðu ráð frænda síns að best væri að veiða við skiltið sem á stóð Veiði Stranglega Bönnuð! Eðlilega vakti skiltið furðu nærstaddra en skýringin kom jafnharðan, jú sjáiði til þetta er skilti sem Landsvirkjun setur upp við bestu veiðistaðina þannig að aðrir veiði ekki þar! Það var rétt hjá Togga, þvílíkur veiðistaður. Að öðrum ólöstuðum stóð Hafþór Freyr sig best í lönduninni og gengu stærðar silungar (á stærð við löngutöng hægri handar) á land sem aldrei fyrr. Þar sem lítið var um matfisk í aflanum, var ekki hugað nánar að honum, en gaman var þetta og það var nú fyrir öllu. Ekki síður að hitta alla familíuna, en til stóð í ár að bjóða frændsystkinum í heimsókn hingað á Hvanneyri en það hafðist ekki fyrir húsbyggingarmálum en stendur til bóta.
Gutti hinn hárfagri
Hann Gutti okkar er samur við sig. Farinn að eldast en er sprækur sem lækur. Hann elskar Guð og menn en hatar póstmanninn. Í byrjun árs var hann bundinn framan við útidyrnar og það var ekki fyrr en á vordögum að við áttuðum okkur á því að suma daga fengum við engan póst en aðra svakalega mikinn póst. Í ljós kom að skýringun var að finna í samskiptum þeirra Gutta og póstmannsins. Gutti hreinlega verður snar vitlaus þegar hann nálgast húsið og ef hann er fyrir framan útidyrnar, þar sem póstlúgan er, þá kemur bara enginn póstur þann daginn! Núna þarf Gutti að dúsa á bak við hús en unir sér svo sem vel þar og svo hefur hann forstofuna út af fyrir sig og stundum meira að segja stofuna líka. Hundahár fara reyndar nokkuð fyrir brjóstið á hr. Snorra, en svona er það Snorri minn þegar maður á hund er stundum sagt. Snorri hefur jafnoft minnt á að hann vildi gúbbífisk en frú Kolbrún hund en það er nú ekki tekið með svona mörgum árum síðar!
Nýja orðatiltækið
Eins og þið munið þá fékk Kolla Orðabók Háskólans til að samþykkja tvö ný orðatiltæki á árinu 2003: Noh, og hvað tók þetta nú langan tíma? og hið sígilda: Ertu ekki eftir þig eftir þetta erfiði?. Bæði orðatiltækin lúta að sama verkþætti og lýsa í raun áþekku hugarástandi spyrjanda (vanþóknun og skilningsleysi). Í ár fæddist henni enn eitt orðatiltækið: Viltu ekki fara inn og leggja þig ástin mín?. Sami ferill er farinn af stað á milli Kollu og Orðabókarinnar. Þetta nýja máltæki hefur verið notað í nokkur æfingaskipti hér á heimilinu í kjölfar fæðingu þess, en það kom til þegar Snorri hafði skipt um peru í einu útljósinu, sem hafði verið sprungin vel á þriðja mánuð. Að vanda þarnaðist verkið, eins og önnur, skipulags og undirbúnings. Réttra verkfæra og viðhafnarklæðnaðs. Og síðast en ekki síst tíma. Það þurfti nú að finna réttan tíma til að gera þetta og eiga nóg af honum, enda liðu hátt í tvær mínútur frá því brottför úr andyrinu var tilkynnt og þar til hann kom inn aftur.
Kollubúð
Verslun frú Kolbrúnar heitir nú Kollubúð og höfum við breytt nokkuð um áherslur í búðinni. Kertaljósið ehf. er ennþá til og rekur það Kollubúð, eins og Hreppslaug. Reksturinn gengur bara ágætlega og var t.d. mikið fjör í Hreppslaug í vor. Gerður hefur verið leigusamningur á milli Ungmennafélagsins Íslendings og Kertaljóssins um rekstur laugarinnar allt fram að næsta áratug. Í tilefni af 75 ára afmæli laugarinnar var Gamla góða Hreppslaug, eins og segir í auglýsingunni tekin til verulegra viðgerða og endurbóta. Breytingarnar tókust mjög vel og sundlaugargestir hæstánægðir með þetta allt saman. Nú er komin aðstaða til að sitja og borða í húsnæðinu við laugina og jafnframt er sjoppan mun stærri en verið hefur. Kertagerðinni var lokað hjá okkur í haust, eftir að ákveðið var að fjölga borðum og stólum fyrir gesti og gangandi. Til stendur að klára á næstu vikum, en þá verður hægt að fá sér svona alvöru kaffi eins og á kaffihúsi, heita súpu, nýbakað brauð og margt fleira. Við höfum jafnframt sótt um stærra húsnæði fyrir reksturinn og vonandi fáum við það á næstunni enda ýmis áform í gangi varðandi framtíðina.
Baktjaldamakkið
Eins og flestir vita kann og skilur Snorri ekki orðið nei. Í haust reyndi t.d. á það þegar sett var upp hið frábæra leikrit Blái hnötturinn, eftir Andra Snæ Magnússon. Þar sem Kollubúð rekur sjoppuna í félagsheimilinu þar sem sýna átti leiritið, datt Snorra í hug hvort ekki væri ástæða til að bjóða smá aðstoð baksviðs. Hann eða Kolla væru þarna hvort eð er í hléi! Nema hvað, þetta varð til þess að hann varð að fullgildum sviðsmanni m.m. á mettíma og í hönd fóru æfingar og æfingar við leikritið. Þessi smá aðstoð breyttist bara í töluvert mikla aðstoð, en var mjög skemmtilegur tími fyrir því. Leikritið tókst svo mjög vel og fékk meðal annars þau eftirmæli Andra Snæs að tæknin í sýningunni tæki Þjóðleikhúsinu fram og þá voru nú sviðsmennirnir ánægðir (það eru fimm sviðsmenn svotil á fullu allan tímann) enda rignir á sviðinu, geimflaug birtist sí svona og leikararnir fljúga um loftin blá í vírum og þessu verða sviðsmenn að stjórna.
Njólar og Hvannir
Eins og allir vita er Kolla mjög feimin og gætir hófs í öllu sem hún gerir. Á liðnum vetri kom þetta sterka eðli hennar skýrt fram er blaklið kvennanna á Hvanneyri þurfti á nýjum búningum að halda. Frú Kolbrún stakk upp á að bolirnir yrðu bleikir og bláir á litin, aðskornir með meiru, flegnir og ermalausir, svona í Britney Spears stíl. Hvannir, en það heitir liðið, fékk í lið með sér stórfyrirtækið Henson og tókst það á við verkefnið. Ekki fer reyndar fleiri sögum af blakliðinu Hvönnum á liðnu ári né árangri þeirra í mótum. Hver er svo sem að spá í slíkt? Hinsvegar er þeim sem hafa áhuga á að sjá nýja búninginn hjá Hvönnum bent á að koma og hvetja liðið á öldungarmótinu á Akureyri í apríl nk.
Njólarnir (old boys blak) hafa lagt stund á miklar æfingar það sem af er vetri. Markmið blakæfinganna er að fá eitt kvöld í viku án kvenna, en það hefur þó ekki alveg gengið upp þar sem ekki næst alltaf í fullt lið (ath. ekki drukkið lið) til æfinga og því hafa dömurnar dregið mennina að landi. Einhver áherslumunur er nú á æfingum Njólanna og Hvannanna og aðalmál Njólanna hefur verið að hittast og slá boltann yfir netið. En ásetningur kvennanna er einhver annar. Þær vilja alltaf keppa og fara á mót og tapa þar. Njólarnir gera sér hinsvegar mun betur grein fyrir eigin getu og æfa því bara í einrúmi og hafa gaman af!
Maðurinn með prjónana
Kolbrún hefur á liðnu ári verið á andlegu nótunum og dag einn í haust hringdi hún í ofboði í Snorra. Erindið var að senda hann heim í Mansjonið til að hitta að máli mann einn sem hefur ferðast um landið þvert og endilangt í leit að rafbylgjum. Hugmyndafræðin felst í því að einhverjar ógurlegar rafsegulbylgjur geysast úr iðrum jarðar og upp í gegnum húsin okkar og eina leiðin til að komst hjá því að lenda í klóm þessara bylgja er að kaupa sérstakan búnað á fimmtíuþúsundkall til að halda bylgjunum annarsstaðar. Nema hvað, Snorri er nú frekar skeptískur á alla svona þætti en leyfði þessum góðlega rangeyga manni að þramma um húsið. Hann hélt á prjónum í sitt hvorri hendi og snéri hann þeim beint fram. Öðru hverju snarsnérust þeir og fóru í kross þá sagði karlinn: Hér er bylgja og svona gekk hann um húsið og fann einar átta bylgjur í húsinu. Snorri var nú farinn að brosa að þessu öllu en þá gall upp úr karlinum: Hvar er hjónarúmið ykkar?. Snorri varð nú hálf undrandi en benti á herbergið. Karlinn góði gekk rakleiðis inn og hélt prjónunum ógnandi út í loftið. Hann fetaði sig áfram og allt í einu svíng (látið hljóðið hljóma fyrir eyrum ykkar) prjónarnir snarsnérust í kross og beint yfir koddanum hennar Kollu. Hér er bylgja!, hrópaði karlinn. Svo gekk hann hægt áfram og aftur svíng og sagan endurtók sig, að þessu sinni beint yfir kodda Snorra. Karlinn varð íbygginn á svip og sagði svo: Hér getur nú varla verið mikið fjör, bylgjurnar fara beint í gengum hausana á ykkur hjónum. Snorri ákvað að segja ekkert (það sem er ekki sagt, getur ekki verið notað gegn manni). Annars var þetta afar merkilegt! Við höfðum heyrt um þetta hjá fleirum, þ.e. að svona væri þetta nánast alltaf þegar þessi kappi kæmi í heimsókn. Alltaf fara bylgjurnar beint í gengum koddana hjá fólki! Það sem var enn merkilegra var að við færðum rúmið til hliðar um ca. 40 sm. stuttu áður til að koma fyrir líkamsræktarstöðinni góðu sem áður hefur verið rætt um. Snorri þurfti ekki frekari sannanir fyrir þessu bulli og bað manninn góðfúslega að hverfa á braut. Snorri eyddi svo því sem eftir lifði dags að gera mikið grín að Kollu vegna þessarar ótrúlegu trúgirni hennar á svona bull eins og hann kallaði það. Kolla var eiginlega farin að hálf skammaðist sín fyrir þetta allt saman, en svo var komið að háttatíma. Snorri fór uppí á undan og þegar Kolla kom inn í herbergið var hann í óða önn við að færa hjónarúmið aðeins til baka. Hálf skömmustulegur tuldraði hann fyrir munni sér ja maður getur varla tapað á því... Ekki verður farið nánar í sögur úr hjónaherberginu, en við verðum þó að viðurkenna að hvar sem rúmið er þá... nei við segjum ekki meira og hananú!
Gangan mikla...
Þegar þessar línur eru ritaðar, stendur jólaundirbúningur sem hæst. Farið var í sérstakan bæjarleiðangur rétt fyrir jól til stórborgarinnar. Eftir að hafa eitt nokkrum tíma með börnunum í Smáralind voru þau sett í fóstur þar sem foreldrarnir þurftu að versla gjafir fyrir þau. Brunað var á Hótel Ísland þar sem gista átti um nóttina (BARNLAUS) og frá hótelinu var svo stefnan sett niður á Laugarveg. Snorri gekk út af hótelinu af röggsemi og rak höndina upp í loft til að veifa næsta leigubíl, en þá gerðist það. Kolla mælti eitthvað en undirmeðvitundin ruglaði sendinguna strax. Þrátt fyrir afar þróað kerfi við að leiða ákveðið eiginkonutal hjá sér, tókst Snorra ekki að flýja þetta. Orðin voru sem brennimerkt á heilann og hann sá Kollu fyrir sér segja þessi orð aftur og aftur. Hárin risu á höfðinu á honum og ískaldur hrollurinn skrölti niður eftir bakinu. Hans mesti ótti var orðinn að raunveruleika. Nokkuð sem hann hafði grunað um nokkurn tíma, en ekki þorað að minnast á af ótta við aðgerðir. Eitthvað sem átti eftir á ásækja hann lengi og gerir enn. Hún var orðin brjáluð! Kolla hafði, eftir allt sem þau voru búin að ganga í gegnum á rúmum 18 árum, lagt til að þau myndu ganga. GANGA??? Snorri náði ekki upp í nef sér (og er þá mikið sagt enda ekkert smotterí) þegar hann loks náði að skilja frúna. GANGA??? Snorri, sem eins og allir vita að er annálað hraustmenni, gat ekki orða bundist vegna þessarar tillögu. Fyrirgefðu frú Kolbrún, en ef þú vissir það ekki þá hefur þegar verið fundið upp magnað tæki sem kallast hjól! og svo bætti hann við ... og líka enn magnaðari græjur sem kallast leigubílar og strætóar og þegar árið er 2004 og úti er frost, þá gengur maður ekki um í Reykjavík!. Í stuttu máli sagt þá tuðaði maðurinn látlaust yfir þessu líkamlega ofbeldi sem hann var beittur, ALLA leið frá Ármúla og niður á Hlemm. Það var ekki fyrr en rétt um ellefu að það sljákkaði í kauða, enda innkaupum þá lokið. Síðar tók sig upp gamalt tuð sem var látið sem vindur um eyru þjóta þegar heimferðin hófst á ný, fótgangandi. Við lifðum þetta nú af, þrátt fyrir bölsýn húsbóndans.
Mr. Griswald
Snorri er búinn að vera eins og lítið barn í sælgætislandi. Hann skreytti húsið með gömlu ljósunum okkar (stakk þeim í samband aftur) og hefur eytt allmörgum kvöldum sitjandi inn í eldhúsi umkringdur útiseríum sem enginn vildi eiga og af hverju ætli það sé? Jú, nokkrar eru frekar tannlausar, aðrar eru í verkfalli og svo eru nokkrar sem grátbiðja um eilífðarhvíld. En mottóið hans Snorra er, Ég get allt. Og upp fara seríurnar að lokum (ætli að hann sé á góðu tímakaupi?). Kolla heldur því reyndar fram að þetta sé sk. uppgerðargleði og -hobbý til að komast hjá því að taka þátt í jólahreingerningunni. Kolla sér hins vegar algjörlega um skreytingar innandyra og tapar sér alveg í þeim efnum, en sjón er sögu ríkari.
Köttur úti í mýri
Er þetta nú ekki að verða bara ágætt. Slær amk. Þráinn Bertelsson út. Komið nú endilega við þegar og ef þið eigið leið hjá, hver veit nema það taki sig upp gestrisni hjá okkur þið vitið það ekki að óreyndu! Annars getum við svona í lokin miðlað dýrmætri reynslu systur Snorra ef þið stefnið á að koma í heimsókn. Nr.1 hringja fyrst og athuga með veður og færð. Nr. 2 pakka niður helstu nauðsynjum (hitapokar, matur, aukaföt, talstöðvar, vasaljós, batterí ofl.). Nr. 3. láta vita af ferðum ykkar, bæði brottfarartíma og áætlaðan komutíma á áfangastað... þetta eru nú einu sinni heilir 76 kílómetrar frá Ártúnsbrekku eða eins og að skreppa tvisvar sinnum frá Seltjarnarnesi og inn í miðbæ Hafnarfjarðar (já og til baka líka)! Jæja, nóg komið í bili enda væntanlega enginn að lesa lengur.
Hafið það nú ofsalega gott um jólin og áramótin og vonandi sjáumst við fljótlega.
Bestu kveðjur frá Hvanneyri,
Snorri, Kolla, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti og Brúsi II
10.12.2007 | 15:19
Jólahornið 2003
Jólahornið 2003
2. árg., 1. tbl.
Sæl öll, takk fyrir síðast og gleðileg jól
Úff, ja hérna hvað tíminn líður hratt! Nú eru komin jól aftur og við varla búin að ná af okkur spikinu frá síðustu jólum! Þrátt fyrir þennan tímafaktor hefur gríðarlega margt gerst á árinu og rétt að grípa á nokkrum stöðum niður í dagbók fjölskyldunnar að Ásvegi 3...
Jólakveðjurnar skemmtilegu
Jólin gengu sinn vanagang og eins og alltaf voru jólakortin lesin upp eftir kvöldkaffið og skiptumst við á að lesa þau. Alltaf jafn gaman að lesa fréttir af fólki. Nokkrir klassíkerar voru í hópnum, eins og t.d. kær kveðja, xxxx og börn, eða þessi: Þökkum liðið. Frumlegheitin í fyrirrúmi, en ekki viljum við kvarta það er hugurinn sem skiptir máli og við erum alltaf svakalega ánægð með kortin sem við fáum (og það er dagsatt) og það mikilvægasta: OPNUM ÞAU EKKI FYRR EN Á AÐFANGADAGSKVÖLD (annað en sumir sem hafa vafalítið nú þegar þakkað okkur fyrir bréfið!!!).
Sprengiregnið
Fyrir áramótin stóð Snorri, ásamt nokkrum öðrum körlum (sem einnig eru með bömmer yfir því að vera ekki lengur strákar), að söfnun á meðal helstu fyrirtækja og stofnana á Hvanneyri. Safnað var fyrir flugeldasýningu á áramótabrennunni og tókst það mjög vel. Snorri og félagar skutu upp heilum haug af flugeldatertum. Áramótin hér eru allsérstök og í mjög föstum skorðum, eins og fram kom í síðasta jólabréfi okkar. Brennan er t.d. alltaf auglýst kl. 21, en byrjar þó alltaf korteri fyrr eða svo! Þetta er vegna þess að brennustjórinn er alltaf svo viss um að timbrið sé blautt og að það verði að hita það upp. Þetta er í raun frábær áramótahefð og við hin spilum með, með því að mæta alltaf á auglýstum tíma (allir voða hissa þegar brennan er löngu byrjuð). Á brennunni skiptast svo krakkarnir á að skjóta flugeldum hvert í annað (svo mikill munur eftir að þessi öryggisgleraugu komu til). Á sama tíma hellir fullorðna fólkið í sig og stígur á brennandi timbur og drasl þar sem það sér ekki neitt vegna móðu innan á öryggisgleraugunum. Allt voða heimilislegt. Um miðnættið, um áramótin síðustu, buðum við svo fólki í heimsókn til okkar og héðan var skotið upp þvílíku magni af flugeldum að undir tók í fjöllunum. Venju samkvæmt var Tinna Rós ekkert hrædd (döh), en þurfti bara að skreppa á klósettið rétt fyrir miðnættið og var þar langt fram á þetta ár. Skemmtileg tilviljun að sitja svona af sér mestu skoteldana á gluggalausu klósetti, inn í miðju húsi! Annars var sýningin svo góð að sumarbústaðagestur í uppsveitum Borgarfjarðar sá sig tilneyddan til að hringja inn í Rás 2 og láta vita af þessu fólki á Hvanneyri! Þið hefðuð átt að sjá andlitin á körlunum, þeir urðu eins og smástrákar með kínverja (ath. lítið k í kínverji). Hreint ljómuðu og stoltið skein úr hverju andliti. Toppnum náð: flugeldasýningunni var hrósað í beinni útsendingu...
Líkamsræktarátakið 2003
Snorri byrjaði árið með krafti á líkamsræktarátaki. Reyndar hófst átakið fyrir áramót, svona til að hann þyrfti ekki að viðurkenna að hann tæki þátt í þeirri vitleysu sem þorri þjóðarinnar gerir, þ.e. að tálga af sér kílóin í móral eftir hátíðarnar. Hann mætti tvisvar og gat ekki meira. Segist þó stunda líkamsrækt reglulega og ætli næst að mæta fyrir áramót og svo aftur einu sinni eftir áramót og svo koll af kolli næstu árin!
Og enn á spítalanum...
Janúar leið hratt og vel og áður en við vissum, var komin hin klassíska þriðja helgi í janúar, helgin þegar Snorri fer alltaf til Danmerkur með stóran hóp bænda með sér. Að þessu sinni voru 63 með í för og tókst ferðin vel. Stuttu eftir heimkomu var komið að árlegri sjúkrahúsvist Hafþórs Freys. Akkúrat ári eftir gjörgæsludvölina, vorum þeir feðgar aftur komnir um borð í sjúkrabíl á leið suður til Reykjavíkur. Að þessu sinni komin upp alvarleg lungnabólga sem þurfti meðhöndlunar við á barnaspítalanum. Skrítin stemming þarna á spítalanum, hjúkkurnar þekktu Hafþór aftur og buðu hann velkominn! Eins og maður hafi saknað þess að vera þarna? Þarna dvöldum við hjónin með hann í viku eða svo. Eftir þetta var lyfjagjöfinni breytt og hefur hann síðan þá farið þriðja hvern föstudag á Barnaspítala Hringsins í lyfjagjöf. Smá tíma tók að stilla lyfjagjöfina rétt, en nú hefur hann ekki veikst lengi og vonandi allt komið í rétt horf. Lyfjagjöfin er hinsvegar komin til að vera um ókomna tíð. Erfðagalli segja þeir, já þetta hlýtur að valda ykkur sjokki. Ekki vafi að þið hugsið nú: Erfðagalli?, nei það getur bara ekki verið Kolla og Snorri eru svo fullkomin!, er það ekki? Auðvitað eigum við ekki að vera að grínast með þetta, enda býr ávalt hjá okkur óttinn um að hann veikist alvarlega aftur. Hinsvegar er okkar viðhorf einfaldlega þannig að okkar glös eru hálffull, ekki hálftóm og þannig er það nú!
Nýja orðatiltækið
Fljótt var kominn miður mars og komið var að hinni hefðbundu jólaseríuniðurtöku. Venju samkvæmt hafði húsbóndinn trassað að taka niður seríuna, en einhverra hluta vegna harkaði hann þetta af sér eitt kyrlátt kvöld (við hafið... eins og Bubbi orðaði það). Stórvirkið tók um 5 mínútur! Ekki væri ofsagt hér að Kolla hafi notfært sér atburðinn alloft í þeim eina tilgangi að hæða og spotta. Nú er meira að segja svo komið að Kolla hefur fengið Orðabók Háskólans til að samþykkja: Noh, og hvað tók þetta nú langan tíma?, sem löggilt orðatilæki. Það þýðir, samkv. Orðabók Háskólans: Á við um ákveðið verk og/eða vinnu, sem einhver (les: eiginmaður) hefur trassað óhóflega en tekur svo örskamma stund þegar viðkomandi loks drattast til að byrja á viðkomandi verki. Eins og gefur að skilja tók Snorri þetta nokkuð nærri sér og hefur ákveðið að bæta sig. Hann hefur sett sér nýtt markmið varðandi jólaseríuniðurtöku: næst er stefnt að því að taka hana niður í mars (á sama tíma og síðast) en á styttri tíma!
...og áfram skröltir hann þó...
Komið var fram í apríl, þegar Bensi fór að hiksta. Drifið var að klikka og millikassi. Viðgerðin stefndi í óhuggulega tölu og var tekin sú óþægilega pólitíska ákvörðun að leggja bílnum á meðan beðið yrði eftir notuðum varahlutum utan úr heimi. Við tóku hræðilegar stundir hjá Snorra, við það að aka Pæju til Reykjavíkur og til baka nokkrum sinnum í viku, langt fram á sumar. Snorri var reyndar orðinn lunkinn við að komast suður, án þess að nokkur tæki eftir honum. Lagði iðulega fjarri landbúnaðarráðuneytinu eða öðrum fundarstöðum og var bara nokkuð sáttur við sig og sína. Svo kom auðvitað að því að upp um kauða komst. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins gerðist það fyrst: Pæju var lagt fjarri Laugardagshöllinni, upp á grasi, mitt á milli stórra bíla. Snorri valdi af kostgæfni stóra og fyrirferðamikla bíla, þannig að Pæjan myndi draga að sér sem minnsta athygli (sem er reyndar erfitt með bleik-fjólubláa Lödu). Það dugði þó hvergi til, því frændi hans kom auga á útgerðina og þar með var spilaborgin byrjuð að falla. Stuttu síðar, á samninganefndarfundi bænda og ríkisvaldsins, var Pæjunni lagt á bak við Rúgbrauðsgerðina. Innan um bíla þjónustufólks og ræstitækna. Þarna taldi Snorri sig öruggan, en hvað gerðist? Jú sjálfur ráðuneytisstjórinn var bíllaus og bað um far! Formaður samninganefndar ríkisins bað um far! Auðvitað skutlaði Snorri sjálfum ráðuneytisstjóranum upp í ráðuneyti, annað var ekki hægt. Hinsvegar hefur sá hinn sami ekki beðið aftur um far...
Þingmaðurinn
Enn hélt vandræðagangurinn áfram, kosningar voru í framundan og þar sem Snorri var í baráttusæti í Norð-Vestur kjördæmi (15. sæti!) þurfti að sækja nokkra fundi og halda framsögur. Þetta gekk allt í raun vel, Pæjan skilaði sínu, en vakti etv. óþægilega mikla athygli á svartklædda slánanum sem ók henni. Hvort sem það var bílnum að kenna eða einhverju öðru, rann varaþingmannssætið Snorra úr greipum þegar fyrstu tölur voru lesnar (að vísu hefði flokkurinn þurft að fá alla þingmennina, og svo helmingur þeirra að missa heilsuna til að möguleikinn hefði komið upp, en samt...).
Litla hafmeyjan
Hreppslaug rak á fjörur okkar í byrjun maí. Undanfarin 73 ár hafði hún verið rekin af Ungmennafélaginu Íslendingi hér á svæðinu, en eftir ágætt samstarf undanfarin ár við fyrirtæki okkar Kertaljósið, var okkur falið að reka laugina sl. sumar. Við tókum verulega til hendinni og rákum laugina af myndarskap (að okkar mati) fram á haust. Snorri sat flestar vaktir í lauginni, en hún var einungis opin eftir hefðbundna skrifstofuvinnu Snorra. Margt skemmtilegt gerðist í sumar, en þó standa uppúr nokkur skipti. Hér verður þó einungis greint frá því þegar unga parið varð full ástfangið, svo ástfangið að grípa þurfti inn í atburðarásina já, nei það er ekki hægt að setja svona í huggulegt jólabréf. Spyrjið bara um söguna næst þegar við hittumst! Tinna Rós fór mjög oft með pabba sínum í sund og varð raunar alsynd á nokkrum vikum. Þegar hausta tók var hún orðin kaffibrún eftir allt sundið og klárlega komin með sundfit eins og lítil hafmeyja.
Einn, tveir og rembast
Að vanda héldum við í víking norður yfir heiðar um miðjan maí og venju samkvæmt var stefnan sett á Hriflu í Þingeyjarsveit. Aumingja fólkið. Við höfum komið okkur upp þessum ágæta vorsið og þau sitja uppi með hann! Við mætum þarna yfirleitt nokkru fyrir helgi og höngum þarna eins og vistmenn á Kleppi fram á sunnudag og/eða jafnvel lengur! Að þessu sinni dvöldum við í 3 nætur og vorum auðvitað svo skrambi heppin að Hafþór tók pest og þurfti á barnaspítalann á Akureyri. Mikið fjör og mikið gaman og að vanda var þetta Júróvísjón-helgi. Allir fyldust með af áhuga, sér í lagi Snorri og Vaggi þegar rússnesku söngkonurnar komu fram. Þeim, og flestum öðrum til sárra vonbrigða, gerðu þær ekkert á sviðinu annað en að syngja. Annars gekk sauðburðurinn vel fyrir sig og allir voru sáttir við ferðina og reyndar höldum við að Hriflungar hafi nú lúmskt gaman af þessu brjálaða liði frá Hvanneyri!
Kárahnjúkasamningar hvað?
Svo kom sumarið loksins, loksins af því að þá átti að byrja að vinna í garðinum. Undirritaður var stærsti verktakasamningur, sem gerður hefur verið á milli okkar og Jörva hf. á þessari öld, og svo var hafist handa með gröfur og vörubíla í garðinum okkar. Nokkra daga í röð möluðu tækin hér utan við húsið og formuðu til mold og grús í heppilegar fellingar og hæðir. Kolla stýrði verkinu af stakri snilld, stóð og benti í allar áttir og vörubílar, jarðýtur og gröfur hentust til og frá eftir hennar vilja. Eftir rúmlega 100 vörubílshlöss af mold, var garðurinn grófmótaður!!! Það væri hreinlega ósatt að halda því fram að þessi vinna hafi ekki vakið töluverða athygli og umtal. Ekki var umtalið minna í fjölskyldunni, en af öðrum toga. Þar hafði fólk mestar áhyggjur af því að verða boðið í mat til okkar, en eins og allir vita (eða eiga að vita) eiga vinnuföt alltaf að vera með í för... Slíkt boð myndi að sjálfsögðu kalla á aðstoð við að leggja þökur og vissulega lentu ýmsir í þeirri vinnu (er frekar auðvelt verk, bara muna að setja grænu hliðina upp). Allt gekk þetta nú ljómandi vel, kostnaðurinn alls ekki yfirþyrmandi og fjölskyldan þrælnýtt við þökulögnina, plöntun trjáa og plantna. Svo mikið gekk raunar á að einn staðarbúinn kallar garðinn okkar, skrúðgarðurinn sem kom um nóttina! Garðurinn er reyndar ekki fullbúinn (hvenær er garður fullbúinn?) en verður vonandi langt kominn næsta sumar. Þetta lítur í það minnsta vel út og veit á gott í framtíðinni.
Hinir alræmdu fundir
Eins og flestir vita heldur fjölskyldan á Ásvegi 3 reglulega fjölskyldufundi, þar sem tekin eru fyrir helstu málefni lands og þjóðar þau krufin og í kjölfarið lagt á ráðin um framtíðina. Þetta ár var hreint ekki frábrugðið fyrri árum hvað þetta snertir. Til dæmis var haldinn fundur sl. sumar þar sem Kolla lagði fyrir fundinn svohljóðandi tillögu: Hver vill fara til Reykjavíkur að kaupa DVD-spilara og fara í bíó?. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum. Einn aðili sat hjá af ótta við hefndaraðgerðir. Önnur tillaga var lögð fram síðar, aftur af Kollu: Hver vill fara til Flórída í Disney-world?. Tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum. Einn fundarmanna greiddi ekki atkvæði þar sem hann sá ekki atkvæðahnappinn fyrir tárfullum augum. Eftir þessa tvo tiltölulega dramatísku fundi hefur fjölskyldufaðirinn einhvernvegin ætíð náð að koma í veg fyrir frekari fjölskyldufundi af ótta við skelfilegar afleiðingar!
Af hundum
Á árinu tókst okkur að losna við annan hundinn. Depill var sendur norður á Akureyri til vistunar þar. Húsbóndanum (les: Snorra) þótti nefninlega nóg um þegar búið var að éta klæðninguna í forstofunni og utandyra, spariskóna, lopasokka og sitthvað fleira. Gutti var bara sáttur við þetta allt og er besta skinn. Hann lenti þó í alvarlegu atviki í haust utan við húsið. Gutti, sem alltaf er í keðju hér fyrir utan, átti sér einskins ills von þegar að kom tík á lóðaríi og hreinlega bakkaði undir kappann! Þetta flokkast á okkar bæ undir nauðgun og var því meðlagsgreiðslum þegar mótmælt. Til þess kom þó aldrei, þar sem tíkin þoldi ekki meðgönguna og gaf upp öndina (sem flaug yfir netið og small í vellinum og stigið vannst (?)).
The candlelight - Kollubúð
Á þessum bæ tosast hlutirnir enn áfram. Viðskiptin hafa breyst og mikið nú að gera í hádeginu, enda á annað hundrað nemendur í skólanum núna. Kertabransinn jafnast ekki á við hugbúnaðarbransann í dag, en er líklega í næstu tröppu fyrir ofan (?).
Helsta afrek Snorra á árinu: líkamsræktarátakið 2003.
Og allir saman nú: velkominn í fjölskylduna Brúsi
Á árinu var fjárfest í stórglæsilegum Súbarú, hér eftir nefndur Brúsi, árgerð 1991. Kostaði innan við 80% af verði eins drifskafts í Bensa og hefur ekki bilað enn... Nú á aðventunni lítur allt út fyrir að Bensi komist aftur á götuna fyrir áramót og samkeppni því fyrirsjáanleg á milli Bensa og Brúsa. Líkur benda þó til þess að báðir fái að fjúka og að fjárfest verði í nýjum vagni. Nafn, tegund og árgerð í næsta jólabréfi.
Nýjir vöðvar fundnir
Í águst sl. urðum við hjónin svo ljónheppin... að uppgötva hjá okkur alveg glænýja og hingað til ónotaða vöðva. En þannig vildi til að á fjölskyldumóti í móðurætt Snorra var boðið upp á siglingu á Skorradalsvatni á hraðbáti, sem og að vera dreginn í þurrbúningi á slöngu aftan í sama hraðbáti. Þeir sem mestir karlar eru í ættinni fóru allir í slöngureiðina. Ekki vildi þá Kolbrún láta sitt eftir liggja og ákvað að verða fyrsta og eina konan í ættinni sem þyrði þessu. Fyrsta verk var að koma sér í þurrbúninginn, en það gerist þannig að þegar í gallann er komið er gengið út í vatnið og þrýstir þá vatnsþrýstingurinn utan á gallanum öllu lofti úr honum. Uppúr kemur maður svo vakúmpakkaður, svo vel að allar fellingar og/eða misstórir líkamspartar blasa við áhorfendum... Við hjónin létum nú enga feimni slá okkur út af laginu (enda vel byggð í meira lagi) og eftir að Snorri var búinn að blotna í ísköldu Skorradalsvatni var komið að fyrsta fulltrúa kvenþjóðarinnar í þessari slöngureið. Andri frændi Snorra stýrði bátnum af mikilli kostgæfni og sendi Kolbrúnu, liggjandi á slögnu aftan í bátnum, í ýmiskonar sendiferðir á stjórn- og bakborða. Allt kom fyrir ekki, ekki flaug hún af slöngunni eins og til var ætlast. Ekki var þá annað hægt en að henda henni í vatnið með handafli, sem gekk alveg prýðilega!!! Eftir þessa skemmtisiglingu sagði Andri frændi: Þið munið nú finna fyrir þessu á morgun... og við vorum eins og eitt spurningarmerki. Hvað átti hann við? Næsta dag fengum við svarið, þvílíkar harðsperrur í vöðum sem hingað til hafa ekki þurft að hreyfa sig að gagni (frekar en aðrir vöðvar hjá okkur). Við vorum svo viss um að hér væri á ferðinni ný uppgötvun líffærafræðinnar að við nefndum þessa vöðva þegar einu samheiti upp á latínu: Slöngus Múskulus Skorradalus.
...og þá stóð svínið upp og labbaði heim á leið
Á árinu hefur húsbóndinn (les: Snorri) farið nokkrum sinnum í skreppitúra út fyrir landsins steina í tengslum við vinnuna, venju samkvæmt til Danmerkur svona nokkrum sinnum og líka til Noregs. Svo var það auðvitað stóra ferðin til Bandaríkjanna. Eins og áður hefur verið sagt var kosið um fjölskylduferð til Bandaríkjanna til að heimsækja Stebba frænda (bróðir Kollu) og Carole konuna hans. Formaður Skólanefndar Borgarfjarðarsveitar misnotaði ekki vald sitt en fékk engu að síður frí fyrir börnin úr skóla í október og hélt familían í víking vestur um haf í lok september. Gist var hjá Stebba í nágrenni við Bush í nokkra daga og svo ekið sem leið lá niður til Flórída. Sú ferð sóttist vel þrátt fyrir mikinn og langan akstur. Við gistum svo í eina nótt hjá foreldrum Carole í Flórída og svo var dormað við sundlaugarbakka í eina kvöldstund eða svo í Orlandó. Eftir það tók við stíf dagskrá, þar sem hver dagur hófst og endaði á spurningum barnanna sem voru í þessum anda: Hvað eigum við að gera á morgun?, Bara slappa af?, Eigum við ekki að gera eitthvað? osfrv. Þetta varð sem sagt fullkominn stresstími, þar sem foreldrarnir voru á fullu allan tímann við að finna verkefni fyrir hvern dag. Boðið var m.a. upp á Disneyferð í fjörtíu stiga hita á laugardegi (ábending til lesenda: tvenn mistök strax í þessari setningu s.s. maður fer ekki á laugardögum að vetri til í Disney í bullandi hita allir, já endurtökum ALLIR bandaríkjamenn fara með börnin sín á laugardögum í Disney og útbúa sig með nesti og mikið af kælivökvum!). Reyndar var mjög gaman en ef einhver vill læra af okkar reynslu þá leggjum við til að nesti og svaladrykkir séu keyptir ÁÐUR en komið er inn á staðinn. Dæmi: hádegisverðarbrauð og gos fyrir fimm í Disney: kr. 8.000,-!!! Svo var auðvitað farið á ströndina og rifjuð upp gömul kynni við Alden mótelið í St. Petersburg. Þegar vika var eftir af þessu þriggja vikna ferðalagi okkar keyrðum við til baka og tókum þá snilldar ákvörðun að aka ekki hraðbrautir heldur sveitavegi norður austurströnd Bandaríkjanna. Fyrir vikið kynntumst við algerlega nýrri hlið landsins. M.a. ókum við í suðurríkjunum um hvern þéttbýliskjarnann af öðrum þar sem hvergi var að sjá hvítt fólk, heldur mikið af þeldökkum konum í ruggustólum úti á verönd við prjónaskap! Þá sáum við fjöldann allan af íbúðahverfum, þar sem fátækt og sóðaskapur var með eindæmum. Við getum staðfest sögur um gríðarlega misskiptingu auðs í þessu fyrirheitna landi. Annars lentum við í nokkrum uppákomum á leiðinni uppeftir sem rétt er að greina aðeins nánar frá:
The aligator man
Í norðurhluta Flórída sá Kolla allt í einu uppstoppuð dýr við einn sveitaveg og fyrirskipað strax að bifreiðin yrði stöðvuð. Eins og alltaf, var henni gegnt og eftir nokkrar Y-beygjur (ath. ekki innsláttarvilla, við erum að tala um ufselon beygjur ekki spyrja hvernig þær eru framkvæmdar enda hljóta slíkar beygjur að vera kolólöglegar) vorum við komin að hrörlegu húsi þar sem greinilega var verið að selja uppstoppuð dýr. Á meðan Snorri gekk tryggilega frá bílnum, hvarf fjölskyldan inn í húsið og þegar hann gekk að húsinu voru dyrnar læstar. Á hurðinni stóð þó: Please use next door og gekk kappinn þá rakleitt að næstu hurð, slengdi henni upp og gekk inn. Áður en hann náði að stilla fókusinn á myndbandsupptökuvélinni, áttaði hann sig á því að hann hafði gengið rakleitt inn í íbúðarhús og inn á mitt gólf. Við blasti stór riffill á vegg í mjög sóðalegri íbúð og heldur óálitlegur maður strunsaði út úr eldhúsinu á móti þessum óboðna gesti. Í einni svipan breyttist Snorri úr ferðavönum jaxli í svitakófslegna kótilettu og bakkaði all snarlega út úr húsinu og í humát á eftir fylgdi þessi drungalegi karlmaður. Eftir undarlegustu útskýringar hins ferðavana á þessu fáránlega athæfi, kom í ljós að íbúinn var hinn elskulegasti. Þetta var vissulega maður dökkur yfirlitum, skarpbrýndur og mjósleginn en undir niðri útúrreyktur hippi sem var enn að leita að sjálfum sér frá Viðarstokkshátíðinni hérna um árið. Hann vann fyrir sér við það að veiða og stoppa upp krókódíla og tók þessum Íslendingum vel. Eftir að hafa verið leidd um alla verslunina og m.a. bakgarðinn, þar sem risastór uppstoppaður albínóa-krókódíll var til staðar, hélt familían af stað frá Krókódílamanninum, með uppstoppaða krókódílahausa, pennastatíf úr krókódílafótum og hálsmen úr krókódílaklóm. Ekki það að hópurinn hafi verið leystur út með gjöfum, en ekki laust við að húsbóndinn hafi haldið laust um budduna að þessu sinni, eftir innrás hans inn í helli Krókódílamannsins.
Biblíubeltið
Í suður Georgíu renndum við í gegnum þorp nokkuð utan við þjóðveginn. Buickinn var að verða bensínlítill og svipast var um eftir áfyllingarstað. All merkilegt þótti okkur að við fundum ótrúlegan fjölda af kirkjum, en fáar bensínstöðvar. Fyrir rest fundum við eina og fylltum á sleðann. Þegar inn var komið var tekið til við að versla smáræði fyrir fjölskylduna og skiptumst við á skoðunum á okkar ástkæra móðurmáli. Ekki er ofsögum sagt að ferðalangarnir hafi dregið að sér athygli fyrir vikið. Þegar við höfðum greitt fyrir vörurnar spurði gamall maður sem sat í afgreiðslustólnum: Afsakið, en hvaðan eruð þið?. Við svöruðum honum og þá sagði hann þessa frábæru setningu: From Iceland? We had German turists here once!. Eðlilega lyftust augabrúnir við þessa fullyrðingu og eftir nokkrar samræður kom í ljós að þarna fara einfaldlega engir um nema heimamenn. Þýsku ferðalangarnir sem tóku þarna bensín voru þarna víst rétt fyrir aldamótin og svo komum við!
Stóra leyndarmál Bandaríkjamanna
Þegar við vorum komin upp undir fylkismörk suður og norður Georgíu var komið undir kvöld og farið að huga að gististöðum. Við renndum út á hraðbraut, því þar var víða auglýst gisting við hraðbrautina. Þar sem veskið léttist hjá Krókódílamanninum var ákveðið að vera ekki að spreða miklu í gistingu. Fundum ódýrt hótel, reyndar furðulega ódýrt miðað við önnur (AHA! Munið þessa vísbendingu um stóra leyndarmálið). Eftir að hafa séð að herbergið var í fínu lagi og hentaði fyrir okkur þessa einu nótt, var gengið frá gistimálunum og eftir drjúgan málsverð og lærdóm drengjanna (sem var stundaður allan tímann) var lagst til hvílu. Sennilega 5-7 mínútum seinna kom í ljós afhverju þetta var svona ódýrt hótel. Rétt eins og hendi væri veifað fylltist herbergið af þungu en þó skerandi hljóði. Jú einmitt, hótelið var við hlið lestarteinanna og við lentum mitt í flutningavertíðinni þessa vikuna! Meira eða minna alla nóttina brunuðu lestir framhjá og héldu vöku fyrir foreldrunum, en börnin sváfu vært. Rauðeygð og þreytt eftir erfiða nótt á vegahóteli (já einmitt, maður hefði viljað að ástæðan væri önnur en framangreind...) skrikuðum við út úr herberginu að morgni og héldum áfram af stað til Washington. Þangað var svo komið að kvöldi og eftir góða daga hjá Stebba og Carole, var haldið heim á leið á ný. Frábær ferð á enda og kostaði svipað og loftaklæðningin á stofuna. Við sjáum ekki eftir því, enda eru börnin svo fljót að stækka að maður þarf að vera duglegur að njóta tímans með börnunum. Loftaklæðningin kemur síðar og við höfum þegar ákveðið að ef valið stendur á milli þess að skapa góðar minningar eða byggingarefni, þá veljum við góðar minningar.
Engan tannálf takk!
Tinna missir nú tennur sem aldrei fyrr (þó það nú væri) en lætur þær alls ekki undir koddann sinn af ótta við þenna helv. tannálf sem ku víst koma á nóttunni og treður sér undir koddann í leit að þessum brottfallna líkamsparti. Já nei, ekki á þessum bæ. Tennurnar fara bara beint í ruslið, og hún segir að hann geti bara sótt þær þangað og látið hana í friði!
Helstu afrek Kollu á árinu: að verða bensínlaus oftar en nokkur annar á Hvanneyri á árinu (Pæjan er m.a. bensínlaus akkúrat núna þegar þetta er skrifað!!!).
Af byggingaframkvæmdum
Á árinu hefur eitthvað potast með húsið. Mesta þrekvirkið var auðvitað garðurinn, en jafnframt erum við nú klár með gesta-/sjónvarpsherbergið á þriðju hæð. Nú fyrir jólin settum við svo klæðningu upp í loftið í stofunni (heftuðum léreft upp í loftið sjá skýringu framar í bréfinu), teppi á gólfið, gluggakistur og rafmagn. Þetta fer því hægt og bítandi að líkjast íbúðarhúsi, en er auðvitað enn óttalegur kofi. Ýmis smáverk hafa jafnframt verið unnin á árinu, en framundan er að klára strákaherbergin og klósettið uppi í risi.
Kolla og anorexían
Annars kom fyrir okkur nokkuð alvarlegur hlutur í Ameríku, þegar Kolla áttaði sig á því að hún væri með anorexíu! Við munum það eins og gerst hefði í október! Við gengum inn í Wall Mart í Flórída og við okkur blasti gríðarlegur fjöldi af verulega stórum amerískum konum og körlum (og þá meinum við ekki háum). Eftir því sem innar í búðina dró, sáum við fleiri og fleiri í yfirstærð, svo marga að allt í einu datt upp úr Kollu þessi fleygu orð: Snorri, ég held að ég sé með anorexíu!. Ástæðan var sú að slíkir sjúklingar sjá sjálfa sig víst alltaf í röngu ljósi og telja sig vera of feita. Kolla hafði vissulega gengið í gegnum slíkt tímabil, en sá nú sína sæng út breidda: Hún var hreint ekki bústin, hún var í raun grönn!
Pæjudagar
Í september var Pæjan tekin í gegn, húddið endurformað og uppbyggt með plastefnum (uppskrift: u.þ.b. 3 kg spartl á hvern fermeter í Lödu), það málað og felgur fegraðar. Snorri fór svo á Pæju til Reykjavíkur þar sem hún rann í gegnum skoðun. Skoðunarmaðurinn starði fyrst svolitla stund á hana, prófaði svo bremsurnar og hristi hana til (og allir með: do the hokey pokey...) og sagði svo: Þú verður ekkert að keyra bílinn hér í Reykjavík, er það nokkuð ha?. Snorri hvað Pæju varla fara út fyrir ristahlið á Hvanneyri (sem var ekki alveg satt!) og þá fékk hún að launum fulla skoðun, þrátt fyrir að vera bremsulaus á einu hjóli ofl. Þetta eru sjaldséðir gripir, sagði skoðunarmaðurinn með tár á kvarmi, um leið og Snorri renndi sér á Pæju frá skoðunarstöðinni.
Hitt orðatiltækið...
Fyrsta alvöru vetrardag hér á Hvanneyri, 1. nóvember sl., fæddist Kollu svo nýtt orðatiltæki sem hún er nú að vinna í að fá Orðabók Háskólans til að viðurkenna sem samnefni við fyrra samþykkta orðatiltækið. Þetta orðatiltæki er þannig: Ertu ekki eftir þig eftir þetta erfiði? og fæddist um þann atburð er Snorri ákvað að drífa upp húsnúmerið utan á húsið, húsnúmerið sem hafði legið uppi á hillu vel á annað ár. Áætlaður tími við verklega framkvæmd þessarar vinnu eru 3 mínútur. Kannast einhver við þetta orðatiltæki eða sambærilegt um svipaðan atburð?. Í ljósi reynslunnar ákvað Snorri því nú fyrir jólin að setja upp alveg helling af seríum og öðru jóladóti. Með því móti telur hann nefninlega að auðveldara verði að réttlæta svefn og leti í janúar og febrúar þar sem magnið af seríum verður svo svakalega mikið (og haldið þið að hann hafi rétt fyrir sér? Má ég sjá? Nei, engin hönd á lofti).
Borgarfjarðarædol
Um miðjan nóvember var hér í sveit hvatt til viðburðar í félagsheimilinu Brún. Um var að ræða innansveitarkeppni í sönglist og keppt um titilinn Borgarfjarðarædolið 2003. Frekar fáir sýndu keppninni áhuga og var þá brugðið á það ráð að hringja út. Okkar númer varð fyrir valinu og var Snorri fyrri til að svara. Svo fór að hann samþykkti að taka þátt í keppninni en sökum anna var hans þátttaka samþykkt með þeim fyrirvörum að hann myndi ekki taka þátt í undirbúningi keppninnar. Jafnframt var honum lofað að hann yrði felldur út strax í fyrstu lotu, enda átti hann jafnframt að sjá um sjoppuna í hléi. Þegar líða fór að keppnisdegi, þurfti að velja lag og varð lagið Kúkur í lauginni eftir dúóið Súkkat fyrir valinu. Það þótti við hæfi eftir að hafa rekið Hreppslaug í sumar. Lagið taldi Snorri sérstaklega til þess fallið að fella hann með bravör úr keppninni. Dómarar voru hinsvegar á öðru máli og lenti því kappinn í því að þurfa að syngja með hljómsveit, alveg óundirbúinn, einn Prestley-slagara!!! Það skilaði honum svo í úrslit, honum og öllum öðrum að óvörum. Fer ekki frekari sögum af þessu kvöldi, en nafnbótina fékk hann ekki...
Jeg har min hest, jeg har min lasso
Í haust gerðum við þriggja ára leigusamning við hana Sicci sem býr í íbúðinni okkar á fyrstu hæð, sem er sænsk stúlka og nemandi í Lanbúnaðarháskólanum. Þetta er ljómandi fín og þolinmóð stelpa sem við erum mjög ánægð með.
...og Austfjarðarædol
Annars lenti Kolla í því ástandi, þegar hún ásamt stallsystrum sínum voru að keppa í blaki á Öldunargarmótinu á Neskaupsstað (já hver hefði trúað því að Kolla væri komin í öldunardeild?), að hjá henni kom upp löngun til að syngja í karókí !!! Rétt er að geta þess að þessi löngun kom upp stuttu eftir að Kolla og fleiri höfðu skellt niður nokkrum slammerum og sungið í beinni á Bylgjunni, Hvanneyringum og öðrum Íslendingum til mikils ama. Fer svo sem ekki frekari sögum af frægð og frama Kollu við míkrafóninn, en eitt er víst að Austfirðingar þekkja hana ekki eins og þið öll, sem hógværa og dannaða sveitastelpu ónei...
Í Vesturbænum er allt morand af dúfum og hænum
Annars er allt ljómandi gott að frétta af börnunum. Arnar Hrafn stundar íþróttir af krafti og er bæði í frjálsum og körfu. Þá er hann orðinn liðtækur dansari og eru æfingar vikulega. Svo er það auðvitað píanóið og þykir etv. mörgum nóg um ! Hann er nú í Kleppjárnsreykjaskóla og gengur vel. Hafþór Freyr er kappi mikill og er í Andakílsskóla. Hann hefur ekki komist upp á lagið með að stunda íþróttirnar enn. Píanóið spilar hann á reglulega en á annars nóg með að sinna sínum áhugamálum sem er m.a. óhuggulegur áhugi á fuglum! Hann hefur þegar komið sér upp fuglabókum, kíki, plakötum, uppstoppuðum fuglum og þekkir svo blessaða fuglana að sjálfsögðu, oftar en ekki betur en pabbinn (sem verður oft ekkert kátur með það!). Latnesku nöfnin steinliggja líka um marga fugla, en þar eiga fyrst og fremst sök afi og amma á Markarflöt. Tinna Rós er enn í leikskólanum Andabæ og er sama fiðrildið eins og alltaf. Er barasta nokkuð stillt, en stýrir bræðrum sínum með harðri hendi að vanda. Sl. vetur tóku strákarnir þátt í uppfærslu á Kardimommubænum og lék Arnar Hrafn Bastían bæjarfógeta og Hafþór Freyr var ljónið. Báðir sýndu gríðarleg tilþrif við leik og söng og hefur þegar verið gefið út myndband með þessum söngleik þeirra bræðra og fleiri skólafélaga.
Og svo er það klósjurinn á bréfinu
Jæja, ætli við látum nú ekki þessum pistli lokið. Við höfum rennt yfir ýmis atvik og atburði liðins árs, en af nógu er að taka og margar sögur eftir enn. Nú er bara að drattast í heimsókn alla leið hingað og heyra rest! Eins og þið sjáið fylgir ekki með hefðbundin mynd, en þetta verður bara að duga ykkur þar til þið komið í heimsókn.
Hafið það nú ofsalega gott um jólin og áramótin og vonandi sjáumst við fljótlega.
Bestu jólakveðjur frá Hvanneyri,
Kolla, Snorri, Arnar Hrafn, Hafþór Freyr, Tinna Rós, Gutti, Pæja, Bensi og Brúsi.